25.3.2008 | 17:59
Páskahelgin
Kínverska ríkið telur að Mbl.is og Visir.is séu áhrifamiklir miðlar og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að þeir komi fréttum af þessum 20 eða svo óeirðaseggjum þarna í Tíb
Alla vega er ekki hægt að fara inn á síður þessar ágætu miðla héðan frá Shanghai sem væri svo sem í lagi nema það kemur í veg fyrir að ég geti sjálfur sett inn þessar línur sem þú lest núna. Því hefur undirritaður ekki skrifað mikið síðustu daga. En nú er búið að ráða bót á því. Páskahelgin er nýliðin en hérna var hún eins og hver önnur helgi. Ekkert sérstakt frí eða hátíðlegt við þessa daga. Kínverjar fá ekki frí þó svo þessar tvær milljónir kristnu manna hér í landi séu að halda hátíð. Ekki svo að skilja að kínverjar hafi ekki ýmsa frídaga. Nú eftir rúma viku er hátíð hjá kínverjum sem heitir Qingmingjié. Þá er til siðs að fara og heimsækja leiði náinna ættingja. Fær þeim mat og drykk eða annað sem þeim þótti gott, t.d. bjór eða viskí. Síðan er farið niður á hnéin og beðið fyrir ættingjunum og auðvitað þakkað fyrir að vera enn ofanjarðar. Að því loknu er maturinn tekinn til baka og haldin veisla. Hvað páskana varðar þá eru þeir eins og ég áður sagði bara venjuleg helgi. Ég var í kínverskuprófi á skírdag (fékk c). Þetta var hlustunarpróf. Frekar erfitt að hlusta á kínversku og reyna að þekkja orðin. Síðan var venjulegur skóladagur á föstudaginn langa. Á laugardaginn fórum við á safn sem heitir Urban Planning Exhibition Center. Þar er búið að setja saman líkön sem sýna hvernig stjórnvöld í Shanghai sjá fyrir sér borgina eftir 20 ár. Nokkuð skrítið að þar var ekki nein lítil hús að sjá. Enda fer gamla fólkið víst þangað til að sjá hvar það á að búa þegar búið er að rífa gömlu húsin þeirra. Við fundum blokkina okkar á líkaninu þannig að hún fær að halda sér. Þar var líka sýning á list frá suður ameríku, mjög skemmtilegir skúlptúrar úr fjörugrjóti og vírum en einnig sýning á koparristum Rembrandts. Ábyggilega hátt í 200 verk. Páskadagur var mjög fínn. Sváfum fram eftir og leituðum að páskaeggjunum. Strákunum tókst svo vel til að fela mitt að ég fann það ekki fyrr en eftir hálftíma. Síðan fórum við að versla eins og gott er að gera á páskadag og fengum okkur súshí á leiðinni heim. Ekki mjög páskalegur matur. Hefði viljað fá lambalæri. Strákanir eru í fríi í næstu viku og ég óskaði eftir því að fá frí í skólanum hjá mér og fékk það líka. Við ætlum til Peking og erum búin að bóka hótel (http://www.hotel37.com/default_index.asp) í fjórar nætur. Erum svo að spá í að fara að sjá leirhermennina og halda síðan aftur til Shanghai á sunnudeginum eftir það.Þar til næst.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.