Þrjú íslensk málverk boðin upp hjá Christies

Íslensk málverk eru í auknu mæli boðin upp hjá virtum uppboðshúsum í Evrópu og nú eru þrjú íslensk málverk boðin upp hjá Chirsties uppboðshúsinu í London. Uppboðið fer fram 31. október í húsakynnum Christies við King Street í London. Verkin eru eftir Louisu Matthíasdóttur, Nínu Tryggvadóttur og Jóhannes S. Kjarval.

Það sem vekur athygli er að verkin eru metin töluvert hærra en áður hefur fengist fyrir verk af svipuðum toga hér á landi og verður því fróðlegt að fylgjast með hvort matsverð náist á uppboðinu. Vonandi fæst sem hæst verð fyrir þessi verk því slíkt ætti að koma öðrum eigendum slíkra verka til góða og hækka verðmæti þeirra.

Verk Kjarvals, sem kallað er Landslag (Fantasy landscape), er metið á um það bil 5,7 milljónir króna á gengi dagsins í dag. Verk Louisu Matthíasdóttur af Reykjavíkurhöfn er metið á um það bil 3,8 milljónir króna og verk Nínu Tryggvadóttur, afstraktion sem er án titils, er metin á um það bil 3,2 milljónir. Verðmatið á verki Kjarvals er hærra en fengist hefur fyrir verk eftir hann í langan tíma og verðmatið á verki Nínu Tryggvadóttur er einnig í hærra lagi. Aftur á móti er verðmat á verki Louisu nokkuð í takt við það sem fengist hefur fyrir álíka stór verk eftir hana í Bandaríkjunum. Reyndar er ekki nema rúmt ár síðan skrifari skoðaði umrætt verk í galleríi í New York þar sem það var til sölu fyrir svipað verð.

Hingað til hafa íslensk verk aðallega verið boðin upp í norrænum uppboðshúsum og þá helst hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn en einnig hjá elsta uppboðshúsi Dana, Lauritz.com, sem hefur hin síðari ár nánast eingöngu boðið upp á netinu.

Það er ekki langt síðan að hægt var að fara til Danmerkur og kaupa íslensk málverk á uppboði á góðu verði og koma þeim síðar í sölu á Íslandi og leysa út ágætan söluhagnað. Nú er annað upp á teningnum. Verð á góðum íslenskum málverkum hefur farið hratt upp á við og er nú svo komið að mun hærra verð hefur fengist fyrir verk sem boðin eru upp erlendis heldur en jafnvel betri verk eftir sama höfund hér á landi. Það skrítna í þessu máli er að nánast allir kaupendur verkanna erlendis eru Íslendingar. Er það enn svo að á Íslendinga renni kaupæði í útlöndum eða getur verið að það sé bara fínna að geta sagst hafa keypt verkið á ferðalagi erlendis. Enn ein skýringin gæti verið sú að þetta séu áhrif stóra málverkafölsunarmálsins. Kannski telja kaupendur sig vera öruggari að kaupa verk eftir Jón Stefánsson á fimmtu milljón króna í Danmörku heldur en að kaupa verk eftir hann á aðra milljón á Íslandi.

Hvernig sem á málið er litið þá má telja öruggt að öll þessi athygli sem hin erlendu uppboðshús eru farin að veita íslenskum listmálurum er af hinu góða. Það er gott að verðið er á uppleið á þessum málurum því það styrkir uppboðsmarkaðinn hér á landi og veitir eigendum þessara listaverka aukinn arð af fjárfestingu sinni í íslenskum málverkum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband