15.10.2006 | 10:06
Er hægt að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka?
Hluti af náminu á Bifröst er að vinna í lok hvers misseris umfangsmikið verkefni, svokallað misserisverkefni, í tengslum við aðila í atvinnulífinu, til að hagnýta þá þekkingu og þjálfun sem nemendur hafa öðlast í námi sínu.
Misserisverkefni er sjálfstætt hópverkefni og ákveður hver nemendahópur viðfangsefni sitt.
Nú í sumar (2006) vann ég ásamt fjórum öðrum nemendum, Áslaugu Heiðarsdóttur, Fjólu Kristinsdóttur, Ólafíu B. Ásbjörnsdóttur og Svandísi Ragnarsdóttur gríðarlega viðamkið verkefni.
Í verkefninu skoðuðum við hvort hægt væri að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka út frá uppboðum á Íslandi. Vinnan við verkefnið hófst í apríl stóð yfir samfellt til lok júní en hún fólst aðallega í því að taka saman og rannsaka gögn um uppboð á Íslandi allt frá árinu 1953 þegar fyrsta listmunauppboðið var haldið í þeirri mynd sem þau eru í dag.
Til þess að reikna út vísitölu sleginna verka á uppboðum settum við saman gagnagrunn unnin upp úr þessum uppboðsgögnum en slíkt hefur aldrei áður verið gert á Íslandi.
Hér fyrir neðan er inngangur að skýrslunni:
Viðfangsefni þessarar skýrslu er að skoða hvort hægt sé að búa til listaverkaverðvísitölu út frá uppboðsskrám. Skoðað er hvort þessar skrár séu áreiðanlegar heimildir. Hvort uppboð endurspegli verð myndlistar og annarra listaverka á markaðnum hér á landi og hvort hægt er að bera þessa vísitölu saman við aðrar með fræðilegum hætti.
Leitast verður við að svara rannsóknarspurningunni:
Er hægt að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka?"
Ennfremur voru eftirfarandi markmið sett við vinnslu verkefnisins:
Að skoða íslenskan uppboðsmarkað myndlistar með það í huga að safna marktækum gögnum.
Að skýrsluhöfundar tileinki sér á sem raunhæfastan hátt námsefnið í upplýsingatækni og tölfræði og auki þekkingu sína í þeim fræðum.
Að öðlast þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum með öflun, meðferð og úrvinnslu heimilda.
Skýrslan er byggð upp á þann hátt að byrjað er að fjalla um þá aðferðafræði sem var notuð við vinnslu skýrslunnar. Þar á eftir er fjallað um vísitölur og því næst sögu og framkvæmd uppboða. Næst er á fræðilegan hátt fjallað um listaverkamarkaðinn. Í framhaldi af því verður fræðileg umfjöllun sett fram og niðurstöður kynntar.
Höfundar telja það annmarka á skýrslunni að frumheimildir eru ekki eins skráðar og ekki tæmandi. Óvissa ríkir um umfang fölsunarmálsins, íslensk myndlistarsaga er ung og hefð fyrir uppboðum lítil.
Skýrslan er afmörkuð á þann hátt að höfundar notuðu eingöngu uppboðsgögn frá árunum 1985 til 2005 þar sem frumrit uppboðsskráa frá því tímabili eru hvað marktækastar. Ákveðið var að skrá ekki uppboð í gagnabankann sem haldin hafa verið til styrktar góðgerðarmálum. Uppboðsgögn eru ekki tæmandi gögn fyrir myndlistarmarkaðinn. Einnig afmörkuðu höfundar sig við einfaldan meðaltalsvísitöluútreikning.
Uppboðskrárnar sem skýrsluhöfundar unnu upp úr voru í flestum tilfellum frumrit og fengnar hjá Galleríi Fold, Braga Guðlaugssyni listaverkasafnara, Seðlabanka Íslands, Guðmundi Þorkelssyni listaverkasafnara, Listasafni Íslands og fleirum.
Fjöldi skráðra verka sem notuð eru til útreikninga listaverkaverðvísitölunnar eru 11295 og eru höfundar þeirra 966.
Áhugavert og fræðandi er að sjá að hvaða listamenn eru eftirsóknaverðastir miðað við seld verk og verð. Spurning sem vakti áhuga skýrsluhöfunda var hvort verk frumherja íslenskrar myndlistar væru jafn verðmæt og almennt er talið? Þá er þáttur stóra málverkafölsunarmálsins fyrirferðamikill og athyglisvert að skoða hvaða áhrif hann hefur á útreikningana. Það sem vekur einna mesta athygli skýrsluhöfunda er sú upphæð sem liggur í verslun með listaverk á uppboðum á þessu tímabili, upphæðin er kr. 1.372.873.152,-.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.