21.5.2007 | 11:33
Skúlptúr á tíu milljónir
Uppboðshúsið Phillips de Pury & Company í New York seldi skúlptúr eftir Ólaf Elíasson fyrr í þessum mánuði á 160.000 dollara eða sem nemur rétt rúmum tíu milljónum króna.
Skúlptúrinn sem er kviksjá úr tré og gleri á tréfæti gerði Ólafur árið 2003 í þremur eintökum. Um verkið segir Ólafur að kviksjáin dragi saman sjónsviðið í eina heild og hafi á sínum tíma þótt tákn nýtískuleikans.
Verkið var metið á 9,4 til 12,6 milljónir króna en seldist eins og áður sagði á rétt rúmar tíu milljónir.
Þrjú verk eftir Íslendinga hafa því selst á þessu ári fyrir meira en tíu milljón króna. Verk Ólafs og tvö verk á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Danmörku í febrúar. Það voru annars vegar verkið Hvítasunnudagur eftir Jóhannes S. Kjarval og hins vegar verkið Contra Natura eftir Odd Nerdrum sem fluttist hingað til lands fyrir nokkrum árum. Þau verk seldust fyrir 15,3 milljónir eða 1,3 milljónir danskar krónur hvort.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.