Færsluflokkur: Bækur

Beittur húmor Hugleiks

Hugleikur Dagsson, fæddur 1977, er þekktur fyrir teikningar sínar sem eru í senn gróteskar og hugljúfar. Hugleikur hefur snert flest svið þjóðlífsins á beittan hátt og stundum svo að varla er börnum bjóðandi. Teikningarnar hafa birst á síðustu misserum í bókum gefnum út af JPV og heitir sú nýjasta Fylgið okkur. Hugleikur hefur einnig skrifað leikritið Forðist okkur sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í samvinnu við leikhópinn Common nonsens og leiklistardeildar LHÍ. Hann fékk Grímuverðlaunin fyrir þessa leikgerð og var einnig tilnefndur til Menningarverðlauna DV 2006.
Þeir sem ekki fá nóg af teikningunum geta nú skellt sér í Gallerí Smekkleysu við Klapparstíg því þar er nú til sýnis verk Hugleiks og kostar hver mynd, sem er um það bil jafn stór og A5 blað, tíu þúsund krónur. Þeir sem harðastir eru (kannski einnig djarfastir) geta síðan smellt sér niður í Nexus við Hverfisgötu og fest kaup á stuttermabol með áprentaðri teiknimyndasögu. Það var Einar Árnason sem gefur út bolina og kostar þeir tvö þúsund krónur.

2006 í grófum dráttum - Halldór Baldursson

Halldór BaldurssonHalldór Baldursson teiknari hefur gefið út bókina 2006 í grófum dráttum. Þar er á ferðinni teikningar Halldórs sem birtst hafa í Blaðinu. Hárbeittar, pólitískar og fyndnar teikningar af mönnum og málefnum líðandi stundar. Halldór hefur svo sannarlega tekið við forystuhlutverki á þessu sviði og ýtt mætum mönnum eins og Sigmund og fleirum út á hliðarlínuna.

Í teikningum Halldórs fer saman mikill húmor og pólitísk ádeila, nokkuð sem aðrir teiknarar íslensku blaðanna hafa átt í erfiðleikum með að sameina. Grín Halldórs er þó alltaf með alvarlegu ívafi og það er engin slagsíða á skoðunum hans, hvorki til hægri né vinstri (ef slíkar skilgreiningar eiga þá enn við).
Að mínu mati eru tvær teikningar í bókinni sem standa upp úr. Annars vegar er það mynd sem birtist 27.9.2006 "Ómar ragnarsson, verndari hálendisins". Þar siglir Ómar um á Örkinni á meðan þreyttir landvættirnir sitja hjá íklæddir bandaríska fánanaum og segja "Hann er algjörlega ofvirkur þessi nýi". Hins vegar er það mynd frá 24.5.2005 sem gæti kallast "Fundur hjá Alþýðubandalaginu. Einhvern tímann á síðustu öld". Þar situr Herra Ólafur Ragnar Grímsson með flokksbræðrum sínum og systrum og talar um hræðilega martröð sem hann dreymdi þá um nóttina. "... Ég var orðinn forseti og var staddur á Torgi hins himneska friðar með ógeðslega, ógeðslega ríku vinum mínum. Við ætluðum að heilsa upp á verkalýðinn en þá tók ég eftir að litlu kínverjarnir voru líka ógeðslega ríkir, allir með bindi og vildu bara tala um verga þjóðarframleiðslu og opnun markaða".
Margar aðrar frábærar teikningar er að finna í bókinni og alveg víst að hver og einn getur fundið eina eða tvær sem höfðar til viðkomandi. Það má líka segja að bókin sé nokkurs konar frétta annáll síðustu missera með gaman sömu ívafi. Ég hvet alla til að rölta út í bókabúð og ná sér i eintak af bókinni sem fæst eins og segir í auglýsingu í öllum betri bókabúðum.

Halldór Baldursson hefur starfað sem teiknari frá 1989 og byrjaði að teikna fyrir Blaðið í september 2005. Hann hefur hlotið hönnunarverðlaun FÍT annað hvert ár frá 2002 og 2005 fékk hann bókaverðlaun barnanna fyrir Fíusól eftir Krístinu Helgu Gunnarsdóttur. Í ár hlaut hann Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Prinsessuna undurfögru og hugrakka prinsinn hennar eftir Margréti Tryggvadóttur.


Íslensku barnabókaverðlaunin 2006

PrinsessanÍslensku barnabókaverðlaunin 2006 voru afhent við hátíðlega athöfn í Ingunnarskóla 27. september.
Barnabókaverðlaunin eru 20 ára í ár og í tilefni af því voru veitt verðlaun fyrir tvær bækur, SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson og HÁSKI OG HUNDAKJÖT eftir Héðinn Svarfdal Björnsson.

Dómnefnd Íslensku barnabókaverðlaunanna var sammála um að handritin bæru af öðrum sem send voru inn í keppnina og í áliti hennar segir meðal annars:
"Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar er nýstárleg bók þar sem brugðið er á leik með gömul ævintýraminni í skemmtilegu samspili mynda og texta. Heildarsvipur verksins ber vott um gott samstarf höfundanna tveggja, frumleika og fagmennsku."
Í umsögn dómnefndar um seinni bókina segir:
"Háski og hundakjöt er trúverðug samtímasaga sem lýsir upplifun íslensks unglings á framandi aðstæðum á raunsæjan og skemmtilegan hátt. Sagan fer með lesandann í spennandi ævintýri til Kína og skilur hann eftir fróðari en áður um lífið í fjölmennasta ríki heims."

SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR fjallar um undurfagra og ljúfa prinsessa í fjarlægu konungsríki. Hér er þó ekki um að ræða vanalegt ævintýri. Í þessari frumlegu bók er hefðbundnum söguþræði snúið á hvolf með óviðjafnanlegu samspili mynda og texta svo úr verður eitthvað alveg nýtt.
Halldór Baldursson er höfundur mynda í fjölmörgum barnabókum en hann er einnig þekktur fyrir skopmyndir sínar sem birst hafa í ýmsum blöðum og tímaritum. Meðal bóka hans eru Marta smarta, Sögurnar um Evu Klöru, Djúpríkið, Dýr og bækurnar um Fíusól.
Margrét Tryggvadóttir hefur áður sent frá sér bókina Skoðum myndlist auk þess sem hún hefur fjallað fræðilega um barna- og unglingabækur.

HÁSKI OG HUNDAKJÖT fjallar um Aron Björn sem þiggur boð um að fara með pabba sínum í vinnuferð til Kína og lendir í miklum ævintýrum. Kínversku borgirnar eru yfirþyrmandi stórar, fljótin breið og mannmergðin mikil - svo ekki sé talað um matinn sem er býsna frábrugðinn því sem Aron er vanur að heiman. Af óviðráðanlegum ástæðum þarf pabbi hans að vinna meira en hann átti von á svo Aron kannar borgina Zhaoqing einn síns liðs, þangað til hann kynninst Ling sem gerist leiðsögumaður hans og vinkona. Og þá hefjast ævintýrin fyrir alvöru ...
Héðinn Svarfdal Björnsson er félagsvísindamaður að mennt og er Háski og hundakjöt fyrsta bók hans.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband