Mikil áhrif hagsmunasamtaka

STEF hefur verið mjög duglegt við að verja hagsmuni höfundarréttarhafa tónlistar. Svo duglegir að löggjafinn hefur hlaupið til og samþykkt ýmis skrítin lög fyrir STEF. Skemmst er að minnast að allir borga STEFgjöld þegar þeir kaupa sér tóman geisladisk þó svo að diskurinn muni aldrei vera notaður undir tónlist eða verk í höfundarrétti. Þannig þarf þorri tölvunotenda að greiða fyrir notkun sem þeir nýta sér aldrei. Annað svipað dæmi var gjaldtaka á iPod spilarann sem leiddi til hæsta verðs þeirra tækja í Evrópu.

STEF eru samt ekki einu hagsmunasamtökin sem óeðlilega mikið mark er tekið á þegar löggjafinn semur ný lög. Samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundarréttar eða MYNDSTEF hafa einnig komist inn undir hjá löggjafarvaldinu. Á síðasta ári töku tvenn ný lög gildi á þeirra sviði samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu. Annars vegar um innheimtu höfundargjalda á myndlistaruppboðum og hins vegar um innheimtu slíkra gjalda á verkum sem eru seld manna á milli, t.d. í listmunahúsum.

Það er fernt sem MYNDSTEFi tókst að koma inn í þessi nýju lög (fyrir utan að þau eru að mestu skrifuð fyrir samtökin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi). Í fyrsta lagi er gjaldtakan sú hæsta í heimi. Ég gerði athugun á þessum lögum í helstu nágrannalöndum okkar og þá kom í ljós að gjöldin eru hvergi hærri en 5% en í flestum tilfellum 4% og fara svo stiglækkandi eftir sölufjárhæð listaverkanna. Í öðru lagi þá getur MYNDSTEF áætlað þessi gjöld á þá aðila sem hafa stundað listmunasölu og þessi áætlun er aðfararhæf. Slíkt vald hafa ekki einu sinni lífeyrissjóðir landsins gagnvart fyrirtækjum. Í þriðja lagi er ákvæði í lögum um uppboð að innheimta skuli gjaldið af öllum verkum, líka þeim sem eru fallin úr höfundarrétti. Slíkt stangast klárlega á við lög Evrópusambandsins og gerir það að verkum að höfundarréttur rennur aldrei út á Íslandi. Í fjórða lagi ber að skila skýrslum um innheimt höfundarréttargjöld til MYNDSTEF árituðum af endurskoðenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að leggja slíkar álögur á fyrirtæki og vil ég benda á að það þarf ekki einu sinni að skila virðisaukaskattsskýrslum með slíkri áritun. Nóg er að ársreikningar fyrirtækjanna séu áritaðir af endurskoðendum.

Margt fleira óeðlilegt er að finna í þessum nýju lögum og það væri ráð fyrir ráðuneytin sem vinna að lagasetningu að taka meira tillit til annarra aðila en háværra hagsmunasamtaka.

 


mbl.is Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband