Art Copenhagen 2006 kaupstefnan

SossaArt Copenhagen 2006 kaupstefnan var haldin í Kaupmannahöfn helgina 22. til 24. september í Forum sýningarhöllinni í Frederiksberg. Þetta er í annað sinn sem sýningin er opin fyrir gallerí frá allri Skandinavíu undir merkjum The Nordic Art Fair.

Að þessu sinni tóku 64 gallerí þátt og sýndu verk nokkur hundruð listamanna, þar á meðal nokkurra íslenska eins og Sossu, Birgis Andréssonar, Ólafs Elíassonar og Svavars Guðnasonar. Dagskrá sýningarinnar var þétt skipuð fróðlegum viðtölum sem fram fóru á Listakaffinu svokallaða sem voru send beint út í útvarpi og sjónvarpi. Einnig bauðst gestum, sem að þessu sinni voru um tólf þúsund, leiðsögn um sýningarsvæðið og skipti þá engu hvort gestirnir höfðu nýlega fengið áhuga á listum eða með margra ára reynslu.

Galleríin bjóða gestum upp á allt frá nýrri list til eldri hefðbundinna landslagsverka og málverka Cobra málara eins og Cornille, Karen Appel, Svavars Guðnasonar og Asgeir Jorn. Málverkið var sá miðill sem galleríin héldu mest frammi en einnig var nokkuð af ljósmyndum og keramikskúlptúrum. Skrifari sá einungis tvö myndbandsverk en nokkrar innsetningar.

Verð listaverkanna var allt frá því að vera nokkur þúsund upp í nokkrar milljóna íslenskra króna eins og gangverðið er t.d. á verkum Cobra-málaranna. Verð á ljósmyndum vakti sérstaka athygli skrifara og þá sérstaklega verkið „Bono Bath" eftir ljósmyndarann Anton Corbijn en það var boðið á 70.000,- sænskar krónur sem jafngildir rúmlega 660.000,- íslenskum krónum eins og gengið er um þessar mundir. Slíkt er nær óhugsandi að fá fyrir ljósmynd á Íslandi.

Góð sala virtist vera hjá flestum galleríum sem tóku þátt í sýningunni og sérstaklega ánægjulegt að sjá að allir stærstu bankarnir í Danmörku og fjölmörg stór fyrirtæki styðja við listalífið með því að kaupa verk á sýningunni. Sérstaka athygli vakti hjá skrifara að A.P. Möller keypti verk eftir Sossu en hann er eins og margir vita með stærstu listaverkakaupendum Danmerkur. Sagt hefur verið að hann kaupi þrjú hundruð listaverk í hvert skipa sinna og mættu íslensk fyrirtæki taka slíkt til fyrirmyndar.

Mikil gróska virðist vera í listalífinu í Kaupmannahöfn og mikið fjallað um myndlist í fjölmiðlum þar. Ekki færri en þrjú sérblöð og tímarit um myndlist koma þar út reglulega; Kunstavisen sem kemur út mánaðarlega um alla Danmörku, Magasinet Kunst sem fjallar um samtímalist, bæði danska og alþjóðlega og síðan tímaritið Wonderland sem fjallar um unga listamenn og hönnuði og er dreift ókeypis í Kaupmannahöfn. Því miður hefur regluleg útgáfa á tímaritum og blöðum sem fjalla eingöngu um myndlist ekki átt upp á pallborðið hjá útgefendum hér á landi og er þar kannski smæð íslenska markaðarins um að kenna. Þetta er að mati skrifara vanmat á myndlistaráhuga landans sem sést best á því að öll myndlistarnámskeið eru yfirfull, sýningar og uppboð vel sótt og ekki má gleyma því að hátt í eitthundrað þúsund hópast í miðborgina á Menningarnótt ár hvert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband