17.12.2006 | 23:51
Barist um Listasafn Íslands
Ólafur Kvaran safnstjóri Listasafns Íslands lætur nú senn af störfum því safnstjóri má einungis starfa í tvö fimm ára tímabil samkvæmt lögum um safnið. Það er menntamálaráðherra sem skipar safnstjóra eftir að starfið er auglýst og skal viðkomandi hafa sérfræðilega menntun og staðgóða þekkingu á myndlist og rekstri listasafna.
Ég tel að nú ætti að breyta um stefnu í safninu og ráða til starfans einstakling sem hefur góða þekkingu á rekstri, einstakling úr viðskiptalífinu. Það er nauðsynlegt að koma á enn frekari tengingu safnsins við viðskiptalífð og láta rekstur þess í hendur sérfræðinga á því sviði. Einstaklingur með menntun og reynslu á sviði viðskipta eða lögfræði væri tilvalinn í þetta starf. Það er hægt að finna einstaklinga með slíkan bakgrunn sem hafa staðgóða þekkingu á myndlist. Nú koma efalaust upp raddir sem segja að nauðsynlegt sé að ráða einstakling með einhvers konar menntun á sviði lista eða listasögu. Það tel ég ekki vera nauðsyn því nýr safnstjóri gæti ráðið slíka sérfræðing til safnsins.
Listsögufræðingar hafa sótt í störf safnstjóra og slíkt verður væntanlega raunin núna. Þeir umsækjendur sem orðaðir hafa verið við starfið eru Dr. Halldór B. Runólfsson listsögufræðingur og Guðbjörg Kristjánsdóttir safnsstjóri Gerðasafns í Kópavogi. Þau eru örugglega bæði ágætlega hæf til starfans en ég tel að betur færi ef ráðinn yrði aðili sem staðið hefur utan við myndlistarheiminn og kæmi óháður og óbundinn til starfans. Viðkomandi gæti rekið safnið án þess að þurfa að berjast við tryggðarbönd og myndað nýja innkaupastefnu sem ekki tekur mið af vinagreiðum eins og því miður hefur tíðkast um of í þessum geira.
13.12.2006 | 15:51
Saumaklúbburinn á Húsavík dó úr fínheitum
Sjálfstæðisflokkurinn er eins og höfuðlaus her þegar kemur að menningarmálum. Þessi mikilvægi málaflokkur er alltaf svolítið út á kantinum og svo virðist sem borgarstjórnarfulltrúar flokksins hafi aldrei tekið ákvörðun eða eru haldnir alvarlegum valkvíða þegar um hann er fjallað. Gæti kannski verið að þeir væru ekki starfi sínu vaxnir eða eru þeir bara með of mikið á sinni könnu.
Fyrir þremur árum í "borgarstjórartíð" Stefáns Jóns Hafsteins var sett á fót merkilegt fyrirbæri sem heitir Artótek. Það er staðsett í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu og hefur það hlutverk að lána almenningi listaverk eftir samtímalistafólk. Slíkt er ágætt fyrirkomulag nema að ólíkt því að leigja sér bók þá gengur leigan upp í sem greiðsla vilji viðkomandi eiga verkið. Þetta er er að sjálfsögðu í andstöðu við samkeppnislög þar sem Reykjavíkurborg er þarna í beinni samkeppni við galleríin í borginni. Hugmyndin að þessu fyrirbæri fæddist þegar nokkrir mætir áhugamenn um myndlist reifuðu hugmynd að aðkomu Borgarinnar að lánum almenningi til handa til kaupa á samtímalist. Þarna átti að slá tvær flugur í einu höggi, lífga við myndlistarmarkaðinn og styrkja listamenn landsins.
Reykjavíkurborg sá sér leik á borði og stofnaði Artótek en þegar galleríin í borginni fóru með málið fyrir samkeppniseftirlitið var hlaupið til og komið á samstarfi á milli Borgarinnar, KB banka, listamanna og galleríanna um vaxtalaus listaverkalán. Þetta samkomulag var kallað tilraun sem átti að vara í þrjú ár eða þar til peningarnir sem Borgin lagði til verksins kláruðust. Peningarnir kláruðust snemma á þessu ári, rétt fyrir kosningar. Fráfarandi meirihluti þorði ekki á þeim tíma að framlengja samninginn og setja aukið fé í verkefnið þrátt fyrir að það skili líklega meira til Borgarinnar í útsvari en þeir lögðu til þess.
Nýr meirihluti tók við málinu eftir kosningar og tók sér nokkra mánuði til umhugsunar. Þessi langa umhugsun varð til þess að KB banki sá sér ekki fært að halda samstarfinu áfram enda farinn að kynna nýjar leiðir í sparnaði. Þetta gerðist í haust og síðan þá hefur málið velkst um hjá Borginni og enginn er tilbúinn til þess að taka ákvörðun og klára málið. Koma verkefninu aftur á laggirnar. Nú hvet ég nýjan meirihluta til þess að hysja upp um sig, reka á eftir því embættisfólki sem á að sjá um málið og keyra þetta í gegn. Laun listamanna eru í gíslingu því þetta verkefni hefur hækkað laun þeirra svo um munar.
Þegar ákveðið er að gera tilraun eins og að bjóða upp á vaxtalaus listaverkalán almenningi til hagsbóta þá býst maður við að tilraunin verði að varanlegu verkefni takist hún vel. En það er eins með þessa fínu tilraun sem tókst með eindæmum vel og saumaklúbbinn á Húsavík.
Þetta dó úr fínheitum.
10.12.2006 | 12:56
2006 í grófum dráttum - Halldór Baldursson
Halldór Baldursson teiknari hefur gefið út bókina 2006 í grófum dráttum. Þar er á ferðinni teikningar Halldórs sem birtst hafa í Blaðinu. Hárbeittar, pólitískar og fyndnar teikningar af mönnum og málefnum líðandi stundar. Halldór hefur svo sannarlega tekið við forystuhlutverki á þessu sviði og ýtt mætum mönnum eins og Sigmund og fleirum út á hliðarlínuna.
Í teikningum Halldórs fer saman mikill húmor og pólitísk ádeila, nokkuð sem aðrir teiknarar íslensku blaðanna hafa átt í erfiðleikum með að sameina. Grín Halldórs er þó alltaf með alvarlegu ívafi og það er engin slagsíða á skoðunum hans, hvorki til hægri né vinstri (ef slíkar skilgreiningar eiga þá enn við).
Að mínu mati eru tvær teikningar í bókinni sem standa upp úr. Annars vegar er það mynd sem birtist 27.9.2006 "Ómar ragnarsson, verndari hálendisins". Þar siglir Ómar um á Örkinni á meðan þreyttir landvættirnir sitja hjá íklæddir bandaríska fánanaum og segja "Hann er algjörlega ofvirkur þessi nýi". Hins vegar er það mynd frá 24.5.2005 sem gæti kallast "Fundur hjá Alþýðubandalaginu. Einhvern tímann á síðustu öld". Þar situr Herra Ólafur Ragnar Grímsson með flokksbræðrum sínum og systrum og talar um hræðilega martröð sem hann dreymdi þá um nóttina. "... Ég var orðinn forseti og var staddur á Torgi hins himneska friðar með ógeðslega, ógeðslega ríku vinum mínum. Við ætluðum að heilsa upp á verkalýðinn en þá tók ég eftir að litlu kínverjarnir voru líka ógeðslega ríkir, allir með bindi og vildu bara tala um verga þjóðarframleiðslu og opnun markaða".
Margar aðrar frábærar teikningar er að finna í bókinni og alveg víst að hver og einn getur fundið eina eða tvær sem höfðar til viðkomandi. Það má líka segja að bókin sé nokkurs konar frétta annáll síðustu missera með gaman sömu ívafi. Ég hvet alla til að rölta út í bókabúð og ná sér i eintak af bókinni sem fæst eins og segir í auglýsingu í öllum betri bókabúðum.
Halldór Baldursson hefur starfað sem teiknari frá 1989 og byrjaði að teikna fyrir Blaðið í september 2005. Hann hefur hlotið hönnunarverðlaun FÍT annað hvert ár frá 2002 og 2005 fékk hann bókaverðlaun barnanna fyrir Fíusól eftir Krístinu Helgu Gunnarsdóttur. Í ár hlaut hann Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Prinsessuna undurfögru og hugrakka prinsinn hennar eftir Margréti Tryggvadóttur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2006 | 20:48
Fálkinn slær Íslandsmet á uppboði Gallerís Foldar
Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var mikill frumkvöðull í listalífi Íslendinga. Hann var einn af fáum sem hafa notað íslenskan leir í verk sín sem framleidd voru af miklum móð á vinnustofu hans. Hann var sá fyrsti sem flutti grafíkpressu hingað til lands en hún er til sýnis í Galleríi Fold við Rauðarárstíg. Guðmundur málaði landslagsmyndir, þrykkti myndir en frægastur hefur hann orðið fyrir keramikstytturnar.
Keramik Guðmundar er til á fjölmörgum heimilum en fæstir gera sér grein fyrir því hve mikil verðmæti liggja í þessum hlutum. Verð á styttunum hefur hækkað gríðarlega á síðustu tveim árum og sem dæmi má nefna að stytta af íslenskum fálka seldist fyrir kr. 180.000,- á uppboði 2005 en á síðasta uppboði Gallerís Foldar sem haldið var 3. desember seldist hann fyrir kr. 410.000,- sem er nýtt Íslandsmet. Ofan á þessi verð leggst síðan 20% uppboðs- og höfundarréttargjald.
Nú er hægt að velta því fyrir sér hvað það er sem veldur þessari hækkun. Fyrir nokkrum árum hikaði fólk ekki við að henda þessum munum þegar tekið var til í geymslunni eða í búum foreldranna en í dag er þetta orðið að miklum verðmætum.
Kannski eru það nokkrir samverkandi þættir sem valda þessari hækkun. Ein skýringin gæti verið að Ari Trausti, sonur Guðmundar, gaf út veglega og tæmandi bók um keramikstyttur föður síns. Slíkt eykur vegsemd listamannsins og trúverðurleika. Almenningur getur lesið um munina, fundið út hvaða munir eru fágætir og hverjir eru það ekki. Tískustraumar gætu verið önnur skýring. Til marks um það má nefna að munir eftir Guðmund voru notaðir til að skreyta heimaskrifstofu í einu af glanstímaritunum sem gefin eru út hér á landi um húsbúnað og heimili. Þriðja skýringin er almenn vakning og áhugi á íslenskri hönnun og að lokum hefur kaupmáttur og velmegun verið mikil á Íslandi síðustu misseri. Líklega eru það allir þessir þættir ásamt þeirri staðreynd að fólk tengir þessar keramikstyttur við uppeldi sitt, Fálkinn, öskubakkinn eða Hrafninn stóðu á kommóðunni eða skenknum í stofunni á æskuheimilinu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 10:53
Ólafur Elíasson hannar listaverk fyrir Louis Vuitton
Franska tískuhúsið Louis Vuitton hefur fengið listamanninn Ólaf Elíasson til þess að hanna fyrir sig listaverk sem það mun sýna í gluggum verslanna sinna um jólahátíðina. Verlsanir Louis Vuitton eru rúmlega 350 talsins um allan heim og því má segja að fyrirtækið sé að taka nokkra áhættu með því að veðja á að verk Ólafs muni ekki draga úr sölu því þeir munu ekki geta stillt fram vörum í búðargluggum. Framkvæmdastjóri Louis Vuitton, Yves Carcelle, sagði við afhjúpun verksins að þetta væri líklega mesta áhætta sem fyrirtækið hafi tekið í samstarfi sínu við listamenn.
Listaverkið sem Ólafur hannaði er lampi í laginu eins og augasteinn og mun allur ágóði af sölu hans auk þóknunar listamannsins renna til góðgerðarsamtakanna 121Ethiopia sem Ólafur og kona hans Marianne Krogh Jensen stofnuðu. Fyrsta verkefni samtakanna er að byggja húsnæði fyrir munaðarlaus börn í Eþíópíu en þau hjónin hafa ættleitt tvö börn þaðan.
17.11.2006 | 12:55
Listaverk og markaður

Strax í inngangi kynningarinnar kemur fram að Pétur hafi verið sýknaður í Stóra málverkafölsunarmálinu" og er það rétt. Það sem kemur ekki fram í greininni er að fölsunarmálið var tvíþætt og Pétur ákærður í tvígang. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1999 var Pétur dæmdur til 6 mánaða fangelsisvistar sem hann afplánaði að fullu á Kvíabryggju.
Þá er einnig reynt að draga úr þeirri staðreynd að ein aðalástæða þess að Pétur og Jónas Freydal voru sýknaðir í síðara málinu var framkvæmdalegur galli á rannsókn málsins. Í dómnum segir að staða Listasafns Íslands sem eins kæranda í málinu hafi óhjákvæmilega verið talin valda því að þær sérfræðilegu álitsgerðir, sem lögregla hafði aflað hjá starfsmönnum safnsins fyrir útgáfu ákæru, gætu ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði sem vörðuðu sök ákærðu. Gilti þá einu hvort um væri að ræða verk, sem safnið hafi lagt fram kæru um, eða verk sem því væru óviðkomandi. Var ekki talið að þau sönnunargögn sem eftir stæðu, nægðu til að ákæruvaldið gæti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi. Hæstiréttur komst einnig að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hefði mátt bæta úr þessum bresti á sönnunarfærslu með því að leita eftir dómkvaðningu kunnáttumanna til að leggja mat á þau atriði sem snúa að LÍ. Aðspurður sagðist Ólafur I. Jónsson forvörður ekki skilja þessa afstöðu dómsins þar sem hann hafi verið kærandinn í málinu en ekki listasafnið. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði. Töldu þeir að dæma skyldi Pétur í 12 mánaða fangelsi og að Jónas Freydal ætti að dæma í 6 mánaða fangelsi og báðum dómum ætti að fresta að hluta haldi sakborningar almennt skilorð.
Eigendasaga listaverka var mikið í umfjölluninni þegar fölsunarmálin fóru fyrir dómara og óvenju mikið framboð listaverka eftir ákveðna höfunda. Jakob segir einnig í kynningu sinni á Pétri að ein megin röksemd ákærenda í Stóra málverkafölsunarmálinu hafi einmitt verið þessi: Ótrúlega mikið framboð, engin eigendasaga, áður óþekkt mynd." Það sem Jakob sleppir hins vegar að nefna er að skrásetning eigendasögu er ein besta forvörnin gegn fölsunum og slík skrásetning er viðhöfð hjá nánast öllum uppboðshúsum, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu. Þessi skráning er yfirleitt ekki gefin upp nema til kaupenda verkanna og þar sem íslensk myndlistarsaga er einungis rúmlega 100 ára gömul er sagan yfirleitt á þá leið að seljandinn fékk verkið frá höfundi þess eða erfði það frá foreldrum sínum sem fengu það frá höfundi. Það er ekkert óeðlilegt við slíka eigendasögu og ekkert óeðlilegt að verkið hafi ekki verið þekkt áður enda mestar líkur á því að það hafi verið stofustáss á heimili seljandans svo áratugum skiptir. Það sem er aftur á móti óeðlilegt, og Jakobi fannst ekki ástæða að nefna, er að Pétur neitaði fyrir dómi að gefa upp eigendasögu verkanna. Engar skráningar né önnur gögn sýndu fram á hvaðan Pétur fékk verkin, það var enginn eigandi að verkunum á undan Pétri.
Hið aukna magn íslenskra listaverka sem nú er að koma fram á uppboðum er ákaflega ánægjuleg þróun. Það sýnir svo ekki verði um villst að þrátt fyrir öll áföll sem málverkamarkaðurinn hefur lent í þá er hann að jafna sig. Upp úr 1998 fjölgaði verkum sem boðin voru upp á Íslandi verulega og verð verkanna hækkaði einnig. Þetta mikla framboð og háa verð hélst allt til ársins 1999 þegar dómur í fyrra fölsunarmálinu féll og Pétur var dæmdur til 6 mánaða fangelsisvistar fyrir bókhaldsbrot og að selja þrjú verk danska málarans Wilhelm Wils með rangri höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar í auðgunarskyni. Næstu ár þar á eftir rétti markaðurinn aðeins úr kútnum en dróst síðan saman aftur þegar dómur í seinna fölsunarmálinu féll árið 2004. Það þarf að fara aftur til ársins 1986 til að sjá viðlíka lækkun á íslenska uppboðsmarkaðnum. Á þessu ári hefur markaðurinn tekið stórt stökk upp á við og þar sem verðið hefur hækkað eru fleiri reiðubúnir til þess að selja góð verk eftir frumherja íslenskrar myndlistar. Þetta má lesa í skýrslu um íslenska uppboðsmarkaðinn sem nokkrir nemendur við Háskólann á Bifröst gáfu út í júní síðastliðnum.
Ljóst er að íslenskur myndlistarmarkaður verður aldrei að fullu laus við áhrif fölsunarmálsins og nauðsynlegt að allir aðilar séu á varðbergi til að koma í veg fyrir að falsanir séu seldar. Menn ættu að hafa það í huga í framtíðinni að Pétur og Jónas voru sýknaðir í seinna fölsunarmálinu af tæknilegum ástæðum og finnst mörgum að eiginleg niðurstaða hafi aldrei komið fram, hvort um falsanir hafi verið að ræða. Blaðamenn verða einnig að sýna þá ábyrgð að fjalla um málið á hlutlausan hátt og ekki sleppa þeim atriðum sem þeim finnst ekki henta sínum málstað.
Hið aukna magn íslenskra listaverka sem nú er að koma fram á uppboðum er ákaflega ánægjuleg þróun. Það sýnir svo ekki verður um villst að þrátt fyrir öll áföll sem málverkamarkaðurinn hefur lent í þá er hann að jafna sig.
16.11.2006 | 13:32
Kapitalistarnir ná Mao
Frægasti leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins Mao fellur kapitalistum í skaut. Hið fræga verk popplistamannsins Andy Warhol af Mao var selt fyrir 1,2 milljarða króna til kaupsýslumannsins Joseph Lau. Josph Lau er númer 451 á lista Forbes yfir auðugust menn heims. Hann hefur að mestu auðgast á fasteignaviðskiptum í Asíu.
Verk Warhol var hið fyrsta portrettið sem listamaðurinn gerði af pólitískum leiðtogum en hann málaði það 1972 og var í eigu Daros listasafnsins í Sviss. Ekkert annað verk hefur verið endurprentað jafn oft og verkið af Mao.
Flest allir þekkja verk Andy Warhol og þó sérstaklega portrett myndir hans af Marilyn Monroe og Jackie Kennedy. Verk eftir Andy Warhol sem eru í eigu listaverkasafnarans og persónulegs vinar listamannsins voru sýnd í Galleríi Fold við Rauðarárstíg 2003 en um það bil 10.000 manns sáu þá sýningu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2006 | 21:12
Keramiklistamaðurinn Bjarni Sigurðsson
Bjarni Sigurðsson er fæddur í Reykjavík 1965
Hann stundaði nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur 1995-96, Forskólann við Aarhus Kunstakademi 1996-97 og leirlistarnám við Aarhus Kunstakademi 1997-2000. Bjarni hefur starfað við list sína í Danmörku og tekið þátt í ýmsum sýningum þar. Hann hefur haldið eina einkakýningu hér á landi, í Hafnarborg fyrr á þessu ári.
Um verkin segir listamaðurinn: "Orðið "kakkli" er bein þýðing á danska orðinu "kakkel", sem þýðir vegg- eða gólfflís úr brenndum leir og vísar til þeirra árþúsunda gömlu hefðar mannskepnunnar að skreyta híbýli sín með litríkum steinflísum. Árhundruðum fyrir okkar tímatal sköðuðu íbúar Mesópótamíu þannig t.d. fagurlega skreyttar veggmyndir úr gljábrenndum leir. Kakklamyndir mínar má því líta á sem nútímaútfærslu á ævifornri hefð."
1.11.2006 | 21:37
Íslensk listaverk seld fyrir næstum 30 milljónir í London
Sjö listaverk eftir íslenska höfunda voru í gær (þriðjudag 31.1006) boðin upp hjá Christies uppboðshúsinu í Kings Street í London á sérstöku uppboði á verkum frá Norðurlöndunum.
Verkin seldust öll nema eitt eftir Nínu Tryggvadóttur sem var slegið inn. Heildar söluverðmæti verkanna með öllum gjöldum sem leggjast ofan á slegið verk nemur 29,6 milljónum íslenskra króna.
Verk Ólafs Elíassonar fóru öll nema eitt á meira en matsverði en verk Louisu Matthíasdóttur, Kjarvals og Nínu Tryggvadóttur náðu ekki matsverði. Verðið á verki Louisu er í takt við það sem fengist hefur hér á landi fyrir verk hennar en nokkra athygli vekur verðið á Kjarvalsmálverkinu. Það er mun hærra en fengist hefur fyrir álíka verk hér á landi í nokkurn tíma. Reyndar fékkst svipað verð fyrir Kjarvalsverk á uppboði í fyrra en það verk var mun stærra en þetta.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir íslensku verkin og söluverð þeirra. Inn í söluverðinu eru öll gjöld sem leggjast á verkin en vilji kaupandinn flytja verkið til Íslands leggst 24,5% virðisaukaskattur ofan á verðið.
Listamaður | Verk | Verðmat | Söluverð | % |
Ólafur Elíasson | Íslenska serían | 582.750 | 1.010.100 | 173% |
Ólafur Elíasson | Íslenska serían | 582.750 | 621.600 | 107% |
Ólafur Elíasson | Íslenska serían | 1.036.000 | 1.087.800 | 105% |
Louisa Matthíasdóttir | Höfnin í Reykjavík | 3.885.000 | 3.108.000 | 80% |
Jóhannes S. Kjarval | Landslag | 5.827.500 | 5.439.000 | 93% |
Ólafur Elíasson | Jöklaserían | 23.310.000 | 18.389.000 | 79% |
Nína Tryggvadóttir | Án titils | 3.237.500 | Seldist ekki | --- |
Samtals | 38.461.500 | 29.655.500 | 77% |
30.10.2006 | 20:20
Fyrirmyndarframtak Landsbankans
Landsbanki Íslands hefur í tilefni 120 ára afmælis síns og 100 ára afmælis Færeyjabanka efnt til skiptisýningar í húsakynnum bankanna.
Verk eftir þrjá höfunda voru valin úr listaverkasafni hvors banka um sig. Landsbankinn lét landslagið ráða för og valdi verk eftir Jóhannes S. Kjarval, Kristján Davíðsson og Eggert Pétursson. Allt afbragðslistamenn og verðugir fulltrúar sinnar kynslóðar. Færeyjabanki fór svipaða leið og valdi verk eftir Ingálvur av Reyni, Sámal Joensen-Mikines og Zacharias Heinesen en hann er sá eini sem er á lífi af þeim þremenningum.
Zacharias Heinesen er Íslendingum af góðu kunnur. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1958 og 1959 m.a. undir handleiðslu Sigurðar Sigurðssonar myndlistarmanns en seinna fór hann til náms í Kaupmannahöfn. Hann hefur margoft dvalið á Íslandi á austfjörðum en einnig á Húsavík og Mývatni þar sem hann hefur lagt stund á vatnslitamálun. Hann hefur farið víða í námsferðir og haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum.
Næsta sýning Zacharias á Íslandi verður í Hafnarborg á vormánuðum.
![]() | ![]() |