Kínamúrinn - The Great Wall

Fjölskyldan á Kínamúrnum

Fórum í gær í ferð á Kínamúrinn. Það voru þrjár ferðir sem hótelið okkar bauð upp á. Sú fyrsta, eins og stúlkan í móttökunni orðaði það, er fyrir gamalt fólk. Síðan hálfs dags ferð um það bil 80 km út fyrir Beijing og að lokum ferð fyrir alvöru göngugarpa 140 km út fyrir borgina.

 Við erum auðvitað alvöru göngugarpar og völdum því lengstu ferðina. Fannst nú ekki mikið að fara í 140 km út fyrir Beijing, ganga síðan í 4 klukkutíma og keyra að lokum til baka.

Við gerðum aftur á móti ekki ráð fyrir því að það tekur einn og hálfan tíma að komast út úr borginni og síðan tvo tíma að keyra þessa 140 km. Litli mínibussinn sem sótti okkur á hótelið var af gerðinni JinBei. Frábær eftirlíking af Toyota HiAce nema það vantar í hann fjöðrun, öryggisbelti. Þar að auki var sætið sem ég var í gert fyrir kínverja þannig að stólbakið náði tæplega upp á mitt bak á mér og var meira eins og rukkustóll því ekki var það alveg fast við gólfið.

En þessi óþægindi gleymdust aftur á móti fljótt þegar við komumst á áfangastað. Fjöllin tignarleg og falleg, álíka há og Esjan, risu upp úr landslaginu eins langt og auga eygði.

Í boði var að ganga upp að turni númer 1 eða taka kláf sem fór með mann upp í turn 4 af 30. Við ákváðum að ganga upp enda gott veður, sól og léttskýjað, og göngustígur alla leið. Um leið og við lögðum af stað þá slóst í för með okkur þessi yndislega sölukona sem við reyndum að leiða hjá okkur þó svo hún talaði nánast stanslaust. "You wanna buy photo book, very cheap." Eftir um það bil klukkutíma þá keypti Magga af henni bókina fyrir 80 yuan (ca. 800 kr.) sem eru um það bil 8% af mánaðarlaunum verkamanns.

Sölukona frá Mongólíu

 Þegar upp var komið hófst gangan eftir múrnum sem stundum var létt en stundum ansi brött. Múrinn þarna er bæði gamall og nýr því það er búið að endurgera hann og lagfæra á köflum. Annars staðar var hann að hruni kominn. Á einum stað voru múrsteinar sem voru annars vegar 400 ára gamlir og hins vegar 25 ára gamlir en allt var þetta mikilfenglegt. Öðru megin við múrinn var Mongólía og hinum megin var Kína og það var nokkur munur á veggnum. Það var ógerlegt annað en að hugsa um hvernig þessum hermönnum sem þarna börðust hafi liðið. Kannski stóðu þeir í þessu horni og reyktu og kannski sátu þeir í þessum turni með teið sitt. 

Eftir um það bil fjóra tíma komum við að áfangastað þar sem Múrinn fer yfir mikið gljúfur og á sem þar rennur. Múrinn er ekki heill þar yfir en búið að setja upp þessa fínu hengibrú. Að sjálfsögðu kostar 5 yuan að fara yfir hana.

Fjölskyldan á Kínamúrnum

Þegar yfir var komið var hægt að velja um tvær leiðir niður í þorpið þar sem hádegismaturinn og kínverski mínibussinn beið okkar. Það var hægt að ganga niður hellulagðan göngustíg eða renna sér á vír yfir uppistöðulónið og niður á stífuvegginn um það bil kílómeter neðar. Ég og Elmar skelltum okkur í það enda áhættufíklar miklir en tedrykkjufólkið (lesist: Magga og Hans) ákvað að ganga bara niður.

Að hádegisverði loknum tók síðan við hin langa og ekki svo þægilega ferð til Beijing en minningin um Múrinn þurrkar þau óþægindi fljótlega út. 


Shanghai - Beijing

Warhol_MaoNú erum við komin í túristagírinn. Eftir að hafa náð að koma upp rútínu (Vakna - skóli - sofa) í Shanghai erum við nú komin í vikufrí. Það er svokallað vorfrí (Spring Break) í hinum ameríska skóla strákanna þannig að ég óskaði eftir fríi í skólanum hjá mér. Ólíkt því sem við eigum að venjast þá er mætingarskylda í háskólana hér í Kína og því nauðsynlegt að frá skrifleg leyfi frá skóla.Við stefndum á að taka tvær borgir á einni viku.

Ætluðum fyrst til Beijing og síðan til Xi'an að skoða leirhermennina. Eftir að hafa tekið næturlestina frá Shanghai til Beijing reyndum við að fá miða frá Beijing til Xi'an en því miður var allt uppselt. Líklega vegna þess að það er að koma stór fríhelgi hjá Kínverjum. Svo kölluð QingMing hátíð.

QingMing þýðir hið hreina og bjarta og er hátíð þar sem Kínverjar minnast hinna látnu. Þeir fara með mat og drykki að leiði ættngja og biðja fyrir þeim og í lok dags er haldin matarveisla.

Við ákváðum því að framlengja dvöl okkar hér og ætlum að reyna að skoða sem mest af Beijing á viku. Erum nú þegar búin að fara í NAMOC (National Art Museum of China), forboðnu borgina, himneska hofið, grafhýsi Mao og sögusafn Beijing.Á morgun förum við síðan í langa ferð um Kínamúrinn. Leggjum af stað fyrir kl. 7 og ökum í 140 km út fyrir borgina. Göngum síðan í fjóra tíma og borðum síðan hádegismat. Við ætluðum að fara í þennan túr í dag en stúlkan í móttökunni hér á hótelinu bendi okkur á að það væri spáð rigningu og spurðu hvort við vildum ekki færa ferðina yfir á miðvikudag því þá væri spáð sól. Þetta fannst mér góð þjónusta því við vorum búin að panta hina ferðina og borga fyrir hana.

Ég mæli eindregið með þessu fína hóteli sem er vel staðsett í næstum 300 ára gömlu húsi, svo kölluðu "Courtyard". Þessi hús eru byggð í kring um garð og stundum bjó ein fjölskylda þarna en stundum nokkrar. Mao formaður ólst meðal annars upp í einu svona húsi. Þetta er eins kínverskt eins og það getur orðið. Kannski soldið líkt því og það yrði sett upp hótel í gömlum torfbæ eins og Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal. (Hér er komin viðskiptahugmynd!!!)


Páskahelgin

Kínverska ríkið telur að Mbl.is og Visir.is séu áhrifamiklir miðlar og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að þeir komi fréttum af þessum 20 eða svo óeirðaseggjum þarna í Tíb… Alla vega er ekki hægt að fara inn á síður þessar ágætu miðla héðan frá Shanghai sem væri svo sem í lagi nema það kemur í veg fyrir að ég geti sjálfur sett inn þessar línur sem þú lest núna. Því hefur undirritaður ekki skrifað mikið síðustu daga. En nú er búið að ráða bót á því. Páskahelgin er nýliðin en hérna var hún eins og hver önnur helgi. Ekkert sérstakt frí eða hátíðlegt við þessa daga. Kínverjar fá ekki frí þó svo þessar tvær milljónir kristnu manna hér í landi séu að halda hátíð. Ekki svo að skilja að kínverjar hafi ekki ýmsa frídaga. Nú eftir rúma viku er hátíð hjá kínverjum sem heitir Qingmingjié. Þá er til siðs að fara og heimsækja leiði náinna ættingja. Fær þeim mat og drykk eða annað sem þeim þótti gott, t.d. bjór eða viskí. Síðan er farið niður á hnéin og beðið fyrir ættingjunum og auðvitað þakkað fyrir að vera enn ofanjarðar. Að því loknu er maturinn tekinn til baka og haldin veisla. Hvað páskana varðar þá eru þeir eins og ég áður sagði bara venjuleg helgi. Ég var  í kínverskuprófi á skírdag (fékk c). Þetta var hlustunarpróf. Frekar erfitt að hlusta á kínversku og reyna að þekkja orðin. Síðan var venjulegur skóladagur á föstudaginn langa. Á laugardaginn fórum við á safn sem heitir Urban Planning Exhibition Center. Þar er búið að setja saman líkön sem sýna hvernig stjórnvöld í Shanghai sjá fyrir sér borgina eftir 20 ár. Nokkuð skrítið að þar var ekki nein lítil hús að sjá. Enda fer gamla fólkið víst þangað til að sjá hvar það á að búa þegar búið er að rífa gömlu húsin þeirra. Við fundum blokkina okkar á líkaninu þannig að hún fær að halda sér. Þar var líka sýning á list frá suður ameríku, mjög skemmtilegir skúlptúrar úr fjörugrjóti og vírum en einnig sýning á koparristum Rembrandts. Ábyggilega hátt í 200 verk. Páskadagur var mjög fínn. Sváfum fram eftir og leituðum að páskaeggjunum. Strákunum tókst svo vel til að fela mitt að ég fann það ekki fyrr en eftir hálftíma. Síðan fórum við að versla eins og gott er að gera á páskadag og fengum okkur súshí á leiðinni heim. Ekki mjög páskalegur matur. Hefði viljað fá lambalæri. Strákanir eru í fríi í næstu viku og ég óskaði eftir því að fá frí í skólanum hjá mér og fékk það líka. Við ætlum til Peking og erum búin að bóka hótel (http://www.hotel37.com/default_index.asp) í fjórar nætur. Erum svo að spá í að fara að sjá leirhermennina og halda síðan aftur til Shanghai á sunnudeginum eftir það.Þar til næst.

Hádegisferð

Teppabúð

Ég og Margrét fórum í smá hádegis göngutúr um hverfið suður af miðbæ Shanghai fyrr í vikunni.Þarna eru engar vestrænar glansbúðir heldur einungis litlar (mjög litlar) kínverskar verslanir sem sérhæfa sig í ákveðinni vöru. Sumar búðir eru ekki mikið meira en pappakassar út á götu með ávöxtum í eða lifandi fiskum. Rakst á eina sem seldi lifandi fasana og snáka. Mjög gaman að skoða þessar búðir.Að lokum komum við að þessum fína almenningsgarði. Fallegur gróður, körfuboltavellir og önnur svæði til útvistar. Þarna var glæsilegt gyllt skildi sem á stóð: "Garden Rules", bæði á ensku og kínversku. Ein setning í þessum fínu reglum hljómaði svona.

"Honored guests are not expected to urinate or shit in the garden".Þá vitum við það.


Skólamál

 

Shanghai

Nú er lífið komið í fastari skorður hér í Golden City Garden. Bæði ég og strákarnir förum snemma í skólann. Þeir eru sóttir af skólabílnum hingað upp að dyrum en ég þarf að taka tvær neðanjarðarlestir og er 35 til 50 mínútur á leiðinni eftir því hversu mikil traffíkin er.

Skólinn hjá mér er nokkuð skemmtilegur. Ég er í kínversku frá 8 til 11.40 alla morgna. Þetta eru þrír mismunandi kínverskutímar með þremur kennurum; hlustun, lestur og skrif og samræður. 

Síðan hafa hin fögin sem ég er skráður í byrjað hvert af öðru í vikunni en tvö byrja í næstu viku eru Chinese Culture & History og Chinese Business Culture and Environment.

Á mánudögum er ég í Chinese Business Law sem er ansi sérstakt. Ég hitti ítalskan athafnamann hérna um daginn sem hefur komið hingað í 15 ár og stundað viðskipti og deildi með honum leigubíl. Þegar ég sagði honum að ég væri að byrja í þessum áfanga leit hann á mig og spurði: "Hvaða lög? Það er ekki farið eftir neinum viðskiptalögum hér". Kennarinn talar mjög einikennilega ensku og maður skildi eiginlega ekki neitt sem hann sagði og ekki er boðið upp á bók í þessu fagi heldur. Það eina sem hægt var að gera var að glósa það sem kennarinn skrifaði á töflun.

Á miðvikudögum er ég í frábæru fagi. E-commerce. Ég hef nú þó nokkurn áhuga á þessu málefni og var því nokkuð spenntur. Tíminn byrjaði ágætlega, kennarinn talaði ensku sem var skiljanleg. Þegar tíminn var aftur á móti hálfnaður varð mér ljóst að ég væri kominn aðeins lengra í netlæsi en kennarinn og námsefnið. "You move the mouse over and type in the search for the product you want to buy". Síðan fylgi ýtarleg lýsing á hver munurinn væri að versla vöru á netinu og í búð.

 Á föstudögum er ég síðan í Chinese Economics og ég held að það sé uppáhaldsfagið mitt. Kennarinn talar skiljanlega ensku og námsefnið er mjög áhugavert. Þetta fag stangast á við kínverskutímana og því sleppi ég kínverskunni á föstudögum og er búinn á hádegi þannig að helgin nýtist vel. 

 


Myndir

Þá er ég búinn að setja upp nokkur albúm á myndasíðuna.

http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen

Þar má m.a. finna myndir frá:

 

  • Afmæli Hans og ferð okkar í Shanghai Museum
  • Cloud Nine verslunarmiðstöðina
  • Íbúðina okkar í Golden City Garden
  • Ferð okkar á leik LA Galaxy og Shanghai Hong Kong United (3-0 fyrir Beckham)
  • Ferð okkar í Shanghai Science Museum
  • Shanghai University og nágrenni hans ásamt bekkjarfélögum mínum.
Fylgist með. Ég reyni að setja inn nýjar myndir reglulega.
 
Videoclip'ið hér fyrir neðan er af staðnum sem við fórum á með Hans í afmælishádegismat.
 
 

 


Fyrsti skóladagurinn


1081YanChangCampus-smÞá er fyrsta skóladeginum lokið. Eina fagið á dagskrá var kínverska fyrir útlendinga.

Eftir að hafa farið í gegn um skráningarferlið um daginn. Tók ég stöðupróf í kínverksu. Það var reyndar ekki mjög flókið: Kanntu kínversku spurði prófdómarinn. Ég svari Nei. Ertu byrjandi spurði hann þá. Ég svaraði já. Þar með var ákveðið í hvaða bekk ég fór í kínversku. Mér var úthlutað stundatöflu og sagt að kíkja á upplýsingatöfluna niðri til þess að finna út í hvaða stofu ég ætti að mæta. Það gerði ég samviskusamlega og hugsaði með mér að ekki væri nú vitlaust að líta á kennslustofuna þannig að ég þyrfti ekki að vera leita að henni í morgunösinni. Og til þess að fullkomna undirbúninginn þá tókum fórum við leiðina sem ég fer í skólann á hverjum morgni með lestinni og mældum tímann sem það tekur, 50 mínútur nákvæmlega.

Stóri dagurinn rann upp og ég vaknaði 6.30. Borðaði morgunmat og lagði af stað á tilsettum tíma. Ég geng út á lestarstöð og það tekur um það bil 7 mínútur. Kaupi mér miða (núna er ég kominn með margnota kort) og skelli mér niður í metróið. Ég treð mér í lestina sem er full eins og síldartunna og við stefnum á Torg fólksins en það er líklega sú lestarstöð í Shanghai sem einna mest er að gera. Þarna þarf ég að skipta um lest. Fara úr línu 2 í línu 1. Ég treð mér úr lestinni og þegar ég segi treð þá meina ég það í bókstaflegri merkingu því ef þú ýtir ekki og treður þér ákveðið áfram þá einfaldlega kemstu ekki út. Þegar ég kem upp þá eru tveir straumar af fólki, annars vegar að fara úr línu 2 og hins vegar að fara í hana. Þetta er gríðarlegt mannhaf. Þetta er líkt því að vera koma sér inn á tónleika hjá vinsælustu hljómsveit veraldar. Þvílíkur er troðningurinn og lítið annað að gera en að fylgja straumnum. Þegar ég kem loks niður að línu 1 þá er lestin akkúrat komin og dyrnar opnar þannig að ég hoppa beint um borð. Dyrnar lokast og þá rennur það upp fyrir mér að ég fór í vitlausa lest. Þessi fer í hina áttina. Nú var ekkert annað að gera en að fara úr á næstu stöð og taka lestina úr hinni áttinni. Þarna fóru dýrmætar fimm mínútur og ljóst að ég yrði bara akkúrat á tíma. Lestin kemur og ég fer í hana og þarf að fara sex stöðvar áðurn en ég fer út. Þegar komið er að fimmtu stöðinni þá standa allir upp og ljósin í lestinni eru slökkt. Lestarvörður kemur inn í lestina með gjallarhorn og rekur alla út. Síðan lokast dyrnar og lestin fer, tóm. Ég hafði sem sagt farið í lest sem var með endastöð þarna, einni stöð styttra en ég var að fara. Nú töpuðust aðrar fimm mínútur. En það kemur alltaf önnur lest og ég komst að lokum á mína stöð og gékk rösklega í átt að skólanum.

Nú hugsaði ég með mér að það var gott að ég var búinn að athuga hvar stofan mín var þannig að ég stefni beint þangað. Stofa 111 í byggingu 4. Ég vind mér inn og finn mér sæti. Þarna eru greinilega vesturlandabúar þannig að ég andaði léttar. Kennarinn kínkaði kolli til mín og hélt svo bara áfram að tala á kínversku. Ég skildi ekki neitt. Sat bara þarna, tók upp bækurnar mínar fimm sem ég hafði fengið fyrir þetta fag og reyndi að komast inn í það sem var að gerast. Kennarinn skrifaði í gríð og erg á kínverksu á töfluna og byrjaði síðan að kalla nemendurnar upp á töflu til að skrifa svör við því sem þar var. Síðan kallaði benti húna á mig og ég gat ekki gert neitt nema hrist hausinn. Eftir smá stund tók ég eftir því að allir hinir nemarnir voru með öðru vísi bækur en ég og þeir virtust skilja hvað kennarinn var að segja. Ég snéri mér því að strák sem sat við hliðina á mér og spurði hann hvort þetta væri örugglega kínverska fyrir byrjendur og þá kom auðvitað í ljós að ég var í rangri stofu.

Í næstu frímínútum fór ég upp á skólaskrifstofu og þá var komin önnur stundatafla og ég átti að vera í stofu 205 í allt annarri byggingu. Ég kemst loksins í rétta stofu, þremur klukkustundum eftir að ég lagði af stað heiman frá mér á Ding Xi Road.

Stofa 205 er eins og allar hinar stofunar hérna með tréstólum sem eru áfastir borðum. Þessi húsgögn eru ekki gerð fyrir hávaxna vesturlandabúa, satt að segja alveg grjótharðir bekkir. En maður sofnar þá ekki á meðan. Hérna í Shanghai er mikill hiti góðan part ársins þannig að ekki er mikið hugsað um að hita upp húsin. Þetta á sérstaklega við um opinbera staði og sameignir húsa. Það er því kaldara inn í þessum byggingum en er úti yfir daginn. Svona er þetta líka í skólastofunum og því sitja allir í úlpunum sínum, bæði nemendur og kennarar. Það er ansi skondin sjón að sjá alla kappklædda húkandi yfir skruddunum. Þetta batnar nú með vorinu þegar hitinn fer að fara upp í 20 stigin og hærra.

Nú er bara að vona að ég komist á réttum tíma í skólann það sem eftir er vikunnar.

Á videoinu hér fyrir neðan er hægt að sjá gatnamótin þar sem lestarstöðin er hjá skólanum. Skólinn er í um það bil 5 mínútna göngufjarlægð frá þessu horni.

(Ef þið sjáið ekki videoið þá er hægt að opna það á þessari slóð: http://www.youtube.com/watch?v=yaht2al_EaY)

 


Shanghai Art Museum

shanghai.starbucks-art.museum-people.parkVið skelltum okkur í smá túristaleik um daginn og fórum niður í bæ að skoða helstu túristastaðina. Tókum lest 2 í austur og fórum úr á Torgi fólksins (Ren Min Guang Chang). Þar er skemtilegur almenningsgarður og auðvitað Starbucks kaffihús sem við ákváðum að fara inn á til að borða morgunmat. Þú færð varla dýrari morgunmat í Kína en á Starbucks. Allt sem er vestrænt er dýrt í Shanghai, alla vega á kínverskan mælikvarða.Eftir göngu í garðinum fórum við á listasafni, Shanghai Art Museum sem er við torgið. Húsið er í gamalli byggingu frá um 1930 og hýsti áður veðhlaupaklúbb þar sem hægt var að horfa yfir veðhlaupabraut sem var þar sem torgið er nú. Þetta er nokkuð stórt hús með tólf sýningarsölum en nú voru einungis tvær hæðir opnar. Til sýnis voru verk kínverskra samtímalistamanna unnin aðallega í olíu en einnig í hefbundnum kínverskum stíl með bleki og vatnslitum. Þarna voru verk frá um það bil 1960 til dagsins í dag sem mörg hver vöktu hrifningu hjá mér. Það er samt ótrúlegt hvað heimtaugin er sterk því alltaf kom upp í hugann; "já, þessi lítur út eins og Kjartan Guðjónsson eða þetta gæti verið eftir Kristján Davíðsson". En síðan voru aðrir sem skáru sig vel úr og þeir sem mér þóttu áhugaverðastir núna voru að mála fígúrtív raunsæismálverk.Shanghai tvíæringurinn er haldinn í þessu safni og mun næst fara fram í september komandi. Til að byrja með voru einungis kínverskir listamenn sýndir á tvíæringnum en í dag eru þeir um það bil helmingur og hinn helmingurinn vestrænir listamenn. Það hefur verið markmið Menningarnefndar Shanghai borgar að nota viðburði eins og þennan til þess að koma borginni í hringiðu listheimsins og því hefur áherslan færst yfir á vestræna listamenn í bland.

Biðraðamenning


streetscene

Kínverjar eru ekki mikið fyrir að bíða í röð. Kannski er það vegna þess að þeir eru svo margir og eina leiðin til þess að komast áfram er að drífa sig fremst. Þegar þeir vilja komast út úr lestinni (sem venjulega eru yfirfullar) er bara ýtt og troðist og ef þú gerir það ekki líka þá verður þú bara eftir og missir annað hvort af lestinni eða kemst ekki út úr henni.

Þeir gera þetta líka í umferðinni. Þeir eru ekkert sérstaklega að spá í það hvort það sé raut ljós eða grænt. Hvort þú sért að keyra á réttri akrein eða ekki og þeir spá ekkert í það hvort það sé bíll eða gangandi vegfarandi í vegi fyrir þeim. Eins ótrúlega og það hjómar samt þá virðist þetta ganga upp. Ef þú vilt fara yfir götu, þá leggur þú bara í hann og æðir yfir, með vakandi auga samt. Og viti menn. Aðrir hægja á sér eða í það minnsta beygja frá til þess að keyra ekki yfir þig. Miðað við alla þá gríðarlegu umferð sem er hér í Shanghai þá hef ég ekki enn séð beyglaðan bíl eða keyrt fram á árekstur. Þetta bara virðist ganga upp. Held samt að það sé rétt sem sagt er í leiðsögubókunum að það eina hættulega við Shanghai sé að fara yfir götu.

Eins og ég sagði þá eru menn ekkert sérstaklega fyrir það að vera í biðröðum en á þeim stöðum sem ég hef lent i slíku eins og til dæmis í bankanum og í skólanum mínum þá bíða þeir sitjandi. Stólum er raðað upp og síðan sest maður bara aftast. Svo þegar næsti í röðinni fer þá standa allir upp og færa sig um einn stól. Ágætis æfing það. Hnébeygjur í hálftíma.

 

 


Kaffimenning og menningarútrás

IMG_1555-3Kínverjar drekka ekki kaffi nema að litlu leiti og því getur verið erfitt fyrir kaffifíkil eins og mig að komast í gegn um daginn. Það er ekkert mál að finna Neskaffi en eins og við alvöru kaffidrykkju fólk þekkjum er það ekki “The real thing”. Því þóttist ég hafa himinn höndum tekið þegar ég rakst á kaffihús í Nanjing Road í Shanghai. Fjölskyldan þreytt eftir sólarhringsferðalag frá Íslandi daginn áður kom sér vel fyrir í þykkum sófum kaffihússins og lét rjúkjandi kaffiilminn fylla vitin. Smá vestræn áhrif hér í austurheimi og svona til að fullkomna áhrifin hljómaði Emilíana Torrini í útvarpinu. Um leið rifjaðist upp að á leiðinni niður í bæ keyrðum við fram hjá risa auglýsingaskilti þar sem tónleikar með Björk voru auglýstir en hún mun spilja hér í Shanghai þann 4. mars n.k. Þetta er sannkölluð menningarútrás hugsuðum við með okkur, tvær af okkar bestu listakonum búnar að koma sér á framfæri í alþýðulýðveldinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband