Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kjósendur skildir eftir

Aldrei áður hefur það gerst að stjórnmálahreyfing hefur fjarlægst stefnu sína jafnfljótt og Borgarahreyfingin hefur gert. Stjórnmálahreyfingar hafa hingað til ekki breytt eða bætt við stefnu sína fyrr en í aðdraganda kosninga. Þannig hafa kjósendur getað gengið að því vísu að flokkurinn sem það kaus stefni að þeim málefnum sem er þeim kærast jafnvel og þrátt fyrir að einstaka stjórnmálamenn hafi aðra skoðun eða sannfæringu í einstökum málum.

Nú hafa ný lög fyrir Borgarahreyfinguna verið samþykkt og í þeim eru ákvæði sem jafngilda því að hreyfingunni hafi verið stolið af kjósendum. Atriði sem bæta við upphaflega stefnuskrá og breyta tilgangi hennar á svo róttækan hátt að ekki er lengur hægt að tala um sömu hreyfingu og kjósendur sýndu stuðning við í vor.

Það er því ekki að undra að almennir félagsmenn og stuðningsmenn Borgarahreyfingarinnar staldri við og hugsi; hver er að vinna að mínum stefnumálum?


Myndu 100 milljónir breyta afstöðu þinni?

Gæti verið að þú værir til í að breyta afstöðu þinni ef í boði væru eitt hundrað milljónir króna?

Ég trúi því að margt fólk, ef ekki flest, væri til í að ganga ansi langt ef því væri boðið 100 milljónir. Jafnvel þó fjárhæðin væri lægri, jafn vel bara þrjátíu milljónir, svona ein lítil íbúð í blokk. Ég trúi því að fólk væri jafnvel til í að skipta um skoðun ef það fengi að ráða yfir 100 milljónum þó það fengi ekki peningana sjálft í eigin vasa. Ef þú stjórnar peningum þá hefur þú völd, þannig er það og hefur verið lengi.

Stjórnmálahreyfingar á Íslandi fá fé frá Alþingi í hlutfalli við það fylgi sem stjórnmálaaflið hlaut í þáliðnum alþingiskosningum. Þetta þýðir að á næsta fjárlagsári fær Borgarahreyfingin líklega 25 til 30 milljónir króna. Þetta fé á að gera hreyfingunni kleift að safna fé í kosningasjóð, reka félagsstarf og skrifstofu og borga laun. Þannig mun það líklega vera áfram út kjörtímabilið algjörlega óhað því hvort þingmenn komi eða fari úr hreyfingunni.

Á nýafstöðnum landsfundi Borgarahreyfingarinnar var kosin ný stjórn og mér er spurn hvort valdið yfir slíkum fjármunum hafi verið drifkrafturinn á bak við þær lagabreytingar sem samþykktar voru á fundinum. Mér þykir ljóst að hluti nýrra stjórnarmeðlima hafi lotið leikstjórn manna með sem hafa frá upphafi talið sig eiga meiri framgang skilið innan hreyfingarinnar sem utan. Í stað þess að fylkja sér á bak við þingmenn sem allir eru sammála um að hafi unnið hörðum höndum fyrir stefnumálum Borgarahreyfingarinnar þá hafa persónulegar skoðanir og hagsmunapot ráðið för og aðrir því miður fylgt með í niðurrifstafsemi og rýtingsstungum í bak þingmanna.

Fyrir fundinum lágu lagabreytingatillögur þar sem m.a. var kveðið á um að þriðjungur fjársins frá Alþingi ætti að renna í kosningasjóð og ef afgangur yrði þegar hreyfingin legði sig niður rynnu peningarnir til góðra mála. Í grein nr. 14.3. í nýsamþykktum lögum stendur "Öllu fé Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar. Þriðjungur af árlegum tekjum skal settur í kosningasjóð sé þess kostur." "Sé þess kostur..." er lykilbreyting hérna. Ekkert nema siðferði stjórnameðlima kemur nú í veg fyrir hvernig þessu fé verður ráðstafað.

Alla vega er ánægulegt að í lögunum, sem ekki er hægt að breyta fyrr en að ári liðnu þegar næsti landsfundur verður haldinn í september 2010, verður allt bókhald opið almenningi eins og sjá má í grein 14.2.


Vilt þú lán frá skattinum?

Þegar Sigurjón Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans fékk lán úr eigin lífeyrissjóði með aðstoð og stuðningi lögfræðings síns og ónafngreindra lögfræðinga Landsbankans var hann að fresta skattgreiðslum um 20 ár.
Úttektir úr séreignalífeyrissóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur enda var tekjustofn launþegans lækkaður við innlögn í sjóðinn. Raunverulegur skattstofn ræðst því ekki fyrr en greitt er út úr sjóðnum og því er það á ábyrgð stjórnar lífeyrissjóðsins að viðhalda og ávaxta vel þá fjármuni sem þar eru. Sé það ekki gert lækkar skattstofninn og um leið lífeyrir viðkomandi. Einkalífeyrissjóður Sigurjóns fjárfesti á afar lélegum kjörum í Sigurjóni sjálfum langt undir eðlilegum kjörum og ljóst að þó lánin verði endurgreidd að fullu mun sjóðurinn rýrna sem og skattstofninn.

Þegar settur er upp einkalífeyrissjóður og lán veitt úr honum til eina launþegans sem greiðir í hann er ljóst að einungis er verið að koma sér undan því að greiða skatt. Skatt sem aðrir þegnar landsins þurfa borga. Í tilfelli Sigurjóns ætti skattgreiðslan að nema um það bil 25 milljónum króna sem frestast þar til hann endurgreiðið lánið og tekur peningana aftur út í form útgreiðslu lífeyris.

Sigurjón hefur því einhliða tekið 25 milljón króna lán frá skattinum.
Ættum við kannski frekar að segja að Sigurjón hafi tekið lánið frá mér og þér?


Þar sem þrír framsóknarmenn koma saman. Þar er klofningur!

Þessi setning kom upp í hugann þar sem ég sat í makindum á efsta þilfari skipsins og las tveggja daga gömul dagblöð frá Íslandi. Svo virðist sem framsóknarmenn geti ekki gert upp hug sinn til Evrópusambandsins. Menn virðast skiptast í tvo flokka. Þá sem vilja vernda sérhagsmuni þröngs hóps framleiðenda landbúnaðarvara og þeirra sem gera sér grein fyrir því að stjórn landsins snýst um fleiri og stærri hagsmuni en þeirra eigin.

Því fyrr sem stjórnmálamenn átta sig á því að það er ekki þeirra hlutverk að ákveða hvort Íslendingar eigi að afsala sér nýfengnu sjálfstæði eða ekki. Það verður að gerast í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem upplýstur almenningur tekur þessa mikilvægu ákvörðun.

Einnig er nokkuð ljóst að allt tal um á hvaða kjörum Íslendingar geta gengið í Evrópusambandi er í besta falli getgátur. Slíkt getur einungis komið í ljós í alvöru samningaviðræðum um aðild.



Ég á afmæli í dag.

Ni hao (halló) 

Um leið og ég fór að tala um hversu gott veðrið væri og sumarið væri komið skall á með rigningu og roki.Ekki eins og það væri nóg heldur voru heljar miklar eldingar hérna með meðfylgjandi þrumum. Þessar voru nokkuð tilkomumiklar. Við Íslendingar erum nú ekkert sérlega vön eldingum þó slíkt fyrirbæri sjáist af og til á Klakanum og áttum okkur því kannski ekki á hættunni sem fylgir þeim. Daginn eftir las ég í blaðinu Shanghai Daily að elding hafi slegið niður í ung hjón í norður Shanghai. Konan lést en maðurinn fékk minniháttar brunasár. Einnig kveiknaði í gistiheimili þar sem um eitthundrað gestir voru og þurfti að bjarga sumum út með stigabíl. Eldurinn teygði sig síðan í nærliggjandi rými þannig að níu verslanir urðu einnig eldinum að bráð en engan sakaði.

 Í þessu sama blaði var forsíðufréttin um hina slæmu vesturlandabúa sem eru að ráðast á ólympíukyndilinn. Þessir aumingjans mótmælendur eru víst svo lítilsverðir að þeir ráðast á lamaða íþróttakonu sem ýtt var áfram í hjólastól af blindum íþróttamanni. Ekki mikið talað um hverju þessir vesturlandabúar voru að mótmæla heldur öllu púðri eytt í að segja frá hversu vel hlaupið með kyndilinn gengur. Það er soldið gaman að því að lesa ritskoðaðar fréttir og sjá hvernig litið er á hlutina með augum Kínverja.

Annars er ég á þeirri skoðun að ekkert land eigi að beita íþróttamönnum fyrir sér til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Þetta eiga að vera ópólitískir leikar og það á ekki að láta það bitna á fólki sem hefur eytt mörgum árum í æfingar til að komast á leikanna. Stjórnmálamenn sem gera slíkar kröfur ættu að líta í eigin barm og gefa sinn draum upp á bátinn. Flest ríki eiga í viðskiptum og stjórnmálalegu sambandi við Kína og ef það á að banna íþróttamönnum að keppa þá gætu stjórnmálamenn alveg eins sagt af sér til að mótmæla því að land þeirra eigi í viðskiptum og samskiptum við Kína. 

Einnig er ég á þeirri skoðun að það eigi svo sannarlega að halda leikana hérna því það kemur sér vel fyrir alla, jafnvel þó stjórnvöld hér séu í feluleik með aðgerðir sínar á einstökum svæðum. Eftir að hafa séð hvernig allt er á fullu, ekki bara í Beijing heldur einnig í Shanghai og víðar. Þá skilur maður hversu mikill óbein áhrif leikarnir hafa á líf margra. Kaupmaðurinn á horninu sér fram á gríðarlega aukningu og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að bæta við sig endalausu starfsfólki til að anna eftirspurninni. Þessi áhrif eru þegar komin fram og eiga eftir að vara löngu eftir að leikarnir eru búnir.

En nóg um pólitík og veður. Við skulum snúa okkur að mikilvægari málum.

Ég á afmæli í dag.

Fékk þessar fínu afmælisgjafir. Þær bera reyndar smá keim af smekk gefendanna en eru engu að síður skemmtilegar. Hans gaf mér fjarstýrða þyrlu og Elmar gaf mér reiðhjól. Alveg viss um að við getum notið þessar hluta saman. Já, og Magga gaf mér Ólympíubol (nei, hún gaf mér ekki iPhone) og Elínbjörg og Bjarni sendu okkur fullan kassa af íslensku nammi sem barst til okkar í gærkveldi. Ótrúlega vel tímasett hjá þeim. Enda starfar hún hjá póstinum.

Alla vega. Fyrir þá sem vilja syngja afmælissönginn fyrir mig á kínversku:

"Zhú ní Shangri kuai le" 

 Zaijian (bless)

 


Samkeppnishömlur Myndstefs

Myndstef (samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundaréttar) innheimtir höfundarréttargjald af þeim sem selja myndlist hvort sem er á uppboðum eða í beinni sölu. Vandamálið er að Myndstef fer ekki að lögum sem þó voru samin í samvinnu við samtökin.

Samtökunum ber að innheimta þetta gjald af öllum sem bjóða upp myndlistarverk hvort sem um er að ræða félagasamtök á borð við Lions eða Kiwanis eða einkaaðila. Þessari skyldu sinni gegna þeir ekki heldur innheimta gjaldið einungis af þeim sem þeir kjósa en sleppa öðrum við gjaldið. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að þeir aðilar sem gjaldið er innheimt af búa við skerta samkeppnisstöðu á myndlistarmarkaði.

Myndstef heyrir undir Menntamálaráðuneytið og því er þessi mismunun með öllu óásættanleg og hvet ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra til þess að setja reglurgerð sem allra fyrst sem tekur af allan vafa um hverjir eigi að greiða höfundarréttargjaldið.


mbl.is Ábendingar um samkeppnisbrot frá almenningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri vinstri snú

Hlynur Hallsson myndlistarmaður og varaþingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi skrifaði hér bloggið grein um að það væri þversögn að vera hægri grænn og það besta í stöðunni væri að kjósa Vinstri græn.

Það getur nú ekki verið að vinstri sinnað fólk eigi einkarétt á umhverfisvernd og það getur alls ekki verið að þeir sem eru til hægri eða bara á miðjunni geti ekki einnig verið umhugað um landið okkar.

Er það kannski þannig farið að ekki sé fylgi við stjórnmálaskoðanir Vinstri grænna heldur einungis umhverfisstefnu þeirra? Það gæti farið svo að bæði Vinstri grænir og hinn nýji vængur Framtíðarlandsins, Hægri grænir, muni eingungis deila fylginu til hagsbóta fyrir stjórnarflokkana. Kannski er það sem Hlynur á við þegar hann segir Vinstri græna vera besta kostinn í stöðunni.


Mikil áhrif hagsmunasamtaka

STEF hefur verið mjög duglegt við að verja hagsmuni höfundarréttarhafa tónlistar. Svo duglegir að löggjafinn hefur hlaupið til og samþykkt ýmis skrítin lög fyrir STEF. Skemmst er að minnast að allir borga STEFgjöld þegar þeir kaupa sér tóman geisladisk þó svo að diskurinn muni aldrei vera notaður undir tónlist eða verk í höfundarrétti. Þannig þarf þorri tölvunotenda að greiða fyrir notkun sem þeir nýta sér aldrei. Annað svipað dæmi var gjaldtaka á iPod spilarann sem leiddi til hæsta verðs þeirra tækja í Evrópu.

STEF eru samt ekki einu hagsmunasamtökin sem óeðlilega mikið mark er tekið á þegar löggjafinn semur ný lög. Samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundarréttar eða MYNDSTEF hafa einnig komist inn undir hjá löggjafarvaldinu. Á síðasta ári töku tvenn ný lög gildi á þeirra sviði samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu. Annars vegar um innheimtu höfundargjalda á myndlistaruppboðum og hins vegar um innheimtu slíkra gjalda á verkum sem eru seld manna á milli, t.d. í listmunahúsum.

Það er fernt sem MYNDSTEFi tókst að koma inn í þessi nýju lög (fyrir utan að þau eru að mestu skrifuð fyrir samtökin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi). Í fyrsta lagi er gjaldtakan sú hæsta í heimi. Ég gerði athugun á þessum lögum í helstu nágrannalöndum okkar og þá kom í ljós að gjöldin eru hvergi hærri en 5% en í flestum tilfellum 4% og fara svo stiglækkandi eftir sölufjárhæð listaverkanna. Í öðru lagi þá getur MYNDSTEF áætlað þessi gjöld á þá aðila sem hafa stundað listmunasölu og þessi áætlun er aðfararhæf. Slíkt vald hafa ekki einu sinni lífeyrissjóðir landsins gagnvart fyrirtækjum. Í þriðja lagi er ákvæði í lögum um uppboð að innheimta skuli gjaldið af öllum verkum, líka þeim sem eru fallin úr höfundarrétti. Slíkt stangast klárlega á við lög Evrópusambandsins og gerir það að verkum að höfundarréttur rennur aldrei út á Íslandi. Í fjórða lagi ber að skila skýrslum um innheimt höfundarréttargjöld til MYNDSTEF árituðum af endurskoðenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að leggja slíkar álögur á fyrirtæki og vil ég benda á að það þarf ekki einu sinni að skila virðisaukaskattsskýrslum með slíkri áritun. Nóg er að ársreikningar fyrirtækjanna séu áritaðir af endurskoðendum.

Margt fleira óeðlilegt er að finna í þessum nýju lögum og það væri ráð fyrir ráðuneytin sem vinna að lagasetningu að taka meira tillit til annarra aðila en háværra hagsmunasamtaka.

 


mbl.is Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smölun Frjálslynda flokksins

Nú þegar kosningar í stjórn Frjálslynda flokksins eru yfirstaðnar er ágætt að spyrja sig hvað hvort hæfustu menn flokksins hafi verið valdir til starfa. Ljóst er að hinn nýji vængur flokksins sem kemur úr röðum Nýs afls vann ötullega að því að smala fólki í flokkinn í þeim tilgangi að ná þar völdum og koma í veg fyrir að Margrét Sverrisdóttir yrði kosin varaformaður.

Stuðningsmenn hvorrar fylkingar fyrir sig hafa væntanlega verið ötular við úthringingar og hvatt fólk til þess að kjósa sitt fólk. Sý fylking sem býður bestu þjónustuna og er duglegast við smölun nær völdum. Svona er fer kapphlaupið að völdum fram, það byrjar í smölun til kosninga innan flokksins.

En er í lagi að beita hvaða aðferð sem er til þess að fá atkvæði. Nú fyrir skemmstu varð allt vitlaust á Akureyri þegar frambjóðandi bauð milljóna greiðslu í flokkssjóðinn gegn því að fá ákveðið sæti á listanum. Almenningi fannst viðkomandi fara yfir strikið en hann koma samt hreinn og beinn fram, var ekkert að fela hvað hann bauð.

Hins vegar veit ég að andstæðingar Margrétar Sverrisdóttur buðust til þess að greiða félagsgjöldin í Frjálslynda flokknum gegn því að fá atkvæði. Það var ekki opinbert eða haft uppi á borðinu þegar hinn almenni félagsmaður greiddi atkvæði sitt og það finnst mér ekki sanngjarnt.

Ég spái því að Frjálslyndi flokkurinn eigi eftir klofna á einhvern hátt í framhaldi þessarra niðurstaðna og Margrét eigi eftir að færa sig yfir í annan stjórnmálaflokk.


Óþörf gjaldtaka í Kópavogi

GerdasafnAðgangseyrir inn á opinber söfn eins og Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, er algjörlega óþörf í því samfélagi sem við búum í og leiðir til ójöfnuðar auk þess að ýta undir vanþekkingu.

Það kostar að vísu ekki nema kr. 400,- inn á safnið (Gerðasafn) en fyrir stórar fjölskyldur með litlar tekjur getur þetta skipt máli og leitt til þess að fjölskyldan velur frekar að gera eitthað annað en að efla andann og auka listræna víðsýni sína.

Tekjur af aðgangseyri er óverulegur þegar kemur að heildarrekstri safna og því ættu opinberir sjóðir að geta staðið undir þeim eða söfnin gert samninga við vel stæða einkaaðila eins og Listasafn Íslands hefur gert við Björgólfsfeðga í Samson.

Í Kópavogi er því svo háttað að ákveðin hlutfallstala útsvars rennur í sjóð til reksturs menningar í bænum. Ólíkt reglum í flestum bæjarfélögum þá færist uppsöfnuð eign þessa sjóðs á milli ára og síðustu ár hefur verið afgangur af honum. Það væri því tilvlalið að nýta rekstrarafgang sjóðsins til þess að niðurgreiða aðgangseyrir Gerðasafns. Þar að auki hafa íbúum Kópavogs fjölgað gríðarlega á síðustu árum og þar með rekstrartekjur þessa menningarsjóðs.

Nú hvet ég Gunnar Birgisson og félaga hans í Kópavogi að einhenda sér í málið og afnema þessa gjaldtöku en tryggja safninu um leið tekjur á móti.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband