27.1.2007 | 16:12
Sýningarrölt á laugardegi
Ég fór á sýningarrölt í dag og sá þrjár sýningar.
Fyrst fór ég í Listasafn Íslands þar sem nú stendur yfir sýningin "Frelsun litarins". Sýningin kemur frá Musée des Beaux-Arts í Bordeaux í Frakklandi í tengslum við menningarhátíð sem frönsk og íslensk stjórnvöld standa að, POURQUOI PAS? - FRANSKT VOR Á ÍSLANDI. Þarna gefst ágætt tækifæri að berja frönsku fauvistana eins og Henri Matisse augum. Það er sérstaklega gaman að skoða sýningu á verkum Jóns Stefánssonar í tengslum við verk hinna frönsku. Jón var nemandi Henri Matisse á árunum 1908 til 1911. Íslensku söfnin mega gera meira af því að tengja með þessum hætti íslenka listamenn við alþjóðlega listamenn og listastefnur. Það er nú einu sinni þannig að allir frumherjar íslenskrar myndlistar fóru erlendis til náms og urðu fyrir miklum áhrifum af því sem var að gerast í Evrópu.
Næsta sýning sem ég sá var sýning Jóhanns Ludwig Torfasonar sem hann nefnir "Ný leikföng". Á sýningunni eru ný tölvugerð málverk af skálduðum leikföngum fyrir hina meðvituðu yngstu kynslóð eins og segir í fréttatilkynningu. Jóhann hefur um hríð málað hápólitísk en jafnframt mjög húmorísk málverk þar sem leikföng og dúkkur leika lykilhlutverk. Tvö verk á þessari sýningu hrifu mig sérstaklega, annars vegar verkið "Adam... og seinna Eva". Adam er dúkka og ef þú tekur úr henni rifbeinið og setur í vatn vex það í aðra dúkku, Evu. "Hreinsunareldurinn" sem er silkiþrykk vakti hins vegar sérstaka athygli mína. Þar þarf áhorfandinn að hjálpa hinum venjulega skrifstofumanni að fara í gegn um hreinsunareldinn og ómögulegt í upphafi að vita hvoru megin hann lendir, uppi eða niðri.
Síðasta sýningin sem ég fór á var sýningin Gullpenslarnir - Indigo í Listasafni Kópavogs Gerðsafni. Gullpenslarnir hafa sýnt nokkrum sinnum saman í gegn um tíðina. Það sem er nýtt í þeirra samstarfi er að nú settu þeir ákveðið þema í sýninguna. Þemað er liturinn Indigo blár. Að mínu mati er ekki nógu mikill heildarsvipur á sýningunni, þema hennar er ekki nógu skýrt í verkum listamannann og gerir sýninguna nokkuð sundurleita. Einnig var ég fyrir vonbrigðum með verk einstakra listamanna á sýningunni og þá sérstaklega verk Kristínar Gunnlaugsdóttur og Birgis Snæbjörns Birgissonar. Aftur á móti voru verk Daða Guðbjörnssonar, Eggerts Péturssonar, Sigurðar Árna Sigurðssonar og Sigríðar Ólafsdóttur sérstaklega skemmtileg.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.