19.10.2006 | 16:23
Rætur - Síðasta sýningarhelgi
Sýning Soffíu Sæmundsdóttur lýkur í Galleríi Fold nú um helgina.
Á sýningunni sýnir Soffía rúmlega 30 olíumálverk, flet máluð á tré, rúmgafla og rúmfjalir. Myndefnið er draumkennt landslag og ferðalangar sem ferðast bæði í tíma og rúmi.
Aðsókn á sýninguna er með meira móti og voru m.a. nokkur hundruð manns sem komu á opnunina og fyrstu sýningarhelgina.
Um sýninguna hefur Soffía þetta að segja:
Í Neðri salnum í Gallerí Fold er "einskonar landslag. Ég hef á undanförnum árum einkum notað landslag sem undirtón eða stemmingu í verkum mínum sem hafa verið kölluð sögumálverk þar sem ég segi sögu eða gef sögu í skyn. Landslagið hefur þá fylgt sögunni og ekki verið sem ákveðnir staðir eða svæði en gætu þó minnt á stað sem áhorfandinn þekkir. Smám saman hefur mig langað til að vinna meira með þetta landslag á öðrum forsendum þó, jafnvel eins og náttúruupplifun, og glíma við annars konar form en alla jafna. Mér finnst þetta ferli nánast kæruleysislegt því ég ræðst á efnið, læt æðarnar í viðnum eða hvernig taumar af málningu leka niður flötinn stjórna útkomunni að einhverju leyti svo úr verður nátúrulegt ferli og staðir, einskonar landslag.
Ég vinn myndirnar hratt og af ákefð, með stóurm áhöldum, til að ná niður hugsuninni sem er í höfðinu á mér en fínset svo og skerpi með litlum penslum. Ég pússa málninguna í burtu með sandpappír ef mér finnst þess þurfa og vil með þessu vinnulagi halda í ákveðinn ferskleika og forðast að myndirnar seú of jarðbundnar eða líkist landslagi sem ég þekki. Ég reyni markvisst að ögra sjálfri mér með því að glíma við annarskonar form enég þekki."
Í efri salnum eru "Rætur. Mig langar að tefla saman við þetta dökka landslag, allt annars konar veröld, á mörkum
draums og veruleika sem vísra þó til ýmissa átta. Það eu tíu ár frá fyrstu einkasýningu minni sem
haldin var hér í Gallerí Fold og af því tilefni leita ég á gömul mið. Flutningar millii landa og
vinnustofa hafa sett mark sitt á þennan tíma, því er efniviðurinn persónulegur og af ýmsu tagi,
rúmafjalir, rúmgaflar, borð , sem með myndefninu hefja sig í æðra veldi, upp úr hvunndeginum og
ímyndunaraflinu er gefinn laus taumur.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2006 | 20:25
Sjálfdauða Gæsin
Jæja, eftir mikinn þrýsting hef ég sett inn myndir úr síðustu veiðiferð sem ég fékk frá Agli inn á vefinn.
Þessi árlega veiðiferð Sjálfdauðu Gæsarinnar gékk vonum framan. Farið var upp á Arnarvatnsheiði og gist í skála við Úlfsvatn. Veðrið að mestu gott, veiðin fín og aðbúnaður góður.
Sumir gleymdu meira en aðrir og komu hvorki með svefnpoka né tannhirðubúnað. En því var snarlega kippt í liðinn og flugvél fengin til að skutla þessu upp á heiði. Svefnpokanum varpað úr nokkur hundruð metra hæð beint fyrir framan nefið á okkur. Þökkum við vöskum nemendum í Flugskóla Íslands mikið vel fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2006 | 22:35
Þrjú íslensk málverk boðin upp hjá Christies
Íslensk málverk eru í auknu mæli boðin upp hjá virtum uppboðshúsum í Evrópu og nú eru þrjú íslensk málverk boðin upp hjá Chirsties uppboðshúsinu í London. Uppboðið fer fram 31. október í húsakynnum Christies við King Street í London. Verkin eru eftir Louisu Matthíasdóttur, Nínu Tryggvadóttur og Jóhannes S. Kjarval.
Það sem vekur athygli er að verkin eru metin töluvert hærra en áður hefur fengist fyrir verk af svipuðum toga hér á landi og verður því fróðlegt að fylgjast með hvort matsverð náist á uppboðinu. Vonandi fæst sem hæst verð fyrir þessi verk því slíkt ætti að koma öðrum eigendum slíkra verka til góða og hækka verðmæti þeirra.
Verk Kjarvals, sem kallað er Landslag (Fantasy landscape), er metið á um það bil 5,7 milljónir króna á gengi dagsins í dag. Verk Louisu Matthíasdóttur af Reykjavíkurhöfn er metið á um það bil 3,8 milljónir króna og verk Nínu Tryggvadóttur, afstraktion sem er án titils, er metin á um það bil 3,2 milljónir. Verðmatið á verki Kjarvals er hærra en fengist hefur fyrir verk eftir hann í langan tíma og verðmatið á verki Nínu Tryggvadóttur er einnig í hærra lagi. Aftur á móti er verðmat á verki Louisu nokkuð í takt við það sem fengist hefur fyrir álíka stór verk eftir hana í Bandaríkjunum. Reyndar er ekki nema rúmt ár síðan skrifari skoðaði umrætt verk í galleríi í New York þar sem það var til sölu fyrir svipað verð.
Hingað til hafa íslensk verk aðallega verið boðin upp í norrænum uppboðshúsum og þá helst hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn en einnig hjá elsta uppboðshúsi Dana, Lauritz.com, sem hefur hin síðari ár nánast eingöngu boðið upp á netinu.
Það er ekki langt síðan að hægt var að fara til Danmerkur og kaupa íslensk málverk á uppboði á góðu verði og koma þeim síðar í sölu á Íslandi og leysa út ágætan söluhagnað. Nú er annað upp á teningnum. Verð á góðum íslenskum málverkum hefur farið hratt upp á við og er nú svo komið að mun hærra verð hefur fengist fyrir verk sem boðin eru upp erlendis heldur en jafnvel betri verk eftir sama höfund hér á landi. Það skrítna í þessu máli er að nánast allir kaupendur verkanna erlendis eru Íslendingar. Er það enn svo að á Íslendinga renni kaupæði í útlöndum eða getur verið að það sé bara fínna að geta sagst hafa keypt verkið á ferðalagi erlendis. Enn ein skýringin gæti verið sú að þetta séu áhrif stóra málverkafölsunarmálsins. Kannski telja kaupendur sig vera öruggari að kaupa verk eftir Jón Stefánsson á fimmtu milljón króna í Danmörku heldur en að kaupa verk eftir hann á aðra milljón á Íslandi.
Hvernig sem á málið er litið þá má telja öruggt að öll þessi athygli sem hin erlendu uppboðshús eru farin að veita íslenskum listmálurum er af hinu góða. Það er gott að verðið er á uppleið á þessum málurum því það styrkir uppboðsmarkaðinn hér á landi og veitir eigendum þessara listaverka aukinn arð af fjárfestingu sinni í íslenskum málverkum.
16.10.2006 | 15:53
Uppboð á Hótel Sögu
Listmunauppboð Gallerís Foldar fór fram á Hótel Sögu í gær, sunnudag. Rúmlega eitt hundrað listverk voru boðin upp og fóru þau flest á góðu verði. Verk eftir Svavar Guðnson og Þorvald Skúlason voru seld á rúmlega tvær milljónir og verk eftir Ásgrím Jónsson og Gunnlaug Blöndal fóru á rúmlega eina milljón fyrir utan uppboðsgjöld sem leggst á verðið.
Listmunauppboð eru svolítill viðburður í sjálfu sér. Fjölmargir gestir, um það bil 250 á þessu uppboði, mæta í Súlnasal en mun fleiri koma á forsýninguna og skoða verkin. Forsýningin stendur yfir í þrjá daga fyrir uppboðið og fer fram í Galleríi Fold við Rauðarárstíg. Þeir sem komast ekki á uppboðið leggja þá inn forboð í þau verk sem áhugi er fyrir eða biðja um að hringt sé í sig frá uppboðsstað. Á hverju uppboði eru fimm starfsmenn sem sinna þessum forboðum og símaboðum.
Næsta listmunauppboð Gallerís Foldar verður haldið sunnudaginn 3. desember.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2006 | 13:56
Rætur - sýning Soffíu Sæmundsdóttur

Sýningin stendur til 22. október.
Soffía Sæmundsdóttir
Soffía er með MFA gráðu frá Mills College í Oakland í Bandaríkjunum. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1991 úr grafíkdeild og árið 1985 var hún við nám í Kunstschule í Vín í Austurríki.
Hún hefur haldið margar einkasýningar hér á landi en hún hefur einnig haldið sýningar í Noregi og Belgíu. Þetta er fjórða sýning hennar í Galleríi Fold.
Þá hefur hún einnig tekið þátt í samsýninginum á Íslandi og víða um heim, s.s. Strassbourg, Barcelona, London, New York, San Francisco og Washington.
Soffía hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og má þar nefna að verk eftir hana var valið á sýninguna Global Women Project í New York í Bandaríkjunum. Einnig var Soffía vinningshafi í alþjóðlegri málverkasamkeppni Winsor and Newton í Svíþjóð árið 2000. Árið 2002 hlaut hún Murphy Cadogan verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur. Soffía hlaut hin virtu Joan Mitchell verðlaunin árið 2004 fyrir framúrskarandi árangur og 2005 hlaut hún styrk úr Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.
15.10.2006 | 12:01
Gott verð fyrir Jón Stefánsson
Verk eftir Jón Stefánsson var selt á uppboðsvefnum Lauritz.com á um það bil 4,8 milljónir króna með álögðum gjöldum. Verkið sem er málað 1913 og merkt Jón Stefánsson var slegið á 320.000 danskar krónur en á það leggst 25% uppboðs- og höfundarréttargjald.
Þetta er líklega hæsta verði sem greitt hefur verið fyrir verk eftir Jón Stefánsson en tvö verk eftir hann verða boðin upp á listmunauppboði Gallerís Foldar næst komandi sunnudagskvöld í Súlnasal Hótel Sögu.
15.10.2006 | 10:27
Íslensku barnabókaverðlaunin 2006
Íslensku barnabókaverðlaunin 2006 voru afhent við hátíðlega athöfn í Ingunnarskóla 27. september.
Barnabókaverðlaunin eru 20 ára í ár og í tilefni af því voru veitt verðlaun fyrir tvær bækur, SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson og HÁSKI OG HUNDAKJÖT eftir Héðinn Svarfdal Björnsson.
Dómnefnd Íslensku barnabókaverðlaunanna var sammála um að handritin bæru af öðrum sem send voru inn í keppnina og í áliti hennar segir meðal annars:
"Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar er nýstárleg bók þar sem brugðið er á leik með gömul ævintýraminni í skemmtilegu samspili mynda og texta. Heildarsvipur verksins ber vott um gott samstarf höfundanna tveggja, frumleika og fagmennsku."
Í umsögn dómnefndar um seinni bókina segir:
"Háski og hundakjöt er trúverðug samtímasaga sem lýsir upplifun íslensks unglings á framandi aðstæðum á raunsæjan og skemmtilegan hátt. Sagan fer með lesandann í spennandi ævintýri til Kína og skilur hann eftir fróðari en áður um lífið í fjölmennasta ríki heims."
SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR fjallar um undurfagra og ljúfa prinsessa í fjarlægu konungsríki. Hér er þó ekki um að ræða vanalegt ævintýri. Í þessari frumlegu bók er hefðbundnum söguþræði snúið á hvolf með óviðjafnanlegu samspili mynda og texta svo úr verður eitthvað alveg nýtt.
Halldór Baldursson er höfundur mynda í fjölmörgum barnabókum en hann er einnig þekktur fyrir skopmyndir sínar sem birst hafa í ýmsum blöðum og tímaritum. Meðal bóka hans eru Marta smarta, Sögurnar um Evu Klöru, Djúpríkið, Dýr og bækurnar um Fíusól.
Margrét Tryggvadóttir hefur áður sent frá sér bókina Skoðum myndlist auk þess sem hún hefur fjallað fræðilega um barna- og unglingabækur.
HÁSKI OG HUNDAKJÖT fjallar um Aron Björn sem þiggur boð um að fara með pabba sínum í vinnuferð til Kína og lendir í miklum ævintýrum. Kínversku borgirnar eru yfirþyrmandi stórar, fljótin breið og mannmergðin mikil - svo ekki sé talað um matinn sem er býsna frábrugðinn því sem Aron er vanur að heiman. Af óviðráðanlegum ástæðum þarf pabbi hans að vinna meira en hann átti von á svo Aron kannar borgina Zhaoqing einn síns liðs, þangað til hann kynninst Ling sem gerist leiðsögumaður hans og vinkona. Og þá hefjast ævintýrin fyrir alvöru ...
Héðinn Svarfdal Björnsson er félagsvísindamaður að mennt og er Háski og hundakjöt fyrsta bók hans.
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2006 | 10:26
Art Copenhagen 2006 kaupstefnan
Art Copenhagen 2006 kaupstefnan var haldin í Kaupmannahöfn helgina 22. til 24. september í Forum sýningarhöllinni í Frederiksberg. Þetta er í annað sinn sem sýningin er opin fyrir gallerí frá allri Skandinavíu undir merkjum The Nordic Art Fair.
Að þessu sinni tóku 64 gallerí þátt og sýndu verk nokkur hundruð listamanna, þar á meðal nokkurra íslenska eins og Sossu, Birgis Andréssonar, Ólafs Elíassonar og Svavars Guðnasonar. Dagskrá sýningarinnar var þétt skipuð fróðlegum viðtölum sem fram fóru á Listakaffinu svokallaða sem voru send beint út í útvarpi og sjónvarpi. Einnig bauðst gestum, sem að þessu sinni voru um tólf þúsund, leiðsögn um sýningarsvæðið og skipti þá engu hvort gestirnir höfðu nýlega fengið áhuga á listum eða með margra ára reynslu.
Galleríin bjóða gestum upp á allt frá nýrri list til eldri hefðbundinna landslagsverka og málverka Cobra málara eins og Cornille, Karen Appel, Svavars Guðnasonar og Asgeir Jorn. Málverkið var sá miðill sem galleríin héldu mest frammi en einnig var nokkuð af ljósmyndum og keramikskúlptúrum. Skrifari sá einungis tvö myndbandsverk en nokkrar innsetningar.
Verð listaverkanna var allt frá því að vera nokkur þúsund upp í nokkrar milljóna íslenskra króna eins og gangverðið er t.d. á verkum Cobra-málaranna. Verð á ljósmyndum vakti sérstaka athygli skrifara og þá sérstaklega verkið Bono Bath" eftir ljósmyndarann Anton Corbijn en það var boðið á 70.000,- sænskar krónur sem jafngildir rúmlega 660.000,- íslenskum krónum eins og gengið er um þessar mundir. Slíkt er nær óhugsandi að fá fyrir ljósmynd á Íslandi.
Góð sala virtist vera hjá flestum galleríum sem tóku þátt í sýningunni og sérstaklega ánægjulegt að sjá að allir stærstu bankarnir í Danmörku og fjölmörg stór fyrirtæki styðja við listalífið með því að kaupa verk á sýningunni. Sérstaka athygli vakti hjá skrifara að A.P. Möller keypti verk eftir Sossu en hann er eins og margir vita með stærstu listaverkakaupendum Danmerkur. Sagt hefur verið að hann kaupi þrjú hundruð listaverk í hvert skipa sinna og mættu íslensk fyrirtæki taka slíkt til fyrirmyndar.
Mikil gróska virðist vera í listalífinu í Kaupmannahöfn og mikið fjallað um myndlist í fjölmiðlum þar. Ekki færri en þrjú sérblöð og tímarit um myndlist koma þar út reglulega; Kunstavisen sem kemur út mánaðarlega um alla Danmörku, Magasinet Kunst sem fjallar um samtímalist, bæði danska og alþjóðlega og síðan tímaritið Wonderland sem fjallar um unga listamenn og hönnuði og er dreift ókeypis í Kaupmannahöfn. Því miður hefur regluleg útgáfa á tímaritum og blöðum sem fjalla eingöngu um myndlist ekki átt upp á pallborðið hjá útgefendum hér á landi og er þar kannski smæð íslenska markaðarins um að kenna. Þetta er að mati skrifara vanmat á myndlistaráhuga landans sem sést best á því að öll myndlistarnámskeið eru yfirfull, sýningar og uppboð vel sótt og ekki má gleyma því að hátt í eitthundrað þúsund hópast í miðborgina á Menningarnótt ár hvert.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2006 | 10:21
Skólinn byrjaður - rekstrarhagfræði - auglýsingar tannlækna
Nú er haustið komið og allri komnir aftur í skólann, líka ég.
Fyrsti kúrs er rekstrarhagfræði, aldeilis ágætt fag.
Námið er uppbyggt af fyrirlestrum, vinnuhelgum og mikilli verkefnavinnu, hópverkefni, paraverkefni og einstaklingsverkefni.
Það verkefni sem stóð upp úr í þessum kúrs var stutt skýrsla um áhrif þess að leyfa tannlæknum að auglýsa þjónustu sína. Þetta var hópverkefni sem ég vann með Áslaugu Heiðarsdóttur, Fjólu Kristinsdóttur, Helga Bogasyni, Jóni Fannari Guðmundssyni og Vali Finnssyni.
Niðurstaðan okkar var sú að það yrði til hagsbóta fyrir alla að leyfa tannlæknum að auglýsa þó sérstaklega kæmi það neytendum til góða.
Hér fyrir neðan er inngangur að skýrslunni:
Það er vandséð að hægt sé að komast í gegn um heilan dag án þess að verða fyrir einhvers konar áreiti af auglýsingum. Magnið af auglýsingur er slíkt að fólk á förnum vegi tekur ekki eftir þeim, alla vega ekki meðvitað. Tannlæknaþjónusta á Íslandi býr við þau sérstöku skilyrði að vera á samkeppnismarkaði en mega lögum samkvæmt ekki auglýsa. Í þessari grein leitumst við eftir að svara þeim spurningum hvort það sé hagkvæmt fyrir heildina að leyfa tannlæknum að auglýsa. Hvaða áhrif hafa þessar auglýsingar á efnahagslega afkomu okkar neytenda? Erum við sem neytendur að greiða fyrir auglýsingarnar í gegn um hærra vöruverð og eykst eða minnkar neytendaábatinn ef auglýsingar tannlækna yrðu leyfðar? Hver er samkeppnisstaða tannlækna ef auglýsingar yrðu leyfðar?
Niðurstaða okkar er sú að leyfa ætti tannlæknum að auglýsa, enda eru þeir að keppa um viðskiptavini. Slíkt myndi auka samkeppni þeirra á milli og auka neytandaábata auk þess sem verð myndi lækka og gæði þjónustunnar aukast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2006 | 10:06
Er hægt að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka?
Hluti af náminu á Bifröst er að vinna í lok hvers misseris umfangsmikið verkefni, svokallað misserisverkefni, í tengslum við aðila í atvinnulífinu, til að hagnýta þá þekkingu og þjálfun sem nemendur hafa öðlast í námi sínu.
Misserisverkefni er sjálfstætt hópverkefni og ákveður hver nemendahópur viðfangsefni sitt.
Nú í sumar (2006) vann ég ásamt fjórum öðrum nemendum, Áslaugu Heiðarsdóttur, Fjólu Kristinsdóttur, Ólafíu B. Ásbjörnsdóttur og Svandísi Ragnarsdóttur gríðarlega viðamkið verkefni.
Í verkefninu skoðuðum við hvort hægt væri að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka út frá uppboðum á Íslandi. Vinnan við verkefnið hófst í apríl stóð yfir samfellt til lok júní en hún fólst aðallega í því að taka saman og rannsaka gögn um uppboð á Íslandi allt frá árinu 1953 þegar fyrsta listmunauppboðið var haldið í þeirri mynd sem þau eru í dag.
Til þess að reikna út vísitölu sleginna verka á uppboðum settum við saman gagnagrunn unnin upp úr þessum uppboðsgögnum en slíkt hefur aldrei áður verið gert á Íslandi.
Hér fyrir neðan er inngangur að skýrslunni:
Viðfangsefni þessarar skýrslu er að skoða hvort hægt sé að búa til listaverkaverðvísitölu út frá uppboðsskrám. Skoðað er hvort þessar skrár séu áreiðanlegar heimildir. Hvort uppboð endurspegli verð myndlistar og annarra listaverka á markaðnum hér á landi og hvort hægt er að bera þessa vísitölu saman við aðrar með fræðilegum hætti.
Leitast verður við að svara rannsóknarspurningunni:
Er hægt að búa til verðvísitölu íslenskra listaverka?"
Ennfremur voru eftirfarandi markmið sett við vinnslu verkefnisins:
Að skoða íslenskan uppboðsmarkað myndlistar með það í huga að safna marktækum gögnum.
Að skýrsluhöfundar tileinki sér á sem raunhæfastan hátt námsefnið í upplýsingatækni og tölfræði og auki þekkingu sína í þeim fræðum.
Að öðlast þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum með öflun, meðferð og úrvinnslu heimilda.
Skýrslan er byggð upp á þann hátt að byrjað er að fjalla um þá aðferðafræði sem var notuð við vinnslu skýrslunnar. Þar á eftir er fjallað um vísitölur og því næst sögu og framkvæmd uppboða. Næst er á fræðilegan hátt fjallað um listaverkamarkaðinn. Í framhaldi af því verður fræðileg umfjöllun sett fram og niðurstöður kynntar.
Höfundar telja það annmarka á skýrslunni að frumheimildir eru ekki eins skráðar og ekki tæmandi. Óvissa ríkir um umfang fölsunarmálsins, íslensk myndlistarsaga er ung og hefð fyrir uppboðum lítil.
Skýrslan er afmörkuð á þann hátt að höfundar notuðu eingöngu uppboðsgögn frá árunum 1985 til 2005 þar sem frumrit uppboðsskráa frá því tímabili eru hvað marktækastar. Ákveðið var að skrá ekki uppboð í gagnabankann sem haldin hafa verið til styrktar góðgerðarmálum. Uppboðsgögn eru ekki tæmandi gögn fyrir myndlistarmarkaðinn. Einnig afmörkuðu höfundar sig við einfaldan meðaltalsvísitöluútreikning.
Uppboðskrárnar sem skýrsluhöfundar unnu upp úr voru í flestum tilfellum frumrit og fengnar hjá Galleríi Fold, Braga Guðlaugssyni listaverkasafnara, Seðlabanka Íslands, Guðmundi Þorkelssyni listaverkasafnara, Listasafni Íslands og fleirum.
Fjöldi skráðra verka sem notuð eru til útreikninga listaverkaverðvísitölunnar eru 11295 og eru höfundar þeirra 966.
Áhugavert og fræðandi er að sjá að hvaða listamenn eru eftirsóknaverðastir miðað við seld verk og verð. Spurning sem vakti áhuga skýrsluhöfunda var hvort verk frumherja íslenskrar myndlistar væru jafn verðmæt og almennt er talið? Þá er þáttur stóra málverkafölsunarmálsins fyrirferðamikill og athyglisvert að skoða hvaða áhrif hann hefur á útreikningana. Það sem vekur einna mesta athygli skýrsluhöfunda er sú upphæð sem liggur í verslun með listaverk á uppboðum á þessu tímabili, upphæðin er kr. 1.372.873.152,-.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)