24.4.2007 | 15:22
Andy Warhol á Íslandi
Næsta listmunauppboð Gallerís Foldar fer fram næst komandi sunnudag kl. 19. á Hótel Sögu.
Boðin verða upp rúmlega 130 verk af ýmsum toga, þar á meðal fjöldi verka gömlu meistaranna. Meðal annars má nefna verk eftir Þórarin B. Þorláksson, Jón Stefánsson, Mugg, Nínu Tryggvadóttur, Ásgrím Jónsson, Kjarval, Kristínu Jónsdóttur, Þorvald Skúlason, Gunnlaug Scheving, Gunnlaug Blöndal, Karl Kvaran, Jóhann Briem, Svavar Guðnason.
Einnig verða boðin upp verk eftir nokkra alþjóðlega stórlistamenn, þau Dieter Roth, Cindy Sherman, Richard Serra og Andy Warhol.
Dieter Roth er Íslendingum af góðu kunnur og hefur verið að styrkja stöðu sína á evrópskum og bandarískum listaverkamarkaði. Fyrir stuttu var stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Ísalands.
Richard Serra hefur einnig komið við sögu hér á landi en verk hans Áfangar voru sett upp í Viðey ekki alls fyrir löngu. Verk sem tengjast Íslandi og unnin eftir dvöl hans hér á landi hafa verið sýnd m.a. á MOMA safninu í New York. Einnig hefur Guggenheim safnið í Bilbao á Spáni gert honum hátt undir höfði sem og MOMA sem verður með yfirlits sýningu á skúlptúrum hans í sumar.
Cindy Sherman hefur að mestu unnið með ljósmyndir af sjálfri sér þar sem hún setur sig í ýmis hlutverk. Hún er í dag einn virtasti ljósmyndari Bandaríkjanna og verk hennar hafa selst gegn mjög háu verði allt frá því MOMA safnið í NY keypt ljósmyndaseríu eftir hana á eina milljón dollara.
Andy Warhol er líklega þekkasti listamaður veraldar og verk hans meðal þeirra verðmestu á alþjóðlegum listaverkamarkaði. Verk eftir hann eða árituð af honum hafa gríðarlegt söfnunargildi og seljast fyrir himinháar fjárhæðir. Skemmst er að minnast sölu á málverki Warhol af kínverska leiðtoganum Mao sem seldist í fyrra fyrir 1,2 milljarða króna. Sýning á verkum Warhol hefur einu sinni verið sett upp á Íslandi þegar verk í eigu Richard Weisman voru sýnd í Galleríi Fold 2003. Nú í fyrsta skipti er verk eftir hann boðið upp hér á landi en það er offset þrykk áritað af Andy Warhol.
Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Warhol, Serra eða Sherman eru seld á Íslandi.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.