4.5.2007 | 17:44
Íslenski uppboðsmarkaðurinn
Síðast liðið ár voru fjögur verk eftir íslenska höfunda seld fyrir metupphæðir, miklu hærri upphæðir en áður hefur þekkst fyrir verk Íslendinga. Þetta voru verk eftir Ásgrím Jónsson, Jóhannes S. Kjarval og Þorvald Skúlason.
Afleiðingar þessarar hækkunar á einstökum verkum íslensku frumherjana eru margþættar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Um leið og einstakir höfundar eða einstök verk þeirra verða svo eftirsótt að safnarar eru tilbúnir til að greiða mun hærra verð fyrir þau en áður dregur það önnur verk þessara höfunda með sér upp. Ekki er þar með sagt að öll verk muni hækka til jafns við þessa toppa þó þau séu svipaðrar gerðar. Þessi háu verð eru hvati fyrir seljendur sem koma með fleiri verk inn á markaðinn sem aftur leitar jafnvægis í verði sem getur þó verið hærra en áður var. Neikvæðu afleiðingarnar eru óraunhæfar væntingar seljenda til verðs fyrir ákveðin verk. Væntingar sem taka mið af hæsta verði sem fengist hefur sem er ekki endileg það verð sem kaupendur eru tilbúnir að greiða fyrir meðalverk. Dæmi um slíkar vætningar má sjá í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 23. apríl s.l. þar sem talað var um að verk eftir Þórarin B. Þorláksson myndi líklega seljast á meira en 12 milljónir króna. Slíkt tal gæti verið tilraun seljenda til þess að tala verðin upp og það gæti tekist í vissum tilfellum. Slíkt tal er ekki vænlegt til árangurs nema til skamms tíma og kemur yfirleitt í hausinn á viðkomandi, þó síðar verði. Það sem gerst hefur á íslenska uppboðsmarkaðinum á síðast liðnu ári er í takt við það sem gerst hefur erlendis. Einstök verk þekktustu listamannanna hafa hækkað mikið þar og dregið vagninn fyrir hina. Markaðurinn hefur stækkað, kaupendur með veruleg fjárráð eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr og áhugi þeirra fyrir fjárfestingum í myndlist er að aukast. Það sem er sérstakt við íslenska listaverkamarkaðinn eru áhrif málverkafölsunarmálsins. Eftir að það mál kom upp 1997 og þar til dómur féll 2004 lækkuðu verð stöðugt og markaðurinn dróst saman og því gæut hluti þeirra miklu hækkana nú verið verðleiðréttingar.
Ég spái því að verð á góðum verkum gömlu meistarana muni halda áfram að hækka þó það verði ekki með sama hraða og verið hefur og bilið á milli góðra verka og síður góðra muni breikka. Eðlilega er nóg framboð af meðalgóðum verkum því færri eru tilbúnir til að eiga þau og þar af leiðandi eru þau verðminni og koma ekki til með að hækka meira en með verðlagi. Einnig ætti þessi þróun að skila sér í meiri mun á milli gömlu meistarana og samtímalistamanna. Verð verka samtímalistamanna taka oft á tíðum mið af verðum eldri listamanna og því setja þessar hækkanir nú ný viðmið fyrir þá.
Ætli menn að fjárfesta í myndlist þarf annað hvort að veðja á efnilega unga listamenn og sjá svo til hvað gerist, eða kaupa list eftir listamenn sem þegar eru viðurkenndir, en getur þá þegar verið orðin nokkuð dýr. Það er mun meira verðbil erlendis á milli ungra og tiltölulega óþekktra listamanna og þeirra sem hafa skapað sér nafn og eru þekktir og virtir. Einnig er verðbilið erlendis töluvert meira á verkum eftir þekkta látna listamenn heldur en samtímalistamenn. Þessi mikli munur gerir það að verkum að ávöxtun á listaverk getur verið mjög mikil sé veðjað á réttan hest. En það hafa ekki allir ráð á því að kaupa verk þekktra listamanna en þeir geta samt sem áður fjárfest í myndlist með því að kaupa verk ungra listamanna. Þá er ráð að kaupa eftir marga listamenn því einn þeirra gæti orðið frægur og þannig skilað góðri ávöxtun á safnið í heild. Og auðvitað eru ekki allir að kaupa list til fjárfestingar. Flestir kaupa listaverk til þess að hafa ánægju af þeim og þegar verkin hækka í verði er það bara bónus.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.