Færsluflokkur: Menning og listir

Nýjar myndir komnar inn

Var að setja inn nýjar myndir.
http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen

Umferðarslys og hjólaferð

DSC_0243

Nú er dvöl okkar hér í Shanghai hálfnuð og því ekki seinna vænna en að taka upp hætti innfæddra og ferðast um borgina á reiðhjóli. Eitt setti skugga á hjólaferð mína í dag. Ég var vitni af slysi. Ég kom að gatnamótum þar sem bíll hafði líklega keyrt á staur. Alla vega var hann beyglaður að framan og margt fólk í kring um hann sem baðaði út höndunum og var greinilega að útlista því sem gerst hafði. Bíllinn stóð hálfur út á götu og hálfur inn á reiðhjólastíginn sem ég var að hjóla eftir. Í sömu andrá og það kom grænt hjá mér reyndi annar ökumaður að troða sér á milli bílsins og fólksins sem þarna var og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum jók hann ferðina í stað þess að nema staðar og keyrði á þrjú létt mótorhjól sem einnig voru að reyna að koma sér þarna fram hjá og endaði á ljósastaur. Einn maður hendist af bílnum upp á gangstétt og annar festist undir bílnum og mótorhjólinu. Fólkið allt um kring hljóp í allar áttir frá bílnum. Fólkið hóf þegar í stað að reyna að ná manninum undan bílnum og tókst það að lokum eftir að menn röðuð sér á bílinn og lyfti honum upp með handafli. Eftir nokkrar mínútur kom lögregla og sjúkralið á vettvang og ljóst að maðurinn sem lenti undir bílnum var með meðvitund og gat staðið í alla vega annan fótinn.

DSC_0246

 

En ferð mín í skólann gékk annars ágætlega fyrir utan að ég hjólaði aðeins of langt. Fann ekki götuna sem ég ætlað að fara og endaði á að taka hálf tíma aukakrók. Annars er ég um það bil 70 mínútur að hjóla þessa leið ef ég tek ekki aukakróka en það er ekki mikið meira en tíminn sem tekur að fara með lestinni. Ég er 45 til 60 mínútur ef ég tek lestina. Hefði betur haft götukortið með mér en það kom sér mjög vel að hafa áttavita í bjöllunni á hjólinu. Hefði aldrei rambað í rétta átt ef ég hefði hann ekki.

Borgin lítur allt öðru vísi út þegar hjólað er um hana. Hús og mannlíf líður ekki hjá eins og gerist þegar lest eða leigubíll er tekinn og ýmsir áhugaverðir einstaklingar verða á vegi manns. Tala nú ekki um öll hin fjölbreyttu farartæki. Shanghaibúar nota reiðhjól undir allt. Ekki aðeins til þess að flytja sjálfan sig frá A til B heldur einnig til að flytja allar vörur sem flytja þarf. Stundum eru staflanir sem hlaðið er á hjólin miklu stærri en hjólin sjálf. Leiðin heim gékk betur þó svo að ég hafi átt í smá erfiðleikum með að koma mér réttu megin við lestarteina við Shanghai Railway Station. Það hófst að lokum og ég brunaði heim á leið og fékk fína æfingu út úr þessu. Búinn að hjóla í næstum 3 tíma í dag. Sem betur fer eru ekki brekkur hér í borg.

 Svona í lokin.

Ég rakst á þetta skemmtilega skilti.

Þá vitið þið það.

DSC_0088 


Ég á afmæli í dag.

Ni hao (halló) 

Um leið og ég fór að tala um hversu gott veðrið væri og sumarið væri komið skall á með rigningu og roki.Ekki eins og það væri nóg heldur voru heljar miklar eldingar hérna með meðfylgjandi þrumum. Þessar voru nokkuð tilkomumiklar. Við Íslendingar erum nú ekkert sérlega vön eldingum þó slíkt fyrirbæri sjáist af og til á Klakanum og áttum okkur því kannski ekki á hættunni sem fylgir þeim. Daginn eftir las ég í blaðinu Shanghai Daily að elding hafi slegið niður í ung hjón í norður Shanghai. Konan lést en maðurinn fékk minniháttar brunasár. Einnig kveiknaði í gistiheimili þar sem um eitthundrað gestir voru og þurfti að bjarga sumum út með stigabíl. Eldurinn teygði sig síðan í nærliggjandi rými þannig að níu verslanir urðu einnig eldinum að bráð en engan sakaði.

 Í þessu sama blaði var forsíðufréttin um hina slæmu vesturlandabúa sem eru að ráðast á ólympíukyndilinn. Þessir aumingjans mótmælendur eru víst svo lítilsverðir að þeir ráðast á lamaða íþróttakonu sem ýtt var áfram í hjólastól af blindum íþróttamanni. Ekki mikið talað um hverju þessir vesturlandabúar voru að mótmæla heldur öllu púðri eytt í að segja frá hversu vel hlaupið með kyndilinn gengur. Það er soldið gaman að því að lesa ritskoðaðar fréttir og sjá hvernig litið er á hlutina með augum Kínverja.

Annars er ég á þeirri skoðun að ekkert land eigi að beita íþróttamönnum fyrir sér til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Þetta eiga að vera ópólitískir leikar og það á ekki að láta það bitna á fólki sem hefur eytt mörgum árum í æfingar til að komast á leikanna. Stjórnmálamenn sem gera slíkar kröfur ættu að líta í eigin barm og gefa sinn draum upp á bátinn. Flest ríki eiga í viðskiptum og stjórnmálalegu sambandi við Kína og ef það á að banna íþróttamönnum að keppa þá gætu stjórnmálamenn alveg eins sagt af sér til að mótmæla því að land þeirra eigi í viðskiptum og samskiptum við Kína. 

Einnig er ég á þeirri skoðun að það eigi svo sannarlega að halda leikana hérna því það kemur sér vel fyrir alla, jafnvel þó stjórnvöld hér séu í feluleik með aðgerðir sínar á einstökum svæðum. Eftir að hafa séð hvernig allt er á fullu, ekki bara í Beijing heldur einnig í Shanghai og víðar. Þá skilur maður hversu mikill óbein áhrif leikarnir hafa á líf margra. Kaupmaðurinn á horninu sér fram á gríðarlega aukningu og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að bæta við sig endalausu starfsfólki til að anna eftirspurninni. Þessi áhrif eru þegar komin fram og eiga eftir að vara löngu eftir að leikarnir eru búnir.

En nóg um pólitík og veður. Við skulum snúa okkur að mikilvægari málum.

Ég á afmæli í dag.

Fékk þessar fínu afmælisgjafir. Þær bera reyndar smá keim af smekk gefendanna en eru engu að síður skemmtilegar. Hans gaf mér fjarstýrða þyrlu og Elmar gaf mér reiðhjól. Alveg viss um að við getum notið þessar hluta saman. Já, og Magga gaf mér Ólympíubol (nei, hún gaf mér ekki iPhone) og Elínbjörg og Bjarni sendu okkur fullan kassa af íslensku nammi sem barst til okkar í gærkveldi. Ótrúlega vel tímasett hjá þeim. Enda starfar hún hjá póstinum.

Alla vega. Fyrir þá sem vilja syngja afmælissönginn fyrir mig á kínversku:

"Zhú ní Shangri kuai le" 

 Zaijian (bless)

 


Sumarið er komið!

Þó enn séu tvær vikur þar til sumardagurinn fyrsti rennur upp kom sumarið í dag. Í mínum huga er sumarið komið þegar ilmurinn af nýslegnu grasi fyllir vitin og það létti göngulagið að heyra í slátturvélunum í fjarska. Starbucks kaffið bragðasti enn betur í hitanum sem fór nálægt 25°C í hádeginu í dag og ekki ský á himni. Þegar við fórum til Beijing í frí fyrir viku síðan var hitinn nær 10°C.

En nú er skólinn hafinn á ný og mitt fyrsta verk í morgun var próf í kínverskri skrift og skilningi. Þar sem ég var í leyfi frá skólanum alla síðustu viku kom prófið mér á óvart en ég held að ég hafi samt náð. Býst við að fá á milli 6 og 7 sem er nú svipað og ég fékk í dönsku á fyrstu önnum mínum í menntaskóla. 

Eitt helsta áhugamál mitt hérna, sérstaklega í hádegishléinu sem yfirleitt er um tveir tímar, er að að horfa á Mann-fólkið og fylgjast með háttum kínverjanna. Ég hef gert það að vana mínum að ganga um göturnar hérna í kring um skólann en þær eru með mjög svo fjölbreytilegu mannlífi. Skólakampusinn er ekkert sérstaklega stór á kínverskan mælikvaðra. Um 5000 mann búa hérna. Allt í kring um kampusinn eru síðan verslunargötur fullar af hefðbundnum kínverskum veitingastöðum sem eru ekkert í líkingu við kínverska veitingastaði á Íslandi. Þessir staðir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir, allt frá því að vera fínir uppádekkaðir staðir með fleiri þjónum en gestum (ódýrt vinnuafl) niður í pönnuköku- og ávaxtasala á reiðhjólum. Stundum eru þeir ekki einu sinni með reiðhjól eða borð og leggja þá bara vörurnar eða matinn á teppi sem þeir breiða á gangstéttina. Hér er hægt að borða fyrir 100 kr. á dag ef verslað er hjá þessum götusölum. Hefbundinn morgunmatur kostar 18 kr. Hádegismatur getur farið niður í 50 kr. ef ekki er pantað meira en einn eða tveir réttir og fyrir mismuninn er hægt að kaupa sér kvöldmat. Þetta verðlag er í samræmi við laun verkamanna hérna sem eru á bilinu 10.000 til 15.000 kr. á mánuði. Nískan kemur svo upp í manni þegar kaffið sem ég fæ mér eftir hádegismatinn kostar 5 sinnum meira en maturinn en er samt ódýrari en á Íslandi. Ég fékk mér t.d. einhvers konar steikt eggjabrauð í morgunmat um daginn fyrir 18 kr. og síðan sérlagað Starbucks kaffi á 240 kr. Smá ósamræmi þar.

Eitt sem ég hef tekið eftir í mataræði kínverja og hefur komið mér á óvart er hversu lítið þeir borða af hrísgrjónum. Þeir borða reyndar meira en meðal vesturlandabúi en alls ekki í öll mál eða sem aðalfæðu eins og ég hélt áður. Þeir borða líka mun meira prótein en ég hélt enda stærstu svínakjötsframleiðendur í heimi.. Síðan nota þeir ótrúlega mikið af eggjum og þá sérstaklega i skyndibitamat hjá götusölunum. Þegar þeir fara út að borða þá panta þeir oftast einn rétt hver en í stað þess að hver og einn réttur sé borinn á borð fyrir framan hvern og einn er hann settur á mitt borðið. Þar fá sér síðan allir af honum og útkoman er mjög fjölbreytt máltíð. Í lokin bera þeir hrísgrjónin á borð í litlum skálum til þess að fylla magann ef þú ert enn svangur.

Annað sem kom mér á óvart er hve maturinn hér í Shanghai er bragðdaufur. Hann er vissulega bragðgóður en alls ekki sterkur. Þegar um sterka rétti er að ræða eru þeir oft merktir með mynd af chilipipar í matseðlinum, einn, tveir eða þrír eftir styrkleika. Í hvert sinn sem ég panta mér slíkan rétt er ég varaður við af þjóninum en þegar rétturinn kemur er hann alls ekkert sterkur, bara með aðeins meira bragði en margir aðrir réttir. 


Sporðdrekar - góðgæti á hvers manns vörum

Langaði til að deila með ykkur þessu myndbandi af fjölskyldunni að borða sporðdreka á markaði í Beijing.

Ekkert jafnast á við próteinríkt síðdegissnakk.

Hér er einnig beina slóðin ef myndbandið fyrir neðan opnast ekki: http://www.youtube.com/v/0qxI&rel=1

 

 

 

 


Kínamúrinn - The Great Wall

Fjölskyldan á Kínamúrnum

Fórum í gær í ferð á Kínamúrinn. Það voru þrjár ferðir sem hótelið okkar bauð upp á. Sú fyrsta, eins og stúlkan í móttökunni orðaði það, er fyrir gamalt fólk. Síðan hálfs dags ferð um það bil 80 km út fyrir Beijing og að lokum ferð fyrir alvöru göngugarpa 140 km út fyrir borgina.

 Við erum auðvitað alvöru göngugarpar og völdum því lengstu ferðina. Fannst nú ekki mikið að fara í 140 km út fyrir Beijing, ganga síðan í 4 klukkutíma og keyra að lokum til baka.

Við gerðum aftur á móti ekki ráð fyrir því að það tekur einn og hálfan tíma að komast út úr borginni og síðan tvo tíma að keyra þessa 140 km. Litli mínibussinn sem sótti okkur á hótelið var af gerðinni JinBei. Frábær eftirlíking af Toyota HiAce nema það vantar í hann fjöðrun, öryggisbelti. Þar að auki var sætið sem ég var í gert fyrir kínverja þannig að stólbakið náði tæplega upp á mitt bak á mér og var meira eins og rukkustóll því ekki var það alveg fast við gólfið.

En þessi óþægindi gleymdust aftur á móti fljótt þegar við komumst á áfangastað. Fjöllin tignarleg og falleg, álíka há og Esjan, risu upp úr landslaginu eins langt og auga eygði.

Í boði var að ganga upp að turni númer 1 eða taka kláf sem fór með mann upp í turn 4 af 30. Við ákváðum að ganga upp enda gott veður, sól og léttskýjað, og göngustígur alla leið. Um leið og við lögðum af stað þá slóst í för með okkur þessi yndislega sölukona sem við reyndum að leiða hjá okkur þó svo hún talaði nánast stanslaust. "You wanna buy photo book, very cheap." Eftir um það bil klukkutíma þá keypti Magga af henni bókina fyrir 80 yuan (ca. 800 kr.) sem eru um það bil 8% af mánaðarlaunum verkamanns.

Sölukona frá Mongólíu

 Þegar upp var komið hófst gangan eftir múrnum sem stundum var létt en stundum ansi brött. Múrinn þarna er bæði gamall og nýr því það er búið að endurgera hann og lagfæra á köflum. Annars staðar var hann að hruni kominn. Á einum stað voru múrsteinar sem voru annars vegar 400 ára gamlir og hins vegar 25 ára gamlir en allt var þetta mikilfenglegt. Öðru megin við múrinn var Mongólía og hinum megin var Kína og það var nokkur munur á veggnum. Það var ógerlegt annað en að hugsa um hvernig þessum hermönnum sem þarna börðust hafi liðið. Kannski stóðu þeir í þessu horni og reyktu og kannski sátu þeir í þessum turni með teið sitt. 

Eftir um það bil fjóra tíma komum við að áfangastað þar sem Múrinn fer yfir mikið gljúfur og á sem þar rennur. Múrinn er ekki heill þar yfir en búið að setja upp þessa fínu hengibrú. Að sjálfsögðu kostar 5 yuan að fara yfir hana.

Fjölskyldan á Kínamúrnum

Þegar yfir var komið var hægt að velja um tvær leiðir niður í þorpið þar sem hádegismaturinn og kínverski mínibussinn beið okkar. Það var hægt að ganga niður hellulagðan göngustíg eða renna sér á vír yfir uppistöðulónið og niður á stífuvegginn um það bil kílómeter neðar. Ég og Elmar skelltum okkur í það enda áhættufíklar miklir en tedrykkjufólkið (lesist: Magga og Hans) ákvað að ganga bara niður.

Að hádegisverði loknum tók síðan við hin langa og ekki svo þægilega ferð til Beijing en minningin um Múrinn þurrkar þau óþægindi fljótlega út. 


Shanghai - Beijing

Warhol_MaoNú erum við komin í túristagírinn. Eftir að hafa náð að koma upp rútínu (Vakna - skóli - sofa) í Shanghai erum við nú komin í vikufrí. Það er svokallað vorfrí (Spring Break) í hinum ameríska skóla strákanna þannig að ég óskaði eftir fríi í skólanum hjá mér. Ólíkt því sem við eigum að venjast þá er mætingarskylda í háskólana hér í Kína og því nauðsynlegt að frá skrifleg leyfi frá skóla.Við stefndum á að taka tvær borgir á einni viku.

Ætluðum fyrst til Beijing og síðan til Xi'an að skoða leirhermennina. Eftir að hafa tekið næturlestina frá Shanghai til Beijing reyndum við að fá miða frá Beijing til Xi'an en því miður var allt uppselt. Líklega vegna þess að það er að koma stór fríhelgi hjá Kínverjum. Svo kölluð QingMing hátíð.

QingMing þýðir hið hreina og bjarta og er hátíð þar sem Kínverjar minnast hinna látnu. Þeir fara með mat og drykki að leiði ættngja og biðja fyrir þeim og í lok dags er haldin matarveisla.

Við ákváðum því að framlengja dvöl okkar hér og ætlum að reyna að skoða sem mest af Beijing á viku. Erum nú þegar búin að fara í NAMOC (National Art Museum of China), forboðnu borgina, himneska hofið, grafhýsi Mao og sögusafn Beijing.Á morgun förum við síðan í langa ferð um Kínamúrinn. Leggjum af stað fyrir kl. 7 og ökum í 140 km út fyrir borgina. Göngum síðan í fjóra tíma og borðum síðan hádegismat. Við ætluðum að fara í þennan túr í dag en stúlkan í móttökunni hér á hótelinu bendi okkur á að það væri spáð rigningu og spurðu hvort við vildum ekki færa ferðina yfir á miðvikudag því þá væri spáð sól. Þetta fannst mér góð þjónusta því við vorum búin að panta hina ferðina og borga fyrir hana.

Ég mæli eindregið með þessu fína hóteli sem er vel staðsett í næstum 300 ára gömlu húsi, svo kölluðu "Courtyard". Þessi hús eru byggð í kring um garð og stundum bjó ein fjölskylda þarna en stundum nokkrar. Mao formaður ólst meðal annars upp í einu svona húsi. Þetta er eins kínverskt eins og það getur orðið. Kannski soldið líkt því og það yrði sett upp hótel í gömlum torfbæ eins og Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal. (Hér er komin viðskiptahugmynd!!!)


Páskahelgin

Kínverska ríkið telur að Mbl.is og Visir.is séu áhrifamiklir miðlar og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að þeir komi fréttum af þessum 20 eða svo óeirðaseggjum þarna í Tíb… Alla vega er ekki hægt að fara inn á síður þessar ágætu miðla héðan frá Shanghai sem væri svo sem í lagi nema það kemur í veg fyrir að ég geti sjálfur sett inn þessar línur sem þú lest núna. Því hefur undirritaður ekki skrifað mikið síðustu daga. En nú er búið að ráða bót á því. Páskahelgin er nýliðin en hérna var hún eins og hver önnur helgi. Ekkert sérstakt frí eða hátíðlegt við þessa daga. Kínverjar fá ekki frí þó svo þessar tvær milljónir kristnu manna hér í landi séu að halda hátíð. Ekki svo að skilja að kínverjar hafi ekki ýmsa frídaga. Nú eftir rúma viku er hátíð hjá kínverjum sem heitir Qingmingjié. Þá er til siðs að fara og heimsækja leiði náinna ættingja. Fær þeim mat og drykk eða annað sem þeim þótti gott, t.d. bjór eða viskí. Síðan er farið niður á hnéin og beðið fyrir ættingjunum og auðvitað þakkað fyrir að vera enn ofanjarðar. Að því loknu er maturinn tekinn til baka og haldin veisla. Hvað páskana varðar þá eru þeir eins og ég áður sagði bara venjuleg helgi. Ég var  í kínverskuprófi á skírdag (fékk c). Þetta var hlustunarpróf. Frekar erfitt að hlusta á kínversku og reyna að þekkja orðin. Síðan var venjulegur skóladagur á föstudaginn langa. Á laugardaginn fórum við á safn sem heitir Urban Planning Exhibition Center. Þar er búið að setja saman líkön sem sýna hvernig stjórnvöld í Shanghai sjá fyrir sér borgina eftir 20 ár. Nokkuð skrítið að þar var ekki nein lítil hús að sjá. Enda fer gamla fólkið víst þangað til að sjá hvar það á að búa þegar búið er að rífa gömlu húsin þeirra. Við fundum blokkina okkar á líkaninu þannig að hún fær að halda sér. Þar var líka sýning á list frá suður ameríku, mjög skemmtilegir skúlptúrar úr fjörugrjóti og vírum en einnig sýning á koparristum Rembrandts. Ábyggilega hátt í 200 verk. Páskadagur var mjög fínn. Sváfum fram eftir og leituðum að páskaeggjunum. Strákunum tókst svo vel til að fela mitt að ég fann það ekki fyrr en eftir hálftíma. Síðan fórum við að versla eins og gott er að gera á páskadag og fengum okkur súshí á leiðinni heim. Ekki mjög páskalegur matur. Hefði viljað fá lambalæri. Strákanir eru í fríi í næstu viku og ég óskaði eftir því að fá frí í skólanum hjá mér og fékk það líka. Við ætlum til Peking og erum búin að bóka hótel (http://www.hotel37.com/default_index.asp) í fjórar nætur. Erum svo að spá í að fara að sjá leirhermennina og halda síðan aftur til Shanghai á sunnudeginum eftir það.Þar til næst.

Hádegisferð

Teppabúð

Ég og Margrét fórum í smá hádegis göngutúr um hverfið suður af miðbæ Shanghai fyrr í vikunni.Þarna eru engar vestrænar glansbúðir heldur einungis litlar (mjög litlar) kínverskar verslanir sem sérhæfa sig í ákveðinni vöru. Sumar búðir eru ekki mikið meira en pappakassar út á götu með ávöxtum í eða lifandi fiskum. Rakst á eina sem seldi lifandi fasana og snáka. Mjög gaman að skoða þessar búðir.Að lokum komum við að þessum fína almenningsgarði. Fallegur gróður, körfuboltavellir og önnur svæði til útvistar. Þarna var glæsilegt gyllt skildi sem á stóð: "Garden Rules", bæði á ensku og kínversku. Ein setning í þessum fínu reglum hljómaði svona.

"Honored guests are not expected to urinate or shit in the garden".Þá vitum við það.


Skólamál

 

Shanghai

Nú er lífið komið í fastari skorður hér í Golden City Garden. Bæði ég og strákarnir förum snemma í skólann. Þeir eru sóttir af skólabílnum hingað upp að dyrum en ég þarf að taka tvær neðanjarðarlestir og er 35 til 50 mínútur á leiðinni eftir því hversu mikil traffíkin er.

Skólinn hjá mér er nokkuð skemmtilegur. Ég er í kínversku frá 8 til 11.40 alla morgna. Þetta eru þrír mismunandi kínverskutímar með þremur kennurum; hlustun, lestur og skrif og samræður. 

Síðan hafa hin fögin sem ég er skráður í byrjað hvert af öðru í vikunni en tvö byrja í næstu viku eru Chinese Culture & History og Chinese Business Culture and Environment.

Á mánudögum er ég í Chinese Business Law sem er ansi sérstakt. Ég hitti ítalskan athafnamann hérna um daginn sem hefur komið hingað í 15 ár og stundað viðskipti og deildi með honum leigubíl. Þegar ég sagði honum að ég væri að byrja í þessum áfanga leit hann á mig og spurði: "Hvaða lög? Það er ekki farið eftir neinum viðskiptalögum hér". Kennarinn talar mjög einikennilega ensku og maður skildi eiginlega ekki neitt sem hann sagði og ekki er boðið upp á bók í þessu fagi heldur. Það eina sem hægt var að gera var að glósa það sem kennarinn skrifaði á töflun.

Á miðvikudögum er ég í frábæru fagi. E-commerce. Ég hef nú þó nokkurn áhuga á þessu málefni og var því nokkuð spenntur. Tíminn byrjaði ágætlega, kennarinn talaði ensku sem var skiljanleg. Þegar tíminn var aftur á móti hálfnaður varð mér ljóst að ég væri kominn aðeins lengra í netlæsi en kennarinn og námsefnið. "You move the mouse over and type in the search for the product you want to buy". Síðan fylgi ýtarleg lýsing á hver munurinn væri að versla vöru á netinu og í búð.

 Á föstudögum er ég síðan í Chinese Economics og ég held að það sé uppáhaldsfagið mitt. Kennarinn talar skiljanlega ensku og námsefnið er mjög áhugavert. Þetta fag stangast á við kínverskutímana og því sleppi ég kínverskunni á föstudögum og er búinn á hádegi þannig að helgin nýtist vel. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband