Algjörlega óvísindaleg könnun á vinsældum

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna íþróttir (sem ég stunda mikið, sérstaklega körfubolta) eru svona fyrirferðamiklar í prentmiðlum á meðan menning og listir eiga erfitt uppdráttar. Reyndar aukast skrifin mikið á aðventunni þegar bókaútgefendur keppast við að koma nýjustu bókunum fyrir framan neytendur.

Ég viðurkenni að það er mun meira spennandi að lesa um Ísland gera næstum jafntefli í handboltaleik en lesa gagnrýni um nýjustu sýninguna eða nýjustu bókina sem var að koma út. Líklega er það ein af skýringunum, lesendur og kaupendur auglýsinga vilja spennu. Ég sakna samt meiri umfjöllunar um listir, sérstaklega umfjöllunar um myndlist í blöðum og tímaritum.

Hin óvísindalega könnun mín á vinsældum menningar fór fram hér á síðum Moggabloggsins. Ég var að vafra um bloggflokkana og sá að fyrir aftan hvern flokk er fjöldi færsla í sviga. Það kom mér á óvart að færslur um íþróttir eru ekki nema rúmlega 1400 og það er með enska boltanum sem þó er með sérstaka sjónvarpsstöð til að koma sér á framfæri hér á landi. Menning og listir eru aftur á móti með rúmlega 2000 færslur og ef við tökum tónlistina með, rúmlega 3200 færslur, eða næstum tvöfalt meira en íþróttirnar.

Kannski eru lesendur íþróttafrétta bara svona uppteknir við áhorfið og lesturinn að þeir hafi ekki tíma til þess að skrifa um áhugamál sín, en kannski, já kannski hefur hinn almenni bloggari einfaldlega meiri áhuga á menningum og listum ýmis konar.

 


Rannsóknarsetur menningarfræða við Háskólann á Bifröst

Ágúst Einarsson rektor Háskólans Á Bifröst tillkynnti á dögunum um stofnun Rannsóknarseturs menningarfræða við háskólann. Rannsóknarsetrið á að vinna að rannsóknum á sviðum tengdum skapandi atvinnuvegum s.s. listum og menningu ýmis konar.

Ágúst Einarsson hefur um árabil fjallað mikið um hagræn áhrif menningar og verið ötull talsmaður þess að vel sé studd við bakið á ýmsum listgreinum enda skili það sér margfalt til baka til þjóðfélagsins í heild. Fram kom í fyrirlestri Ágústar hjá Bandalagi íslenskra listamanna að hinar skapandi listgreinar skili meira en "5%  til landsframleiðslunnar, fjórfalt meira en landbúnaður og mun meira en stóriðjan. Listamenn eiga um helming af þessu en allt fléttast þetta saman og við skulum ekki einangra einstakar atvinnugreinar um of. Það eru þúsundir manna sem hafa fulla atvinnu af listsköpun, við skrif, leiklist, myndlist, tónlist, kvikmyndagerð, arkitektúr, listdans og svo framvegis"

Hið nýja rannsóknarsetur mun án efa styrkja Háskólann á Bifröst í samkeppni við aðra háskóla landsins auk þess að styrkja meistarnámið í menningar- og menntastjórnun sem þar er boðið upp á.


Smölun Frjálslynda flokksins

Nú þegar kosningar í stjórn Frjálslynda flokksins eru yfirstaðnar er ágætt að spyrja sig hvað hvort hæfustu menn flokksins hafi verið valdir til starfa. Ljóst er að hinn nýji vængur flokksins sem kemur úr röðum Nýs afls vann ötullega að því að smala fólki í flokkinn í þeim tilgangi að ná þar völdum og koma í veg fyrir að Margrét Sverrisdóttir yrði kosin varaformaður.

Stuðningsmenn hvorrar fylkingar fyrir sig hafa væntanlega verið ötular við úthringingar og hvatt fólk til þess að kjósa sitt fólk. Sý fylking sem býður bestu þjónustuna og er duglegast við smölun nær völdum. Svona er fer kapphlaupið að völdum fram, það byrjar í smölun til kosninga innan flokksins.

En er í lagi að beita hvaða aðferð sem er til þess að fá atkvæði. Nú fyrir skemmstu varð allt vitlaust á Akureyri þegar frambjóðandi bauð milljóna greiðslu í flokkssjóðinn gegn því að fá ákveðið sæti á listanum. Almenningi fannst viðkomandi fara yfir strikið en hann koma samt hreinn og beinn fram, var ekkert að fela hvað hann bauð.

Hins vegar veit ég að andstæðingar Margrétar Sverrisdóttur buðust til þess að greiða félagsgjöldin í Frjálslynda flokknum gegn því að fá atkvæði. Það var ekki opinbert eða haft uppi á borðinu þegar hinn almenni félagsmaður greiddi atkvæði sitt og það finnst mér ekki sanngjarnt.

Ég spái því að Frjálslyndi flokkurinn eigi eftir klofna á einhvern hátt í framhaldi þessarra niðurstaðna og Margrét eigi eftir að færa sig yfir í annan stjórnmálaflokk.


Óþörf gjaldtaka í Kópavogi

GerdasafnAðgangseyrir inn á opinber söfn eins og Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, er algjörlega óþörf í því samfélagi sem við búum í og leiðir til ójöfnuðar auk þess að ýta undir vanþekkingu.

Það kostar að vísu ekki nema kr. 400,- inn á safnið (Gerðasafn) en fyrir stórar fjölskyldur með litlar tekjur getur þetta skipt máli og leitt til þess að fjölskyldan velur frekar að gera eitthað annað en að efla andann og auka listræna víðsýni sína.

Tekjur af aðgangseyri er óverulegur þegar kemur að heildarrekstri safna og því ættu opinberir sjóðir að geta staðið undir þeim eða söfnin gert samninga við vel stæða einkaaðila eins og Listasafn Íslands hefur gert við Björgólfsfeðga í Samson.

Í Kópavogi er því svo háttað að ákveðin hlutfallstala útsvars rennur í sjóð til reksturs menningar í bænum. Ólíkt reglum í flestum bæjarfélögum þá færist uppsöfnuð eign þessa sjóðs á milli ára og síðustu ár hefur verið afgangur af honum. Það væri því tilvlalið að nýta rekstrarafgang sjóðsins til þess að niðurgreiða aðgangseyrir Gerðasafns. Þar að auki hafa íbúum Kópavogs fjölgað gríðarlega á síðustu árum og þar með rekstrartekjur þessa menningarsjóðs.

Nú hvet ég Gunnar Birgisson og félaga hans í Kópavogi að einhenda sér í málið og afnema þessa gjaldtöku en tryggja safninu um leið tekjur á móti.


Sýningarrölt á laugardegi

Sigridur_OlafsdottirÉg fór á sýningarrölt í dag og sá þrjár sýningar.

Fyrst fór ég í Listasafn Íslands þar sem nú stendur yfir sýningin "Frelsun litarins". Sýningin kemur frá Musée des Beaux-Arts í Bordeaux í Frakklandi í tengslum við menningarhátíð sem frönsk og íslensk stjórnvöld standa að, POURQUOI PAS? - FRANSKT VOR Á ÍSLANDI. Þarna gefst ágætt tækifæri að berja frönsku fauvistana eins og Henri Matisse augum. Það er sérstaklega gaman að skoða sýningu á verkum Jóns Stefánssonar í tengslum við verk hinna frönsku. Jón var nemandi Henri Matisse á árunum 1908 til 1911. Íslensku söfnin mega gera meira af því að tengja með þessum hætti íslenka listamenn við alþjóðlega listamenn og listastefnur. Það er nú einu sinni þannig að allir frumherjar íslenskrar myndlistar fóru erlendis til náms og urðu fyrir miklum áhrifum af því sem var að gerast í Evrópu.

Næsta sýning sem ég sá var sýning Jóhanns Ludwig Torfasonar sem hann nefnir "Ný leikföng". Á sýningunni eru ný tölvugerð málverk af skálduðum leikföngum fyrir hina meðvituðu yngstu kynslóð eins og segir í fréttatilkynningu. Jóhann hefur um hríð málað hápólitísk en jafnframt mjög húmorísk málverk þar sem leikföng og dúkkur leika lykilhlutverk. Tvö verk á þessari sýningu hrifu mig sérstaklega, annars vegar verkið "Adam... og seinna Eva". Adam er dúkka og ef þú tekur úr henni rifbeinið og setur í vatn vex það í aðra dúkku, Evu. "Hreinsunareldurinn" sem er silkiþrykk vakti hins vegar sérstaka athygli mína. Þar þarf áhorfandinn að hjálpa hinum venjulega skrifstofumanni að fara í gegn um hreinsunareldinn og ómögulegt í upphafi að vita hvoru megin hann lendir, uppi eða niðri.

Síðasta sýningin sem ég fór á var sýningin Gullpenslarnir - Indigo í Listasafni Kópavogs Gerðsafni. Gullpenslarnir hafa sýnt nokkrum sinnum saman í gegn um tíðina. Það sem er nýtt í þeirra samstarfi er að nú settu þeir ákveðið þema í sýninguna. Þemað er liturinn Indigo blár. Að mínu mati er ekki nógu mikill heildarsvipur á sýningunni, þema hennar er ekki nógu skýrt í verkum listamannann og gerir sýninguna nokkuð sundurleita. Einnig var ég fyrir vonbrigðum með verk einstakra listamanna á sýningunni og þá sérstaklega verk Kristínar Gunnlaugsdóttur og Birgis Snæbjörns Birgissonar. Aftur á móti voru verk Daða Guðbjörnssonar, Eggerts Péturssonar, Sigurðar Árna Sigurðssonar og Sigríðar Ólafsdóttur sérstaklega skemmtileg.


Gullpenslarnir INDIGO

 

Listasafn Kópavogs, Gerðasafn opnar málverkasýningu Gullpensilsins, INDIGO, í Gerðasafni laugardaginn 13. janúar 2007 kl. 15.00.

Gullpenslarnir efna enn einu sinni til samsýningar og að þessu sinni í Listasafni Kópavogs, Gerðasafni.

Gullpenslarnir eru hópur listamanna sem sýnt hafa saman í nokkur ár. Þetta er fjölbreyttur hópur vel þekktra listamanna sem mynda góðan þverskurð af því sem er að gerast í málverkinu í dag.

Á sýningum Gullpenslanna hefur ekki verið ákveðið þema heldur hefur hver og einn listamaður komið með sýnar hugmyndir að borðinu.
Nú bregður þannig við að Gullpenslarnir komu sér saman um þema, INDIGO blár, og ætti það að skapa skemmtilegan heildarsvip á sýninguna.

Gullpenslarnir eru:

  • Helgi Þorgils Friðjónsson
  • Daði Guðbjörnsson
  • Eggert Pétursson
  • Ransú
  • Jóhann Torfason
  • Sigríður Ólafsdóttir
  • Kristín Gunnlaugsdóttir
  • Sigtryggur Bjarni Baldvinsson
  • Sigurður Árni Sigurðsson
  • Birgir Snæbjörn Birgisson

 

Menntamálaráðherra,
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
opnar sýninguna.

Sýningin stendur til sunnudagsins 11. febrúar 2007.


Tekist á um Kjarval

kjarvalEins og fram hefur komið hafa aðstandur Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals deilt við Reykjavíkurborg um eignarétt á teikningum og persónulegum munum listamannsins.

Ingimundur Kjarval og fleiri aðstandendur halda því fram að andlegt ástand listamannsins hafi verið slíkt að ekki var mark á takandi þegar hann gaf borginni mest allar sínar eigur. Benda þau á að Jóhannes hafi gefið borginni þessa gjöf þann 7. nóvember 1968 þá á níræðisaldri.

Líklegt er að málsaðilar muni áfrýja niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur og deilan muni hvíla sem skuggi yfir Listasafni Reykjavíkur næstu misseri. Einnig er líklegt að aðstandendur Jóhannesar muni ekki una niðurstöðunni verði hún sú sama í Hæstarétti eignaréttur borgarinnar verði staðfestur.

Óumdeilanlegt er að gjöf Kjarvals var höfðingleg en slíkar gjafir listamanna til safna og borgaryfirvalda eru vel þekkt leið til þess að skipa sér sess meðal höfuðlistamanna þjóðarinnar. Nærtækasta dæmið um slíkt í seinni tíð er gjöf Errós á þúsundum verka til Listasafns Reykjavíkur með þeirri kvöð að um safn hans yrði byggt sérstakt húsnæði. Í dag eru listaverk Errós helsta aðdráttarafl Hafnarhússins.

Ekki er víst að Jóhannes S. Kjarval hafi viljað skipa sér slíkan sess heldur hafi það verið metnaður ýmissa embættismanna ríkis og borgar sem þar hafi ráðið för. Slíkt má lesa úr þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2. mars 1945 þar sem lagt er til að byggð verði sýningaraðstaða og listamannaíbúð í tilefni 60 ára afmælis Kjarvals. Árið 1959 fer Kjarval þess á leit við yfirvöld að hætt verði við byggingu slíkrar aðstöðu og komið verði frekar upp almennri sýningaraðstöðu. Það var svo ekki fyrr en 1965 sem ákveðið var að undirlagi borgarinnar að hefja byggingu á sýningaraðstöðu fyrir myndlistarmenn sem átti að koma í stað Listamannaskálans og einnig til sýninga á verkum Kjarvals. Reisa átti þessa byggingu á Klambratúni og skyldi hún bera nafn Kjarvals.

Margir listamenn, þ.a.m. Hörður Ágústsson, voru ekki sáttir við að skipta út Listamannaskálanum og nýjum sýningarsal sem bera ætti nafn Kjarvals. Fannst þeim sem þeir þyrftu að vinna að list sinni í skugga Kjarvals. Raunin síðar varð sú að verð listaverka hafa tekið mikið mið af verði Kjarvalsverka.

Það er von skrifara að deiluaðilar nái sátt í þessu máli og sýni minningu meistara Kjarvals þá virðingu sem hann á skilið. Einnig á Listasafn Reykjavíkur að sjá sóma sinn í því að opna Kjarvalsstaði fyrir almennt sýningarhald þar sem listamenn geta sótt um sýningaraðstöðu.


mbl.is Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geymslusafn Íslands - Listasafn Íslands

LÍÍ Fréttablaðinu í dag er greint frá því að ómetanleg listaverk þjóðarinnar séu geymd í vondum geymslum eða í besta falli ófullnægjandi. Listaverk eru geymd í kompum og skotum víðs vegar um safnið og á fjórum mismunandi stöðum. Það er með öllu ólíðandi að þjóðargersemar séu geymd við þessi skilyrði því eins og nýleg dæmi hafa sannað er aldrei að vita hvenær pípur gefa sig eins og haft er eftir safnstjóranum Dr. Ólafi Kvaran.

En húsnæðisvandræði safnsins eru ekki aðeins bundin við geymslu listaverka. Sýningarsvæði safnsins er einnig af skornum skammti. Þessi skortur á sýningarsölum leiðir til þess að safnið getur ekki haft safnaeign sína til sýnis og sett upp sérsýningar á sama tíma. Þar af leiðir eru listaverk allra helstu frumherjar íslenskrar myndlistarsögu sett í geymslu.

Helsta listasafn þjóðarinnar á að hafa stöðugt til sýnis verk eftir okkar helstu listmálara og frumherja. Við eigum að halda á lofti menningararfi okkar og sýna hann gestum og gangandi. Stefna safnins síðust ár virðist samt leggja meiri áherslu á að setja upp sérsýningar, erlendar sem innlendar, á þeim tíma sem flestir ferðamenn eru hér á landi. Þannig hefur það gerst oftar en einu sinni að ferðamaður sem langar til að kynnast íslenskri listasögu hefur enga möguleika á því enda öll verk í geymslu. Geymslum sem eru ekki einu sinni öruggar.

Ég hvet ráðamenn þessarar þjóðar til að breyta stefnu safnsins. Það geta þeir gert með því að ráðstafa meiri fjármunum til safnsins. Þeir geta einnig haft áhrif á stefnu safnsins með því að ráða til þess safnstjóra sem kæmi úr viðskiptalífinu.


Þjófar á ferð

Nú þegar jólaverslunin er að ná hámarki er nauðsynlegt fyrir verslunarfólk að vera á varðbergi gegn búðarhnupli.

Þjófar eru afar úrræðagóðir og stunda þessa iðju sína oft í hópum. Ég varð fyrir barðinu á einum slíkum í dag þegar frá mér var stolið dýrum listmun þrátt fyrir að margt fólk væri innan um þjófinn. Fyrirkomulagið er oft þannig að einn dregur afgreiðslufólkið til sín á meðan annar lætur greipar sópa. Aðrar aðferðir eru einnig notaðar og skal sérstaklega gæta að fólki sem ber með sér stórar hliðartöskur sem auðvelt er að smeigja hlutum í. Einnig hef ég orðið vitni að því að þjófur kom inn í búð í víðum frakka sérútbúnum að innan til þess að geyma góssið. Það virðist ekki skipta neinu máli þó svæði séu vöktuð með myndavélum og þjófarnir virðast láta til skarar skríða þegar flest fólk er inn í búðunum. Líklega til þess að starfsfólkið sé of upptekið til að fylgjast vel með.
Flestar búðir reyna að stemma stigu við þessar leiðu vá og er vinnureglan í Kringlunni t.d. sú að allir þjófnaðir eru kærðir og sérstaklega fylgst með fólki sem orðið hefur uppvíst að hnupli.
Það eru ekki litlar upphæðir sem hverfa á þennan hátt og skilar það sér ávallt út í vöruverðið þannig að hinn almenni viðskiptavinur lendir í því að borga brúsann.

Nú hvet ég alla til að taka höndum saman og vera á varðbergi gagnvart þessu og benda afgreiðslufólki á verði þeir vitni að einhverju misjöfnu.


Beittur húmor Hugleiks

Hugleikur Dagsson, fæddur 1977, er þekktur fyrir teikningar sínar sem eru í senn gróteskar og hugljúfar. Hugleikur hefur snert flest svið þjóðlífsins á beittan hátt og stundum svo að varla er börnum bjóðandi. Teikningarnar hafa birst á síðustu misserum í bókum gefnum út af JPV og heitir sú nýjasta Fylgið okkur. Hugleikur hefur einnig skrifað leikritið Forðist okkur sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í samvinnu við leikhópinn Common nonsens og leiklistardeildar LHÍ. Hann fékk Grímuverðlaunin fyrir þessa leikgerð og var einnig tilnefndur til Menningarverðlauna DV 2006.
Þeir sem ekki fá nóg af teikningunum geta nú skellt sér í Gallerí Smekkleysu við Klapparstíg því þar er nú til sýnis verk Hugleiks og kostar hver mynd, sem er um það bil jafn stór og A5 blað, tíu þúsund krónur. Þeir sem harðastir eru (kannski einnig djarfastir) geta síðan smellt sér niður í Nexus við Hverfisgötu og fest kaup á stuttermabol með áprentaðri teiknimyndasögu. Það var Einar Árnason sem gefur út bolina og kostar þeir tvö þúsund krónur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband