Fyrsta kínverskuprófið af þrem búið

Dagarnir hér í Shanghai líða of hratt. Líklega vegna þess að það er sérstaklega mikið að gera í skólanum núna. Próflestur og ritgerðarsmíði. Fjögur af sex fögum sem ég er í eru að klárast. Ég er búinn að taka próf í Chinese Business Culture og skila lokaritgerð í Chinese Culture and History. Á eftir að skila einni ritgerð fyrir mánaðarmót í Chinese Commercial Law en það gengur full hægt að berja hana saman.

Síðan er það kínverskan. Get stoltur sagt að ég get skrifað nokkrar setningar á kínversku og beðið um basic hluti þegar farið er út að borða. Held að það sé nóg í bili. Kínverskuprófið er í þrem hlutum á jafn mörgum dögum. Byrjaði í dag á hlustun. Það gékk betur en ég þorði að vona og tókst mér að svara öllu nema einu atriði. Annað mál hvort það sé allt rétt, það kemur bara í ljós. Á morgun er síðan skriftarpróf og að lokum munnlegt próf; samtal við kennarann.

Að prófum loknum þá verð ég aðeins í tveimur fögum í maí; Chinese Economics og E-commerce. Það er mun minna en ég bjóst við og ég verð búinn í þessum fögum 16. maí.

Þetta skipulag hjá SHU er allt annað en lagt var af stað með í upphafi. Þegar ég fékk námsskrána í janúar átti ég að vera í 5 fögum sem áttu öll að ljúka um miðjan maí. Síðan átti að vera ein vika í upplestrarfrí og ein vika í próf. Þess vegna bókaði ég far heim 31. maí.

Þegar ég kem hingað eru engin af þessum fögum í boði. Finnski hópurinn sem ég átti að vera með var látinn koma mánuði fyrr en ég kom.  Því er ég ekki heldur með honum í öllum fögum. Ég var settur í kínversku 5 daga vikunnar 4 tíma á dag á meðan þeir eru 3 daga í viku 2 tíma í einu. Smá munur þar á.

Mér var hugsað til Bifrastar og skipulagið þar sem hefur næstum breyst á hverri önn sem við höfum verið í námi. 

Ég verð bara að nýta tímann í maí til þess að ferðast og njóta þess að vera hér í staðinn. Varla hægt að kvarta yfir því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband