Ýmislegt um að vera um helgina

einar_galleri_fold_bw2Myndlistaráhugamenn ættu að geta fundið ýmislegt við sitt hæfi um helgina og ekki úr vegi að nýta hið góða veður sem prýðir höfuðborgina í dag til þess að rölta á milli sýninga.

Takið fram gönguskóna og byrjið á Kjarvalsstöðum þar sem hægt er að sjá einkasýningu Þórdísar Aðalsteinsdóttur, Skoðum myndlist sem er sýningarröð sem sérstaklega er sett upp fyrir börn og að sjálfsögðu úrval verka úr safnaeigninni.

Síðan er stefnan tekin niður í bæ og næst komið við í Gallerí Fold við Rauðarárstíg. Þar opnar Einar Hákonarson sýningu sem hann kallar Málverk kl. 15. Boðið er upp á veitingar við opnunina. Því næst er hægt að ganga niður Laugaveginn og koma við á Safni sem er við Laugaveg 37. Þar er hægt að sjá gjörninga í tilefni af Sequences hátíðinni.

Ef haldið er áfram niður í bæ er hægt að sjá Nýja málverkið í Listasafni Íslands en þar eru á annað hundrað listaverk eftir 56 listamenn. Þaðan er ágætt að taka stefnuna í Ráðhús Reykjavíkur og sjá Handverk og hönnun sem er sölusýning á íslensku handverki og listiðnaði.

Að lokum er fínt að enda í Hafnarhúsinu og skoða Erró sýningu og fá sér kaffi og köku á kaffistofu safnsins þar sem hægt er að njóta útsýnis yfir Reykjavíkurhöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband