Færsluflokkur: Bloggar

Skólamál

 

Shanghai

Nú er lífið komið í fastari skorður hér í Golden City Garden. Bæði ég og strákarnir förum snemma í skólann. Þeir eru sóttir af skólabílnum hingað upp að dyrum en ég þarf að taka tvær neðanjarðarlestir og er 35 til 50 mínútur á leiðinni eftir því hversu mikil traffíkin er.

Skólinn hjá mér er nokkuð skemmtilegur. Ég er í kínversku frá 8 til 11.40 alla morgna. Þetta eru þrír mismunandi kínverskutímar með þremur kennurum; hlustun, lestur og skrif og samræður. 

Síðan hafa hin fögin sem ég er skráður í byrjað hvert af öðru í vikunni en tvö byrja í næstu viku eru Chinese Culture & History og Chinese Business Culture and Environment.

Á mánudögum er ég í Chinese Business Law sem er ansi sérstakt. Ég hitti ítalskan athafnamann hérna um daginn sem hefur komið hingað í 15 ár og stundað viðskipti og deildi með honum leigubíl. Þegar ég sagði honum að ég væri að byrja í þessum áfanga leit hann á mig og spurði: "Hvaða lög? Það er ekki farið eftir neinum viðskiptalögum hér". Kennarinn talar mjög einikennilega ensku og maður skildi eiginlega ekki neitt sem hann sagði og ekki er boðið upp á bók í þessu fagi heldur. Það eina sem hægt var að gera var að glósa það sem kennarinn skrifaði á töflun.

Á miðvikudögum er ég í frábæru fagi. E-commerce. Ég hef nú þó nokkurn áhuga á þessu málefni og var því nokkuð spenntur. Tíminn byrjaði ágætlega, kennarinn talaði ensku sem var skiljanleg. Þegar tíminn var aftur á móti hálfnaður varð mér ljóst að ég væri kominn aðeins lengra í netlæsi en kennarinn og námsefnið. "You move the mouse over and type in the search for the product you want to buy". Síðan fylgi ýtarleg lýsing á hver munurinn væri að versla vöru á netinu og í búð.

 Á föstudögum er ég síðan í Chinese Economics og ég held að það sé uppáhaldsfagið mitt. Kennarinn talar skiljanlega ensku og námsefnið er mjög áhugavert. Þetta fag stangast á við kínverskutímana og því sleppi ég kínverskunni á föstudögum og er búinn á hádegi þannig að helgin nýtist vel. 

 


Myndir

Þá er ég búinn að setja upp nokkur albúm á myndasíðuna.

http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen

Þar má m.a. finna myndir frá:

 

  • Afmæli Hans og ferð okkar í Shanghai Museum
  • Cloud Nine verslunarmiðstöðina
  • Íbúðina okkar í Golden City Garden
  • Ferð okkar á leik LA Galaxy og Shanghai Hong Kong United (3-0 fyrir Beckham)
  • Ferð okkar í Shanghai Science Museum
  • Shanghai University og nágrenni hans ásamt bekkjarfélögum mínum.
Fylgist með. Ég reyni að setja inn nýjar myndir reglulega.
 
Videoclip'ið hér fyrir neðan er af staðnum sem við fórum á með Hans í afmælishádegismat.
 
 

 


Fyrsti skóladagurinn


1081YanChangCampus-smÞá er fyrsta skóladeginum lokið. Eina fagið á dagskrá var kínverska fyrir útlendinga.

Eftir að hafa farið í gegn um skráningarferlið um daginn. Tók ég stöðupróf í kínverksu. Það var reyndar ekki mjög flókið: Kanntu kínversku spurði prófdómarinn. Ég svari Nei. Ertu byrjandi spurði hann þá. Ég svaraði já. Þar með var ákveðið í hvaða bekk ég fór í kínversku. Mér var úthlutað stundatöflu og sagt að kíkja á upplýsingatöfluna niðri til þess að finna út í hvaða stofu ég ætti að mæta. Það gerði ég samviskusamlega og hugsaði með mér að ekki væri nú vitlaust að líta á kennslustofuna þannig að ég þyrfti ekki að vera leita að henni í morgunösinni. Og til þess að fullkomna undirbúninginn þá tókum fórum við leiðina sem ég fer í skólann á hverjum morgni með lestinni og mældum tímann sem það tekur, 50 mínútur nákvæmlega.

Stóri dagurinn rann upp og ég vaknaði 6.30. Borðaði morgunmat og lagði af stað á tilsettum tíma. Ég geng út á lestarstöð og það tekur um það bil 7 mínútur. Kaupi mér miða (núna er ég kominn með margnota kort) og skelli mér niður í metróið. Ég treð mér í lestina sem er full eins og síldartunna og við stefnum á Torg fólksins en það er líklega sú lestarstöð í Shanghai sem einna mest er að gera. Þarna þarf ég að skipta um lest. Fara úr línu 2 í línu 1. Ég treð mér úr lestinni og þegar ég segi treð þá meina ég það í bókstaflegri merkingu því ef þú ýtir ekki og treður þér ákveðið áfram þá einfaldlega kemstu ekki út. Þegar ég kem upp þá eru tveir straumar af fólki, annars vegar að fara úr línu 2 og hins vegar að fara í hana. Þetta er gríðarlegt mannhaf. Þetta er líkt því að vera koma sér inn á tónleika hjá vinsælustu hljómsveit veraldar. Þvílíkur er troðningurinn og lítið annað að gera en að fylgja straumnum. Þegar ég kem loks niður að línu 1 þá er lestin akkúrat komin og dyrnar opnar þannig að ég hoppa beint um borð. Dyrnar lokast og þá rennur það upp fyrir mér að ég fór í vitlausa lest. Þessi fer í hina áttina. Nú var ekkert annað að gera en að fara úr á næstu stöð og taka lestina úr hinni áttinni. Þarna fóru dýrmætar fimm mínútur og ljóst að ég yrði bara akkúrat á tíma. Lestin kemur og ég fer í hana og þarf að fara sex stöðvar áðurn en ég fer út. Þegar komið er að fimmtu stöðinni þá standa allir upp og ljósin í lestinni eru slökkt. Lestarvörður kemur inn í lestina með gjallarhorn og rekur alla út. Síðan lokast dyrnar og lestin fer, tóm. Ég hafði sem sagt farið í lest sem var með endastöð þarna, einni stöð styttra en ég var að fara. Nú töpuðust aðrar fimm mínútur. En það kemur alltaf önnur lest og ég komst að lokum á mína stöð og gékk rösklega í átt að skólanum.

Nú hugsaði ég með mér að það var gott að ég var búinn að athuga hvar stofan mín var þannig að ég stefni beint þangað. Stofa 111 í byggingu 4. Ég vind mér inn og finn mér sæti. Þarna eru greinilega vesturlandabúar þannig að ég andaði léttar. Kennarinn kínkaði kolli til mín og hélt svo bara áfram að tala á kínversku. Ég skildi ekki neitt. Sat bara þarna, tók upp bækurnar mínar fimm sem ég hafði fengið fyrir þetta fag og reyndi að komast inn í það sem var að gerast. Kennarinn skrifaði í gríð og erg á kínverksu á töfluna og byrjaði síðan að kalla nemendurnar upp á töflu til að skrifa svör við því sem þar var. Síðan kallaði benti húna á mig og ég gat ekki gert neitt nema hrist hausinn. Eftir smá stund tók ég eftir því að allir hinir nemarnir voru með öðru vísi bækur en ég og þeir virtust skilja hvað kennarinn var að segja. Ég snéri mér því að strák sem sat við hliðina á mér og spurði hann hvort þetta væri örugglega kínverska fyrir byrjendur og þá kom auðvitað í ljós að ég var í rangri stofu.

Í næstu frímínútum fór ég upp á skólaskrifstofu og þá var komin önnur stundatafla og ég átti að vera í stofu 205 í allt annarri byggingu. Ég kemst loksins í rétta stofu, þremur klukkustundum eftir að ég lagði af stað heiman frá mér á Ding Xi Road.

Stofa 205 er eins og allar hinar stofunar hérna með tréstólum sem eru áfastir borðum. Þessi húsgögn eru ekki gerð fyrir hávaxna vesturlandabúa, satt að segja alveg grjótharðir bekkir. En maður sofnar þá ekki á meðan. Hérna í Shanghai er mikill hiti góðan part ársins þannig að ekki er mikið hugsað um að hita upp húsin. Þetta á sérstaklega við um opinbera staði og sameignir húsa. Það er því kaldara inn í þessum byggingum en er úti yfir daginn. Svona er þetta líka í skólastofunum og því sitja allir í úlpunum sínum, bæði nemendur og kennarar. Það er ansi skondin sjón að sjá alla kappklædda húkandi yfir skruddunum. Þetta batnar nú með vorinu þegar hitinn fer að fara upp í 20 stigin og hærra.

Nú er bara að vona að ég komist á réttum tíma í skólann það sem eftir er vikunnar.

Á videoinu hér fyrir neðan er hægt að sjá gatnamótin þar sem lestarstöðin er hjá skólanum. Skólinn er í um það bil 5 mínútna göngufjarlægð frá þessu horni.

(Ef þið sjáið ekki videoið þá er hægt að opna það á þessari slóð: http://www.youtube.com/watch?v=yaht2al_EaY)

 


Shanghai Art Museum

shanghai.starbucks-art.museum-people.parkVið skelltum okkur í smá túristaleik um daginn og fórum niður í bæ að skoða helstu túristastaðina. Tókum lest 2 í austur og fórum úr á Torgi fólksins (Ren Min Guang Chang). Þar er skemtilegur almenningsgarður og auðvitað Starbucks kaffihús sem við ákváðum að fara inn á til að borða morgunmat. Þú færð varla dýrari morgunmat í Kína en á Starbucks. Allt sem er vestrænt er dýrt í Shanghai, alla vega á kínverskan mælikvarða.Eftir göngu í garðinum fórum við á listasafni, Shanghai Art Museum sem er við torgið. Húsið er í gamalli byggingu frá um 1930 og hýsti áður veðhlaupaklúbb þar sem hægt var að horfa yfir veðhlaupabraut sem var þar sem torgið er nú. Þetta er nokkuð stórt hús með tólf sýningarsölum en nú voru einungis tvær hæðir opnar. Til sýnis voru verk kínverskra samtímalistamanna unnin aðallega í olíu en einnig í hefbundnum kínverskum stíl með bleki og vatnslitum. Þarna voru verk frá um það bil 1960 til dagsins í dag sem mörg hver vöktu hrifningu hjá mér. Það er samt ótrúlegt hvað heimtaugin er sterk því alltaf kom upp í hugann; "já, þessi lítur út eins og Kjartan Guðjónsson eða þetta gæti verið eftir Kristján Davíðsson". En síðan voru aðrir sem skáru sig vel úr og þeir sem mér þóttu áhugaverðastir núna voru að mála fígúrtív raunsæismálverk.Shanghai tvíæringurinn er haldinn í þessu safni og mun næst fara fram í september komandi. Til að byrja með voru einungis kínverskir listamenn sýndir á tvíæringnum en í dag eru þeir um það bil helmingur og hinn helmingurinn vestrænir listamenn. Það hefur verið markmið Menningarnefndar Shanghai borgar að nota viðburði eins og þennan til þess að koma borginni í hringiðu listheimsins og því hefur áherslan færst yfir á vestræna listamenn í bland.

Kaffimenning og menningarútrás

IMG_1555-3Kínverjar drekka ekki kaffi nema að litlu leiti og því getur verið erfitt fyrir kaffifíkil eins og mig að komast í gegn um daginn. Það er ekkert mál að finna Neskaffi en eins og við alvöru kaffidrykkju fólk þekkjum er það ekki “The real thing”. Því þóttist ég hafa himinn höndum tekið þegar ég rakst á kaffihús í Nanjing Road í Shanghai. Fjölskyldan þreytt eftir sólarhringsferðalag frá Íslandi daginn áður kom sér vel fyrir í þykkum sófum kaffihússins og lét rjúkjandi kaffiilminn fylla vitin. Smá vestræn áhrif hér í austurheimi og svona til að fullkomna áhrifin hljómaði Emilíana Torrini í útvarpinu. Um leið rifjaðist upp að á leiðinni niður í bæ keyrðum við fram hjá risa auglýsingaskilti þar sem tónleikar með Björk voru auglýstir en hún mun spilja hér í Shanghai þann 4. mars n.k. Þetta er sannkölluð menningarútrás hugsuðum við með okkur, tvær af okkar bestu listakonum búnar að koma sér á framfæri í alþýðulýðveldinu.

Þjófar á ferð

Nú þegar jólaverslunin er að ná hámarki er nauðsynlegt fyrir verslunarfólk að vera á varðbergi gegn búðarhnupli.

Þjófar eru afar úrræðagóðir og stunda þessa iðju sína oft í hópum. Ég varð fyrir barðinu á einum slíkum í dag þegar frá mér var stolið dýrum listmun þrátt fyrir að margt fólk væri innan um þjófinn. Fyrirkomulagið er oft þannig að einn dregur afgreiðslufólkið til sín á meðan annar lætur greipar sópa. Aðrar aðferðir eru einnig notaðar og skal sérstaklega gæta að fólki sem ber með sér stórar hliðartöskur sem auðvelt er að smeigja hlutum í. Einnig hef ég orðið vitni að því að þjófur kom inn í búð í víðum frakka sérútbúnum að innan til þess að geyma góssið. Það virðist ekki skipta neinu máli þó svæði séu vöktuð með myndavélum og þjófarnir virðast láta til skarar skríða þegar flest fólk er inn í búðunum. Líklega til þess að starfsfólkið sé of upptekið til að fylgjast vel með.
Flestar búðir reyna að stemma stigu við þessar leiðu vá og er vinnureglan í Kringlunni t.d. sú að allir þjófnaðir eru kærðir og sérstaklega fylgst með fólki sem orðið hefur uppvíst að hnupli.
Það eru ekki litlar upphæðir sem hverfa á þennan hátt og skilar það sér ávallt út í vöruverðið þannig að hinn almenni viðskiptavinur lendir í því að borga brúsann.

Nú hvet ég alla til að taka höndum saman og vera á varðbergi gagnvart þessu og benda afgreiðslufólki á verði þeir vitni að einhverju misjöfnu.


Fálkinn slær Íslandsmet á uppboði Gallerís Foldar

FálkinnGuðmundur Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var mikill frumkvöðull í listalífi Íslendinga. Hann var einn af fáum sem hafa notað íslenskan leir í verk sín sem framleidd voru af miklum móð á vinnustofu hans. Hann var sá fyrsti sem flutti grafíkpressu hingað til lands en hún er til sýnis í Galleríi Fold við Rauðarárstíg. Guðmundur málaði landslagsmyndir, þrykkti myndir en frægastur hefur hann orðið fyrir keramikstytturnar.

Keramik Guðmundar er til á fjölmörgum heimilum en fæstir gera sér grein fyrir því  hve mikil verðmæti liggja í þessum hlutum. Verð á styttunum hefur hækkað gríðarlega á síðustu tveim árum og sem dæmi má nefna að stytta af íslenskum fálka seldist fyrir kr. 180.000,-  á uppboði 2005 en á síðasta uppboði Gallerís Foldar sem haldið var 3. desember seldist hann fyrir kr. 410.000,- sem er nýtt Íslandsmet. Ofan á þessi verð leggst síðan 20% uppboðs- og höfundarréttargjald.

Nú er hægt að velta því fyrir sér hvað það er sem veldur þessari hækkun. Fyrir nokkrum árum hikaði fólk ekki við að henda þessum munum þegar tekið var til í geymslunni eða í búum foreldranna en í dag er þetta orðið að miklum verðmætum.

Kannski eru það nokkrir samverkandi þættir sem valda þessari hækkun. Ein skýringin gæti verið að  Ari Trausti, sonur Guðmundar, gaf út veglega og tæmandi bók um keramikstyttur föður síns.  Slíkt eykur vegsemd listamannsins og trúverðurleika. Almenningur getur lesið um munina, fundið út hvaða munir eru fágætir og hverjir eru það ekki.  Tískustraumar gætu verið  önnur skýring. Til marks um það má nefna að munir eftir Guðmund voru notaðir til að skreyta heimaskrifstofu í einu af glanstímaritunum sem gefin eru út hér á landi um húsbúnað og heimili. Þriðja skýringin er almenn vakning og áhugi á íslenskri hönnun og að lokum hefur kaupmáttur og velmegun verið mikil á Íslandi síðustu misseri. Líklega eru það allir þessir þættir ásamt þeirri staðreynd að fólk tengir þessar keramikstyttur við uppeldi sitt, Fálkinn, öskubakkinn eða Hrafninn stóðu á kommóðunni eða skenknum í stofunni á æskuheimilinu. 


Menningarmiðstöðin IKEA

ikeaÁ laugardagskvöldum er gott að skella sér í bæjarferð með vinum og vandamönnum. Setjast niður í sofa í rólegheitum og ræða málefni nýliðinnar viku. Rekast á gamla vini eða frænku sem maður hitti síðast í fermingarveislu annars enn fjarskyldari frænda. Þetta gera Íslendingar mikið og halda mætti að hinir fjölmörgu veitingarstaðir miðbæjarins væru hentugir staðir fyrir slíka endurfundi. Nei ekki aldeilis. Íslendingar hittast í verlsunarmiðstöðum og helst þar sem útsala er í gangi.

Í gærkveldi var haldin rýmingarsala á sýningarvörum IKEA í Holtagörðum, starfsfólk og vinir þess og ættingar fengu aðgang að húsnæðinu klukkan átta eftir kvöldmat og þá byrjaði ballið. Hjarðir kaupóðs almúgans hlupu inn í IKEA til að tryggja sér bestu bitana. Innan skamms hafði myndast röð frá afgreiðslukössunum langt inn fyrir miðja búð. Fólk með pallettutjakka hlóð kommóðum, sófasettum og skrifborðum hvert ofan á annað eins og það myndi aldrei aftur fá tækifæri til innkaupa. Skyndilega þurftu allir að endurinnrétta heimili sín. Sendibílar biðu í röðum og einn þeirra tjáði mér að hann væri búinn að fara fimm ferðir með fullann bíl.

Já gott fólk, ég viðurkenni að hafa verið einn af þessum sem sóttu menningarmiðstöðinna IKEA á laugardagskvöldi og hreinsað út bílfarm af húsgögnum. Þarna hitti ég fleiri vini og ættinga en ég hef hitt síðast liðna mánuði.

Nú bíð ég bara eftir næstu jólasamkomu í Kringlunni til að geta afhent jólakortin vinum og ættingjum en þangað til gleðilega innkaupaferð.


Vinnuhelgi á Bifröst

Nú er enn einu sinni komið að vinnuhelgi upp á Bifröst.

Markaðsfræði á föstudegi og siðfræði á laugardegi.
Markaðsfræðin var ansi skemmtileg og við skoðuðum margar skemmtilegar auglýsingar og fórum yfir auglýsingaherferð Glitnis (skoða auglýsingar) sem nú er verið að keyra í sjónvarpi. Í lokin unnum við síðan verkefni sem fólst í því að koma með tillögu að auglýsingum að nýjum Renault Twingo sem verður frumsýndur næsta vor en hann er vægast sagt framúrstefnulegur (skoða myndir af bílnum).

Hér eru nokkrar skemmtilegar auglýsingar:

Toyota (Human Touch): http://paultan.org/archives/2006/06/05/toyota-human-touch-advertisement/
Pulp Fiction: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18551.htm
The Shining: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18552.htm
The Exorcist: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18553.htm
Titanic: http://www.epica-awards.org/assets/epica/2005/finalists/film/flv/18554.htm

Síðan er þessi hér frá Honda ótrúlega góð, það þurfti að taka hana upp 660 sinnum til þess að hún tækist:
http://www.everyvideogame.com/index.php?module=pnFlashGames&func=display&id=302&cid

 


Rætur - Síðasta sýningarhelgi

imgpieceSýning Soffíu Sæmundsdóttur lýkur í Galleríi Fold nú um helgina.

Á sýningunni sýnir Soffía rúmlega 30 olíumálverk, flet máluð á tré, rúmgafla og rúmfjalir. Myndefnið er draumkennt landslag og ferðalangar sem ferðast bæði í tíma og rúmi.
Aðsókn á sýninguna er með meira móti og voru m.a. nokkur hundruð manns sem komu á opnunina og fyrstu sýningarhelgina.

Um sýninguna hefur Soffía þetta að segja:
Í Neðri salnum í Gallerí Fold er "einskonar landslag. Ég hef á undanförnum árum einkum notað landslag sem undirtón eða stemmingu í verkum mínum sem hafa verið kölluð sögumálverk þar sem ég segi sögu eða gef sögu í skyn. Landslagið hefur þá fylgt sögunni og ekki verið sem ákveðnir staðir eða svæði en gætu þó minnt á stað sem áhorfandinn þekkir. Smám saman hefur mig langað til að vinna meira með þetta landslag á öðrum forsendum þó, jafnvel eins og náttúruupplifun, og glíma við annars konar form en alla jafna. Mér finnst þetta ferli nánast kæruleysislegt því ég ræðst á efnið, læt æðarnar í viðnum eða hvernig taumar af málningu leka niður flötinn stjórna útkomunni að einhverju leyti svo úr verður nátúrulegt ferli og staðir, einskonar landslag.
Ég vinn myndirnar hratt og af ákefð, með stóurm áhöldum, til að ná niður hugsuninni sem er í höfðinu á mér en fínset svo og skerpi með litlum penslum. Ég pússa málninguna í burtu með sandpappír ef mér finnst þess þurfa og vil með þessu vinnulagi halda í ákveðinn ferskleika og forðast að myndirnar seú of jarðbundnar eða líkist landslagi sem ég þekki. Ég reyni markvisst að ögra sjálfri mér með því að glíma við annarskonar form enég þekki."

Í efri salnum eru "Rætur. Mig langar að tefla saman við þetta dökka landslag, allt annars konar veröld, á mörkum 
draums og veruleika sem vísra þó til ýmissa átta. Það eu tíu ár frá fyrstu einkasýningu minni sem 
haldin var hér í Gallerí Fold og af því tilefni leita ég á gömul mið. Flutningar millii landa og 
vinnustofa hafa sett mark sitt á þennan tíma, því er efniviðurinn persónulegur og af ýmsu tagi, 
rúmafjalir, rúmgaflar, borð , sem með myndefninu hefja sig í æðra veldi, upp úr hvunndeginum og 
ímyndunaraflinu er gefinn laus taumur.

imgpiecethumbimgpiecethumbimgpiecethumb

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband