Menningarmiðstöðin IKEA

ikeaÁ laugardagskvöldum er gott að skella sér í bæjarferð með vinum og vandamönnum. Setjast niður í sofa í rólegheitum og ræða málefni nýliðinnar viku. Rekast á gamla vini eða frænku sem maður hitti síðast í fermingarveislu annars enn fjarskyldari frænda. Þetta gera Íslendingar mikið og halda mætti að hinir fjölmörgu veitingarstaðir miðbæjarins væru hentugir staðir fyrir slíka endurfundi. Nei ekki aldeilis. Íslendingar hittast í verlsunarmiðstöðum og helst þar sem útsala er í gangi.

Í gærkveldi var haldin rýmingarsala á sýningarvörum IKEA í Holtagörðum, starfsfólk og vinir þess og ættingar fengu aðgang að húsnæðinu klukkan átta eftir kvöldmat og þá byrjaði ballið. Hjarðir kaupóðs almúgans hlupu inn í IKEA til að tryggja sér bestu bitana. Innan skamms hafði myndast röð frá afgreiðslukössunum langt inn fyrir miðja búð. Fólk með pallettutjakka hlóð kommóðum, sófasettum og skrifborðum hvert ofan á annað eins og það myndi aldrei aftur fá tækifæri til innkaupa. Skyndilega þurftu allir að endurinnrétta heimili sín. Sendibílar biðu í röðum og einn þeirra tjáði mér að hann væri búinn að fara fimm ferðir með fullann bíl.

Já gott fólk, ég viðurkenni að hafa verið einn af þessum sem sóttu menningarmiðstöðinna IKEA á laugardagskvöldi og hreinsað út bílfarm af húsgögnum. Þarna hitti ég fleiri vini og ættinga en ég hef hitt síðast liðna mánuði.

Nú bíð ég bara eftir næstu jólasamkomu í Kringlunni til að geta afhent jólakortin vinum og ættingjum en þangað til gleðilega innkaupaferð.


Ýmislegt um að vera um helgina

einar_galleri_fold_bw2Myndlistaráhugamenn ættu að geta fundið ýmislegt við sitt hæfi um helgina og ekki úr vegi að nýta hið góða veður sem prýðir höfuðborgina í dag til þess að rölta á milli sýninga.

Takið fram gönguskóna og byrjið á Kjarvalsstöðum þar sem hægt er að sjá einkasýningu Þórdísar Aðalsteinsdóttur, Skoðum myndlist sem er sýningarröð sem sérstaklega er sett upp fyrir börn og að sjálfsögðu úrval verka úr safnaeigninni.

Síðan er stefnan tekin niður í bæ og næst komið við í Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Þar opnar Einar Hákonarson sýningu sem hann kallar Málverk kl. 15. Boðið er upp á veitingar við opnunina. Því næst er hægt að ganga niður Laugaveginn og koma við á Safni sem er við Laugaveg 37. Þar er hægt að sjá gjörninga í tilefni af Sequences hátíðinni.

Ef haldið er áfram niður í bæ er hægt að sjá Nýja málverkið í Listasafni Íslands en þar eru á annað hundrað listaverk eftir 56 listamenn. Þaðan er ágætt að taka stefnuna í Ráðhús Reykjavíkur og sjá Handverk og hönnun sem er sölusýning á íslensku handverki og listiðnaði.

Að lokum er fínt að enda í Hafnarhúsinu og skoða Erró sýningu og fá sér kaffi og köku á kaffistofu safnsins þar sem hægt er að njóta útsýnis yfir Reykjavíkurhöfn.


Höfundarréttargjald - hæstu gjöldin eru á Íslandi

Þórarinn B. ÞorlákssonÍslenska ríkisstjórnin leggur enn og aftur hæstu mögulegu skatta á þegna sína. Í þetta sinn eru álögurnar lagðar á kaupendur og seljendur listaverka í formi höfundarréttargjalds.

Lögin sem tóku gildi 1. júlí eru samevrópsk og eru til þess ætluð að vernda höfundarrétt listmálara kveða á um að allir sem kaupa listaverk skulu greiða höfundi gjald sem leggst ofan á kaupverðið. Þar sem lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn ræður ríkjum lendir þetta gjald samt ekki bara á kaupandanum heldur líka á seljandanum og má því færa rök fyrir því að um hreina eignaupptöku sé að ræða.

Ríkisstjórnin hafði góðan tíma til þess að undirbúa þessi lög og fékk nokkurt svigrúm til þess að aðlaga þau að íslenskum aðstæðum. Gjaldið er reiknað í þrepum þannig að hæsta gjaldið í prósentum er greitt af verkum sem kosta minna en 3000 evrur og síðan fer það stiglækkandi eftir því sem verðið hækkar. Svigrúmið sem ríkisstjórnin (réttara sagt menntamálaráðuneytið) hafði fyrir þau verk sem kosta minna en 3000 evrur var frá 4% til 10% og að sjálfögðu kaus Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra að hafa þetta 10% á Íslandi. Alls staðar annars staðar er þetta gjald einungis 4 til 5 prósent, t.d. er það 5% í Danmörku og Svíþjóð, 4% í Frakklandi og Bretlandi og einungis 3% í Noregi.

Það sem gerir þetta sérstaklega slæmt á íslenskum myndlistarmarkaði er tvennt. Annars vegar eru flest verk sem seld eru á Íslandi ódýrari en 3000 evrur og falla því í hæsta flokkinn, 10%. Hins vegar eru standa margir seljendur listaverkanna frammi fyrir þeirri staðreynd að eiga ekki mikinn lífeyrissjóð og horfa því til þess að geta selt eitt og eitt verk til þess að drýgja tekjur sínar. Þessi hópur fólks fær minna fyrir verkin sín núna en það hefi ella gert.

Gjaldið á að miklum hluta að renna til höfunda eða erfinga þeirra. Í greinagerð sem lögð var fram við undirbúning laganna kemur fram að einungis 15% innheimts gjald renni til listamanna en 85% til erfingja þeirra og ástæðan sú að lítið kemur í endursölu eftir núlifandi listamenn. Því er með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin þurfi að vernda þessa einstaklinga svo ríkulega sem hún gerir með þessum nýju lögum.

Nánar er hægt að lesa um útfærslu höfundarréttargjalds hér.


Ný verk eftir Tryggva Ólafsson

Tryggvi ÓlafssonListmálarinn Tryggvi Ólafsson er landsmönnum af góðu kunnur. Hann hefur verið búsettur og unnið að list sinni í Danmörku síðast liðin 40 ár en hefur alltaf haldið tryggð við sitt heimaland. Það hefur hann gert með því að halda sýningar á Íslandi annað hvert ár. Tryggvi er frá Norðfirði og þar er fólk stolt af sínum besta son á sviði lista og hefur opnað glæsilegt safn, Tryggvasafn.

Tryggvi er væntanlegur til Íslands nú í nóvember og mun koma með ný verk með sér, hvort tveggja akrýl málverk og ný þrykk sem hann vann nú í október. Verkin verða til sölu í Galleríi Fold.

Tryggvi Ólafsson er fæddur á Neskaupsstað árið 1940. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1960-1961 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1961-1966.

Tryggvi hefur búið í Danmörku s.l. 40 ár eins og áður hefur komið fram. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar bæði á Íslandi og í Danmörku og hefur einnig tekið þátt í fjöldamörgum samsýningum.á Íslandi, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi og Englandi.

Tryggvi hefur skreytt byggingar á Íslandi og í Danmörku og eru verk hans í eigu 12 listasafna á Norðurlöndunum.

Tryggvi varð fyrir sterkum áhrifum frá tækni og táknmáli popplistarinnar. Hann notaði snemma stíl frétta ljósmynda og teiknimyndasagna til að koma boðskap sínum á framfæri og þróaði flatarkennt en fígúratívt málverk með hjálp myndvarpstækni. Í verkum hans blandaðist í nokkuð jöfnum skömmtum persónulegur reynsluheimur og áhrif frá umhverfi og umheimi, einkum heimsmálum. Málverk Tryggva hafa oft verið vakningar bæði í pólitískum og húmanískum skilningi. Með tímanum hvarf Tryggvi frá vélrænni og ópersónulegri tækni popplistarinnar og tileinkaði sér næmari og ljóðrænni vinnubrögð, án þess að hverfa frá flatarkenndum og hlutbundnum tjáningarmáta. Á síðar árum hefur myndmál Tryggva einfaldast. Það einkennist af hreinum afmörkuðum litarflötum og formum sem rekja má til margvíslegra hluta í umhverfi okkar, fortíð og samtíð, þar sem hlutirnir fá nýja merkingu í nýju samhengi.


Einar Hákonarson sýnir í Galleríi Fold

einar_galleri_fold_bw2Laugardaginn 28. október kl. 15.00 opnar Einar Hákonarson málverkasýningu í Baksal Gallerís Foldar við Rauðarárstíg. Sýninguna nefnir listamaðurinn „Málverk".

Sýningin stendur til 12. nóvember.

Opið er í Galleríi Fold daglega frá kl. 10.00 til 18.00, laugardaga frá kl. 11.00 til 16.00 og sunnudaga frá kl. 14.00 til 16.00.

 

Einar Hákonarson

Einar Hákonarson er fæddur í Reykjavík 1945 og hefur starfað sem listmálari í yfir fjörutíu ár. Hann er fyrrum skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands, forstöðumaður Kjarvalstaða og eigandi Listaskálans í Hveragerði. Einar hefur verið einn ötulasti vörður íslenska málverksins þar sem hart hefur verið að því sótt úr ýmsum áttum hin síðari ár.

Einar kom ungur fram á sjónarsviðið. Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og svo Valand listaháskólanum í Gautaborg kom hann heim með myndlistarverðlaun Norðurlandaráðs og alþjóðleg grafíklistaverðlaun frá Júgóslavíu.

Einar hélt sínu fyrstu einkasýningu í Bogasalnum 1967 og kom með manneskjuna aftur í íslenska málverkið þar sem abstrakt listin réð ríkjum. Síðan hefur Einar ávalt verið stefnufastur í listsköpun sinni, þar sem manneskjan er yfirleitt í fyrirrúmi í ýmiskonar expressionísku umhverfi þó losnað hafi um form og liti hin síðari ár.

Sýningin nú er rökrétt framhald af Tjaldsýningu Einars í Hljómskálanum á síðasta ári.


Draumur Picasso verður martröð milljarðamærings

Hjónin Steve og Elain Wynn ákváðu um daginn að selja eitt af sínum frægustu listaverkum, Drauminn eftir Picasso. Það hefur vakið nokkra athygli að Steve Wynn skyldi selja verkið sem er eitt af frægari verkum Picasso og hékk lengi á hóteli hans í Las Vegas, The Bellagio. Talið var að þetta væri eitt af hans uppáhalds verkum.

Verkið var selt fyrir metfé eða 139 milljónir dollara á uppboði en rétt eftir kaupin rak Steve olnbogann í gegn um verkið og skemmdi það. Kaupandinn, Steven Cohen frá Connecticut, hætti snögglega við kaupin en þetta er hæsta verð sem Cohen hefur nokkru sinni greitt fyrir listaverk þrátt fyrir að vera mikll safnari.

Verðið sem boðið var í verkið er 4 milljónum dollara meira en Ronald Lauder greiddi fyrir verk eftir Klimt og fréttir voru fluttar af um heim allan.


Infernal Affairs - Mou gaan dou

ia5Infernal Affairs eða Mou gaan dou eins og hún heitir á frummálinu er mynd sem kemur á óvart.

Ég greip hana með sem fríspólu þegar ég leigði The Da Vinci code um helgina og gerði mér ekki neinar sérstakar væntingar til hennar. Varð reyndar fyrir jafn miklum vonbrigðum með sögu Dan Brown eins og ég varð undrandi á gæðum hinnar kínversku ræmu leikstjóranna Wai Keung Lau og Siu Fai Mak.

Sagan fjallar um langvinnar deilur lögreglunnar og glæpagengja í Hong Kong. Chan er leynilögregla sem hefur smyglað sér í innsta hring glæpagengis. Hann hefur unnið í svo mörg ár í þessari leynilegu aðgerð að aðeins einn maður innan lögreglunar veit hver hann er í raun og veru. Á sama tíma hefur einn af glæpagenginu, Lau sem leikinn er af Lau Kin Ming, unnið sig upp innan lögreglunnar. Báðir aðilar gera sér grein fyrir því að svikari er á meðal þeirra og upp úr því hefst mikil barátta til að uppræta hann.

Infernal Affairs er gerð 2002 en árið 2003 komu út Infernal Affairs II og Infernal Affairs III sem mig hlakkar til að sjá enda bauð fyrsta myndin upp á góðan söguþráð og fína spennu.

ia1  ia2  ia3  ia4


Listamaðurinn Louisa Matthíasdóttir

Louisa Matthíasdóttir

Louisa Matthíasdóttir
Fædd 20. febrúar 1917

Verk eftir Louisu Matthíasdóttur (Frá Reykjavíkurhöfn) verður boðið upp hjá Christies í London 31. október n.k. og er metið á um það bil 3,8 milljónir króna.

Louisa Matthíasdóttir er dóttir Matthíasar Einarssonar yfirlæknis og Ellenar Johannessen.

Louisa stundaði teikninám hjá Tryggva Magnússyni, en 1934, þá 17 ára fór hún til Danmerkur og nam næstu árin auglýsingateikningu og listhönnun við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn.

Louisa kom heim til Íslands 1937, en árið eftir fór hún til Parísar þar sem hún stundaði nám í einkaskóla í Maison Watteau undir leiðsögn Marcel Gromaire. Í byrjun stríðsins kom Louisa heim og næstu misserin vann hún á Íslandi.

Árið 1942 fór hún síðan til New York þar sem hún stundaði nám við Art Students League og síðar í einkaskóla Hans Hoffmanns í Greenwich Village. Louisa settist að í Bandaríkjunum og árið 1944 giftist hún bandaríska listmálaranum Leland Bell.

Fyrstu einkasýningu sína hélt Louisa í New York 1948. Hingað til hafa aðeins verið haldnar þrjár einkasýningar á verkum Louisu Matthíasdóttur á Íslandi, fyrst árið 1987, en hún hefur einnig tekið þátt í sex samsýningum hérlendis.

 


Færeyski listamaðurinn Hans Hansen

Hans Hansen (1920-1970) málari frá Mikladali í Færeyjum stundaði nám í Kaupmannahöfn frá 1949Hans Hansen til 1957. Hann fór einnig í nokkrar námsferðir, þar á meðal til Íslands 1943 og 1944, til Parísar 1958 með Ingálvi av Reyni og til Ítalíu 1952.

Hans hélt margar sýninga í Færeyjum en einnig í Listasafni Íslands 1961 og í Edinborg 1971 en einnig tók hann þátt í fjölda samsýninga meðal annars með Ingálvi av Reyni og Jóannes Kristiansen 1962.

Auk þess að mála hefbundin málverk hefur Hans málað veggskreytingar og verk hans hafa verið valin á frímerki í Færeyjum

 

 

hans_hansen_1_thhans_hansen_2_th
Úr HavnForeldrar listamannsins

hans_hansen_3_thhans_hansen_4_thHans Hansen
Ólavur í ÚtistovuPollurinSjálfsmynd


Vinnuhelgi á Bifröst

Nú er enn einu sinni komið að vinnuhelgi upp á Bifröst.

Markaðsfræði á föstudegi og siðfræði á laugardegi.
Markaðsfræðin var ansi skemmtileg og við skoðuðum margar skemmtilegar auglýsingar og fórum yfir auglýsingaherferð Glitnis (skoða auglýsingar) sem nú er verið að keyra í sjónvarpi. Í lokin unnum við síðan verkefni sem fólst í því að koma með tillögu að auglýsingum að nýjum Renault Twingo sem verður frumsýndur næsta vor en hann er vægast sagt framúrstefnulegur (skoða myndir af bílnum).

Hér eru nokkrar skemmtilegar auglýsingar:

Toyota (Human Touch): http://paultan.org/archives/2006/06/05/toyota-human-touch-advertisement/
Pulp Fiction: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18551.htm
The Shining: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18552.htm
The Exorcist: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18553.htm
Titanic: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18554.htm

Síðan er þessi hér frá Honda ótrúlega góð, það þurfti að taka hana upp 660 sinnum til þess að hún tækist:
http://www.everyvideogame.com/index.php?module=pnFlashGames&func=display&id=302&cid

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband