15.10.2006 | 10:21
Skólinn byrjaður - rekstrarhagfræði - auglýsingar tannlækna
Nú er haustið komið og allri komnir aftur í skólann, líka ég.
Fyrsti kúrs er rekstrarhagfræði, aldeilis ágætt fag.
Námið er uppbyggt af fyrirlestrum, vinnuhelgum og mikilli verkefnavinnu, hópverkefni, paraverkefni og einstaklingsverkefni.
Það verkefni sem stóð upp úr í þessum kúrs var stutt skýrsla um áhrif þess að leyfa tannlæknum að auglýsa þjónustu sína. Þetta var hópverkefni sem ég vann með Áslaugu Heiðarsdóttur, Fjólu Kristinsdóttur, Helga Bogasyni, Jóni Fannari Guðmundssyni og Vali Finnssyni.
Niðurstaðan okkar var sú að það yrði til hagsbóta fyrir alla að leyfa tannlæknum að auglýsa þó sérstaklega kæmi það neytendum til góða.
Hér fyrir neðan er inngangur að skýrslunni:
Það er vandséð að hægt sé að komast í gegn um heilan dag án þess að verða fyrir einhvers konar áreiti af auglýsingum. Magnið af auglýsingur er slíkt að fólk á förnum vegi tekur ekki eftir þeim, alla vega ekki meðvitað. Tannlæknaþjónusta á Íslandi býr við þau sérstöku skilyrði að vera á samkeppnismarkaði en mega lögum samkvæmt ekki auglýsa. Í þessari grein leitumst við eftir að svara þeim spurningum hvort það sé hagkvæmt fyrir heildina að leyfa tannlæknum að auglýsa. Hvaða áhrif hafa þessar auglýsingar á efnahagslega afkomu okkar neytenda? Erum við sem neytendur að greiða fyrir auglýsingarnar í gegn um hærra vöruverð og eykst eða minnkar neytendaábatinn ef auglýsingar tannlækna yrðu leyfðar? Hver er samkeppnisstaða tannlækna ef auglýsingar yrðu leyfðar?
Niðurstaða okkar er sú að leyfa ætti tannlæknum að auglýsa, enda eru þeir að keppa um viðskiptavini. Slíkt myndi auka samkeppni þeirra á milli og auka neytandaábata auk þess sem verð myndi lækka og gæði þjónustunnar aukast.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.