15.5.2008 | 01:51
Ákall til þjóðarinnar um hjálp
Kínversk yfirvöld hafa sent út ákall til allra kínverja um að hjálpa fórnarlömbum skjálftans mikla sem reið yfir Sichuan hérað á mánudaginn. Skjálftinn sem nú er sagður hafa verið 7,9 Richter stig lagði allt að 80% húsa í rúst og fjöldi þeirra sem er saknað er meira en 60000. Kínverjar eru beðnir um að hjálpa eins og þeir geta með fjárgjöfum en aðallega að gefa blóð.
Borgaryfirvöld í Shanghai hafa lagt sitt að mörkum og sent 150 tonn af hjálpargögnum á hamfarasvæðið og 30 nýjir sjúkrabílar bíða þess að vera sendir. Borgin ætlar að gera allt sem hún getur til að aðstoða íbúa Sichuan héraðs. Settar hafa verið upp stöðvar til að safna saman hjálpargögnum frá almenningi sem eru opnar allan sólarhringinn. Áfallahjálp er boðin þeim nemendum og farandsverkamönnum sem koma frá Sichuan og nærliggjandi héruðum. Einnig hefur verið opnaður bankareikningur í nafni The Shanghai Charity Foundation þar sem almenningur er hvattur til að leggja inn peninga.
Yfirvöld hafa gefið það út að vegna þess hve samgöngumannvirki fóru illa út úr skjálftanum þá gangi hægt að senda inn herinn og björgunarsveitarfólk til hjálpar en brugðið verður á það ráð að senda birgðir og allt að 30000 fallhlífar hermenn til viðbótar þeim rúmlega 47000 hermönnum sem nú þegar eru á svæðinu. Yfirvöld halda einnig þessari ástæðu á lofti þegar þeir afþakka góð boð um erlenda aðstoð en benda á að hægt sé að aðstoða fórnarlömbin í staðinn með fjárgjöfum. Fjárgjafir duga skammt þeim þúsundum manna eru grafnir undir húsarústum og bíða þess að hjálp berist.
Spurningar hafa vaknað hvers vegna svo margar skólabyggingar hafa hrunið en fáar byggingar sem hýsa stjórnsýsluna. Fólk veltir fyrir sér hvort eftirlit með þeim sem byggja skólana sé ábótavant og hverjum sé um að kenna. Stjórnmálamenn svara því til að stjórnsýslubyggingar hafi einnig hrunið og þar hafi fólk einnig látist. Það sé bara fréttaflutningurinn sem er svo einhliða og það selji fleiri blöð að fjalla um nemendur fasta í rústun heldur en bæjarstarfsmenn.
Fréttir berast enn af björgun fólks sem grafið hefur verið undir húsunum í tvo sólarhringa. Almennir borgarar grafa í rústunum með berum höndum og vona eftir aðstoð hersins sem kannski berst of seint því þrátt fyrir miklar rigningar þá er lítið um drykkjarvatn og aðrar nauðsynjar. Allir spítalar sem enn standa eru yfirfullir og læknar gera að sárum fólks á götum úti. Í Yingxiu, litlu 10000 manna þorpi rétt við upptök skjálftans, lifðu aðeins 2300 manns. Eitt þúsund af þeim voru alvarlega slasaðir. Þriðjungur allra húsa í þorpinu hrundi og 90% þeirra sem stóðu skjálftann af sér skemmdist.
Sögur af fólki sem hefur bjargast eru einnig farnar að berast. Þannig var greint frá björgun þriggja ára stúlku í bænum Beichuan. Stúlkan, sem heitir Song Xinyi, lá undir líkum foreldra sinna djúpt í rústum hússins sem þau bjuggu í. Björgunarmenn fundu stúlkuna á þriðjudagsmorgun en ekki tókst að ná til hennar fyrr en seint um kvöldið. Þá var hafði hún legið undir rústunum í 40 klukkustundir. Það voru ekki allir eins heppnir og þessi litla stúlka því meira en 1000 nemendur í skólum Beichuan eru enn grafnir undir rústunum.
Vaxandi hörmungar í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.