9.2.2007 | 12:29
Hægri vinstri snú
Hlynur Hallsson myndlistarmaður og varaþingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi skrifaði hér bloggið grein um að það væri þversögn að vera hægri grænn og það besta í stöðunni væri að kjósa Vinstri græn.
Það getur nú ekki verið að vinstri sinnað fólk eigi einkarétt á umhverfisvernd og það getur alls ekki verið að þeir sem eru til hægri eða bara á miðjunni geti ekki einnig verið umhugað um landið okkar.
Er það kannski þannig farið að ekki sé fylgi við stjórnmálaskoðanir Vinstri grænna heldur einungis umhverfisstefnu þeirra? Það gæti farið svo að bæði Vinstri grænir og hinn nýji vængur Framtíðarlandsins, Hægri grænir, muni eingungis deila fylginu til hagsbóta fyrir stjórnarflokkana. Kannski er það sem Hlynur á við þegar hann segir Vinstri græna vera besta kostinn í stöðunni.
8.2.2007 | 13:41
Ólafur vs. Kjarval
Útrás Íslendinga heldur áfram og nú er það Jóhannes S. Kjarval sem hittir fyrir einn þekkasta núlifandi listamann okkar (eða Dana ef út í það er farið) Ólaf Elíasson.
Þetta er frábær hugmynd að skella saman landslagsmyndum Kjarvals og landslagsljósmyndum Ólafs. Þegar þær eru skoðaðar í þessu samhengi verður manni ljóst að það er alls ekki eins langt á milli þessarra tveggja listamanna og ætla mætti í fyrstu. Það er bara tíðarandinn og tæknin sem hefur breyst en landslagið er það sama.
Ég held að það sé óhætt að hvetja alla sem leið eiga um Kaupmannahöfn á næstunni til þess að líta við á Gammel Strand og fá smá þef af Íslandi.
![]() |
Forseti Íslands flytur ávarp við opnum í listasafninu Gammel Strand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2007 | 22:43
Hér er Breiðavík
Það er hrikalegt að heyra af þeim atburðum sem átt hafa sér stað í Breiðavík og nauðsynlegt að leiða þau mál til lykta. Ágætt að líta á hvernig yfirvöld í Noregi hafa leyst sambærileg mál og ákvarðað bætur til fórnarlambanna.
Ekki ætla ég að tjá mig frekar um þau mál heldur benda á beygingu orðsins Breiðavík. Edda Andrésdóttir hóf fréttirnar í kvöld á því að tala um hvernig ætti að beygja orðið Breiðavík og fór að mínu mati ekki með rétt mál.
Breiðavík þessi tekur ekki beygingu þar sem hún er nefnd eftir landnámsmanninum Breiða. Þannig er nú það.
7.2.2007 | 11:33
Upp eða niður?
Það hafa orðið miklar breytingar á listaverkamarkaðinum á stuttum tíma. Verð verka hefur hækkað umtalsvert, bæði hjá samtímalistamönnum sem og á uppboðum. Nýjustu dæmin af uppboðum eru verk eftir Ásgrím Jónsson sem seldust fyrir meira en sex milljónir króna síðasta vor og leirverk Guðmundar Einarssonar frá Miðdal sem hafa allt að því fjórfaldast í verði á stuttum tíma.
Útrás og uppgangur í íslensku viðskiptalífi hefur fædd af sér nýjan hóp listaverkasafnara. Þessi nýji hópur er stór og hefur fjárhagslega burði til þess að fjárfesta í listaverkum. En þessi þróun er ekki eingöngu bundin við Ísland. Efnahagslífið beggja vegna Atlantshafsins og í Kína hefur verið með besta móti og þar hafa verð listaverka náð nýjum hæðum.
Fyrir nokkrum árum hefði verið óhugsandi að verk eftir kínverskan samtímalistamann næði einnar milljón dollara markinu. Nú er það orðið algengt að sjá verð verka á uppboðum stærstu uppboðshúsana nálægt og jafnvel fara yfir eitt hundrað milljón dollara. Verðin á alþjóðlegum uppboðsmarkaði hafa farið beint upp á við síðustu ár.
Eins og á húsnæðismarkaðnum spyrja menn sig nú hvort hámarkinu hafi verið náð. Það er stóra spurningin og í hvert sinn sem einhver lýsir því yfir að endalokunum sé náð, fer allt af stað aftur og hækkar enn frekar.
Ætli það sé ekki best að segja bara: "Annað hvort hækkar þetta meira eða það gerir það ekki".
6.2.2007 | 12:17
Topp 10 listinn
Í einu af morgunblöðunum sá ég auglýsingu um kvikmynd sem tekin verður til sýningar í Regnboganum þann 9. febrúar. Lítur út fyrir að vera spennandi ævintýramynd fyrir unglinga og fullorðna, margverðlaunuð mynd samkvæmt auglýsingunni og tilnefnd til 6 óskarsverðlauna.
Það sem vakti athygli mína að í þessari auglýsingu er tekið sérstaklega fram að myndin sitji á fleirum en 130 topp 10 listum. Fer ekki að vera spurning um að gera topp 10 lista yfir þær myndir sem sitja á flestum topp 10 listum. Soldið farið að snúast um sjálft sig, er það ekki?
Vinsældarlsitar eru ágætir. Þeir hjálpa þeim óákveðnu til að mynda sér skoðanir á hinum ýmsu hlutum. Hverjir eru bestu rithöfundarnir, bestu kvikmyndagerðarmennirnir og bestu myndlistarmennirnir.
Vandamálið við þessa lista er að oft á tíðum eru þeir samsettir af misgáfulegum forsendum. Í besta falli geta þeir flokkast undir að vera skoðanir einstaklinganna sem settu þá saman. Síðan eru auðvitað listarnir sem fara eingöngu eftir sölu en þeir eru heldur ekki gallalausir.
5.2.2007 | 11:50
Listasjóður Dungal - gott framtak
Listasjóður Dungal sem áður hét Listasjóður Pennans og var stofnaður af Gunnari Dungal til minningar um foreldra hans, Margréti og Baldvin P. Dungal, veitti rúma milljón í styrki til þriggja listamanna á dögunum. Sjóðnum er ætlað að styrkja unga myndlistamenn og eignast verk eftir þá.
Í ár voru það listamennirnir Hye Joung Park, Kristín Helga káradóttir og Darri Lorenzen sem hlutu styrkinn. Þær Kristín Helga Káradóttir og Hye Joung Park hlutu 300.000,- kr. styrk en Darri Lorenzen 500.000,- kr.
Kristín Helga útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2004 en hún hefur einnig lagt stund á leiklist. Kristín Helga vinnur vídeóverk þar sem hún skrásetur eigin gjörninga. Verkin byggja á orðlausri leikrænni tjáningu hennar sjálfrar, oft í sviðsettu rými. Verk hennar eru á heimspekilegum nótum þar sem fjallað er um tilvistina og sálarlífið á einn eða annan hátt. Kristín Helga stefnir á framhaldsnám erlendis.
Hye er fædd í Suður Kóreu. og lauk B.S.-námi í dýralækningum frá háskólanum í Seoul árið 2001 en árið 2002 stundaði hún nám við Myndlistarskólann í Reykjavík. Hye útskrifaðist með B.A.-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005. Hún býr og starfar í London og Reykjavík. Hye notar mjög gjarnan ljósmyndir og skúlptúra í verkum sínum og myndgerir með því móti augnablik líðandi stundar.
Styrk að upphæð 500.000 krónum hlaut myndlistarmaðurinn Darri Lorenzen. Hann lauk námi frá Listaháskóla Íslands og síðar stundaði hann nám í raftónlist og sótti sér frekari myndlistarmenntun til Haag. Hann stundar nú framhaldsnám í Berlín.
Gunnar Dungal á hrós skilið fyrir starf sitt og uppbyggningu þessa listasjóðs. Það væri gaman að sjá fleiri fyrirtæki feta í fótspor hans og efla íslenska list og unga sem aldna listamenn.
2.2.2007 | 12:17
Háskóli Íslands neitar dr. Ágústi Einarssyni um launalaust leyfi
Háskóli Íslands hefur neitað dr. Ágústi Einarssyni nýráðnum rektor við Háskólann á Bifröst um launalaust leyfi í þrjú ár. Þar með hefur HÍ skilgreint Háskólann á Bifröst sem samkeppnisaðila .
Þessi stefna getur ekki verið góð fyrir skóla sem vill komast í hóp þeirra bestu í heimi því aðrir háskólar, erlendir sem innlendir hljóta þá líka að vera samkeppnisaðilar Háskóla Íslands. Þess vegna ættu fræðimenn sem vilja fara erlendis til rannsókna eða dvalar að sitja við sama borð og dr. Ágúst.
Þetta mun leiða til lakari árangurs hjá HÍ og er ekki til sóma fyrir hann.
1.2.2007 | 15:17
Mikil áhrif hagsmunasamtaka
STEF hefur verið mjög duglegt við að verja hagsmuni höfundarréttarhafa tónlistar. Svo duglegir að löggjafinn hefur hlaupið til og samþykkt ýmis skrítin lög fyrir STEF. Skemmst er að minnast að allir borga STEFgjöld þegar þeir kaupa sér tóman geisladisk þó svo að diskurinn muni aldrei vera notaður undir tónlist eða verk í höfundarrétti. Þannig þarf þorri tölvunotenda að greiða fyrir notkun sem þeir nýta sér aldrei. Annað svipað dæmi var gjaldtaka á iPod spilarann sem leiddi til hæsta verðs þeirra tækja í Evrópu.
STEF eru samt ekki einu hagsmunasamtökin sem óeðlilega mikið mark er tekið á þegar löggjafinn semur ný lög. Samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundarréttar eða MYNDSTEF hafa einnig komist inn undir hjá löggjafarvaldinu. Á síðasta ári töku tvenn ný lög gildi á þeirra sviði samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu. Annars vegar um innheimtu höfundargjalda á myndlistaruppboðum og hins vegar um innheimtu slíkra gjalda á verkum sem eru seld manna á milli, t.d. í listmunahúsum.
Það er fernt sem MYNDSTEFi tókst að koma inn í þessi nýju lög (fyrir utan að þau eru að mestu skrifuð fyrir samtökin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi). Í fyrsta lagi er gjaldtakan sú hæsta í heimi. Ég gerði athugun á þessum lögum í helstu nágrannalöndum okkar og þá kom í ljós að gjöldin eru hvergi hærri en 5% en í flestum tilfellum 4% og fara svo stiglækkandi eftir sölufjárhæð listaverkanna. Í öðru lagi þá getur MYNDSTEF áætlað þessi gjöld á þá aðila sem hafa stundað listmunasölu og þessi áætlun er aðfararhæf. Slíkt vald hafa ekki einu sinni lífeyrissjóðir landsins gagnvart fyrirtækjum. Í þriðja lagi er ákvæði í lögum um uppboð að innheimta skuli gjaldið af öllum verkum, líka þeim sem eru fallin úr höfundarrétti. Slíkt stangast klárlega á við lög Evrópusambandsins og gerir það að verkum að höfundarréttur rennur aldrei út á Íslandi. Í fjórða lagi ber að skila skýrslum um innheimt höfundarréttargjöld til MYNDSTEF árituðum af endurskoðenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að leggja slíkar álögur á fyrirtæki og vil ég benda á að það þarf ekki einu sinni að skila virðisaukaskattsskýrslum með slíkri áritun. Nóg er að ársreikningar fyrirtækjanna séu áritaðir af endurskoðendum.
Margt fleira óeðlilegt er að finna í þessum nýju lögum og það væri ráð fyrir ráðuneytin sem vinna að lagasetningu að taka meira tillit til annarra aðila en háværra hagsmunasamtaka.
![]() |
Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2007 | 12:00
Ríkari samfélagsskyldur bankanna
Enn og aftur eru slegin Íslandsmet í hagnaði og enn og aftur eru það bankarnir sem leiða vagninn. Hagnaður sem dugar til þess að reka íslenska ríkið í hálft ár liggur fyrir hluthöfum stóru bankanna til frekari útrásar. Þetta eru frábær tíðindi, það er frábært að það skuli ganga svona vel því nú geta þessi sömu fyrirtæki farið að gefa til baka. Ekki svo að skilja að bankarnir borgi ekki nóg í skatta og gjöld heldur frekar að þeir bæti í menningarsjóði sína.
Ég vil sjá bankana leggja meira til menningarmála og á fjölbreyttari grunni. Þeir hafa verið duglegir í að styrkja ýmis málefni en mig langar til að sjá fleiri myndlistarsjóði sem gera meira af því að kaupa myndlist frekar en að gefa beina styrki eða listamannalaun.
Mig langar til að sjá bankanna kaupa verk eftir ýmsa unga höfunda til jafns við þá sem eldri eru. Mig langar einnig að sjá fleiri styrki sem koma almenningi til góða eins og Samson gerði með því að styrkja Listasafn Íslands og mig langar til að sjá fleiri styrki til útrásrar og kynningar á íslenskum myndlistarmönnum erlendis.
Kannski ætti ég ekki vera rausa um hvað mig langar til að gera við hagnað bankanna en mér þætti vænt um að sjá þá rækta ennþá betur við samfélagsskyldu sína og efla menningu landsins.
![]() |
Hagnaður Kaupþings langt yfir spá Greiningar Glitnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2007 | 22:21
Herraþjóðin lagði okkur
Það versta við tapið gegn Dönum er hvað þeir voru yfirlýsingaglaðir fyrir leikinn, þeir voru sannfærðir um að vinna. Það hefði verið notarlegt að keyra yfirlýsingar þeirra í þá aftur með sigri.
En hvað var það sem skildi að? Þegar tölur leiksins eru skoðaðar sést að þrír danir eru með níu mörk hver. Íslenska liðið er aftur á móti bara með Snorra sem stóð sig frábærlega með 15 mörk og síðan Ólafur með "aðeins" 6 mörk. Ég hefði viljað sjá fleiri mörk frá honum.
Nú er bara að taka rússana og ná fimmta sætinu.
![]() |
Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)