Tekist á um Kjarval

kjarvalEins og fram hefur komið hafa aðstandur Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals deilt við Reykjavíkurborg um eignarétt á teikningum og persónulegum munum listamannsins.

Ingimundur Kjarval og fleiri aðstandendur halda því fram að andlegt ástand listamannsins hafi verið slíkt að ekki var mark á takandi þegar hann gaf borginni mest allar sínar eigur. Benda þau á að Jóhannes hafi gefið borginni þessa gjöf þann 7. nóvember 1968 þá á níræðisaldri.

Líklegt er að málsaðilar muni áfrýja niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur og deilan muni hvíla sem skuggi yfir Listasafni Reykjavíkur næstu misseri. Einnig er líklegt að aðstandendur Jóhannesar muni ekki una niðurstöðunni verði hún sú sama í Hæstarétti eignaréttur borgarinnar verði staðfestur.

Óumdeilanlegt er að gjöf Kjarvals var höfðingleg en slíkar gjafir listamanna til safna og borgaryfirvalda eru vel þekkt leið til þess að skipa sér sess meðal höfuðlistamanna þjóðarinnar. Nærtækasta dæmið um slíkt í seinni tíð er gjöf Errós á þúsundum verka til Listasafns Reykjavíkur með þeirri kvöð að um safn hans yrði byggt sérstakt húsnæði. Í dag eru listaverk Errós helsta aðdráttarafl Hafnarhússins.

Ekki er víst að Jóhannes S. Kjarval hafi viljað skipa sér slíkan sess heldur hafi það verið metnaður ýmissa embættismanna ríkis og borgar sem þar hafi ráðið för. Slíkt má lesa úr þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2. mars 1945 þar sem lagt er til að byggð verði sýningaraðstaða og listamannaíbúð í tilefni 60 ára afmælis Kjarvals. Árið 1959 fer Kjarval þess á leit við yfirvöld að hætt verði við byggingu slíkrar aðstöðu og komið verði frekar upp almennri sýningaraðstöðu. Það var svo ekki fyrr en 1965 sem ákveðið var að undirlagi borgarinnar að hefja byggingu á sýningaraðstöðu fyrir myndlistarmenn sem átti að koma í stað Listamannaskálans og einnig til sýninga á verkum Kjarvals. Reisa átti þessa byggingu á Klambratúni og skyldi hún bera nafn Kjarvals.

Margir listamenn, þ.a.m. Hörður Ágústsson, voru ekki sáttir við að skipta út Listamannaskálanum og nýjum sýningarsal sem bera ætti nafn Kjarvals. Fannst þeim sem þeir þyrftu að vinna að list sinni í skugga Kjarvals. Raunin síðar varð sú að verð listaverka hafa tekið mikið mið af verði Kjarvalsverka.

Það er von skrifara að deiluaðilar nái sátt í þessu máli og sýni minningu meistara Kjarvals þá virðingu sem hann á skilið. Einnig á Listasafn Reykjavíkur að sjá sóma sinn í því að opna Kjarvalsstaði fyrir almennt sýningarhald þar sem listamenn geta sótt um sýningaraðstöðu.


mbl.is Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband