Íslensku barnabókaverðlaunin 2006

PrinsessanÍslensku barnabókaverðlaunin 2006 voru afhent við hátíðlega athöfn í Ingunnarskóla 27. september.
Barnabókaverðlaunin eru 20 ára í ár og í tilefni af því voru veitt verðlaun fyrir tvær bækur, SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson og HÁSKI OG HUNDAKJÖT eftir Héðinn Svarfdal Björnsson.

Dómnefnd Íslensku barnabókaverðlaunanna var sammála um að handritin bæru af öðrum sem send voru inn í keppnina og í áliti hennar segir meðal annars:
"Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar er nýstárleg bók þar sem brugðið er á leik með gömul ævintýraminni í skemmtilegu samspili mynda og texta. Heildarsvipur verksins ber vott um gott samstarf höfundanna tveggja, frumleika og fagmennsku."
Í umsögn dómnefndar um seinni bókina segir:
"Háski og hundakjöt er trúverðug samtímasaga sem lýsir upplifun íslensks unglings á framandi aðstæðum á raunsæjan og skemmtilegan hátt. Sagan fer með lesandann í spennandi ævintýri til Kína og skilur hann eftir fróðari en áður um lífið í fjölmennasta ríki heims."

SAGAN AF UNDURFÖGRU PRINSESSUNNI OG HUGRAKKA PRINSINUM HENNAR fjallar um undurfagra og ljúfa prinsessa í fjarlægu konungsríki. Hér er þó ekki um að ræða vanalegt ævintýri. Í þessari frumlegu bók er hefðbundnum söguþræði snúið á hvolf með óviðjafnanlegu samspili mynda og texta svo úr verður eitthvað alveg nýtt.
Halldór Baldursson er höfundur mynda í fjölmörgum barnabókum en hann er einnig þekktur fyrir skopmyndir sínar sem birst hafa í ýmsum blöðum og tímaritum. Meðal bóka hans eru Marta smarta, Sögurnar um Evu Klöru, Djúpríkið, Dýr og bækurnar um Fíusól.
Margrét Tryggvadóttir hefur áður sent frá sér bókina Skoðum myndlist auk þess sem hún hefur fjallað fræðilega um barna- og unglingabækur.

HÁSKI OG HUNDAKJÖT fjallar um Aron Björn sem þiggur boð um að fara með pabba sínum í vinnuferð til Kína og lendir í miklum ævintýrum. Kínversku borgirnar eru yfirþyrmandi stórar, fljótin breið og mannmergðin mikil - svo ekki sé talað um matinn sem er býsna frábrugðinn því sem Aron er vanur að heiman. Af óviðráðanlegum ástæðum þarf pabbi hans að vinna meira en hann átti von á svo Aron kannar borgina Zhaoqing einn síns liðs, þangað til hann kynninst Ling sem gerist leiðsögumaður hans og vinkona. Og þá hefjast ævintýrin fyrir alvöru ...
Héðinn Svarfdal Björnsson er félagsvísindamaður að mennt og er Háski og hundakjöt fyrsta bók hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband