10000 látnir og hjálp hefur ekki borist öllum

Brú í byggingu í Chongqing

Jarðskjálftiupp á 7,8 reið yfir þéttbýlasta svæði Kína, Sichuan, í gær. Miðja skjálftans varð hátt upp í fjöllum en allt héraðið er fjallendi og því er mjög erfitt að koma aðstoð til þeirra sem verst urðu úti í skjálftanum. Fjölmargar brýr hafa hrunið og aurskriður loka vegum. Þessu til viðbótar hamlar veður því að þyrlur hersins geti komið nauðsynlegum hjálpargögnum til fólksins. Tilkynnt hefur verið um dauðsföll í borgum hundruðum kílómetra frá upptökum skjálftans. Að minnsta kosti 50 manns létust í Chongqing sem er við bakka Yangtzu árinnar. Tala látinna á eftir að hækka á næstu dögum þegar símasamband kemst á og hjálp berst til milljóna manna sem búa í þorpum og litlum borgum sem dreifðar eru um Sichuan.

Til að setja fjöldann á svæðinu í samhengi þá búa um 10 milljón manns í Chengdu höfuðborg Sichuan en 8 milljónir í New York. Það búa fleiri en 87 milljónir í Sichuan héraðinu öllu.

Nokkuð austar við borgirnar Chengdu og Chongqing er stærsta stífla heims, Þriggja gljúfra stíflan (Three Gorges Dam) og nýjustu fréttir herma að ekki hafi orðið skemmdir á henni. Bent hefur verið á að stíflan sé byggð á jarðskjálftasvæði og bresti hún má búast við að svæðið allt niður til Shanghai verði í hættu. 

Kínverjar eru ágætlega tækjum búnir til að takast á við hamfarir sem þessar og búa þar að auki yfir 3 milljón manna her og 197 milljón manna varaliði sem hægt er að kalla út til hjálpar. Strax eftir skjálftann var herinn sendur á staðinn en hann hefur ekki en komist til allra þorpa vegna slæmra skilyrða. Alþjóðlegar hjálparstofnanir kalla því frekar eftir fjárhagsaðstoð til þeirra sem urðu fyrir skjálftanum.

 

Tvær ástæður eru fyrir því að þetta er svo fjölmennt hérað. Sú fyrsta að það er mikil gróðursæld og auðvelt að rækta landið. Þar sem því er viðkomið eru akrar en hærra í fjöllunum eru ræktaðar appelsínur og aðrir ávextir. Sú seinni er að á tíma Maó var mikill iðnaður fluttur í héraðið frá borgum eins og Shanghai.

 

Íbúar Shanghai fundu fyrir skjálftanum í gær en ólíklegt að eftirskjálftar eigi eftir að finnast í borginni. Þeir sem staddir voru í háhýsum fundu fyrir skjálftanum en þeir sem voru á jörðu niðri í bifreiðum eða lágreistum húsum fundu ekki fyrir honum. Byggingar sem eru byggðar eftir 1992 eiga að þola skjálfta upp á 5,5 Richter stig en stór hluti borgarinnar er byggður eftir 1990 þar á meðal hið nýja Pudong hverfi. Talið er ólíklegt að jarðskjálfti verði í Shanghai en þó hafa orðið skjálftar hér í borginni og í nágrenni hennar. Skjálfti upp á 4,2 stig varð 1624 á Ming tímabilinu og annar um 170 km frá borginni upp á 6,2 stig 1996.

(Ljósmyndin er af brú í byggingu í Chongqing. Ljósmynd: Jóhann Ágúst Hansen) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband