Listaverk og markaður

Jón Stefánsson Auglýsingakynning Jakobs Grétarssonar í Fréttablaðinu 21. október sl. á meintri endurkomu Péturs Þórs Gunnarssonar á listaverkamarkaðinn vekur nokkra furðu. Svo virðist sem greinin sé skrifuð í þeim tilgangi að mæra Pétur sem hefur verið dæmdur fyrir sölu á fölsuðum málverkum og slá ryki í augu væntanlegra viðskiptavina hans.

Strax í inngangi kynningarinnar kemur fram að Pétur hafi verið sýknaður í „Stóra málverkafölsunarmálinu" og er það rétt. Það sem kemur ekki fram í greininni er að fölsunarmálið var tvíþætt og Pétur ákærður í tvígang. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1999 var Pétur dæmdur til 6 mánaða fangelsisvistar sem hann afplánaði að fullu á Kvíabryggju.

Þá er einnig reynt að draga úr þeirri staðreynd að ein aðalástæða þess að Pétur og Jónas Freydal voru sýknaðir í síðara málinu var framkvæmdalegur galli á rannsókn málsins. Í dómnum segir að staða Listasafns Íslands sem eins kæranda í málinu hafi óhjákvæmilega verið talin valda því að þær sérfræðilegu álitsgerðir, sem lögregla hafði aflað hjá starfsmönnum safnsins fyrir útgáfu ákæru, gætu ekki talist tækar fyrir dómi til sönnunar um atriði sem vörðuðu sök ákærðu. Gilti þá einu hvort um væri að ræða verk, sem safnið hafi lagt fram kæru um, eða verk sem því væru óviðkomandi. Var ekki talið að þau sönnunargögn sem eftir stæðu, nægðu til að ákæruvaldið gæti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi. Hæstiréttur komst einnig að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hefði mátt bæta úr þessum bresti á sönnunarfærslu með því að leita eftir dómkvaðningu kunnáttumanna til að leggja mat á þau atriði sem snúa að LÍ. Aðspurður sagðist Ólafur I. Jónsson forvörður ekki skilja þessa afstöðu dómsins þar sem hann hafi verið kærandinn í málinu en ekki listasafnið. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði. Töldu þeir að dæma skyldi Pétur í 12 mánaða fangelsi og að Jónas Freydal ætti að dæma í 6 mánaða fangelsi og báðum dómum ætti að fresta að hluta haldi sakborningar almennt skilorð.

Eigendasaga listaverka var mikið í umfjölluninni þegar fölsunarmálin fóru fyrir dómara og óvenju mikið framboð listaverka eftir ákveðna höfunda. Jakob segir einnig í kynningu sinni á Pétri að „ein megin röksemd ákærenda í Stóra málverkafölsunarmálinu hafi einmitt verið þessi: Ótrúlega mikið framboð, engin eigendasaga, áður óþekkt mynd." Það sem Jakob sleppir hins vegar að nefna er að skrásetning eigendasögu er ein besta forvörnin gegn fölsunum og slík skrásetning er viðhöfð hjá nánast öllum uppboðshúsum, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu. Þessi skráning er yfirleitt ekki gefin upp nema til kaupenda verkanna og þar sem íslensk myndlistarsaga er einungis rúmlega 100 ára gömul er sagan yfirleitt á þá leið að seljandinn fékk verkið frá höfundi þess eða erfði það frá foreldrum sínum sem fengu það frá höfundi. Það er ekkert óeðlilegt við slíka eigendasögu og ekkert óeðlilegt að verkið hafi ekki verið þekkt áður enda mestar líkur á því að það hafi verið stofustáss á heimili seljandans svo áratugum skiptir. Það sem er aftur á móti óeðlilegt, og Jakobi fannst ekki ástæða að nefna, er að Pétur neitaði fyrir dómi að gefa upp eigendasögu verkanna. Engar skráningar né önnur gögn sýndu fram á hvaðan Pétur fékk verkin, það var enginn eigandi að verkunum á undan Pétri.

Hið aukna magn íslenskra listaverka sem nú er að koma fram á uppboðum er ákaflega ánægjuleg þróun. Það sýnir svo ekki verði um villst að þrátt fyrir öll áföll sem málverkamarkaðurinn hefur lent í þá er hann að jafna sig. Upp úr 1998 fjölgaði verkum sem boðin voru upp á Íslandi verulega og verð verkanna hækkaði einnig. Þetta mikla framboð og háa verð hélst allt til ársins 1999 þegar dómur í fyrra fölsunarmálinu féll og Pétur var dæmdur til 6 mánaða fangelsisvistar fyrir bókhaldsbrot og að selja þrjú verk danska málarans Wilhelm Wils með rangri höfundarmerkingu Jóns Stefánssonar í auðgunarskyni. Næstu ár þar á eftir rétti markaðurinn aðeins úr kútnum en dróst síðan saman aftur þegar dómur í seinna fölsunarmálinu féll árið 2004. Það þarf að fara aftur til ársins 1986 til að sjá viðlíka lækkun á íslenska uppboðsmarkaðnum. Á þessu ári hefur markaðurinn tekið stórt stökk upp á við og þar sem verðið hefur hækkað eru fleiri reiðubúnir til þess að selja góð verk eftir frumherja íslenskrar myndlistar. Þetta má lesa í skýrslu um íslenska uppboðsmarkaðinn sem nokkrir nemendur við Háskólann á Bifröst gáfu út í júní síðastliðnum.

Ljóst er að íslenskur myndlistarmarkaður verður aldrei að fullu laus við áhrif fölsunarmálsins og nauðsynlegt að allir aðilar séu á varðbergi til að koma í veg fyrir að falsanir séu seldar. Menn ættu að hafa það í huga í framtíðinni að Pétur og Jónas voru sýknaðir í seinna fölsunarmálinu af tæknilegum ástæðum og finnst mörgum að eiginleg niðurstaða hafi aldrei komið fram, hvort um falsanir hafi verið að ræða. Blaðamenn verða einnig að sýna þá ábyrgð að fjalla um málið á hlutlausan hátt og ekki sleppa þeim atriðum sem þeim finnst ekki henta sínum málstað.

Hið aukna magn íslenskra listaverka sem nú er að koma fram á uppboðum er ákaflega ánægjuleg þróun. Það sýnir svo ekki verður um villst að þrátt fyrir öll áföll sem málverkamarkaðurinn hefur lent í þá er hann að jafna sig.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband