500000 flytjast til borgarinnar, á ári!

Dagur verkalýðsins er runninn upp og hér í alþýðulýðveldinu er það helsta hátíð almennings að nýárshátíðinni undan skilinni. Kínverjar fá almennt ekki mikil frí frá vinnu og því eru þessar löngu helgar í kring um kínversku áramótin sem eruí febrúar samkvæmt kínversku almanaki og frídag verkalýðsins  í maí miklar ferðahelgar.

Fjölskyldan í Golden City Garden lagði einnig land undir fót nú um helgina og fór árla dags í ferð til borgarinnar Chongqing í mið Kína. Ákváðum að taka Maglev lestina út á flugvöll en það er hraðskreiðasta lest heims og keyrir á tæplega 500 km hraða. Lestin rann afar hljóðlega áfram enda svífur hún yfir teinunum vegna segulssviðs sem myndað er undir henni. Ferðalagið út á flugvöll, um 30 km, tók aðeins 7 mínútur.

Flogið var frá hinni nýju flugstöðvarbyggingu, Terminal 2, við Pudong flugvöll en hún var tekin í notkun fyrir skömmu. Flugvöllurinn, afar nútímalegur, reyndist góður griðastaður frá skarkala borgarinnar. Þarna var nánast enginn. Við skráðum okkur í flugið og fórum í gegn um öryggishliðið á ca. 10 mínútum og gengum síðan um nánast tóma ganga þessarar gríðarstóru byggingar. Nokkuð ljóst að þessi völlur er gerður til að mæta gríðarlegum straumi fólks sem búist er við þegar heimssýningin verður haldin hér í Shanghai 2010.

Flugið til Chongqing tók tvo og hálfan tíma og gékk þægilega fyrir sig. Flugvöllurinn þar var einnig glænýr og uppbyggingin á þessu þéttbýlasta svæði Kína er jafnmikil og í Shanghai. Ferðin frá flugvellinum að Yangtze fljótinu þar sem lítið skemmtiferðaskip beið okkar tók rúman hálftíma. Alla leiðina voru skýjakljúfar í byggingu, 10000 manna bokkarsvæði. Hvert með sinn skóla og framhaldsskóla og aðra þjónustu innan svæðisins. Þessari uppbyggingu má líkja við að það yrðu byggðar 30 hæða blokkir á leiðinni frá Reykjavík til Hveragerðis.

Það er varla hægtað ímynda sér hveru mikið er verið að byggja í Chongqing nema sjá það með eigin augum. Hér búa 32 milljónir manna og þar af rúmlega 6 milljónir í borginni sjálfri. Meira en 500 þúsund manns flytja til borgarinnar á hverju ári og það þarf íbúðir, verslanir og veitingastaði sem og aðra þjónustu enda eru fleiri en100 þúsund HotPot veitingastaðir í borginni.

Landslagið á þessu svæði einkennist af fjöllum og miklum gróðri. Jarðvegurinn er svo frjósamur að bændur ná fimm uppskerum á ári. Uppbyggingin kallar auðvitað á að svæði séu rýmd til að hægt sé að byggja blokkir. Kínverjar hugsa alltaf stórt og þeir eru ekkert sérstaklega að velta umhverfissjónarmiðum fyrir sér. Leiðsögumaðurinn okkar benti t.d. út um gluggann og sagði; “hér á hægri hönd sjáum við ekki lengur fjallið því það var flutt til þess að byggja íbúðarblokkir”.Það tók aðeins tvö ár að flytja eitt stykki fjall og byggja blokkir fyrir 10000 manns. Spurning hvort við gætum flutt fjöll heima. Væri kannski betra að hafa Keili aðeins nær Reykajvík eða bara á suðurlandi?

Næst á dagskrá er að sigla niður Yangtze fljótið. Meira af því síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband