Í elsta galleríi Danmerkur, Gl Strand, stendur nú yfir sýningin Lavaland Hraun. Þar er teflt saman landslagsmálverkum meistara Kjarvals og verkum Ólafs Elíassonar. Á sýningunni eru um það bil 30 af helstu meistaraverkum Kjarvals og þar á meðal er Fjallamjólkin. Eins og í verkum Kjarvals er íslensk náttúra í öndvegi í verkum Ólafs. Hann sýnir einkum stórar ljósmyndaseríur og skúlptúra sem kallast á við hraunið í verkum Kjarvals. Ólafur Elíasson hefur á síðustu árum náð að hasla sér völl á alþjóðlegum listamarkaði og staðið að ótrúlegum listviðburðum í sýningarsölum eins og Tate Modern í London, þar sem hann setti upp verkið The Weather Project í Túrbínusalnum. Hann hefur verið settur á stall með mönnum eins og Damien Hirts og jafnvel Picasso. Afar gaman er að skoða verk þessara tveggja listamanna saman og sjá nálgun þeirra að náttúru Íslands. Gl Strand galleríið er í húsi sem byggt var 1750 að Gammel Strand 48 í Kaupmannahöfn en galleríið sjálft var stofnað 1825. Sýningarrýmið er á tveimur hæðum og nauðsynlegt að fara upp þrönga stiga til að skoða listaverkin og því gæti verið erfitt að koma þeim út ef eitthvað færi úrskeiðis. Það er varla hægt að ímynda sér tapið fyrir Íslendinga ef eldur kæmi upp í galleríinu. Það er rétt að taka það fram að starfsmenn Listasafns Íslands tóku húsnæðið út og töldu það uppfylla öll öryggisskilyrði. Beint samband er frá galleríinu til slökkviliðsins og fullkomið öryggiskerfi á staðnum. Stóra spurningin er auðvitað hvort eigi yfir höfuð að lána helstu myndlistargersemar þjóðarinnar úr landi. Þótt allrar varkárni sé gætt, getur ávallt eitthvað komið fyrir. Þarna er stór hluti af albestu og þekktustu verkum Jóhannesar S. Kjarval fluttur yfir hafið og ef verkin glatast eða eyðileggjast yrði um algjörlega óbætanlegt tjón að ræða. Það er líka spurning af hverju svo mörg af albestu verkum Kjarvals eru sett í sömu körfu en þarna eru verk á borð við Skógarhöllina og Reginsund fyrir utan áðurnenda Fjallamjólk. En um leið og við förum að gera ríkari kröfur á varðveislu þessara verka annars staðar verðum við líka að gera sömu kröfur til íslensku safnanna. Staðreyndin er sú að svo illa er búið um listaverk hér heima að þau geta auðveldlega brunnið eða orðið fyrir vatnstjóni eins og dæmin sanna.
Flutningur á þessum þjóðargersemum er áhættusamur en flogið var með öll verkin til Kölnar í Þýskalandi og þaðan ekið með þau í flutningabíl til Kaupmannahafnar. Að vísu fylgdi starfsmaður safnsins verkunum. Kannski ætti að senda slíka sýningu í tvennu lagi til að lágmarka áhættuna á tjóni. Einnig má velta fyrir sér hvort það eigi yfirhöfuð að senda slík verk úr landi. Er þessi hugmynd ekki dálítið galin? Þótt verkin séu eflaust vel vátryggð, þá eru þau algjörlega óbætanleg. Hefði ekki mátt velja verk sem eru ekki eins gífurlega mikilvæg? Erlendis vakna oft upp spurningar hvort lána eigi verk milli safna. Sé það gert er oftast um ríkislistasöfn að ræða en ekki litla sýningarsali þótt virtir séu. Lykilverk eru afarsjaldan lánuð. Við megum
ekki leyfa okkur það að hlaupa til og lána slík verk einungis vegna þess að frægir listamenn óska eftir því.
Eins og áður hefur verið sagt er sýningin sem slík mjög áhugaverð og ljóst að langur tími getur liðið þar til tækifæri gefst til að sjá þessi verk. Ég hvet alla þá sem leið eiga um Kaupmannahöfn að fara að sjá sýninguna og tel reyndar að það sé fullkomlega þess virði að gera sér ferð til Danmerkur til þess.
Athugasemdir
Hey vá, hvaða svaka gellur eru það sem standa þarna fyrir utan???
Lollý (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 15:59
Það upplýsist hér með að þær eru frá Selfossi
Jóhann Ágúst Hansen, 28.3.2007 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.