Fyrsti skóladagurinn


1081YanChangCampus-smÞá er fyrsta skóladeginum lokið. Eina fagið á dagskrá var kínverska fyrir útlendinga.

Eftir að hafa farið í gegn um skráningarferlið um daginn. Tók ég stöðupróf í kínverksu. Það var reyndar ekki mjög flókið: Kanntu kínversku spurði prófdómarinn. Ég svari Nei. Ertu byrjandi spurði hann þá. Ég svaraði já. Þar með var ákveðið í hvaða bekk ég fór í kínversku. Mér var úthlutað stundatöflu og sagt að kíkja á upplýsingatöfluna niðri til þess að finna út í hvaða stofu ég ætti að mæta. Það gerði ég samviskusamlega og hugsaði með mér að ekki væri nú vitlaust að líta á kennslustofuna þannig að ég þyrfti ekki að vera leita að henni í morgunösinni. Og til þess að fullkomna undirbúninginn þá tókum fórum við leiðina sem ég fer í skólann á hverjum morgni með lestinni og mældum tímann sem það tekur, 50 mínútur nákvæmlega.

Stóri dagurinn rann upp og ég vaknaði 6.30. Borðaði morgunmat og lagði af stað á tilsettum tíma. Ég geng út á lestarstöð og það tekur um það bil 7 mínútur. Kaupi mér miða (núna er ég kominn með margnota kort) og skelli mér niður í metróið. Ég treð mér í lestina sem er full eins og síldartunna og við stefnum á Torg fólksins en það er líklega sú lestarstöð í Shanghai sem einna mest er að gera. Þarna þarf ég að skipta um lest. Fara úr línu 2 í línu 1. Ég treð mér úr lestinni og þegar ég segi treð þá meina ég það í bókstaflegri merkingu því ef þú ýtir ekki og treður þér ákveðið áfram þá einfaldlega kemstu ekki út. Þegar ég kem upp þá eru tveir straumar af fólki, annars vegar að fara úr línu 2 og hins vegar að fara í hana. Þetta er gríðarlegt mannhaf. Þetta er líkt því að vera koma sér inn á tónleika hjá vinsælustu hljómsveit veraldar. Þvílíkur er troðningurinn og lítið annað að gera en að fylgja straumnum. Þegar ég kem loks niður að línu 1 þá er lestin akkúrat komin og dyrnar opnar þannig að ég hoppa beint um borð. Dyrnar lokast og þá rennur það upp fyrir mér að ég fór í vitlausa lest. Þessi fer í hina áttina. Nú var ekkert annað að gera en að fara úr á næstu stöð og taka lestina úr hinni áttinni. Þarna fóru dýrmætar fimm mínútur og ljóst að ég yrði bara akkúrat á tíma. Lestin kemur og ég fer í hana og þarf að fara sex stöðvar áðurn en ég fer út. Þegar komið er að fimmtu stöðinni þá standa allir upp og ljósin í lestinni eru slökkt. Lestarvörður kemur inn í lestina með gjallarhorn og rekur alla út. Síðan lokast dyrnar og lestin fer, tóm. Ég hafði sem sagt farið í lest sem var með endastöð þarna, einni stöð styttra en ég var að fara. Nú töpuðust aðrar fimm mínútur. En það kemur alltaf önnur lest og ég komst að lokum á mína stöð og gékk rösklega í átt að skólanum.

Nú hugsaði ég með mér að það var gott að ég var búinn að athuga hvar stofan mín var þannig að ég stefni beint þangað. Stofa 111 í byggingu 4. Ég vind mér inn og finn mér sæti. Þarna eru greinilega vesturlandabúar þannig að ég andaði léttar. Kennarinn kínkaði kolli til mín og hélt svo bara áfram að tala á kínversku. Ég skildi ekki neitt. Sat bara þarna, tók upp bækurnar mínar fimm sem ég hafði fengið fyrir þetta fag og reyndi að komast inn í það sem var að gerast. Kennarinn skrifaði í gríð og erg á kínverksu á töfluna og byrjaði síðan að kalla nemendurnar upp á töflu til að skrifa svör við því sem þar var. Síðan kallaði benti húna á mig og ég gat ekki gert neitt nema hrist hausinn. Eftir smá stund tók ég eftir því að allir hinir nemarnir voru með öðru vísi bækur en ég og þeir virtust skilja hvað kennarinn var að segja. Ég snéri mér því að strák sem sat við hliðina á mér og spurði hann hvort þetta væri örugglega kínverska fyrir byrjendur og þá kom auðvitað í ljós að ég var í rangri stofu.

Í næstu frímínútum fór ég upp á skólaskrifstofu og þá var komin önnur stundatafla og ég átti að vera í stofu 205 í allt annarri byggingu. Ég kemst loksins í rétta stofu, þremur klukkustundum eftir að ég lagði af stað heiman frá mér á Ding Xi Road.

Stofa 205 er eins og allar hinar stofunar hérna með tréstólum sem eru áfastir borðum. Þessi húsgögn eru ekki gerð fyrir hávaxna vesturlandabúa, satt að segja alveg grjótharðir bekkir. En maður sofnar þá ekki á meðan. Hérna í Shanghai er mikill hiti góðan part ársins þannig að ekki er mikið hugsað um að hita upp húsin. Þetta á sérstaklega við um opinbera staði og sameignir húsa. Það er því kaldara inn í þessum byggingum en er úti yfir daginn. Svona er þetta líka í skólastofunum og því sitja allir í úlpunum sínum, bæði nemendur og kennarar. Það er ansi skondin sjón að sjá alla kappklædda húkandi yfir skruddunum. Þetta batnar nú með vorinu þegar hitinn fer að fara upp í 20 stigin og hærra.

Nú er bara að vona að ég komist á réttum tíma í skólann það sem eftir er vikunnar.

Á videoinu hér fyrir neðan er hægt að sjá gatnamótin þar sem lestarstöðin er hjá skólanum. Skólinn er í um það bil 5 mínútna göngufjarlægð frá þessu horni.

(Ef þið sjáið ekki videoið þá er hægt að opna það á þessari slóð: http://www.youtube.com/watch?v=yaht2al_EaY)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

..

Elínbjörg (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 22:08

2 identicon

Ótrúlegt ævintýri að komast í skólann fyrir þig Jói minn! Erum loks komin með Netið í okkar íbúð, reyni að vera dugleg að lesa þó ekki væri nema eina af bloggsíðum ykkar fjölskyldunnar samhentu í viku hverri!

Bestu kveðjur úr hitanum í Abu Dhabi

Ágústa í Abu (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband