Myndu 100 milljónir breyta afstöðu þinni?

Gæti verið að þú værir til í að breyta afstöðu þinni ef í boði væru eitt hundrað milljónir króna?

Ég trúi því að margt fólk, ef ekki flest, væri til í að ganga ansi langt ef því væri boðið 100 milljónir. Jafnvel þó fjárhæðin væri lægri, jafn vel bara þrjátíu milljónir, svona ein lítil íbúð í blokk. Ég trúi því að fólk væri jafnvel til í að skipta um skoðun ef það fengi að ráða yfir 100 milljónum þó það fengi ekki peningana sjálft í eigin vasa. Ef þú stjórnar peningum þá hefur þú völd, þannig er það og hefur verið lengi.

Stjórnmálahreyfingar á Íslandi fá fé frá Alþingi í hlutfalli við það fylgi sem stjórnmálaaflið hlaut í þáliðnum alþingiskosningum. Þetta þýðir að á næsta fjárlagsári fær Borgarahreyfingin líklega 25 til 30 milljónir króna. Þetta fé á að gera hreyfingunni kleift að safna fé í kosningasjóð, reka félagsstarf og skrifstofu og borga laun. Þannig mun það líklega vera áfram út kjörtímabilið algjörlega óhað því hvort þingmenn komi eða fari úr hreyfingunni.

Á nýafstöðnum landsfundi Borgarahreyfingarinnar var kosin ný stjórn og mér er spurn hvort valdið yfir slíkum fjármunum hafi verið drifkrafturinn á bak við þær lagabreytingar sem samþykktar voru á fundinum. Mér þykir ljóst að hluti nýrra stjórnarmeðlima hafi lotið leikstjórn manna með sem hafa frá upphafi talið sig eiga meiri framgang skilið innan hreyfingarinnar sem utan. Í stað þess að fylkja sér á bak við þingmenn sem allir eru sammála um að hafi unnið hörðum höndum fyrir stefnumálum Borgarahreyfingarinnar þá hafa persónulegar skoðanir og hagsmunapot ráðið för og aðrir því miður fylgt með í niðurrifstafsemi og rýtingsstungum í bak þingmanna.

Fyrir fundinum lágu lagabreytingatillögur þar sem m.a. var kveðið á um að þriðjungur fjársins frá Alþingi ætti að renna í kosningasjóð og ef afgangur yrði þegar hreyfingin legði sig niður rynnu peningarnir til góðra mála. Í grein nr. 14.3. í nýsamþykktum lögum stendur "Öllu fé Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar. Þriðjungur af árlegum tekjum skal settur í kosningasjóð sé þess kostur." "Sé þess kostur..." er lykilbreyting hérna. Ekkert nema siðferði stjórnameðlima kemur nú í veg fyrir hvernig þessu fé verður ráðstafað.

Alla vega er ánægulegt að í lögunum, sem ekki er hægt að breyta fyrr en að ári liðnu þegar næsti landsfundur verður haldinn í september 2010, verður allt bókhald opið almenningi eins og sjá má í grein 14.2.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

HEYR

Grétar Eir (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband