Óttast um 112000 manns þar sem hjálp hefur ekki borist

Yfirvöld í Kína búast við að tala látinna eigi eftir að hækka þegar fréttir frá afskekktum héruðum fara að berast. Í Wenchuan sýslu þar sem skjálftinn átti upptök sín búa 112000 manns. Hjálparstarfsmenn og kínverskir hermenn hafa verið sendir af stað en fara hægt yfir vegna þess að vegurinn frá Dujiangyan borg sem er um 100 km frá Wenchuan er lokaður. Vegurinn hefur rifnað í sundur og aurskriður og grjót hamla einnig för. Þar að auki er úrhellis rigning á svæðinu og símasambandslaust. Hernum hefur verið skipað að opna veginn og koma á sambandi við sýsluna eigi síðar en á miðnætti í kvöld þótt það þýði að hermennirnir þurfi að ganga þangað.

Jarðskjálftinn hefur haft margvísleg áhrif á líf fólks í Kína.

Öllu flugi til Chengdu, höfuðborgar Sichuan, var beint til Xi'an og Chongqing og flugvellinum lokað. Flugið frá Peking til hamfarasvæðisins var einnig seinkað.

Risapöndur urðu einnig fyrir barðinu á skjálftanum og óttast er um þær og starfsfólk Wolong verndarsvæðisins. Ekkert samband hefur náðst við svæðið þar sem 130 risapöndur búa. Til viðbótar búa alla vega 150 villtar risapöndur í nágrenninu.

Lokað var fyrir viðskipti í verðbréfahöllinni hér í Shanghai um leið og fréttir bárust af jarðskjálftanum. Það eru 45 fyrirtæki skráð í verðbréfahöllina og þar á meðal Chongqing Three Gorges Water Conservancy and Electric Power Company sem rekur Þriggja gljúfra stífluna. Alla vega tvö önnur fyrirtæki eru frá Sichuan héraðinu. Viðskipti hófust svo aftur í morgun.

Fyrst eftir jarðskjálftann bárust fréttir um að stærsta stífla heims, Þriggja gljúfra stíflan, hefði skemmst. Þessi stífla sem er yfir tveggja kílómetra breið stíflar Yangtze ána en rúmlega 350 milljón manna búa við ána í fjölmörgum borgum, þar á meðal Shanghai. Mikið hefur verið deilt á staðsetningu þessarar stíflu og meðal annars verið bent á að hún standi á jarðskjálftasvæði. Nýjustu fréttir herma aftur á móti að stíflan hafi staðist jarðskjálftann og engar skemmdir hafi orðið á henni.

Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans og talið að fleiri en 300 eftirskjálftar hafi riðið yfir hamfarasvæðið, sumir stærri en 5 á Richter. Því til viðbótar varð annar skjálfti þessum óháður rétt fyrir utan Peking um klukkan hálf þrjú í gær. Þessi skjálfti mældist 3,9 stig og hristi háhýsin í Peking þannig að fólk þusti út á götu.


mbl.is Versti jarðskjálfti í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband