Dýrasta listaverk Íslendings

Ólafur ElíassonListaverkið Fivefold eye eftir Ólaf Elíasson (fæddur 1967) seldist fyrir metfé síðast liðinn sunnudag á uppboði hjá Christie's í London.

Á sama tíma og verk eftir alla helstu listmenn íslensku þjóðarinnar seldust fyrir nokkrar milljónir króna  á uppboði hjá Galleríi Fold var verkið Fivefold eye slegið á rúmlega 80 milljónir króna. Verkið var metið á 11 til 15 milljónir og seldist því á margföldu matsverði. Seljandinn, sem keypti verkið í Berlín árið 2000, unir væntanlega glaður við sitt.

Þetta er að öllum líkindum hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir verk eftir Íslending og slær þar með út verkið "Hvítasunnudagur" eftir Jóhannes S. Kjarval sem seldist á tæpar 20 milljónir í Kaupmannahöfn fyrr á árinu.

Fivefold eye er  skúlptúr úr stáli og speglum, 157,5x157,5x74,9 cm að stærð. Það var sýnt í Basel Kunsthalle í nóvember 2000 og aftur í The Institute of Contemporary Art í Boston í janúar 2001.
Þá hefur verið fjallað um verkið í ýmsum bókum og var það meðal annars á forsíðu bókarinnar "Olafur Eliasson" eftir M. Grynsztejn, D. Birbaum, M. Speaks og fleiri sem kom út í London 2002.

Þessi sala staðfestir þá alþjóðlegu stöðu sem Ólafur Elíasson hefur á listaverkamarkaðinum og hefur verið styrkt með hinni miklu yfirlitssýningu sem stendur yfir í San Fransisco fram í febrúar á næsta ári.


Graffiti, list eða skemmdarverk?

Veggjakrot verður sífellt meira vandamál í nútíma borgarsamfélagi. Veggir, umferðarskilti, rúður og jafnvel bílar verða fyrir barðinu á skemmdarvörgum.
Hvað eru þeir sem krota á veggi að hugsa? Eru þeir að tjá samfélaginu réttlátar tilfinningar sínar eða eru þeir einfaldlega að merkja sér svæði, eins og hundar gera?
Líklega er um hvort tveggja að ræða en ég tel samt að meira sé um að viðkomandi sé einfaldlega að eigna sér svæði, láta vita að hann hafi verið hér heldur en að um listræna sköpun sé að ræða.
Það verður að gera skýran mun á milli graffiti listamanna og þeirra sem krota á veggi.
Graffiti listamður hugsar verk sitt heildstætt og lætur skoðanir sínar og tilfinningar í ljós með afgerandi hætti. Miðillinn sem hann velur sér, veggurinn, er stór hluti af þessum tjáskiptum því hann kallar á áhorfandann.
Erfitt getur verið fyrir yfirvöld að hafa hendur í hári glæpamanna sem merkja sér svæði með þessum hætti og enn erfiðara getur verið fyrir þau að gera greinamun á þeim og listamönnum þegar kemur að því að ákveða hver verður ákærður og hver ekki. Eina leiðin er að líta á allt graffiti sem skemmdarverk og hafa enga listræna skoðun til verkanna.
Í New York hefur graffiti listamaður í fyrsta skipti verið ákærður fyrir veggmynd án þess að hafa verið staðinn að verki. Einungis var ákært út frá ljósmyndum þar sem listamaðurinn, Alan Ket sem sýnt hefur í galleríjum og heitir Alain Mariduena réttu nafni, sést spreyja táknið sitt á vegg annars staðar í borginni. Alan Ket heldur því aftur á móti fram að einhver annar hafi málað umrædd verk og stælt merkið hans.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta mál fer. Kannski geta yfirvöld hér ákært þá sem staðnir eru að veggjakroti einnig fyrir önnur veggjakrot sem finnast með sama merki eða undirskrift.

Meira af Ólafi Elíassyni

Olafur_Eliasson_The_Fault_Series Uppboðshúsið Phillips de Pury og Company í New York heldur áfram að bjóða upp verk eftir Ólaf Elíasson. Að þessu sinni bjóða þeir upp tvö verk eftir þennan ágæta listamann, annars vegar skúlpturinn Colour Kaleidascope sem er kviksjá úr tré og gleri og hins vegar 32 ljósmyndir af misgengi Íslands, The Fault Serie.

Hvort tveggja þessara verka eru metin af uppboðshúsinu á allt að 8,6 milljónir króna en stutt er síðan annað eintak af kviksjánni var selt á rúmlega 10 milljónir.

Uppboðið fer fram í New York eftir tvo daga (22.7.) og verður gaman að sjá hvernig fer.


Skúlptúr á tíu milljónir

colour_vision_kaleidoskope_olafur_eliassonUppboðshúsið Phillips de Pury & Company í New York seldi skúlptúr eftir Ólaf Elíasson fyrr í þessum mánuði  á 160.000 dollara eða sem nemur rétt rúmum tíu milljónum króna.

Skúlptúrinn sem er kviksjá úr tré og gleri á tréfæti gerði Ólafur árið 2003 í þremur eintökum. Um verkið segir Ólafur að kviksjáin dragi saman sjónsviðið í eina heild og hafi á sínum tíma þótt tákn nýtískuleikans.

Verkið var metið á 9,4 til 12,6 milljónir króna en seldist eins og áður sagði á rétt rúmar tíu milljónir.

Þrjú verk eftir Íslendinga hafa því selst á þessu ári fyrir meira en tíu milljón króna. Verk Ólafs og tvö verk á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Danmörku í febrúar. Það voru annars vegar verkið Hvítasunnudagur eftir Jóhannes S. Kjarval og hins vegar verkið Contra Natura eftir Odd Nerdrum sem fluttist hingað til lands fyrir nokkrum árum. Þau verk seldust fyrir 15,3 milljónir eða 1,3 milljónir danskar krónur hvort.


Íþróttamenn Andy Warhols boðnir fyrir tæpa 2 milljarða

Richard Weisman og Vigdís Finnbogadóttir
Richard Weisman og Frú Vigdís Finnbogadóttir við opnun sýningar á verkum Andy Warhol í Galleríi Fold árið 2003.

Listaverkasalanum Martin Summers í London hefur verið falið að selja heilt sett af íþróttamyndum eftir Andy Warhol og er búist við að það fáist 1,8 milljarður króna eða 28 milljónir dollara fyrir þær.

Þetta er í fyrst sinn sem heilt sett úr þessari seríu er boðið til sölu en hvert verk er áritað af Andy Warhol og viðkomandi íþróttamanni, m.a. Muhammad Ali, Jack Nicklaus og O.J. Simpson.

Listaverkasafnarinn Richard Weisman er seljandinn en hann var góður vinur Andy Warhol og fékk hann til að mála íþróttamennina á sínum tíma og greiddi fyrir það 51,2 milljónir króna. Warhol gerði mun fleiri myndir en Weisman óskaði eftir og leiddi það síðar til deilna á milli hans og Andy Warhol sjóðsins um eignarétt. Sú deila var leist á þann veg að Weisman fékk öll verkin en gaf sjóðnum hluta af þeim aftur. Richard Weisman stóð þá uppi með 120 verk eftir Warhol sem hann síðan hefur gefið m.a. þeim íþróttamönnunum sem þátt tóku í verkinu og íþróttasamböndum sem þeir tilheyrðu en einnig til barna sinna þriggja. Gangi þessi sala eftir þá hafa verk Andy Warhols 190 faldast í virði frá því Weisman keypti þau.

Gallerí Fold við Rauðarárstíg hélt sýningu á þessum verkum árið 2003 í samstarfi við Richard Weisman en um það bil tíu þúsund manns sáu þá sýningu.

Að hluta til skv. frétt The Art Newspaper


Íslenski uppboðsmarkaðurinn

Íslenska listaverkavísitalan - ilv.is Síðasta uppboð Gallerís Foldar á þessum vetri fór fram síðast liðið sunnudagskvöld. Þar voru að venju boðin upp fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar en einnig brá svo við að þessu sinni að boðin voru upp verk eftir alþjóðlega stórlistamenn. Í ljósi þess sem gerst hefur að undanförnu á myndlistarmarkaðinum bjuggust margir við enn meiri verðhækkunum, að verk okkar helstu höfunda myndu ná nýjum hæðum. Þó búist hafi verið við metverði gerðist það ekki að þessu sinni en samt sem áður voru fleiri verk seld nú en áður á yfir tvær milljónir. Þetta síðasta uppboð er því með þeim betri sem haldin hafa verið á Íslandi. Íslenski uppboðsmarkaðurinn hefur frá 1985 boðið upp rúmlega 12000 verk eftir um það bil eitt þúsund höfunda. Heildarverðmæti sleginna verka á föstu verðlagi ársins 2005 er nú komið upp í rúmlega 1,4 milljarð króna.

Síðast liðið ár voru fjögur verk eftir íslenska höfunda seld fyrir metupphæðir, miklu hærri upphæðir en áður hefur þekkst fyrir verk Íslendinga. Þetta voru verk eftir Ásgrím Jónsson, Jóhannes S. Kjarval og Þorvald Skúlason.

Afleiðingar þessarar hækkunar á einstökum verkum íslensku frumherjana eru margþættar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Um leið og einstakir höfundar eða einstök verk þeirra verða svo eftirsótt að safnarar eru tilbúnir til að greiða mun hærra verð fyrir þau en áður dregur það önnur verk þessara höfunda með sér upp. Ekki er þar með sagt að öll verk muni hækka til jafns við þessa toppa þó þau séu svipaðrar gerðar. Þessi háu verð eru hvati fyrir seljendur sem koma með fleiri verk inn á markaðinn sem aftur leitar jafnvægis í verði sem getur þó verið hærra en áður var. Neikvæðu afleiðingarnar eru óraunhæfar væntingar seljenda til verðs fyrir ákveðin verk. Væntingar sem taka mið af hæsta verði sem fengist hefur sem er ekki endileg það verð sem kaupendur eru tilbúnir að greiða fyrir meðalverk. Dæmi um slíkar vætningar má sjá í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 23. apríl s.l. þar sem talað var um að verk eftir Þórarin B. Þorláksson myndi líklega seljast á meira en 12 milljónir króna. Slíkt tal gæti verið tilraun seljenda til þess að tala verðin upp og það gæti tekist í vissum tilfellum. Slíkt tal er ekki vænlegt til árangurs nema til skamms tíma og kemur yfirleitt í hausinn á viðkomandi, þó síðar verði. Það sem gerst hefur á íslenska uppboðsmarkaðinum á síðast liðnu ári er í takt við það sem gerst hefur erlendis. Einstök verk þekktustu listamannanna hafa hækkað mikið þar og dregið vagninn fyrir hina. Markaðurinn hefur stækkað, kaupendur með veruleg fjárráð eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr og áhugi þeirra fyrir fjárfestingum í myndlist er að aukast. Það sem er sérstakt við íslenska listaverkamarkaðinn eru áhrif málverkafölsunarmálsins. Eftir að það mál kom upp 1997 og þar til dómur féll 2004 lækkuðu verð stöðugt og markaðurinn dróst saman og því gæut hluti þeirra miklu hækkana nú verið verðleiðréttingar.

Ég spái því að verð á góðum verkum gömlu meistarana muni halda áfram að hækka þó það verði ekki með sama hraða og verið hefur og bilið á milli góðra verka og síður góðra muni breikka. Eðlilega er nóg framboð af meðalgóðum verkum því færri eru tilbúnir til að eiga þau og þar af leiðandi eru þau verðminni og koma ekki til með að hækka meira en með verðlagi. Einnig ætti þessi þróun að skila sér í meiri mun á milli gömlu meistarana og samtímalistamanna. Verð verka samtímalistamanna taka oft á tíðum mið af verðum eldri listamanna og því setja þessar hækkanir nú ný viðmið fyrir þá.

Ætli menn að fjárfesta í myndlist þarf annað hvort að veðja á efnilega unga listamenn og sjá svo til hvað gerist, eða kaupa list eftir listamenn sem þegar eru viðurkenndir, en getur þá þegar verið orðin nokkuð dýr.  Það er mun meira verðbil erlendis á milli ungra og tiltölulega óþekktra listamanna og þeirra sem hafa skapað sér nafn og eru þekktir og virtir. Einnig er verðbilið erlendis töluvert meira á verkum eftir þekkta látna listamenn heldur en samtímalistamenn. Þessi mikli munur gerir það að verkum að ávöxtun á listaverk getur verið mjög mikil sé veðjað á réttan hest. En það hafa ekki allir ráð á því að kaupa verk þekktra listamanna en þeir geta samt sem áður fjárfest í myndlist með því að kaupa verk ungra listamanna. Þá er ráð að kaupa eftir marga listamenn því einn þeirra gæti orðið frægur og þannig skilað góðri ávöxtun á safnið í heild. Og auðvitað eru ekki allir að kaupa list til fjárfestingar. Flestir kaupa listaverk til þess að hafa ánægju af þeim og þegar verkin hækka í verði er það bara bónus.


Andy Warhol á Íslandi

Andy WarholNæsta listmunauppboð Gallerís Foldar fer fram næst komandi sunnudag kl. 19. á Hótel Sögu.

Boðin verða upp rúmlega 130 verk af ýmsum toga, þar á meðal fjöldi verka gömlu meistaranna. Meðal annars má nefna verk eftir Þórarin B. Þorláksson, Jón Stefánsson, Mugg, Nínu Tryggvadóttur, Ásgrím Jónsson, Kjarval, Kristínu Jónsdóttur, Þorvald Skúlason, Gunnlaug Scheving, Gunnlaug Blöndal, Karl Kvaran, Jóhann Briem, Svavar Guðnason.
Einnig verða boðin upp verk eftir nokkra alþjóðlega stórlistamenn, þau Dieter Roth, Cindy Sherman, Richard Serra og Andy Warhol.

Dieter Roth er Íslendingum af góðu kunnur og hefur verið að styrkja stöðu sína á evrópskum og bandarískum listaverkamarkaði. Fyrir stuttu var stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Ísalands.

Richard Serra hefur einnig komið við sögu hér á landi en verk hans Áfangar voru sett upp í Viðey ekki alls fyrir löngu. Verk sem tengjast Íslandi og unnin eftir dvöl hans hér á landi hafa verið sýnd m.a. á MOMA safninu í New York. Einnig hefur Guggenheim safnið  í Bilbao á Spáni gert honum hátt undir höfði sem og MOMA sem verður með yfirlits sýningu á skúlptúrum hans í sumar.

Cindy Sherman hefur að mestu unnið með ljósmyndir af sjálfri sér þar sem hún setur sig í ýmis hlutverk. Hún er í dag einn virtasti ljósmyndari Bandaríkjanna og verk hennar hafa selst gegn mjög háu verði allt frá því MOMA safnið í NY keypt ljósmyndaseríu eftir hana á eina milljón dollara.

Andy Warhol er líklega þekkasti listamaður veraldar og verk hans meðal þeirra verðmestu á alþjóðlegum listaverkamarkaði. Verk eftir hann eða árituð af honum hafa gríðarlegt söfnunargildi og seljast fyrir himinháar fjárhæðir. Skemmst er að minnast sölu á málverki Warhol af kínverska leiðtoganum Mao sem seldist í fyrra fyrir 1,2 milljarða króna. Sýning á verkum Warhol hefur einu sinni verið sett upp á Íslandi þegar verk í eigu Richard Weisman voru sýnd í Galleríi Fold 2003. Nú í fyrsta skipti er verk eftir hann boðið upp hér á landi en það er offset þrykk áritað af Andy Warhol.

Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Warhol, Serra eða Sherman eru seld á Íslandi.


Kynjamunur á listaverkamarkaði

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag (28.3.2007) er verulegur kynjamunur á listaverkaeign breska Tate safnsins. Einungis 7% af safnaeigninni er eftir konur sem þó eru 12% af listamönnum sem safnið a verk eftir. Tate safnið hefur nú sett sér það markmið að minnka þennan mun.

Engin rannsókn hefur verið gerð hér á landi hvernig skiptingin er á milli kynjanna á listasöfnunum né heldur hvort kaupendur listaverka almennt séu frekar að leita eftir verkum kvenna eða karla.

Óformleg könnun sem skrifari gerði á listaverkamarkaðinum leiddi í ljós að nokkur munur er á kynjunum. Könnunin náði yfir sölu verka í galleríum á árinu 2006. Verk sem voru seld á uppboðum voru ekki tekin með í þessari könnun. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að um það bil 55% listamanna sem seldu listaverk á árinu 2006 voru konur og þær áttu 51% af andvirði seldra verka á tímabilinu. Þessi skipting er sem sagt nokkuð jöfn hér á landi. En ef fjöldi verka sem eru á bak við þessar tölur eru skoðaðar þá kemur í ljós mikið ójafnvægi. Konur gerðu 81% af þeim verkum sem seld voru á tímabilinu á meðan karlar gerðu einungis 19%. Meðalverð verka karlkyns listamanna var um það bil kr. 97.000,- á meðan meðalverð kvenkyns listamanna var tæplega kr. 24.000,-.

Þessi óformlega könnun á listaverkamarkaðinum bendir til þess að mikill munur er á stöðu kvenna og karla og að launamunur kynjanna gæti verið verulegur. Þessar niðurstöður gætu líka bent til þess að karlar vinni frekar að fáum og stórum listaverkum á meðan konur leiti frekar í að vinna smærri en fleiri verk.

 


Nær Rothko metinu aftur?

Mark Rothko White CenterÍ nóvember 2005 seldist verkið "Homage to Matisse" eftir Mark Rothko á 22.416.000 dollara og varð þar með dýrast verk eftirstríðsmálaranna. Þetta met var síðan slegið þegar verkið Untitled XXV eftir Willem de Kooning var selt á 27.100.000 dollara ári seinna. Nú er búist við því að Mark Rothko nái þessu meti aftur þegar verkið White Center verður boðið upp í New York.

Síðustu ár hefur þróunin verið sú að verð listaverka hafa stigið í nýjar hæðir. Þessi þróun er ekki eingöngu bundin við Bandaríkin þó sá markaður sé hvað sterkastur. Verð hafa einnig hækkað mikið í Bretlandi og Þýskalandi þar sem stærstu uppboðsmarkaðir Evrópu eru. Þessar verðhækkanir hafa einnig teygt anga sína til íslenskra listaverka eins og sjá má á nýlegum sölum verka eftir Kjarval í Kaupmannahöfn og Ásgríms Jónssonar í Reykjavík.

Mark Rothko var einn af fremstu málurum Bandaríkjanna eftir stríð. Hann fluttist þangað 10 ára gamall 1913 og fór síðan í nám við Yale háskólann. Eftir tveggja ára nám við Yale fluttist hann til New York þar sem hann kom sér upp vinnustofu við 53. stræti. Vinnuferill Mark Rothko nær yfir fimm áratugi og verk hans þykja formföst hvað varðar lit, dýpt og jafnvægi. Um verkin sín sagði hann sjálfur; "að það skipti ekki máli hvað hann málaði svo lengi sem það sé vel málað. Það er ekki til gott málverk sem fjallar ekki um neitt."


mbl.is Rothko-málverk selst fyrir milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðargersemar á flandri

Gl StrandÍ elsta galleríi Danmerkur, Gl Strand, stendur nú yfir sýningin Lavaland – Hraun. Þar er teflt saman landslagsmálverkum meistara Kjarvals og verkum Ólafs Elíassonar. Á sýningunni eru um það bil 30 af helstu meistaraverkum Kjarvals og þar á meðal er „Fjallamjólkin“. Eins og í verkum Kjarvals er íslensk náttúra í öndvegi í verkum Ólafs. Hann sýnir einkum stórar ljósmyndaseríur og skúlptúra sem kallast á við hraunið í verkum Kjarvals.  Ólafur Elíasson hefur á síðustu árum náð að hasla sér völl á alþjóðlegum listamarkaði og staðið að ótrúlegum listviðburðum í sýningarsölum eins og Tate Modern í London, þar sem hann setti upp verkið „The Weather Project“ í Túrbínusalnum. Hann hefur verið settur á stall með mönnum eins og Damien Hirts og jafnvel Picasso. Afar gaman er að skoða verk þessara tveggja listamanna saman og sjá nálgun þeirra að náttúru Íslands. Gl Strand galleríið er í húsi sem byggt var 1750 að Gammel Strand 48 í Kaupmannahöfn en galleríið sjálft var stofnað 1825. Sýningarrýmið er á tveimur hæðum og nauðsynlegt að fara upp þrönga stiga til að skoða listaverkin og því gæti verið erfitt að koma þeim út ef eitthvað færi úrskeiðis. Það er varla hægt að ímynda sér tapið fyrir Íslendinga ef eldur kæmi upp í galleríinu. Það er rétt að taka það fram að starfsmenn  Listasafns Íslands tóku húsnæðið út og töldu það uppfylla öll öryggisskilyrði. Beint samband er frá galleríinu til slökkviliðsins og fullkomið öryggiskerfi á staðnum. Stóra spurningin er auðvitað hvort eigi yfir höfuð að lána helstu myndlistargersemar þjóðarinnar úr landi. Þótt allrar varkárni sé gætt, getur ávallt eitthvað komið fyrir. Þarna er stór hluti af albestu og þekktustu verkum Jóhannesar S. Kjarval fluttur yfir hafið og ef verkin glatast eða eyðileggjast yrði um algjörlega óbætanlegt tjón að ræða. Það er líka spurning af hverju svo mörg af albestu verkum Kjarvals eru sett í sömu körfu en þarna eru verk á borð við „Skógarhöllina“ og „Reginsund“ fyrir utan áðurnenda „Fjallamjólk“. En um leið og við förum að gera ríkari kröfur á varðveislu þessara verka annars staðar verðum við líka að gera sömu kröfur til íslensku safnanna. Staðreyndin er sú að svo illa er búið um listaverk hér heima að þau geta auðveldlega brunnið eða orðið fyrir vatnstjóni – eins og dæmin sanna.

 

Flutningur á þessum þjóðargersemum er áhættusamur en flogið var með öll verkin til Kölnar í Þýskalandi og þaðan ekið með þau í flutningabíl til Kaupmannahafnar. Að vísu fylgdi starfsmaður safnsins verkunum.  Kannski ætti að senda slíka sýningu í tvennu lagi til að lágmarka áhættuna á tjóni. Einnig má velta fyrir sér hvort það eigi yfirhöfuð að senda slík verk úr landi. Er þessi hugmynd ekki dálítið galin? Þótt verkin séu eflaust vel vátryggð, þá eru þau algjörlega óbætanleg. Hefði ekki mátt velja verk sem eru ekki eins gífurlega mikilvæg? Erlendis vakna oft upp spurningar hvort lána eigi verk milli safna. Sé það gert er oftast um ríkislistasöfn að ræða en ekki litla sýningarsali þótt virtir séu. Lykilverk eru afarsjaldan lánuð. Við megum

ekki leyfa okkur það að hlaupa til og lána slík verk einungis vegna þess að frægir listamenn óska eftir því.

Eins og áður hefur verið sagt er sýningin sem slík mjög áhugaverð og ljóst að langur tími getur liðið þar til tækifæri gefst til að sjá þessi verk. Ég hvet alla þá sem leið eiga um Kaupmannahöfn að fara að sjá sýninguna og tel reyndar að það sé fullkomlega þess virði að gera sér ferð til Danmerkur til þess.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband