Yangtze fljótið

Fjölskyldan tékkaði sig inn á skemmtiferðaskipið sem á að sigla með okkur niður Yangtze fljótið. Þetta er ekki mjög stórt skip, einungis 5 þilför og rúmlega 60 herbergi. Aðbúnaður er samt með ágætum, sjónvarp og sérbaðherbergi fyrir alla.

Siglt var af staðí morgunsárið og stefnt að draugaborginni Fengdu. Fólk sem býr við fljótið trúir því að sálir hinna dauðu fari til borgarinnar. Fengdu er ein fjölmargra borga og þorpa sem farið hafa undir vatn vegna hinnar nýju þriggja gljúfra stíflu. Um 70000 bjuggu í gömlu borginni en í hinni nýju sem staðsett er hinu megin við árbakkann búa 100000. Sú borg var byggð á fimm árum!

Yangtze fljótið er þriðja lengsta fljót í heimi, 6300 km næst á eftir Amazon og Níl sem er lengst og nokkuð lengra en Missisippi sem er í fjórða sæti. Sautjándi hver jarðarbúi eða svo býr við þetta mikilfenglega fljót. Það eru fleiri en búa í Bandaríkjunum og Kanada til samans.

Næsti áfangastaður á eftir draugaborginni var þveráin Shannong. Til að komast að henni sigldum við í gegn um fyrstu tvö gljúfrin. Þetta er gríðarlega mikilfengleg kljúfur sem virðast teygja sig til himna þegar silgt er um þau. Vatnsyfirborð Yangtze fljótsins er um það bil 155m yfir sjávarmáli núna en á eftir að hækka um 20m til viðbótar fram til ársins 2009 vegna hinnar nýju stíflu. Það er ótrúlegt til þess að hugsa hversu mikið vatnsyfirborðið hefur hækkað síðan 2003 þegar byrjað var að fylla lónið.

Shannnog þveráin er líklega einn af fallegustu stöðum Kína. Há fjöll rísa beggja vegna árinnar þéttvaxin trjágróðri frá ánni og upp á fjallstopp. Apar leika sér í trjánum og innfæddir sem tilheyra einum af 55 minnihlutahópum kínverska alþýðulýðveldisins sigla um á mjóum árabátum. Við fengum ekki sérlega gott veður, mikil rigning og þrumuveður hamlaði því að við gætum silgt eins langt og stefnt var að. Mistrið og rigningin gerði það aftur á móti að verkum að landslagið varð stórfenglegra,meiri dýpt í litunum og skemmtilegar skýjamyndanir í fjallstoppunum. 

Eftir kvöldverð með skipstjóranum komum við skipaskurðinum við þriggja gljúfra stífluna. Þetta er ótrúlegt mannvirki með fimm hólfum. Skipin sigla inn og risastórar hurðirlokast á eftir þeim. Síðan er vatninu hleypt úr og skipin síðan færð yfir í næsta hólf og svo koll af kolli þar til að búið er að færa skipin alla leið niður. Ferlið tekur um 3 tíma en um það bil 6 skip komast fyrir í hverju hólfi og var lækkunin úr 165m í um 75m yfir sjávarmáli.

Síðasti dagurinn rann upp allt of snemma. Við vorum vakin kl. 6.20 til þess að borða morgunmat og fara í skoðunarferð um stífluna og skipaskurðinn sem við fórum í gegnum í gærkveldi. Stíflan er mikið mannvirki og ég hef ekki tölu á því hversu oft okkur var sagt að þetta væri stærst stíflan með mesta aflið og flestar túrbínur í heiminum. Allt mjög áhugavert samt og gaman að skoða. Veðrið lék við okkur núna, sól og blíða.

Eftirskoðunarferðina silgdum við í gegn um síðasta og þriðja gljúfrið og fórum loks frá borði. Tekið var á móti okkur með rútu sem flutti okkur á ágætan veitingastað þar sem við borðuðum hádegismat. Leiðsögumaðurinn (frekar óþolandi og uppáþrengjandi kona) fór síðan með okkur í silkibúð því nægur tíma var þar til flugið okkar átti að fara seinni partinn. Okkur langaði ekkert sérstaklega í þessa búð en létum til leiðast. Ætli hún fái ekki prósentur ef við myndum kaupa eitthvað. Við keyptum samt ekkert. Allt of dýrt í þessum túristabúðum.

Flugið  heim gékk síðan vel og við vorum komin í indælu íbúðina okkar um kvöldmatarleiti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband