Færsluflokkur: Menning og listir

Fyrsti skóladagurinn


1081YanChangCampus-smÞá er fyrsta skóladeginum lokið. Eina fagið á dagskrá var kínverska fyrir útlendinga.

Eftir að hafa farið í gegn um skráningarferlið um daginn. Tók ég stöðupróf í kínverksu. Það var reyndar ekki mjög flókið: Kanntu kínversku spurði prófdómarinn. Ég svari Nei. Ertu byrjandi spurði hann þá. Ég svaraði já. Þar með var ákveðið í hvaða bekk ég fór í kínversku. Mér var úthlutað stundatöflu og sagt að kíkja á upplýsingatöfluna niðri til þess að finna út í hvaða stofu ég ætti að mæta. Það gerði ég samviskusamlega og hugsaði með mér að ekki væri nú vitlaust að líta á kennslustofuna þannig að ég þyrfti ekki að vera leita að henni í morgunösinni. Og til þess að fullkomna undirbúninginn þá tókum fórum við leiðina sem ég fer í skólann á hverjum morgni með lestinni og mældum tímann sem það tekur, 50 mínútur nákvæmlega.

Stóri dagurinn rann upp og ég vaknaði 6.30. Borðaði morgunmat og lagði af stað á tilsettum tíma. Ég geng út á lestarstöð og það tekur um það bil 7 mínútur. Kaupi mér miða (núna er ég kominn með margnota kort) og skelli mér niður í metróið. Ég treð mér í lestina sem er full eins og síldartunna og við stefnum á Torg fólksins en það er líklega sú lestarstöð í Shanghai sem einna mest er að gera. Þarna þarf ég að skipta um lest. Fara úr línu 2 í línu 1. Ég treð mér úr lestinni og þegar ég segi treð þá meina ég það í bókstaflegri merkingu því ef þú ýtir ekki og treður þér ákveðið áfram þá einfaldlega kemstu ekki út. Þegar ég kem upp þá eru tveir straumar af fólki, annars vegar að fara úr línu 2 og hins vegar að fara í hana. Þetta er gríðarlegt mannhaf. Þetta er líkt því að vera koma sér inn á tónleika hjá vinsælustu hljómsveit veraldar. Þvílíkur er troðningurinn og lítið annað að gera en að fylgja straumnum. Þegar ég kem loks niður að línu 1 þá er lestin akkúrat komin og dyrnar opnar þannig að ég hoppa beint um borð. Dyrnar lokast og þá rennur það upp fyrir mér að ég fór í vitlausa lest. Þessi fer í hina áttina. Nú var ekkert annað að gera en að fara úr á næstu stöð og taka lestina úr hinni áttinni. Þarna fóru dýrmætar fimm mínútur og ljóst að ég yrði bara akkúrat á tíma. Lestin kemur og ég fer í hana og þarf að fara sex stöðvar áðurn en ég fer út. Þegar komið er að fimmtu stöðinni þá standa allir upp og ljósin í lestinni eru slökkt. Lestarvörður kemur inn í lestina með gjallarhorn og rekur alla út. Síðan lokast dyrnar og lestin fer, tóm. Ég hafði sem sagt farið í lest sem var með endastöð þarna, einni stöð styttra en ég var að fara. Nú töpuðust aðrar fimm mínútur. En það kemur alltaf önnur lest og ég komst að lokum á mína stöð og gékk rösklega í átt að skólanum.

Nú hugsaði ég með mér að það var gott að ég var búinn að athuga hvar stofan mín var þannig að ég stefni beint þangað. Stofa 111 í byggingu 4. Ég vind mér inn og finn mér sæti. Þarna eru greinilega vesturlandabúar þannig að ég andaði léttar. Kennarinn kínkaði kolli til mín og hélt svo bara áfram að tala á kínversku. Ég skildi ekki neitt. Sat bara þarna, tók upp bækurnar mínar fimm sem ég hafði fengið fyrir þetta fag og reyndi að komast inn í það sem var að gerast. Kennarinn skrifaði í gríð og erg á kínverksu á töfluna og byrjaði síðan að kalla nemendurnar upp á töflu til að skrifa svör við því sem þar var. Síðan kallaði benti húna á mig og ég gat ekki gert neitt nema hrist hausinn. Eftir smá stund tók ég eftir því að allir hinir nemarnir voru með öðru vísi bækur en ég og þeir virtust skilja hvað kennarinn var að segja. Ég snéri mér því að strák sem sat við hliðina á mér og spurði hann hvort þetta væri örugglega kínverska fyrir byrjendur og þá kom auðvitað í ljós að ég var í rangri stofu.

Í næstu frímínútum fór ég upp á skólaskrifstofu og þá var komin önnur stundatafla og ég átti að vera í stofu 205 í allt annarri byggingu. Ég kemst loksins í rétta stofu, þremur klukkustundum eftir að ég lagði af stað heiman frá mér á Ding Xi Road.

Stofa 205 er eins og allar hinar stofunar hérna með tréstólum sem eru áfastir borðum. Þessi húsgögn eru ekki gerð fyrir hávaxna vesturlandabúa, satt að segja alveg grjótharðir bekkir. En maður sofnar þá ekki á meðan. Hérna í Shanghai er mikill hiti góðan part ársins þannig að ekki er mikið hugsað um að hita upp húsin. Þetta á sérstaklega við um opinbera staði og sameignir húsa. Það er því kaldara inn í þessum byggingum en er úti yfir daginn. Svona er þetta líka í skólastofunum og því sitja allir í úlpunum sínum, bæði nemendur og kennarar. Það er ansi skondin sjón að sjá alla kappklædda húkandi yfir skruddunum. Þetta batnar nú með vorinu þegar hitinn fer að fara upp í 20 stigin og hærra.

Nú er bara að vona að ég komist á réttum tíma í skólann það sem eftir er vikunnar.

Á videoinu hér fyrir neðan er hægt að sjá gatnamótin þar sem lestarstöðin er hjá skólanum. Skólinn er í um það bil 5 mínútna göngufjarlægð frá þessu horni.

(Ef þið sjáið ekki videoið þá er hægt að opna það á þessari slóð: http://www.youtube.com/watch?v=yaht2al_EaY)

 


Shanghai Art Museum

shanghai.starbucks-art.museum-people.parkVið skelltum okkur í smá túristaleik um daginn og fórum niður í bæ að skoða helstu túristastaðina. Tókum lest 2 í austur og fórum úr á Torgi fólksins (Ren Min Guang Chang). Þar er skemtilegur almenningsgarður og auðvitað Starbucks kaffihús sem við ákváðum að fara inn á til að borða morgunmat. Þú færð varla dýrari morgunmat í Kína en á Starbucks. Allt sem er vestrænt er dýrt í Shanghai, alla vega á kínverskan mælikvarða.Eftir göngu í garðinum fórum við á listasafni, Shanghai Art Museum sem er við torgið. Húsið er í gamalli byggingu frá um 1930 og hýsti áður veðhlaupaklúbb þar sem hægt var að horfa yfir veðhlaupabraut sem var þar sem torgið er nú. Þetta er nokkuð stórt hús með tólf sýningarsölum en nú voru einungis tvær hæðir opnar. Til sýnis voru verk kínverskra samtímalistamanna unnin aðallega í olíu en einnig í hefbundnum kínverskum stíl með bleki og vatnslitum. Þarna voru verk frá um það bil 1960 til dagsins í dag sem mörg hver vöktu hrifningu hjá mér. Það er samt ótrúlegt hvað heimtaugin er sterk því alltaf kom upp í hugann; "já, þessi lítur út eins og Kjartan Guðjónsson eða þetta gæti verið eftir Kristján Davíðsson". En síðan voru aðrir sem skáru sig vel úr og þeir sem mér þóttu áhugaverðastir núna voru að mála fígúrtív raunsæismálverk.Shanghai tvíæringurinn er haldinn í þessu safni og mun næst fara fram í september komandi. Til að byrja með voru einungis kínverskir listamenn sýndir á tvíæringnum en í dag eru þeir um það bil helmingur og hinn helmingurinn vestrænir listamenn. Það hefur verið markmið Menningarnefndar Shanghai borgar að nota viðburði eins og þennan til þess að koma borginni í hringiðu listheimsins og því hefur áherslan færst yfir á vestræna listamenn í bland.

Biðraðamenning


streetscene

Kínverjar eru ekki mikið fyrir að bíða í röð. Kannski er það vegna þess að þeir eru svo margir og eina leiðin til þess að komast áfram er að drífa sig fremst. Þegar þeir vilja komast út úr lestinni (sem venjulega eru yfirfullar) er bara ýtt og troðist og ef þú gerir það ekki líka þá verður þú bara eftir og missir annað hvort af lestinni eða kemst ekki út úr henni.

Þeir gera þetta líka í umferðinni. Þeir eru ekkert sérstaklega að spá í það hvort það sé raut ljós eða grænt. Hvort þú sért að keyra á réttri akrein eða ekki og þeir spá ekkert í það hvort það sé bíll eða gangandi vegfarandi í vegi fyrir þeim. Eins ótrúlega og það hjómar samt þá virðist þetta ganga upp. Ef þú vilt fara yfir götu, þá leggur þú bara í hann og æðir yfir, með vakandi auga samt. Og viti menn. Aðrir hægja á sér eða í það minnsta beygja frá til þess að keyra ekki yfir þig. Miðað við alla þá gríðarlegu umferð sem er hér í Shanghai þá hef ég ekki enn séð beyglaðan bíl eða keyrt fram á árekstur. Þetta bara virðist ganga upp. Held samt að það sé rétt sem sagt er í leiðsögubókunum að það eina hættulega við Shanghai sé að fara yfir götu.

Eins og ég sagði þá eru menn ekkert sérstaklega fyrir það að vera í biðröðum en á þeim stöðum sem ég hef lent i slíku eins og til dæmis í bankanum og í skólanum mínum þá bíða þeir sitjandi. Stólum er raðað upp og síðan sest maður bara aftast. Svo þegar næsti í röðinni fer þá standa allir upp og færa sig um einn stól. Ágætis æfing það. Hnébeygjur í hálftíma.

 

 


Kaffimenning og menningarútrás

IMG_1555-3Kínverjar drekka ekki kaffi nema að litlu leiti og því getur verið erfitt fyrir kaffifíkil eins og mig að komast í gegn um daginn. Það er ekkert mál að finna Neskaffi en eins og við alvöru kaffidrykkju fólk þekkjum er það ekki “The real thing”. Því þóttist ég hafa himinn höndum tekið þegar ég rakst á kaffihús í Nanjing Road í Shanghai. Fjölskyldan þreytt eftir sólarhringsferðalag frá Íslandi daginn áður kom sér vel fyrir í þykkum sófum kaffihússins og lét rjúkjandi kaffiilminn fylla vitin. Smá vestræn áhrif hér í austurheimi og svona til að fullkomna áhrifin hljómaði Emilíana Torrini í útvarpinu. Um leið rifjaðist upp að á leiðinni niður í bæ keyrðum við fram hjá risa auglýsingaskilti þar sem tónleikar með Björk voru auglýstir en hún mun spilja hér í Shanghai þann 4. mars n.k. Þetta er sannkölluð menningarútrás hugsuðum við með okkur, tvær af okkar bestu listakonum búnar að koma sér á framfæri í alþýðulýðveldinu.

Dýrasta listaverk Íslendings

Ólafur ElíassonListaverkið Fivefold eye eftir Ólaf Elíasson (fæddur 1967) seldist fyrir metfé síðast liðinn sunnudag á uppboði hjá Christie's í London.

Á sama tíma og verk eftir alla helstu listmenn íslensku þjóðarinnar seldust fyrir nokkrar milljónir króna  á uppboði hjá Galleríi Fold var verkið Fivefold eye slegið á rúmlega 80 milljónir króna. Verkið var metið á 11 til 15 milljónir og seldist því á margföldu matsverði. Seljandinn, sem keypti verkið í Berlín árið 2000, unir væntanlega glaður við sitt.

Þetta er að öllum líkindum hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir verk eftir Íslending og slær þar með út verkið "Hvítasunnudagur" eftir Jóhannes S. Kjarval sem seldist á tæpar 20 milljónir í Kaupmannahöfn fyrr á árinu.

Fivefold eye er  skúlptúr úr stáli og speglum, 157,5x157,5x74,9 cm að stærð. Það var sýnt í Basel Kunsthalle í nóvember 2000 og aftur í The Institute of Contemporary Art í Boston í janúar 2001.
Þá hefur verið fjallað um verkið í ýmsum bókum og var það meðal annars á forsíðu bókarinnar "Olafur Eliasson" eftir M. Grynsztejn, D. Birbaum, M. Speaks og fleiri sem kom út í London 2002.

Þessi sala staðfestir þá alþjóðlegu stöðu sem Ólafur Elíasson hefur á listaverkamarkaðinum og hefur verið styrkt með hinni miklu yfirlitssýningu sem stendur yfir í San Fransisco fram í febrúar á næsta ári.


Graffiti, list eða skemmdarverk?

Veggjakrot verður sífellt meira vandamál í nútíma borgarsamfélagi. Veggir, umferðarskilti, rúður og jafnvel bílar verða fyrir barðinu á skemmdarvörgum.
Hvað eru þeir sem krota á veggi að hugsa? Eru þeir að tjá samfélaginu réttlátar tilfinningar sínar eða eru þeir einfaldlega að merkja sér svæði, eins og hundar gera?
Líklega er um hvort tveggja að ræða en ég tel samt að meira sé um að viðkomandi sé einfaldlega að eigna sér svæði, láta vita að hann hafi verið hér heldur en að um listræna sköpun sé að ræða.
Það verður að gera skýran mun á milli graffiti listamanna og þeirra sem krota á veggi.
Graffiti listamður hugsar verk sitt heildstætt og lætur skoðanir sínar og tilfinningar í ljós með afgerandi hætti. Miðillinn sem hann velur sér, veggurinn, er stór hluti af þessum tjáskiptum því hann kallar á áhorfandann.
Erfitt getur verið fyrir yfirvöld að hafa hendur í hári glæpamanna sem merkja sér svæði með þessum hætti og enn erfiðara getur verið fyrir þau að gera greinamun á þeim og listamönnum þegar kemur að því að ákveða hver verður ákærður og hver ekki. Eina leiðin er að líta á allt graffiti sem skemmdarverk og hafa enga listræna skoðun til verkanna.
Í New York hefur graffiti listamaður í fyrsta skipti verið ákærður fyrir veggmynd án þess að hafa verið staðinn að verki. Einungis var ákært út frá ljósmyndum þar sem listamaðurinn, Alan Ket sem sýnt hefur í galleríjum og heitir Alain Mariduena réttu nafni, sést spreyja táknið sitt á vegg annars staðar í borginni. Alan Ket heldur því aftur á móti fram að einhver annar hafi málað umrædd verk og stælt merkið hans.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta mál fer. Kannski geta yfirvöld hér ákært þá sem staðnir eru að veggjakroti einnig fyrir önnur veggjakrot sem finnast með sama merki eða undirskrift.

Meira af Ólafi Elíassyni

Olafur_Eliasson_The_Fault_Series Uppboðshúsið Phillips de Pury og Company í New York heldur áfram að bjóða upp verk eftir Ólaf Elíasson. Að þessu sinni bjóða þeir upp tvö verk eftir þennan ágæta listamann, annars vegar skúlpturinn Colour Kaleidascope sem er kviksjá úr tré og gleri og hins vegar 32 ljósmyndir af misgengi Íslands, The Fault Serie.

Hvort tveggja þessara verka eru metin af uppboðshúsinu á allt að 8,6 milljónir króna en stutt er síðan annað eintak af kviksjánni var selt á rúmlega 10 milljónir.

Uppboðið fer fram í New York eftir tvo daga (22.7.) og verður gaman að sjá hvernig fer.


Skúlptúr á tíu milljónir

colour_vision_kaleidoskope_olafur_eliassonUppboðshúsið Phillips de Pury & Company í New York seldi skúlptúr eftir Ólaf Elíasson fyrr í þessum mánuði  á 160.000 dollara eða sem nemur rétt rúmum tíu milljónum króna.

Skúlptúrinn sem er kviksjá úr tré og gleri á tréfæti gerði Ólafur árið 2003 í þremur eintökum. Um verkið segir Ólafur að kviksjáin dragi saman sjónsviðið í eina heild og hafi á sínum tíma þótt tákn nýtískuleikans.

Verkið var metið á 9,4 til 12,6 milljónir króna en seldist eins og áður sagði á rétt rúmar tíu milljónir.

Þrjú verk eftir Íslendinga hafa því selst á þessu ári fyrir meira en tíu milljón króna. Verk Ólafs og tvö verk á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Danmörku í febrúar. Það voru annars vegar verkið Hvítasunnudagur eftir Jóhannes S. Kjarval og hins vegar verkið Contra Natura eftir Odd Nerdrum sem fluttist hingað til lands fyrir nokkrum árum. Þau verk seldust fyrir 15,3 milljónir eða 1,3 milljónir danskar krónur hvort.


Íþróttamenn Andy Warhols boðnir fyrir tæpa 2 milljarða

Richard Weisman og Vigdís Finnbogadóttir
Richard Weisman og Frú Vigdís Finnbogadóttir við opnun sýningar á verkum Andy Warhol í Galleríi Fold árið 2003.

Listaverkasalanum Martin Summers í London hefur verið falið að selja heilt sett af íþróttamyndum eftir Andy Warhol og er búist við að það fáist 1,8 milljarður króna eða 28 milljónir dollara fyrir þær.

Þetta er í fyrst sinn sem heilt sett úr þessari seríu er boðið til sölu en hvert verk er áritað af Andy Warhol og viðkomandi íþróttamanni, m.a. Muhammad Ali, Jack Nicklaus og O.J. Simpson.

Listaverkasafnarinn Richard Weisman er seljandinn en hann var góður vinur Andy Warhol og fékk hann til að mála íþróttamennina á sínum tíma og greiddi fyrir það 51,2 milljónir króna. Warhol gerði mun fleiri myndir en Weisman óskaði eftir og leiddi það síðar til deilna á milli hans og Andy Warhol sjóðsins um eignarétt. Sú deila var leist á þann veg að Weisman fékk öll verkin en gaf sjóðnum hluta af þeim aftur. Richard Weisman stóð þá uppi með 120 verk eftir Warhol sem hann síðan hefur gefið m.a. þeim íþróttamönnunum sem þátt tóku í verkinu og íþróttasamböndum sem þeir tilheyrðu en einnig til barna sinna þriggja. Gangi þessi sala eftir þá hafa verk Andy Warhols 190 faldast í virði frá því Weisman keypti þau.

Gallerí Fold við Rauðarárstíg hélt sýningu á þessum verkum árið 2003 í samstarfi við Richard Weisman en um það bil tíu þúsund manns sáu þá sýningu.

Að hluta til skv. frétt The Art Newspaper


Íslenski uppboðsmarkaðurinn

Íslenska listaverkavísitalan - ilv.is Síðasta uppboð Gallerís Foldar á þessum vetri fór fram síðast liðið sunnudagskvöld. Þar voru að venju boðin upp fjölmörg verk eftir frumkvöðla íslenskrar myndlistar en einnig brá svo við að þessu sinni að boðin voru upp verk eftir alþjóðlega stórlistamenn. Í ljósi þess sem gerst hefur að undanförnu á myndlistarmarkaðinum bjuggust margir við enn meiri verðhækkunum, að verk okkar helstu höfunda myndu ná nýjum hæðum. Þó búist hafi verið við metverði gerðist það ekki að þessu sinni en samt sem áður voru fleiri verk seld nú en áður á yfir tvær milljónir. Þetta síðasta uppboð er því með þeim betri sem haldin hafa verið á Íslandi. Íslenski uppboðsmarkaðurinn hefur frá 1985 boðið upp rúmlega 12000 verk eftir um það bil eitt þúsund höfunda. Heildarverðmæti sleginna verka á föstu verðlagi ársins 2005 er nú komið upp í rúmlega 1,4 milljarð króna.

Síðast liðið ár voru fjögur verk eftir íslenska höfunda seld fyrir metupphæðir, miklu hærri upphæðir en áður hefur þekkst fyrir verk Íslendinga. Þetta voru verk eftir Ásgrím Jónsson, Jóhannes S. Kjarval og Þorvald Skúlason.

Afleiðingar þessarar hækkunar á einstökum verkum íslensku frumherjana eru margþættar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Um leið og einstakir höfundar eða einstök verk þeirra verða svo eftirsótt að safnarar eru tilbúnir til að greiða mun hærra verð fyrir þau en áður dregur það önnur verk þessara höfunda með sér upp. Ekki er þar með sagt að öll verk muni hækka til jafns við þessa toppa þó þau séu svipaðrar gerðar. Þessi háu verð eru hvati fyrir seljendur sem koma með fleiri verk inn á markaðinn sem aftur leitar jafnvægis í verði sem getur þó verið hærra en áður var. Neikvæðu afleiðingarnar eru óraunhæfar væntingar seljenda til verðs fyrir ákveðin verk. Væntingar sem taka mið af hæsta verði sem fengist hefur sem er ekki endileg það verð sem kaupendur eru tilbúnir að greiða fyrir meðalverk. Dæmi um slíkar vætningar má sjá í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 23. apríl s.l. þar sem talað var um að verk eftir Þórarin B. Þorláksson myndi líklega seljast á meira en 12 milljónir króna. Slíkt tal gæti verið tilraun seljenda til þess að tala verðin upp og það gæti tekist í vissum tilfellum. Slíkt tal er ekki vænlegt til árangurs nema til skamms tíma og kemur yfirleitt í hausinn á viðkomandi, þó síðar verði. Það sem gerst hefur á íslenska uppboðsmarkaðinum á síðast liðnu ári er í takt við það sem gerst hefur erlendis. Einstök verk þekktustu listamannanna hafa hækkað mikið þar og dregið vagninn fyrir hina. Markaðurinn hefur stækkað, kaupendur með veruleg fjárráð eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr og áhugi þeirra fyrir fjárfestingum í myndlist er að aukast. Það sem er sérstakt við íslenska listaverkamarkaðinn eru áhrif málverkafölsunarmálsins. Eftir að það mál kom upp 1997 og þar til dómur féll 2004 lækkuðu verð stöðugt og markaðurinn dróst saman og því gæut hluti þeirra miklu hækkana nú verið verðleiðréttingar.

Ég spái því að verð á góðum verkum gömlu meistarana muni halda áfram að hækka þó það verði ekki með sama hraða og verið hefur og bilið á milli góðra verka og síður góðra muni breikka. Eðlilega er nóg framboð af meðalgóðum verkum því færri eru tilbúnir til að eiga þau og þar af leiðandi eru þau verðminni og koma ekki til með að hækka meira en með verðlagi. Einnig ætti þessi þróun að skila sér í meiri mun á milli gömlu meistarana og samtímalistamanna. Verð verka samtímalistamanna taka oft á tíðum mið af verðum eldri listamanna og því setja þessar hækkanir nú ný viðmið fyrir þá.

Ætli menn að fjárfesta í myndlist þarf annað hvort að veðja á efnilega unga listamenn og sjá svo til hvað gerist, eða kaupa list eftir listamenn sem þegar eru viðurkenndir, en getur þá þegar verið orðin nokkuð dýr.  Það er mun meira verðbil erlendis á milli ungra og tiltölulega óþekktra listamanna og þeirra sem hafa skapað sér nafn og eru þekktir og virtir. Einnig er verðbilið erlendis töluvert meira á verkum eftir þekkta látna listamenn heldur en samtímalistamenn. Þessi mikli munur gerir það að verkum að ávöxtun á listaverk getur verið mjög mikil sé veðjað á réttan hest. En það hafa ekki allir ráð á því að kaupa verk þekktra listamanna en þeir geta samt sem áður fjárfest í myndlist með því að kaupa verk ungra listamanna. Þá er ráð að kaupa eftir marga listamenn því einn þeirra gæti orðið frægur og þannig skilað góðri ávöxtun á safnið í heild. Og auðvitað eru ekki allir að kaupa list til fjárfestingar. Flestir kaupa listaverk til þess að hafa ánægju af þeim og þegar verkin hækka í verði er það bara bónus.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband