Kjósendur skildir eftir

Aldrei áður hefur það gerst að stjórnmálahreyfing hefur fjarlægst stefnu sína jafnfljótt og Borgarahreyfingin hefur gert. Stjórnmálahreyfingar hafa hingað til ekki breytt eða bætt við stefnu sína fyrr en í aðdraganda kosninga. Þannig hafa kjósendur getað gengið að því vísu að flokkurinn sem það kaus stefni að þeim málefnum sem er þeim kærast jafnvel og þrátt fyrir að einstaka stjórnmálamenn hafi aðra skoðun eða sannfæringu í einstökum málum.

Nú hafa ný lög fyrir Borgarahreyfinguna verið samþykkt og í þeim eru ákvæði sem jafngilda því að hreyfingunni hafi verið stolið af kjósendum. Atriði sem bæta við upphaflega stefnuskrá og breyta tilgangi hennar á svo róttækan hátt að ekki er lengur hægt að tala um sömu hreyfingu og kjósendur sýndu stuðning við í vor.

Það er því ekki að undra að almennir félagsmenn og stuðningsmenn Borgarahreyfingarinnar staldri við og hugsi; hver er að vinna að mínum stefnumálum?


Myndu 100 milljónir breyta afstöðu þinni?

Gæti verið að þú værir til í að breyta afstöðu þinni ef í boði væru eitt hundrað milljónir króna?

Ég trúi því að margt fólk, ef ekki flest, væri til í að ganga ansi langt ef því væri boðið 100 milljónir. Jafnvel þó fjárhæðin væri lægri, jafn vel bara þrjátíu milljónir, svona ein lítil íbúð í blokk. Ég trúi því að fólk væri jafnvel til í að skipta um skoðun ef það fengi að ráða yfir 100 milljónum þó það fengi ekki peningana sjálft í eigin vasa. Ef þú stjórnar peningum þá hefur þú völd, þannig er það og hefur verið lengi.

Stjórnmálahreyfingar á Íslandi fá fé frá Alþingi í hlutfalli við það fylgi sem stjórnmálaaflið hlaut í þáliðnum alþingiskosningum. Þetta þýðir að á næsta fjárlagsári fær Borgarahreyfingin líklega 25 til 30 milljónir króna. Þetta fé á að gera hreyfingunni kleift að safna fé í kosningasjóð, reka félagsstarf og skrifstofu og borga laun. Þannig mun það líklega vera áfram út kjörtímabilið algjörlega óhað því hvort þingmenn komi eða fari úr hreyfingunni.

Á nýafstöðnum landsfundi Borgarahreyfingarinnar var kosin ný stjórn og mér er spurn hvort valdið yfir slíkum fjármunum hafi verið drifkrafturinn á bak við þær lagabreytingar sem samþykktar voru á fundinum. Mér þykir ljóst að hluti nýrra stjórnarmeðlima hafi lotið leikstjórn manna með sem hafa frá upphafi talið sig eiga meiri framgang skilið innan hreyfingarinnar sem utan. Í stað þess að fylkja sér á bak við þingmenn sem allir eru sammála um að hafi unnið hörðum höndum fyrir stefnumálum Borgarahreyfingarinnar þá hafa persónulegar skoðanir og hagsmunapot ráðið för og aðrir því miður fylgt með í niðurrifstafsemi og rýtingsstungum í bak þingmanna.

Fyrir fundinum lágu lagabreytingatillögur þar sem m.a. var kveðið á um að þriðjungur fjársins frá Alþingi ætti að renna í kosningasjóð og ef afgangur yrði þegar hreyfingin legði sig niður rynnu peningarnir til góðra mála. Í grein nr. 14.3. í nýsamþykktum lögum stendur "Öllu fé Borgarahreyfingarinnar skal sannanlega varið í samræmi við tilgang hennar. Þriðjungur af árlegum tekjum skal settur í kosningasjóð sé þess kostur." "Sé þess kostur..." er lykilbreyting hérna. Ekkert nema siðferði stjórnameðlima kemur nú í veg fyrir hvernig þessu fé verður ráðstafað.

Alla vega er ánægulegt að í lögunum, sem ekki er hægt að breyta fyrr en að ári liðnu þegar næsti landsfundur verður haldinn í september 2010, verður allt bókhald opið almenningi eins og sjá má í grein 14.2.


Vilt þú lán frá skattinum?

Þegar Sigurjón Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans fékk lán úr eigin lífeyrissjóði með aðstoð og stuðningi lögfræðings síns og ónafngreindra lögfræðinga Landsbankans var hann að fresta skattgreiðslum um 20 ár.
Úttektir úr séreignalífeyrissóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur enda var tekjustofn launþegans lækkaður við innlögn í sjóðinn. Raunverulegur skattstofn ræðst því ekki fyrr en greitt er út úr sjóðnum og því er það á ábyrgð stjórnar lífeyrissjóðsins að viðhalda og ávaxta vel þá fjármuni sem þar eru. Sé það ekki gert lækkar skattstofninn og um leið lífeyrir viðkomandi. Einkalífeyrissjóður Sigurjóns fjárfesti á afar lélegum kjörum í Sigurjóni sjálfum langt undir eðlilegum kjörum og ljóst að þó lánin verði endurgreidd að fullu mun sjóðurinn rýrna sem og skattstofninn.

Þegar settur er upp einkalífeyrissjóður og lán veitt úr honum til eina launþegans sem greiðir í hann er ljóst að einungis er verið að koma sér undan því að greiða skatt. Skatt sem aðrir þegnar landsins þurfa borga. Í tilfelli Sigurjóns ætti skattgreiðslan að nema um það bil 25 milljónum króna sem frestast þar til hann endurgreiðið lánið og tekur peningana aftur út í form útgreiðslu lífeyris.

Sigurjón hefur því einhliða tekið 25 milljón króna lán frá skattinum.
Ættum við kannski frekar að segja að Sigurjón hafi tekið lánið frá mér og þér?


Síðasta vikan hafin

Nú er full stutt í heimkomu. Þó svo það sé alltaf gaman að koma heim til Íslands eftir dvalir erlendis þá held ég að öll fjölskyldan kveðji Shanghai með söknuði. Dvölin hér hefur verið einkar skemmtileg og allt gengið eins og í sögu, meira að segja að læra kínversku. Öll erum við búin að læra heilmikið um menningu og siði kínverja, kynnast nýju fólki frá öllum heimsálfum og fræðast heilmikið um land og þjóð. Við höfum skoðað söfn, gallerí, musteri og ýmsa ferðamannastaði í Shanghai. Við höfum ferðast til þorpa í grennd við borgina og við fórum til Peking og Xian.

Það eina sem er eftir fyrir okkur að gera hér er að pakka. Við ætlum ekki að taka búslóðina, eldhúsáhöld, sængur og fleira sem þarf til heimilisins með okkur heldur gefa það Rauða krossinum. Annað tökum við með okkur en því miður er leyfð þyngd á farangri allt of lítil og því verðum við að pakka einhverju í kassa og senda með TNT.

Heimkoma er áætluð 31. maí rétt fyrir miðnætti.


Aukið frelsi fjölmiðla í Kína

Fjölmiðlar í Kína hafa nú í fyrsta skipti haft fyrirmæli áróðursskrifstofu kínverska kommúnistaflokksins að engu og flutt fréttir af jarðskjálftanum og hjálparstarfseminni sem þar fer fram í beinni útsendingu. Aldrei áður hefur fréttaflutningurinn verið jafn opinn og nú. Tala látinna og slasaðra er uppfærð reglulega á vefsíðum fjölmiðlana og myndir frá ljósmyndurum blaðanna og almenningi eru sýndar aftur og aftur. Þessi atburðarrás minnir mig á þegar fyrra Írak stríðið braust út og CNN sendi stríðið heim í stofur almennings um allan heim. Sá fréttaflutningur breytti sýn heimsins á stríð og hverning þau eru háð. Að sama skapi er breytingin á fréttaflutningi hér í Kína fyrirboði stærri breytinga. Viðbrögð almennings er annar en áður var og það er erfitt fyrir stjórnvöld að snúa af þessari braut. Landið mun opnast smátt og smátt. Sú þróun er nú þegar hafin í austurhluta landins í borgum eins og Shanghai og Beijing. Hún mun síðar færast yfir stjálbýlari héruð í vestur hluta landsins.

Kínverskir fjölmiðlar eru samt undir smásjá stjórnvalda en breytingin núna er sú að stjórnmálamenn sjá sér hag í því að hafa fréttaflutninginn opinn, frjálsan og óáreittann. Þó svo að þessi stefna henti þeim núna og komi kannski til vegna þess að þeir vilji að landið líti vel út í aðdraganda Ólympíuleikanna og einnig til að færa umræðuna frá átakasvæðum annars staðar í Kína, þá kemur hún almenningi hér í Kína til góða.

Það getur aftur á móti verið erfiðara en þeir halda að snúa frá þessari braut frjálsræðis og hægt að nefna til nokkrar ástæður fyrir því. Samskiptamáti hefur gjörbreyst á stuttum tíma. Internetnotkun hefur aukist gríðarlega og í dag eru fleiri en 7 milljónir internetáskrifenda í Kína og notendur mun fleiri. Farsímanotkun hefur að sama skapi orðið almenn og er nú svo komið að í Kína eru fleiri en 461 milljón farsímanotenda. Þessi mikla farsíma- og internetnotkun gerir stjórnvöldum mjög erfitt fyrir að loka á fréttaflutning.

Þá hefur innganga Kína í WTO þrýst á landið til að opna efnahagskerfið fyrir erlendum fjárfestingum þannig að fjöldi erlendra fyrirtækja og starfsmanna eru í Kína. Með opnara hagkerfi og miklum hagvexti sem einkennt hefur landið á undanförnum árum hefur hagur almennings aukist verulega og nú er svo komið að 19% þjóðarinnar getur talist til millistéttar. Tala sem búist er við að hækki í 40% fyrir árið 2020. Þegar stærri hópur fólks nýtur aukinna lífsgæða þá mun það vinna að því að halda þeim gæðum og erfiðara verður fyrir stjórnvöld að taka þau til baka.

Um leið og landið hefur opnast fyrir erlendum fjárfestingum þá hefur það einnig opnast fyrir ferðamennsku. Árið 2006 heimsóttu 1,4 milljónir ferðamanna Sichuan hérað þar sem jarðskjálftinn reið yfir fyrir viku síðan. Að sama skapi þá hefur hinn almenni Kínverji nú ferðafrelsi og getur keypt gjaldeyri fyrir sem nemur um 500.000 kr. á ári. Áður fyrr var voru mun meiri hömlur á gjaldeyriskaup almennings sem gerði honum erfitt fyrir vildi hann ferðast. Þannig hefur aukið flæði fólks, bæði ferðamanna og kínverja, aukið fréttir af fjarlægari héruðum landsins og sett yfirvöldum skorður og aðhald.

Komandi Ólympíuleikar hvetja kínversk stjórnvöld til þess að opna landið enn frekar og lyfta hönd sinni af fréttastofum, fyrirtækjum og almenningi. Ótrúleg uppbygging mannvirkja og þjónustu hefur fært tugþúsundum manna aukna atvinnu og verslun. Ný störf eru óteljandi sem margir njóta, allt frá venjulegu heimilisfólki sem leigir út herbergi eða ávaxtasalans sem selur meira til ferðamanna en áður til herra Lee sem ræður fjölda manns til að framleiða sérmerkta minjagripi. Síðan má ekki gleyma að fjöldi fréttamanna, íþróttamanna og gesta mun heimsækja Kína á meðan Ólympíuleikarnir verða haldnir. Allir þessir þættir hvetja stjórnvöld til að auka mannréttindi og frelsi.

Hingað til hefur viðkvæði hins almenna Kínverja verið að ríkið eigi og muni sjá um sína. Ef eitthvað bjáti á, þá er það ríkið sem hleypur undir bagga, hjálpar á neyðarstundu. Í Peking var kínverskur hótelstarfsmaður að lýsa hörmungunum á jarðskjálftasvæðinu fyrir gestum og lauk hverri setningu með því að benda á að nú væru stjórnvöld komin á svæðið. Forsætisráðherrann, Wen, væri á svæðinu að stjórna aðgerðum og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Þessi lýsing er dæmigerð fyrir hvernig hugsanagangur fólks hefur verið hingað til.

Næstum fráls fréttaflutningur og aukin velmegun hefur aftur á móti leitt til þess að almenningur vill sjálfur taka þátt í að hjálpa fórnarlömbum skjálftans. Það er bein afleiðing birtinga fréttamynda frá jarðskjálftasvæðinu að almenningur hefur opnað budduna sína og safnað milljörðum. Almenningur treystir samt ekki endilega hinu opinbera fyrir þessu fé og því hafa biðraðir hjá þeim fáu alþjóðlegu hjálparstofnunum sem hér hafa leyfi til að starfa verið langar. Fólk vill líka gefa í eigin nafni og því er það tilbúið að standa í röð tímanum saman til þess að skrá nafn sitt í söfnunarbækur og reiða fé af hendi, stundum smáar en einnig háar fjárhæðir.

Í ljósi þessa alls hefur myndast tækifæri fyrir kínverskar fréttastofur til að koma sér upp kerfi sem gerir þeim kleift að flytja óháðar fréttir af atburðum um leið og þeir gerst.


mbl.is Bjargað úr rústum eftir 195 stundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriggja mínútu þögn

Í gær kl. 14.28 hófst þriggja daga þjóðarsorg í Kína. Hér í Shanghai eins og alls staðar í Kína stóð fólk út á götu eða kom út í glugga og vottaði hinum látnu virðingu sína. Í þrjár mínútur stöðvaðist umferðin, bílstjórar þeyttu flautur sínar og almannavarnarflautur gjullu yfir húsum. Hér í borginni sem alltaf iðar af lífi, búðir og götur yfirfullar af fólki varð á svipstundu kyrr. Fólk stóð beint í baki, grafkyrrt með lokuð augu og yfirþyrmandi samstaða manna var augljós.


Persónulegur harmleikur

Þegar fréttir af harmleik berast til Íslands frá fjarlægum stöðum eins og Kína eða Búrma þar sem tugþúsundir hafa farist getur verið erfitt að skilja harmleikinn. Það er erfitt fyrir þorra almennings sem í raun getur lítið gert í stöðunni nema þá kannski að styrkja alþjóðlegar hjálparstofnanir eins og Rauða Krossinn.

Íslendingar ættu samt að geta skilið hörmungar sem þessar út frá sinni persónulegu reynslu. Mannskæð snjóflóð og eldgos sem lagt hafa bæi í rúst hafa þjappað íslensku þjóðinni saman á örlagastundum og hún hefur sýnt hversu megnug hún er þegar hjálpar er þörf. Slíkur samhugur hefur nú sýnt sig hér í Kína þar sem almenningur réttir hjálparhönd hvar sem hægt er.

Fréttir af björgunaraðgerðum eru uppfærðar mörgum sinnum á dag á innlendum fréttavefjum og sögur af fólki sem bjargast eru í forgrunni. Inn á milli eru þó einnig sögur af persónulegum harmleikjum fólks sem misst hefur allt sitt og alla fjölskyldu sína.

Skrifari las eina slíka frétt með morgunkaffinu rétt í þessu. Þar var sagt frá farandverkamanni að nafni Deng Shilun sem kom frá þorpinu Pingtong. Hann var að vinna í borginni Ya'an í Sichuan sýslu og vissi að heimabær sinn væri nálægt miðju skjálftans. Hann lagði af stað um leið og hann frétti af skjálftanum en vegna gríðarlegrar umferðar og illa útleikins gatnakerfis tók það hann nokkra daga að ganga heim í þorpið sitt. Þar komst hann að því að öll stórfjölskylda hans hafði látist í skjálftanum og meirihluti allra húsa í þorpinu voru rústir einar. Hann missti níu fjölskyldumeðlimi á einu bretti, konuna sína, tengamóður, systur og bróður og fjölskyldur þeirra. Deng á eina dóttur sem slapp skjálftann en hún vinnur hjá tölvufyrirtæki í Shanghai.

Í dag kl. 14.28 hefst þriggja daga þjóðarsorg í Kína. Opinberum atburðum er frestað og fánar verða dregnir í hálfa stöng. Hlaupa átti með Ólympíueldinn hér í Shanghai á morgun og hinn en för hans hefur verið frestað eins og öðrum viðburðum.


mbl.is Ólympíuhlaupinu frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúsundir á flótta vegna yfirvofandi flóðahættu

Þúsundir manna flúðu frá svæðum í Beichuan sýslu vegna flóðahættu. Skriður sem urðu í stóra skjálftanum stífla Qingzhu ána þannig að stöðuvatn myndaðist. Stærð vatnins er áætlað rúmlega 11 milljón rúmmetrar. Rúmlega 30000 manns búa á svæðinu sem gæti farið undir vatn bresti þessar stíflur. Nú þegar er vatn farið að flæða yfir götur í bænum Qianjin.

Tölur um látna og slasaða eru birtar reglulega í kínverskum fjölmiðlum. Þegar þetta er skrifað eru 28881 látnir og 198431 slasaðir. Milljónir eru heimilislausar og talið að fleiri en 15 milljón hús hafi skemmst í skjálftanum og 3,1 milljón húsa hrunið. Í dag (laugardag) voru 2538 fórnarlömb grafin úr rústunum en aðeins 165 af þeim voru á lífi.

Það er einsdæmi í kínverskri sögu hversu opinn fréttaflutningur hefur verið af hamfarasvæðinu. Myndir af syrgjandi foreldrum og hjálparstarfsmönnum hefur leitt til þess að almenningur í Kína og víðar hefur opnað budduna og gefið til hjálpar starfsins. Áður fyrr hefði almenningur ekki gert það enda vanur því að ríkið sjái um sína. Góðgerðarfélög eru enda bönnuð í Kína og einungis örfá með leyfi til að starfa hér. Nú bregður svo við að almenningur hefur safnað sem nemur næstum 200 milljónum dollara og stendur jafnvel í marga klukkutíma í röð til að gefa. Skólar og vinnustaðir efna til funda til að safna fé. Í skóla sona minna verður slík söfnun á mánudaginn og keppni á milli bekkja hverjir safna mestu fé, þannig er stemmingin víða. Í heildina hefur Kína aftur á móti fengið sem nemur 860 milljónum dollara til hjálparstarfsins.

Kannski er breytt viðhorf kínverskra stjórnvalda til fréttaflutningsins tilkomið vegna Ólympíuleikanna sem haldnir verða hér í Kína í sumar. Það verður alla vega erfitt fyrir kínversk stjórnvöld að stjórna þeim 30000 fréttamönnum sem fylgjast með leikunum. Kannski er þetta merki um hvernig Kína er að opnast með aukinni velmegun og hagvexti.


mbl.is Fann fyrir eftirskjálfta í miðri hvatningarræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákadagur

Veðrið lék við okkur strákana í dag. Hitinn fór í 32 stig, sól og blíða í Shanghai borg. Byrjuðum daginn á því að sækja hausinn á Hansa út á pósthús. Já, þú last rétt. Sækja hausinn hans Hans. Strákurinn búinn að láta gera brjóstmynd af sér, aðeins minni en hausinn á Davíð í ráðhúsinu. Bara gaman að því.

Eftir hádegismat fórum við út í Century Park. Garðurinn er risastór og þar er hægt að leigja sér báta, margra manna reiðhjól og fleira til að stytta sér stundir. Við leigðum okkur hjólabíl og hjóluðum um garðinn í klukkutíma. Skelltum okkur svo í smá tívolí. Rússibanar og klessubílar voru vinsælastir.

Gengum síðan að Shanghai Science and Technology Museum og fengum okkur kaffi á torginu þar fyrir framan. Þar undir er stór og mikill markaður. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér nýtt gólfsett. Fékk fullt Callaway sett, 3 Big Bertha tré, púttur, tösku fyrir skó, tvenna hanska, tvennar húfur, tösku undir settið og ferðatöskur undir þetta allt saman fyrir 15000 kall.

Eftir að hafa skoðað markaðinn aðeins meir tókum við lestina heim, Komum við í Cloud Nine verslurnarmiðstöðinni og fengum okkur kvöldmat og ís á Cold Stone í eftirrétt. Þeir gera besta ís í heimi og Choclate Deviation er guðdómlegur.

Enduðum svo kvöldið á því að pakka inn afmælisgjöf til Bjarna afa og horfðum síðan á Spiderman 3. Voðaleg innri barátta hjá þeim unga manni.


Söfnun fyrir fórnarlömb skjálftans

Hörmungarnar halda áfram nú þegar nokkrir dagar eru liðnir frá skjálftanum mikla í Sichuan. Í gær reið stór eftirskjalfti yfir þorpið Yingxiu, en einungis 2000 af 10000 íbúum þorpsins lifðu fyrri skjálftann af. Skjálftinn í gær leiddi til enn frekari eyðileggingar í þorpinu og minnkaði jafnframt líkurnar á því að hægt væri að bjarga þeim sem enn eru grafnir í húsarústum.

Hér í Shanghai hefur Rauði krossinn hafið mikla söfnun til handa fórnarlömbum skjálftans. Helst er óskað eftir peningagjöfum og hafa verið settir upp básar víðs vegar um borgina þar sem hægt er að setja peninga í bauka. Einnig er boðið upp á að senda litlar upphæðir í gegn um símann með SMS. Þá hafa verið opnaðir bankareikningar og fjármálaeftirlitið hefur bannað bönkunum að taka færslugjöld af söfnunarfénu.

Í gær var Rauði krossinn búinn að safna 180 milljónum yuan, andvirði næstum 2 milljarða króna.


mbl.is Foreldrar bíða í örvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband