Færsluflokkur: Menning og listir
21.5.2008 | 01:02
Aukið frelsi fjölmiðla í Kína
Fjölmiðlar í Kína hafa nú í fyrsta skipti haft fyrirmæli áróðursskrifstofu kínverska kommúnistaflokksins að engu og flutt fréttir af jarðskjálftanum og hjálparstarfseminni sem þar fer fram í beinni útsendingu. Aldrei áður hefur fréttaflutningurinn verið jafn opinn og nú. Tala látinna og slasaðra er uppfærð reglulega á vefsíðum fjölmiðlana og myndir frá ljósmyndurum blaðanna og almenningi eru sýndar aftur og aftur. Þessi atburðarrás minnir mig á þegar fyrra Írak stríðið braust út og CNN sendi stríðið heim í stofur almennings um allan heim. Sá fréttaflutningur breytti sýn heimsins á stríð og hverning þau eru háð. Að sama skapi er breytingin á fréttaflutningi hér í Kína fyrirboði stærri breytinga. Viðbrögð almennings er annar en áður var og það er erfitt fyrir stjórnvöld að snúa af þessari braut. Landið mun opnast smátt og smátt. Sú þróun er nú þegar hafin í austurhluta landins í borgum eins og Shanghai og Beijing. Hún mun síðar færast yfir stjálbýlari héruð í vestur hluta landsins.
Kínverskir fjölmiðlar eru samt undir smásjá stjórnvalda en breytingin núna er sú að stjórnmálamenn sjá sér hag í því að hafa fréttaflutninginn opinn, frjálsan og óáreittann. Þó svo að þessi stefna henti þeim núna og komi kannski til vegna þess að þeir vilji að landið líti vel út í aðdraganda Ólympíuleikanna og einnig til að færa umræðuna frá átakasvæðum annars staðar í Kína, þá kemur hún almenningi hér í Kína til góða.
Það getur aftur á móti verið erfiðara en þeir halda að snúa frá þessari braut frjálsræðis og hægt að nefna til nokkrar ástæður fyrir því. Samskiptamáti hefur gjörbreyst á stuttum tíma. Internetnotkun hefur aukist gríðarlega og í dag eru fleiri en 7 milljónir internetáskrifenda í Kína og notendur mun fleiri. Farsímanotkun hefur að sama skapi orðið almenn og er nú svo komið að í Kína eru fleiri en 461 milljón farsímanotenda. Þessi mikla farsíma- og internetnotkun gerir stjórnvöldum mjög erfitt fyrir að loka á fréttaflutning.
Þá hefur innganga Kína í WTO þrýst á landið til að opna efnahagskerfið fyrir erlendum fjárfestingum þannig að fjöldi erlendra fyrirtækja og starfsmanna eru í Kína. Með opnara hagkerfi og miklum hagvexti sem einkennt hefur landið á undanförnum árum hefur hagur almennings aukist verulega og nú er svo komið að 19% þjóðarinnar getur talist til millistéttar. Tala sem búist er við að hækki í 40% fyrir árið 2020. Þegar stærri hópur fólks nýtur aukinna lífsgæða þá mun það vinna að því að halda þeim gæðum og erfiðara verður fyrir stjórnvöld að taka þau til baka.
Um leið og landið hefur opnast fyrir erlendum fjárfestingum þá hefur það einnig opnast fyrir ferðamennsku. Árið 2006 heimsóttu 1,4 milljónir ferðamanna Sichuan hérað þar sem jarðskjálftinn reið yfir fyrir viku síðan. Að sama skapi þá hefur hinn almenni Kínverji nú ferðafrelsi og getur keypt gjaldeyri fyrir sem nemur um 500.000 kr. á ári. Áður fyrr var voru mun meiri hömlur á gjaldeyriskaup almennings sem gerði honum erfitt fyrir vildi hann ferðast. Þannig hefur aukið flæði fólks, bæði ferðamanna og kínverja, aukið fréttir af fjarlægari héruðum landsins og sett yfirvöldum skorður og aðhald.
Komandi Ólympíuleikar hvetja kínversk stjórnvöld til þess að opna landið enn frekar og lyfta hönd sinni af fréttastofum, fyrirtækjum og almenningi. Ótrúleg uppbygging mannvirkja og þjónustu hefur fært tugþúsundum manna aukna atvinnu og verslun. Ný störf eru óteljandi sem margir njóta, allt frá venjulegu heimilisfólki sem leigir út herbergi eða ávaxtasalans sem selur meira til ferðamanna en áður til herra Lee sem ræður fjölda manns til að framleiða sérmerkta minjagripi. Síðan má ekki gleyma að fjöldi fréttamanna, íþróttamanna og gesta mun heimsækja Kína á meðan Ólympíuleikarnir verða haldnir. Allir þessir þættir hvetja stjórnvöld til að auka mannréttindi og frelsi.
Hingað til hefur viðkvæði hins almenna Kínverja verið að ríkið eigi og muni sjá um sína. Ef eitthvað bjáti á, þá er það ríkið sem hleypur undir bagga, hjálpar á neyðarstundu. Í Peking var kínverskur hótelstarfsmaður að lýsa hörmungunum á jarðskjálftasvæðinu fyrir gestum og lauk hverri setningu með því að benda á að nú væru stjórnvöld komin á svæðið. Forsætisráðherrann, Wen, væri á svæðinu að stjórna aðgerðum og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Þessi lýsing er dæmigerð fyrir hvernig hugsanagangur fólks hefur verið hingað til.
Næstum fráls fréttaflutningur og aukin velmegun hefur aftur á móti leitt til þess að almenningur vill sjálfur taka þátt í að hjálpa fórnarlömbum skjálftans. Það er bein afleiðing birtinga fréttamynda frá jarðskjálftasvæðinu að almenningur hefur opnað budduna sína og safnað milljörðum. Almenningur treystir samt ekki endilega hinu opinbera fyrir þessu fé og því hafa biðraðir hjá þeim fáu alþjóðlegu hjálparstofnunum sem hér hafa leyfi til að starfa verið langar. Fólk vill líka gefa í eigin nafni og því er það tilbúið að standa í röð tímanum saman til þess að skrá nafn sitt í söfnunarbækur og reiða fé af hendi, stundum smáar en einnig háar fjárhæðir.
Í ljósi þessa alls hefur myndast tækifæri fyrir kínverskar fréttastofur til að koma sér upp kerfi sem gerir þeim kleift að flytja óháðar fréttir af atburðum um leið og þeir gerst.
Bjargað úr rústum eftir 195 stundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2008 | 00:22
Persónulegur harmleikur
Þegar fréttir af harmleik berast til Íslands frá fjarlægum stöðum eins og Kína eða Búrma þar sem tugþúsundir hafa farist getur verið erfitt að skilja harmleikinn. Það er erfitt fyrir þorra almennings sem í raun getur lítið gert í stöðunni nema þá kannski að styrkja alþjóðlegar hjálparstofnanir eins og Rauða Krossinn.
Íslendingar ættu samt að geta skilið hörmungar sem þessar út frá sinni persónulegu reynslu. Mannskæð snjóflóð og eldgos sem lagt hafa bæi í rúst hafa þjappað íslensku þjóðinni saman á örlagastundum og hún hefur sýnt hversu megnug hún er þegar hjálpar er þörf. Slíkur samhugur hefur nú sýnt sig hér í Kína þar sem almenningur réttir hjálparhönd hvar sem hægt er.
Fréttir af björgunaraðgerðum eru uppfærðar mörgum sinnum á dag á innlendum fréttavefjum og sögur af fólki sem bjargast eru í forgrunni. Inn á milli eru þó einnig sögur af persónulegum harmleikjum fólks sem misst hefur allt sitt og alla fjölskyldu sína.
Skrifari las eina slíka frétt með morgunkaffinu rétt í þessu. Þar var sagt frá farandverkamanni að nafni Deng Shilun sem kom frá þorpinu Pingtong. Hann var að vinna í borginni Ya'an í Sichuan sýslu og vissi að heimabær sinn væri nálægt miðju skjálftans. Hann lagði af stað um leið og hann frétti af skjálftanum en vegna gríðarlegrar umferðar og illa útleikins gatnakerfis tók það hann nokkra daga að ganga heim í þorpið sitt. Þar komst hann að því að öll stórfjölskylda hans hafði látist í skjálftanum og meirihluti allra húsa í þorpinu voru rústir einar. Hann missti níu fjölskyldumeðlimi á einu bretti, konuna sína, tengamóður, systur og bróður og fjölskyldur þeirra. Deng á eina dóttur sem slapp skjálftann en hún vinnur hjá tölvufyrirtæki í Shanghai.
Í dag kl. 14.28 hefst þriggja daga þjóðarsorg í Kína. Opinberum atburðum er frestað og fánar verða dregnir í hálfa stöng. Hlaupa átti með Ólympíueldinn hér í Shanghai á morgun og hinn en för hans hefur verið frestað eins og öðrum viðburðum.
Ólympíuhlaupinu frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2008 | 16:44
Þúsundir á flótta vegna yfirvofandi flóðahættu
Þúsundir manna flúðu frá svæðum í Beichuan sýslu vegna flóðahættu. Skriður sem urðu í stóra skjálftanum stífla Qingzhu ána þannig að stöðuvatn myndaðist. Stærð vatnins er áætlað rúmlega 11 milljón rúmmetrar. Rúmlega 30000 manns búa á svæðinu sem gæti farið undir vatn bresti þessar stíflur. Nú þegar er vatn farið að flæða yfir götur í bænum Qianjin.
Tölur um látna og slasaða eru birtar reglulega í kínverskum fjölmiðlum. Þegar þetta er skrifað eru 28881 látnir og 198431 slasaðir. Milljónir eru heimilislausar og talið að fleiri en 15 milljón hús hafi skemmst í skjálftanum og 3,1 milljón húsa hrunið. Í dag (laugardag) voru 2538 fórnarlömb grafin úr rústunum en aðeins 165 af þeim voru á lífi.
Það er einsdæmi í kínverskri sögu hversu opinn fréttaflutningur hefur verið af hamfarasvæðinu. Myndir af syrgjandi foreldrum og hjálparstarfsmönnum hefur leitt til þess að almenningur í Kína og víðar hefur opnað budduna og gefið til hjálpar starfsins. Áður fyrr hefði almenningur ekki gert það enda vanur því að ríkið sjái um sína. Góðgerðarfélög eru enda bönnuð í Kína og einungis örfá með leyfi til að starfa hér. Nú bregður svo við að almenningur hefur safnað sem nemur næstum 200 milljónum dollara og stendur jafnvel í marga klukkutíma í röð til að gefa. Skólar og vinnustaðir efna til funda til að safna fé. Í skóla sona minna verður slík söfnun á mánudaginn og keppni á milli bekkja hverjir safna mestu fé, þannig er stemmingin víða. Í heildina hefur Kína aftur á móti fengið sem nemur 860 milljónum dollara til hjálparstarfsins.
Kannski er breytt viðhorf kínverskra stjórnvalda til fréttaflutningsins tilkomið vegna Ólympíuleikanna sem haldnir verða hér í Kína í sumar. Það verður alla vega erfitt fyrir kínversk stjórnvöld að stjórna þeim 30000 fréttamönnum sem fylgjast með leikunum. Kannski er þetta merki um hvernig Kína er að opnast með aukinni velmegun og hagvexti.
Fann fyrir eftirskjálfta í miðri hvatningarræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2008 | 00:38
Söfnun fyrir fórnarlömb skjálftans
Hörmungarnar halda áfram nú þegar nokkrir dagar eru liðnir frá skjálftanum mikla í Sichuan. Í gær reið stór eftirskjalfti yfir þorpið Yingxiu, en einungis 2000 af 10000 íbúum þorpsins lifðu fyrri skjálftann af. Skjálftinn í gær leiddi til enn frekari eyðileggingar í þorpinu og minnkaði jafnframt líkurnar á því að hægt væri að bjarga þeim sem enn eru grafnir í húsarústum.
Hér í Shanghai hefur Rauði krossinn hafið mikla söfnun til handa fórnarlömbum skjálftans. Helst er óskað eftir peningagjöfum og hafa verið settir upp básar víðs vegar um borgina þar sem hægt er að setja peninga í bauka. Einnig er boðið upp á að senda litlar upphæðir í gegn um símann með SMS. Þá hafa verið opnaðir bankareikningar og fjármálaeftirlitið hefur bannað bönkunum að taka færslugjöld af söfnunarfénu.
Í gær var Rauði krossinn búinn að safna 180 milljónum yuan, andvirði næstum 2 milljarða króna.
Foreldrar bíða í örvæntingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2008 | 02:20
Kominn i sumarfri
9.5.2008 | 11:26
Ljósmyndasamkeppni
Við hjónin tókum þátt í ljósmyndasamkeppni eftir Egyptalandsferðina okkar síðasta sumar og nokkrar af myndunum okkar komust áfram. Það er hægt að sjá þær á þessari vefsíðu undir liðnum Family Shortlist
http://www.adventurecompany.co.uk/photo-competition.aspx?EMC-May-WW
5.5.2008 | 04:00
Yangtze fljótið
Fjölskyldan tékkaði sig inn á skemmtiferðaskipið sem á að sigla með okkur niður Yangtze fljótið. Þetta er ekki mjög stórt skip, einungis 5 þilför og rúmlega 60 herbergi. Aðbúnaður er samt með ágætum, sjónvarp og sérbaðherbergi fyrir alla.
Siglt var af staðí morgunsárið og stefnt að draugaborginni Fengdu. Fólk sem býr við fljótið trúir því að sálir hinna dauðu fari til borgarinnar. Fengdu er ein fjölmargra borga og þorpa sem farið hafa undir vatn vegna hinnar nýju þriggja gljúfra stíflu. Um 70000 bjuggu í gömlu borginni en í hinni nýju sem staðsett er hinu megin við árbakkann búa 100000. Sú borg var byggð á fimm árum!
Yangtze fljótið er þriðja lengsta fljót í heimi, 6300 km næst á eftir Amazon og Níl sem er lengst og nokkuð lengra en Missisippi sem er í fjórða sæti. Sautjándi hver jarðarbúi eða svo býr við þetta mikilfenglega fljót. Það eru fleiri en búa í Bandaríkjunum og Kanada til samans.
Næsti áfangastaður á eftir draugaborginni var þveráin Shannong. Til að komast að henni sigldum við í gegn um fyrstu tvö gljúfrin. Þetta er gríðarlega mikilfengleg kljúfur sem virðast teygja sig til himna þegar silgt er um þau. Vatnsyfirborð Yangtze fljótsins er um það bil 155m yfir sjávarmáli núna en á eftir að hækka um 20m til viðbótar fram til ársins 2009 vegna hinnar nýju stíflu. Það er ótrúlegt til þess að hugsa hversu mikið vatnsyfirborðið hefur hækkað síðan 2003 þegar byrjað var að fylla lónið.
Shannnog þveráin er líklega einn af fallegustu stöðum Kína. Há fjöll rísa beggja vegna árinnar þéttvaxin trjágróðri frá ánni og upp á fjallstopp. Apar leika sér í trjánum og innfæddir sem tilheyra einum af 55 minnihlutahópum kínverska alþýðulýðveldisins sigla um á mjóum árabátum. Við fengum ekki sérlega gott veður, mikil rigning og þrumuveður hamlaði því að við gætum silgt eins langt og stefnt var að. Mistrið og rigningin gerði það aftur á móti að verkum að landslagið varð stórfenglegra,meiri dýpt í litunum og skemmtilegar skýjamyndanir í fjallstoppunum.
Eftir kvöldverð með skipstjóranum komum við skipaskurðinum við þriggja gljúfra stífluna. Þetta er ótrúlegt mannvirki með fimm hólfum. Skipin sigla inn og risastórar hurðirlokast á eftir þeim. Síðan er vatninu hleypt úr og skipin síðan færð yfir í næsta hólf og svo koll af kolli þar til að búið er að færa skipin alla leið niður. Ferlið tekur um 3 tíma en um það bil 6 skip komast fyrir í hverju hólfi og var lækkunin úr 165m í um 75m yfir sjávarmáli.
Síðasti dagurinn rann upp allt of snemma. Við vorum vakin kl. 6.20 til þess að borða morgunmat og fara í skoðunarferð um stífluna og skipaskurðinn sem við fórum í gegnum í gærkveldi. Stíflan er mikið mannvirki og ég hef ekki tölu á því hversu oft okkur var sagt að þetta væri stærst stíflan með mesta aflið og flestar túrbínur í heiminum. Allt mjög áhugavert samt og gaman að skoða. Veðrið lék við okkur núna, sól og blíða.
Eftirskoðunarferðina silgdum við í gegn um síðasta og þriðja gljúfrið og fórum loks frá borði. Tekið var á móti okkur með rútu sem flutti okkur á ágætan veitingastað þar sem við borðuðum hádegismat. Leiðsögumaðurinn (frekar óþolandi og uppáþrengjandi kona) fór síðan með okkur í silkibúð því nægur tíma var þar til flugið okkar átti að fara seinni partinn. Okkur langaði ekkert sérstaklega í þessa búð en létum til leiðast. Ætli hún fái ekki prósentur ef við myndum kaupa eitthvað. Við keyptum samt ekkert. Allt of dýrt í þessum túristabúðum.
Flugið heim gékk síðan vel og við vorum komin í indælu íbúðina okkar um kvöldmatarleiti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 15:14
500000 flytjast til borgarinnar, á ári!
Dagur verkalýðsins er runninn upp og hér í alþýðulýðveldinu er það helsta hátíð almennings að nýárshátíðinni undan skilinni. Kínverjar fá almennt ekki mikil frí frá vinnu og því eru þessar löngu helgar í kring um kínversku áramótin sem eruí febrúar samkvæmt kínversku almanaki og frídag verkalýðsins í maí miklar ferðahelgar. Fjölskyldan í Golden City Garden lagði einnig land undir fót nú um helgina og fór árla dags í ferð til borgarinnar Chongqing í mið Kína. Ákváðum að taka Maglev lestina út á flugvöll en það er hraðskreiðasta lest heims og keyrir á tæplega 500 km hraða. Lestin rann afar hljóðlega áfram enda svífur hún yfir teinunum vegna segulssviðs sem myndað er undir henni. Ferðalagið út á flugvöll, um 30 km, tók aðeins 7 mínútur. Flogið var frá hinni nýju flugstöðvarbyggingu, Terminal 2, við Pudong flugvöll en hún var tekin í notkun fyrir skömmu. Flugvöllurinn, afar nútímalegur, reyndist góður griðastaður frá skarkala borgarinnar. Þarna var nánast enginn. Við skráðum okkur í flugið og fórum í gegn um öryggishliðið á ca. 10 mínútum og gengum síðan um nánast tóma ganga þessarar gríðarstóru byggingar. Nokkuð ljóst að þessi völlur er gerður til að mæta gríðarlegum straumi fólks sem búist er við þegar heimssýningin verður haldin hér í Shanghai 2010. Flugið til Chongqing tók tvo og hálfan tíma og gékk þægilega fyrir sig. Flugvöllurinn þar var einnig glænýr og uppbyggingin á þessu þéttbýlasta svæði Kína er jafnmikil og í Shanghai. Ferðin frá flugvellinum að Yangtze fljótinu þar sem lítið skemmtiferðaskip beið okkar tók rúman hálftíma. Alla leiðina voru skýjakljúfar í byggingu, 10000 manna bokkarsvæði. Hvert með sinn skóla og framhaldsskóla og aðra þjónustu innan svæðisins. Þessari uppbyggingu má líkja við að það yrðu byggðar 30 hæða blokkir á leiðinni frá Reykjavík til Hveragerðis. Það er varla hægtað ímynda sér hveru mikið er verið að byggja í Chongqing nema sjá það með eigin augum. Hér búa 32 milljónir manna og þar af rúmlega 6 milljónir í borginni sjálfri. Meira en 500 þúsund manns flytja til borgarinnar á hverju ári og það þarf íbúðir, verslanir og veitingastaði sem og aðra þjónustu enda eru fleiri en100 þúsund HotPot veitingastaðir í borginni. Landslagið á þessu svæði einkennist af fjöllum og miklum gróðri. Jarðvegurinn er svo frjósamur að bændur ná fimm uppskerum á ári. Uppbyggingin kallar auðvitað á að svæði séu rýmd til að hægt sé að byggja blokkir. Kínverjar hugsa alltaf stórt og þeir eru ekkert sérstaklega að velta umhverfissjónarmiðum fyrir sér. Leiðsögumaðurinn okkar benti t.d. út um gluggann og sagði; hér á hægri hönd sjáum við ekki lengur fjallið því það var flutt til þess að byggja íbúðarblokkir.Það tók aðeins tvö ár að flytja eitt stykki fjall og byggja blokkir fyrir 10000 manns. Spurning hvort við gætum flutt fjöll heima. Væri kannski betra að hafa Keili aðeins nær Reykajvík eða bara á suðurlandi? Næst á dagskrá er að sigla niður Yangtze fljótið. Meira af því síðar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 04:22
Fyrsta kínverskuprófið af þrem búið
Dagarnir hér í Shanghai líða of hratt. Líklega vegna þess að það er sérstaklega mikið að gera í skólanum núna. Próflestur og ritgerðarsmíði. Fjögur af sex fögum sem ég er í eru að klárast. Ég er búinn að taka próf í Chinese Business Culture og skila lokaritgerð í Chinese Culture and History. Á eftir að skila einni ritgerð fyrir mánaðarmót í Chinese Commercial Law en það gengur full hægt að berja hana saman.
Síðan er það kínverskan. Get stoltur sagt að ég get skrifað nokkrar setningar á kínversku og beðið um basic hluti þegar farið er út að borða. Held að það sé nóg í bili. Kínverskuprófið er í þrem hlutum á jafn mörgum dögum. Byrjaði í dag á hlustun. Það gékk betur en ég þorði að vona og tókst mér að svara öllu nema einu atriði. Annað mál hvort það sé allt rétt, það kemur bara í ljós. Á morgun er síðan skriftarpróf og að lokum munnlegt próf; samtal við kennarann.
Að prófum loknum þá verð ég aðeins í tveimur fögum í maí; Chinese Economics og E-commerce. Það er mun minna en ég bjóst við og ég verð búinn í þessum fögum 16. maí.
Þetta skipulag hjá SHU er allt annað en lagt var af stað með í upphafi. Þegar ég fékk námsskrána í janúar átti ég að vera í 5 fögum sem áttu öll að ljúka um miðjan maí. Síðan átti að vera ein vika í upplestrarfrí og ein vika í próf. Þess vegna bókaði ég far heim 31. maí.
Þegar ég kem hingað eru engin af þessum fögum í boði. Finnski hópurinn sem ég átti að vera með var látinn koma mánuði fyrr en ég kom. Því er ég ekki heldur með honum í öllum fögum. Ég var settur í kínversku 5 daga vikunnar 4 tíma á dag á meðan þeir eru 3 daga í viku 2 tíma í einu. Smá munur þar á.
Mér var hugsað til Bifrastar og skipulagið þar sem hefur næstum breyst á hverri önn sem við höfum verið í námi.
Ég verð bara að nýta tímann í maí til þess að ferðast og njóta þess að vera hér í staðinn. Varla hægt að kvarta yfir því.
26.4.2008 | 04:15
Uppboð í Galleríi Fold
| ||||||
|