29.10.2006 | 10:47
Menningarmiðstöðin IKEA
Á laugardagskvöldum er gott að skella sér í bæjarferð með vinum og vandamönnum. Setjast niður í sofa í rólegheitum og ræða málefni nýliðinnar viku. Rekast á gamla vini eða frænku sem maður hitti síðast í fermingarveislu annars enn fjarskyldari frænda. Þetta gera Íslendingar mikið og halda mætti að hinir fjölmörgu veitingarstaðir miðbæjarins væru hentugir staðir fyrir slíka endurfundi. Nei ekki aldeilis. Íslendingar hittast í verlsunarmiðstöðum og helst þar sem útsala er í gangi.
Í gærkveldi var haldin rýmingarsala á sýningarvörum IKEA í Holtagörðum, starfsfólk og vinir þess og ættingar fengu aðgang að húsnæðinu klukkan átta eftir kvöldmat og þá byrjaði ballið. Hjarðir kaupóðs almúgans hlupu inn í IKEA til að tryggja sér bestu bitana. Innan skamms hafði myndast röð frá afgreiðslukössunum langt inn fyrir miðja búð. Fólk með pallettutjakka hlóð kommóðum, sófasettum og skrifborðum hvert ofan á annað eins og það myndi aldrei aftur fá tækifæri til innkaupa. Skyndilega þurftu allir að endurinnrétta heimili sín. Sendibílar biðu í röðum og einn þeirra tjáði mér að hann væri búinn að fara fimm ferðir með fullann bíl.
Já gott fólk, ég viðurkenni að hafa verið einn af þessum sem sóttu menningarmiðstöðinna IKEA á laugardagskvöldi og hreinsað út bílfarm af húsgögnum. Þarna hitti ég fleiri vini og ættinga en ég hef hitt síðast liðna mánuði.
Nú bíð ég bara eftir næstu jólasamkomu í Kringlunni til að geta afhent jólakortin vinum og ættingjum en þangað til gleðilega innkaupaferð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.