3.4.2008 | 03:34
Kínamúrinn - The Great Wall
Fórum í gær í ferð á Kínamúrinn. Það voru þrjár ferðir sem hótelið okkar bauð upp á. Sú fyrsta, eins og stúlkan í móttökunni orðaði það, er fyrir gamalt fólk. Síðan hálfs dags ferð um það bil 80 km út fyrir Beijing og að lokum ferð fyrir alvöru göngugarpa 140 km út fyrir borgina.
Við erum auðvitað alvöru göngugarpar og völdum því lengstu ferðina. Fannst nú ekki mikið að fara í 140 km út fyrir Beijing, ganga síðan í 4 klukkutíma og keyra að lokum til baka.
Við gerðum aftur á móti ekki ráð fyrir því að það tekur einn og hálfan tíma að komast út úr borginni og síðan tvo tíma að keyra þessa 140 km. Litli mínibussinn sem sótti okkur á hótelið var af gerðinni JinBei. Frábær eftirlíking af Toyota HiAce nema það vantar í hann fjöðrun, öryggisbelti. Þar að auki var sætið sem ég var í gert fyrir kínverja þannig að stólbakið náði tæplega upp á mitt bak á mér og var meira eins og rukkustóll því ekki var það alveg fast við gólfið.
En þessi óþægindi gleymdust aftur á móti fljótt þegar við komumst á áfangastað. Fjöllin tignarleg og falleg, álíka há og Esjan, risu upp úr landslaginu eins langt og auga eygði.
Í boði var að ganga upp að turni númer 1 eða taka kláf sem fór með mann upp í turn 4 af 30. Við ákváðum að ganga upp enda gott veður, sól og léttskýjað, og göngustígur alla leið. Um leið og við lögðum af stað þá slóst í för með okkur þessi yndislega sölukona sem við reyndum að leiða hjá okkur þó svo hún talaði nánast stanslaust. "You wanna buy photo book, very cheap." Eftir um það bil klukkutíma þá keypti Magga af henni bókina fyrir 80 yuan (ca. 800 kr.) sem eru um það bil 8% af mánaðarlaunum verkamanns.
Þegar upp var komið hófst gangan eftir múrnum sem stundum var létt en stundum ansi brött. Múrinn þarna er bæði gamall og nýr því það er búið að endurgera hann og lagfæra á köflum. Annars staðar var hann að hruni kominn. Á einum stað voru múrsteinar sem voru annars vegar 400 ára gamlir og hins vegar 25 ára gamlir en allt var þetta mikilfenglegt. Öðru megin við múrinn var Mongólía og hinum megin var Kína og það var nokkur munur á veggnum. Það var ógerlegt annað en að hugsa um hvernig þessum hermönnum sem þarna börðust hafi liðið. Kannski stóðu þeir í þessu horni og reyktu og kannski sátu þeir í þessum turni með teið sitt.
Eftir um það bil fjóra tíma komum við að áfangastað þar sem Múrinn fer yfir mikið gljúfur og á sem þar rennur. Múrinn er ekki heill þar yfir en búið að setja upp þessa fínu hengibrú. Að sjálfsögðu kostar 5 yuan að fara yfir hana.
Þegar yfir var komið var hægt að velja um tvær leiðir niður í þorpið þar sem hádegismaturinn og kínverski mínibussinn beið okkar. Það var hægt að ganga niður hellulagðan göngustíg eða renna sér á vír yfir uppistöðulónið og niður á stífuvegginn um það bil kílómeter neðar. Ég og Elmar skelltum okkur í það enda áhættufíklar miklir en tedrykkjufólkið (lesist: Magga og Hans) ákvað að ganga bara niður.
Að hádegisverði loknum tók síðan við hin langa og ekki svo þægilega ferð til Beijing en minningin um Múrinn þurrkar þau óþægindi fljótlega út.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Ferðalög | Facebook
Athugasemdir
Vá þetta hefur verið frábært. Ég hefði rennt mér eftir vírnum ef það hefði staðið til boða og ég ekki þurft að hanga á handleggjunum einum saman.
Hér snjóar enn, Hellisheiðin lokuð í nótt og framm á morgun og fólki bjargað þaðan í í hrönnum snarvitlsausu veðri sem skall á skindilega i gærkvöld. Spáðu kvössu en ekki í þessum mæli. Nú kl 10 að morgni er sól en kalt. Frikki og Sóley komin heim glöð og ánægð en ekki tiltakanlega brún. Þetta eru svoddan hvítingjar. 'astarkveðja til allra Elínbjör
Elínbjört (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 10:13
Hæ þið öll í Kína
Mikið er gaman að fylgjast með ævintýrum ykkar í Kínaveldi. Ótrúlegt að hafa séð Kínamúrinn, það er eitthvað svona sem mann hefur langað til síðan maður var lítill. Frábært að sjá þessar myndir líka Jói.
Knúsar til ykkar allra úr Kópavoginum,
Kristín P og kötturinn Keli :o)
Kristín P (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.