Ég á afmæli í dag.

Ni hao (halló) 

Um leið og ég fór að tala um hversu gott veðrið væri og sumarið væri komið skall á með rigningu og roki.Ekki eins og það væri nóg heldur voru heljar miklar eldingar hérna með meðfylgjandi þrumum. Þessar voru nokkuð tilkomumiklar. Við Íslendingar erum nú ekkert sérlega vön eldingum þó slíkt fyrirbæri sjáist af og til á Klakanum og áttum okkur því kannski ekki á hættunni sem fylgir þeim. Daginn eftir las ég í blaðinu Shanghai Daily að elding hafi slegið niður í ung hjón í norður Shanghai. Konan lést en maðurinn fékk minniháttar brunasár. Einnig kveiknaði í gistiheimili þar sem um eitthundrað gestir voru og þurfti að bjarga sumum út með stigabíl. Eldurinn teygði sig síðan í nærliggjandi rými þannig að níu verslanir urðu einnig eldinum að bráð en engan sakaði.

 Í þessu sama blaði var forsíðufréttin um hina slæmu vesturlandabúa sem eru að ráðast á ólympíukyndilinn. Þessir aumingjans mótmælendur eru víst svo lítilsverðir að þeir ráðast á lamaða íþróttakonu sem ýtt var áfram í hjólastól af blindum íþróttamanni. Ekki mikið talað um hverju þessir vesturlandabúar voru að mótmæla heldur öllu púðri eytt í að segja frá hversu vel hlaupið með kyndilinn gengur. Það er soldið gaman að því að lesa ritskoðaðar fréttir og sjá hvernig litið er á hlutina með augum Kínverja.

Annars er ég á þeirri skoðun að ekkert land eigi að beita íþróttamönnum fyrir sér til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Þetta eiga að vera ópólitískir leikar og það á ekki að láta það bitna á fólki sem hefur eytt mörgum árum í æfingar til að komast á leikanna. Stjórnmálamenn sem gera slíkar kröfur ættu að líta í eigin barm og gefa sinn draum upp á bátinn. Flest ríki eiga í viðskiptum og stjórnmálalegu sambandi við Kína og ef það á að banna íþróttamönnum að keppa þá gætu stjórnmálamenn alveg eins sagt af sér til að mótmæla því að land þeirra eigi í viðskiptum og samskiptum við Kína. 

Einnig er ég á þeirri skoðun að það eigi svo sannarlega að halda leikana hérna því það kemur sér vel fyrir alla, jafnvel þó stjórnvöld hér séu í feluleik með aðgerðir sínar á einstökum svæðum. Eftir að hafa séð hvernig allt er á fullu, ekki bara í Beijing heldur einnig í Shanghai og víðar. Þá skilur maður hversu mikill óbein áhrif leikarnir hafa á líf margra. Kaupmaðurinn á horninu sér fram á gríðarlega aukningu og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að bæta við sig endalausu starfsfólki til að anna eftirspurninni. Þessi áhrif eru þegar komin fram og eiga eftir að vara löngu eftir að leikarnir eru búnir.

En nóg um pólitík og veður. Við skulum snúa okkur að mikilvægari málum.

Ég á afmæli í dag.

Fékk þessar fínu afmælisgjafir. Þær bera reyndar smá keim af smekk gefendanna en eru engu að síður skemmtilegar. Hans gaf mér fjarstýrða þyrlu og Elmar gaf mér reiðhjól. Alveg viss um að við getum notið þessar hluta saman. Já, og Magga gaf mér Ólympíubol (nei, hún gaf mér ekki iPhone) og Elínbjörg og Bjarni sendu okkur fullan kassa af íslensku nammi sem barst til okkar í gærkveldi. Ótrúlega vel tímasett hjá þeim. Enda starfar hún hjá póstinum.

Alla vega. Fyrir þá sem vilja syngja afmælissönginn fyrir mig á kínversku:

"Zhú ní Shangri kuai le" 

 Zaijian (bless)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju.

Þú græddir smá því afmælisidagurinn varð 8 tímum á undan miðað við ef þú værir á Íslandi.

Kveðja mamma.

Elínbjörg (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 07:10

2 identicon

Innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn!

"Zhú ní Shangri kuai le"  ... kann ekki meir ..... Gaman að eiga afmæli í Kína, smá tilbreyting að það

En hafið það ávallt sem allra best og gangi ykkur allt í haginn.

Kærar kveðjur úr vorveðrinu á suðurlandi

E.s. Fylgist nú reglulega með ykkur á blogginu, sérstaklega freistandi að lesa skemmtileg skrif þegar ég á að vera að læra  

Lollý (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 22:56

3 identicon

Til hamingju með afmælið!

Sóley (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 16:28

4 identicon

Sæll og blessaður.

Til hamingju með afmælið.

BeZtu kveðjur frá Vestmannaeyjum og gangi ykkur allt í haginn

Valur

Valur (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 20:40

5 identicon

Sæll

 Til hamingju með daginn um daginn. verður að viðurkennst að þetta gleymdist. Búið að vera mikið að gerast hérna.

Halli (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband