Ný verk eftir Tryggva Ólafsson

Tryggvi ÓlafssonListmálarinn Tryggvi Ólafsson er landsmönnum af góðu kunnur. Hann hefur verið búsettur og unnið að list sinni í Danmörku síðast liðin 40 ár en hefur alltaf haldið tryggð við sitt heimaland. Það hefur hann gert með því að halda sýningar á Íslandi annað hvert ár. Tryggvi er frá Norðfirði og þar er fólk stolt af sínum besta son á sviði lista og hefur opnað glæsilegt safn, Tryggvasafn.

Tryggvi er væntanlegur til Íslands nú í nóvember og mun koma með ný verk með sér, hvort tveggja akrýl málverk og ný þrykk sem hann vann nú í október. Verkin verða til sölu í Galleríi Fold.

Tryggvi Ólafsson er fæddur á Neskaupsstað árið 1940. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1960-1961 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1961-1966.

Tryggvi hefur búið í Danmörku s.l. 40 ár eins og áður hefur komið fram. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar bæði á Íslandi og í Danmörku og hefur einnig tekið þátt í fjöldamörgum samsýningum.á Íslandi, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi og Englandi.

Tryggvi hefur skreytt byggingar á Íslandi og í Danmörku og eru verk hans í eigu 12 listasafna á Norðurlöndunum.

Tryggvi varð fyrir sterkum áhrifum frá tækni og táknmáli popplistarinnar. Hann notaði snemma stíl frétta ljósmynda og teiknimyndasagna til að koma boðskap sínum á framfæri og þróaði flatarkennt en fígúratívt málverk með hjálp myndvarpstækni. Í verkum hans blandaðist í nokkuð jöfnum skömmtum persónulegur reynsluheimur og áhrif frá umhverfi og umheimi, einkum heimsmálum. Málverk Tryggva hafa oft verið vakningar bæði í pólitískum og húmanískum skilningi. Með tímanum hvarf Tryggvi frá vélrænni og ópersónulegri tækni popplistarinnar og tileinkaði sér næmari og ljóðrænni vinnubrögð, án þess að hverfa frá flatarkenndum og hlutbundnum tjáningarmáta. Á síðar árum hefur myndmál Tryggva einfaldast. Það einkennist af hreinum afmörkuðum litarflötum og formum sem rekja má til margvíslegra hluta í umhverfi okkar, fortíð og samtíð, þar sem hlutirnir fá nýja merkingu í nýju samhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband