Aukið frelsi fjölmiðla í Kína

Fjölmiðlar í Kína hafa nú í fyrsta skipti haft fyrirmæli áróðursskrifstofu kínverska kommúnistaflokksins að engu og flutt fréttir af jarðskjálftanum og hjálparstarfseminni sem þar fer fram í beinni útsendingu. Aldrei áður hefur fréttaflutningurinn verið jafn opinn og nú. Tala látinna og slasaðra er uppfærð reglulega á vefsíðum fjölmiðlana og myndir frá ljósmyndurum blaðanna og almenningi eru sýndar aftur og aftur. Þessi atburðarrás minnir mig á þegar fyrra Írak stríðið braust út og CNN sendi stríðið heim í stofur almennings um allan heim. Sá fréttaflutningur breytti sýn heimsins á stríð og hverning þau eru háð. Að sama skapi er breytingin á fréttaflutningi hér í Kína fyrirboði stærri breytinga. Viðbrögð almennings er annar en áður var og það er erfitt fyrir stjórnvöld að snúa af þessari braut. Landið mun opnast smátt og smátt. Sú þróun er nú þegar hafin í austurhluta landins í borgum eins og Shanghai og Beijing. Hún mun síðar færast yfir stjálbýlari héruð í vestur hluta landsins.

Kínverskir fjölmiðlar eru samt undir smásjá stjórnvalda en breytingin núna er sú að stjórnmálamenn sjá sér hag í því að hafa fréttaflutninginn opinn, frjálsan og óáreittann. Þó svo að þessi stefna henti þeim núna og komi kannski til vegna þess að þeir vilji að landið líti vel út í aðdraganda Ólympíuleikanna og einnig til að færa umræðuna frá átakasvæðum annars staðar í Kína, þá kemur hún almenningi hér í Kína til góða.

Það getur aftur á móti verið erfiðara en þeir halda að snúa frá þessari braut frjálsræðis og hægt að nefna til nokkrar ástæður fyrir því. Samskiptamáti hefur gjörbreyst á stuttum tíma. Internetnotkun hefur aukist gríðarlega og í dag eru fleiri en 7 milljónir internetáskrifenda í Kína og notendur mun fleiri. Farsímanotkun hefur að sama skapi orðið almenn og er nú svo komið að í Kína eru fleiri en 461 milljón farsímanotenda. Þessi mikla farsíma- og internetnotkun gerir stjórnvöldum mjög erfitt fyrir að loka á fréttaflutning.

Þá hefur innganga Kína í WTO þrýst á landið til að opna efnahagskerfið fyrir erlendum fjárfestingum þannig að fjöldi erlendra fyrirtækja og starfsmanna eru í Kína. Með opnara hagkerfi og miklum hagvexti sem einkennt hefur landið á undanförnum árum hefur hagur almennings aukist verulega og nú er svo komið að 19% þjóðarinnar getur talist til millistéttar. Tala sem búist er við að hækki í 40% fyrir árið 2020. Þegar stærri hópur fólks nýtur aukinna lífsgæða þá mun það vinna að því að halda þeim gæðum og erfiðara verður fyrir stjórnvöld að taka þau til baka.

Um leið og landið hefur opnast fyrir erlendum fjárfestingum þá hefur það einnig opnast fyrir ferðamennsku. Árið 2006 heimsóttu 1,4 milljónir ferðamanna Sichuan hérað þar sem jarðskjálftinn reið yfir fyrir viku síðan. Að sama skapi þá hefur hinn almenni Kínverji nú ferðafrelsi og getur keypt gjaldeyri fyrir sem nemur um 500.000 kr. á ári. Áður fyrr var voru mun meiri hömlur á gjaldeyriskaup almennings sem gerði honum erfitt fyrir vildi hann ferðast. Þannig hefur aukið flæði fólks, bæði ferðamanna og kínverja, aukið fréttir af fjarlægari héruðum landsins og sett yfirvöldum skorður og aðhald.

Komandi Ólympíuleikar hvetja kínversk stjórnvöld til þess að opna landið enn frekar og lyfta hönd sinni af fréttastofum, fyrirtækjum og almenningi. Ótrúleg uppbygging mannvirkja og þjónustu hefur fært tugþúsundum manna aukna atvinnu og verslun. Ný störf eru óteljandi sem margir njóta, allt frá venjulegu heimilisfólki sem leigir út herbergi eða ávaxtasalans sem selur meira til ferðamanna en áður til herra Lee sem ræður fjölda manns til að framleiða sérmerkta minjagripi. Síðan má ekki gleyma að fjöldi fréttamanna, íþróttamanna og gesta mun heimsækja Kína á meðan Ólympíuleikarnir verða haldnir. Allir þessir þættir hvetja stjórnvöld til að auka mannréttindi og frelsi.

Hingað til hefur viðkvæði hins almenna Kínverja verið að ríkið eigi og muni sjá um sína. Ef eitthvað bjáti á, þá er það ríkið sem hleypur undir bagga, hjálpar á neyðarstundu. Í Peking var kínverskur hótelstarfsmaður að lýsa hörmungunum á jarðskjálftasvæðinu fyrir gestum og lauk hverri setningu með því að benda á að nú væru stjórnvöld komin á svæðið. Forsætisráðherrann, Wen, væri á svæðinu að stjórna aðgerðum og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Þessi lýsing er dæmigerð fyrir hvernig hugsanagangur fólks hefur verið hingað til.

Næstum fráls fréttaflutningur og aukin velmegun hefur aftur á móti leitt til þess að almenningur vill sjálfur taka þátt í að hjálpa fórnarlömbum skjálftans. Það er bein afleiðing birtinga fréttamynda frá jarðskjálftasvæðinu að almenningur hefur opnað budduna sína og safnað milljörðum. Almenningur treystir samt ekki endilega hinu opinbera fyrir þessu fé og því hafa biðraðir hjá þeim fáu alþjóðlegu hjálparstofnunum sem hér hafa leyfi til að starfa verið langar. Fólk vill líka gefa í eigin nafni og því er það tilbúið að standa í röð tímanum saman til þess að skrá nafn sitt í söfnunarbækur og reiða fé af hendi, stundum smáar en einnig háar fjárhæðir.

Í ljósi þessa alls hefur myndast tækifæri fyrir kínverskar fréttastofur til að koma sér upp kerfi sem gerir þeim kleift að flytja óháðar fréttir af atburðum um leið og þeir gerst.


mbl.is Bjargað úr rústum eftir 195 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband