Fálkinn slær Íslandsmet á uppboði Gallerís Foldar

FálkinnGuðmundur Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var mikill frumkvöðull í listalífi Íslendinga. Hann var einn af fáum sem hafa notað íslenskan leir í verk sín sem framleidd voru af miklum móð á vinnustofu hans. Hann var sá fyrsti sem flutti grafíkpressu hingað til lands en hún er til sýnis í Galleríi Fold við Rauðarárstíg. Guðmundur málaði landslagsmyndir, þrykkti myndir en frægastur hefur hann orðið fyrir keramikstytturnar.

Keramik Guðmundar er til á fjölmörgum heimilum en fæstir gera sér grein fyrir því  hve mikil verðmæti liggja í þessum hlutum. Verð á styttunum hefur hækkað gríðarlega á síðustu tveim árum og sem dæmi má nefna að stytta af íslenskum fálka seldist fyrir kr. 180.000,-  á uppboði 2005 en á síðasta uppboði Gallerís Foldar sem haldið var 3. desember seldist hann fyrir kr. 410.000,- sem er nýtt Íslandsmet. Ofan á þessi verð leggst síðan 20% uppboðs- og höfundarréttargjald.

Nú er hægt að velta því fyrir sér hvað það er sem veldur þessari hækkun. Fyrir nokkrum árum hikaði fólk ekki við að henda þessum munum þegar tekið var til í geymslunni eða í búum foreldranna en í dag er þetta orðið að miklum verðmætum.

Kannski eru það nokkrir samverkandi þættir sem valda þessari hækkun. Ein skýringin gæti verið að  Ari Trausti, sonur Guðmundar, gaf út veglega og tæmandi bók um keramikstyttur föður síns.  Slíkt eykur vegsemd listamannsins og trúverðurleika. Almenningur getur lesið um munina, fundið út hvaða munir eru fágætir og hverjir eru það ekki.  Tískustraumar gætu verið  önnur skýring. Til marks um það má nefna að munir eftir Guðmund voru notaðir til að skreyta heimaskrifstofu í einu af glanstímaritunum sem gefin eru út hér á landi um húsbúnað og heimili. Þriðja skýringin er almenn vakning og áhugi á íslenskri hönnun og að lokum hefur kaupmáttur og velmegun verið mikil á Íslandi síðustu misseri. Líklega eru það allir þessir þættir ásamt þeirri staðreynd að fólk tengir þessar keramikstyttur við uppeldi sitt, Fálkinn, öskubakkinn eða Hrafninn stóðu á kommóðunni eða skenknum í stofunni á æskuheimilinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband