Hækkun á Íslensku listaverkavísitölunni

Yfirlit 2006

Íslenska listaverkavísitalan hækkaði um 18% á árinu 2006 sem er töluvert minni hækkun en var á milli áranna 2004 til 2005 þegar visitalan hækkaði um 124%. Verðmæti seldra verka árið 2006 er kr. 105.533.627,- á verðlagi ársins 2005 sem er aukning upp á 21% frá fyrra ári.

Á tímabilinu 1985 til 2006 er heildarverðmæti sleginna verka á uppboðum kr. 1.478.406.779 á verðlagi ársins 2005 og heildarfjöldi verka rétt tæplega tólf þúsund.

Horfur 2007

Fyrsta uppboð ársins 2007 bendir til mikillar hækkunnar en þar voru slegin verk fyrir rúmar 53 milljónir króna og meðalverð verka var kr. 361.171,- sem er 109% hækkun frá meðalverði ársins 2006 og hærra en á nokkru öðru uppboði á Íslandi. Verk eftir Ásgrím Jónsson unnið með vatnslitum var selt á 8,9 milljónir sem er hæsta verð sem fengist hefur á uppboði fyrir verk unnið á pappír. Svipaðar hækkanir er að finna á uppboðum erlendis og skemmst að minnast sölu á verkinu „Hvítasunnudagr“ eftir Jóhannes S. Kjarval sem seldist á rúmar 15 milljónir á uppboði hjá Bruun Rasmussen.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verk eftir Svavar og Ólaf seljast í Danmörku

Svavar GuðnasonÍ dag lauk uppboði á tveimur íslenskum verkum hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Annars vegar lítilli teikningu eftir Ólaf Elíasson og hins vegar á verki eftir Svavar Guðnason.

Verk Ólafs er lítið þrykk gert í 90 eintökum og var metið á Dkr. 3.000 en seldist fyrir Dkr. 1.750 eða um það bil 26 þúsund íslenskar krónur með uppboðsgjöldum.

Verk Svavars sem einnig er gert á pappír seldist aftur á móti fyrir Dkr. 5.500 þrátt fyrir að vera metið á Dkr. 6.000 til 8.000 sem gera um það bil 80 þúsund íslenskar. Þetta verð er á svipuðum nótum og fengist hefur fyrir verk Svavars á síðustu uppboðum hjá Galleríi Fold og Bruun Rasmussen. Verk Svavars er gert með vaxlitum á pappír og er 21x34 cm að stærð.


Metverð fékkst fyrir Ásgrím Jónsson

Ásgrímur JónssonVerk eftir Ásgrím Jónsson seldist á rúmlega 10 milljónir króna á uppboði hjá Galleríi Fold í kvöld. Verkið sem er málað 1911 og sýnir Rangárvelli og Þríhyrning er vatnslitamynd, 37x59 cm að stærð og var í afar góðu ásigkomulagi. Skemmst er að minnast þess að verk eftir Ásgrím seldist fyrir rúmar 6 milljónir á uppboði Gallerís Foldar fyrir rætt tæpu ári síðan og því ljóst núna að ekki var um einstakt tilfelli að ræða. Það er skemmtileg tilviljun að í dag, 4. mars, er fæðingardagur Ásgríms Jónssonar en hann fæddist 1876.

Fleiri verk seldust á háu verði á uppboðinu og má þar á meðal nefna verk eftir Þorvald Skúlason sem var slegið á 6,5 milljónir króna, tvö verk eftir Gunnlaug Blöndal voru annars vegar slegin á 3,5 milljónir og hins vegar á 4,5 milljónir. Að lokum má nefna að verk eftir Einar Jónsson frá Fossi var slegið á 900.000 en svo hátt verð hefur aldrei áður fengist fyrir verk Einars.

Uppboðið var haldið í Súlnasal Hótel Sögu þar sem vel á fjórða hundrað gesta sátu við öll borð og alla ganga en líklega er þetta best sótta uppboð sem haldið hefur verið um áratuga skeið.


ET tók það - alveg satt

ET brings it homeMálverkinu "Russian Schoolroom" eftir Norman Rockwell var stolið 1973 í St. Louis í Bandaríkjunum. Verkið er fígúratívt málverk af drengjum í rússneskri skólastofu og er nokkuð áhrifamikið og sérstakt fyrir listamanninn.

Verkinu var stolið úr Circle Art galleríinu að nóttu til og brutu þjófarnir glugga til að komast að því, þeir tóku ekkert annað. Verkið kom síðan aftur fram 1988 þar sem það átti að fara á uppboð. Það var síðan árið 1989 sem verkið var selt í New York til Steven Spielberg (ekki 1999 eins og mbl.is segir frá) og salan var á þeim tíma tilkynnt til FBI Art Crime Team. Meðal þeirra sem tilkynntu að verkið væri til sölu var Mary Ellen Shortland sem var galleríisti í Circle Art galleríinu.

Af einhverjum ástæðum fann FBI aldrei upphaflegu lögregluskýrslunar og engin gögn um að verkinu hefði nokkurn tíman verið stolið. Það var síðan árið 2004 sem FBI endurvakti rannsóknina á þjófnaðinum og komst að því að Spielberg hafi að öllum líkindum keypt verkið fyrir 200.000 dollara. Óvíst er hvort leikstjórinn hafi á þeim tíma haft vitneskjum um að verkið væri þýfi og mun geyma það hjá sér þar til samið hefur verið um málslok.

Ætli afsökun Spielbergs verði ekki að ET hafi tekið verkið í gáleysi.


mbl.is Stolið málverk finnst hjá Steven Spielberg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi uppboð framundan

Þorvaldur SkúlasonMikil læti voru á uppboði í Danmörku fyrr í vikunni þegar málverkið "Hvítasunnudagur" eftir Kjarval var boðið upp. Nú verður gaman að sjá hvort hið sama verði upp á teningum á sunnudag á uppboði Gallerís Foldar sem fram fer á Hótel Sögu kl. 19.

Mjög mörg góð listaverk verða boðin upp og má þar m.a. nefna verk eftir Þorvald Skúlason "Telpur í boltaleik" sem er líklega eitt besta verk hans frá þessu tíma. Þorvaldur sýnir í verkinu ákveðna hreyfingu sem kemur oft fram í verkum hans síðar á ferlinum. Þessa sömu hreyfingu má sjá í abstrakt verkum listamannsins eins og "Stormi" frá 1971. Ljóst er að barist verður um þetta verk á uppboðinu og jafnvel met slegin.

Fleiri góð verk verða boðin upp. Eitt lítið og fallegt verk eftir Louisu Matthíasdóttur af húsum í Reykjavík en verk eftir hana koma ekki oft inn á uppboð og reyndar ekki oft í sölu heldur. Stórt olíumálverk eftir Gunnlaug Blöndal af Reykjavíkurhöfn 1943 verður einnig boðið upp en það verk hefur verið í einkaeigu í Bandaríkjunum í áratugi og því ekki verið sýnt hér á landi. Þá verður lítil mynd eftir Mugg boðin upp en á síðasta uppboði seldist svipað verk á kr. 1.500.000,- auk gjalda en verðmatið var einungis kr. 600.000,-

Verkin eru öll til sýnis í Galleríi Fold um helgina en einnig er hægt að skoða uppboðsskrána á www.myndlist.is.

 


Haukur Dór sýnir í Galleríi Fold

haukur_dor1Haukur Dór sýnir í Galleríi Fold

Laugardaginn 24. febrúar kl. 15.00 opnar Haukur Dór
málverkasýningu í Baksal Gallerís Foldar við Rauðarárstíg.
Sýningin stendur til 11. mars.

Haukur Dór (fæddur 1940) hélt sína fyrstu sýningu á Mokka 1962 eftir fjögurra ára nám á kvöldnámskeiðum í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Sama ár hélt hann utan til frekara náms í myndlist, fyrst til Edinborgar og síðan til Kaupmannahafnar.   Að námi loknu setti hann upp vinnustofu og vann jöfnum höndum sem málari og keramiker.   Haukur stundaði síðan tveggja ára framhaldsnám í Bandaríkjunum og flutti að því búnu til Danmerkur. Eftir margra ára búsetu þar og árs dvöl á Spáni, sneri hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan. Nú hefur Haukur alfarið snúið sér að málverkinu.   Á fjörtíu ára ferli hefur Haukur Dór sýnt reglulega á Íslandi og erlendis.   Mörg verka hans eru í opinberri eigu og á einkasöfnum.

Print Senda

 

 


Kjarvalsstaðir og geirfuglinn

KjarvalFyrir all mörgum árum var ákveðið að bjóða upp síðasta geirfuglinn. Íslendingar tóku sig þá til af miklum skörungskap og hófu söfnun til að fá geirfuglinn heim. Allt fór á besta veg, Íslendingarnir söfnuðu ákveðinni upphæð sem sagt var frá opinberlega og uppboðshaldarinn hló innra með sér. Nú vissi hann nákvæmlega hvað hann gæti fengið fyrir fuglinn.

Það sama er að gerast núna í kring um söluna á verkinu Hvítasunnudag eftir Jóhannes S. Kjarval sem bjóða á upp hjá Bruun Rasmussen seinna í þessum mánuði. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur hefur lýst því yfir að safnið vilji mjög gjarnan eignast verkið og nú bíðum við bara eftir því að hann lýsi því yfir að þeir hafi fimm milljónir króna til umráða. Kannski fær safnið þá verkið á 4,9 milljónir og allir eru sáttir, sérstaklega uppboðshaldarinn.

Forstöðumaður Kjarvalssafnins sagði reyndar í útvarpsviðtali að Kjarval hefði útskrifast 1917 eða um það leiti sem þetta verk er málað en hið rétta er að hann útskrifaðist ekki fyrr en ári seinna, en það er nú önnur saga.


mbl.is Listasafn Reykjavíkur hefur áhuga á að kaupa Hvítasunnudag eftir Kjarval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarval heim?

KjarvalEins og komið hefur fram hefur málverk sem vitað var að Jóhannes S. Kjarval málaði komið í leitirnar í Danmörku. Verkið á að bjóða upp hjá uppboðshúsinu Bruun-Rasmussen í Bredgade í Kaupmannahöfn 28. febrúr n.k.

Búast má við að þetta verk verði selt fyrir einhverjar milljónir króna og ef ég ætti að spá fyrir því þá myndi ég veðja á 3,5 til 4 milljónir.

Ljóst er að margir myndu vilja fá þetta verk heim til Íslands og helst inn á íslenskt safn. Það er einnig ljóst að ekkert íslenskt safn hefur ráð á því að kaupa þetta verk nema fórna meirihluta innkaupafé sínu. Fari svo að verkið seljist á 4 milljónir má áætla að það sé fjórðungur af innkaupagetu Listasafns Íslands.

Sé raunverulegur vilji íslenskra stjórnvalda að styðja við íslenska list og menningu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í fararbroddi þá verður að koma til aukafjárveitingar til Listasafns Íslands til þess að kaupa verkið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að tekið sé af venjubundnum fjárveitingum safnsins og þar með getu þess til að styðja við fjölmarga samtímalistamenn með kaupum á verkum þeirra.

Íslendingar hafa löngum barist fyrir því að fá menningarverðmæti heim og nú er tækifæri til að berjast fyrir því að fá Kjarval heim. Einnig væri mögulegt að leita til einkaaðila til að fjármagna kaupin og færa Listasafni Ísland það að gjöf.


mbl.is Kúbískt verk eftir Kjarval komið fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnishömlur Myndstefs

Myndstef (samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundaréttar) innheimtir höfundarréttargjald af þeim sem selja myndlist hvort sem er á uppboðum eða í beinni sölu. Vandamálið er að Myndstef fer ekki að lögum sem þó voru samin í samvinnu við samtökin.

Samtökunum ber að innheimta þetta gjald af öllum sem bjóða upp myndlistarverk hvort sem um er að ræða félagasamtök á borð við Lions eða Kiwanis eða einkaaðila. Þessari skyldu sinni gegna þeir ekki heldur innheimta gjaldið einungis af þeim sem þeir kjósa en sleppa öðrum við gjaldið. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að þeir aðilar sem gjaldið er innheimt af búa við skerta samkeppnisstöðu á myndlistarmarkaði.

Myndstef heyrir undir Menntamálaráðuneytið og því er þessi mismunun með öllu óásættanleg og hvet ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra til þess að setja reglurgerð sem allra fyrst sem tekur af allan vafa um hverjir eigi að greiða höfundarréttargjaldið.


mbl.is Ábendingar um samkeppnisbrot frá almenningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarútrás

Gott framtak hjá þeim stöllum, Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur,  að efla íslenska útrás listamanna. Mikið hefur verið rætt um útrás bankanna, útrás fyrirtækja með íslenskt hugvit í forgrunni og því tími til kominn að efla útrás íslenskrar lista. Nú verðum við að vona að sjónum verði í auknu mæli beint að myndlistinni því bæði íslensk tónlist og íslensk leiklist hefur hingað til verið í forgrunni.

Ég er sannfærður um að styrkir sem þessir til íslenskrar menningar skili sér margfalt til baka til þjóðfélagsins, ekki aðeins í bættri vellíðan heldur einnig fjárhagslega.


mbl.is Efla á áhuga í öðrum löndum á íslenskri list og menningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband