Færsluflokkur: Bloggar
5.5.2008 | 03:23
Shanghai - Þrír létust í sprengingu í strætisvagni
Þrír strætófarþegar létust í sprengingu sem varð í strætisvagni hér í Shanghai um níuleytið í morgun. Á þessum tíma eru flestir á leið til vinnu og vagnarnir alltaf yfirfullir af fólki.
Ekki er vitað hvers vegna sprengingin varð en talið er að kveiknað hafi í strætisvagninum og hann síðan sprungið í kjölfarið.
Um 50 manns voru í vagninum sem var á leið um Guoxing veg í Yangpu hverfinu sem er í norðaustur hluta Shanghai.
Að minnsta kosti fimm aðrir slösuðust alvarlega í eldsvoðanum og voru fluttir á spítala þar af einn með brunasár á meira en 90% af líkamanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 15:14
500000 flytjast til borgarinnar, á ári!
Dagur verkalýðsins er runninn upp og hér í alþýðulýðveldinu er það helsta hátíð almennings að nýárshátíðinni undan skilinni. Kínverjar fá almennt ekki mikil frí frá vinnu og því eru þessar löngu helgar í kring um kínversku áramótin sem eruí febrúar samkvæmt kínversku almanaki og frídag verkalýðsins í maí miklar ferðahelgar. Fjölskyldan í Golden City Garden lagði einnig land undir fót nú um helgina og fór árla dags í ferð til borgarinnar Chongqing í mið Kína. Ákváðum að taka Maglev lestina út á flugvöll en það er hraðskreiðasta lest heims og keyrir á tæplega 500 km hraða. Lestin rann afar hljóðlega áfram enda svífur hún yfir teinunum vegna segulssviðs sem myndað er undir henni. Ferðalagið út á flugvöll, um 30 km, tók aðeins 7 mínútur. Flogið var frá hinni nýju flugstöðvarbyggingu, Terminal 2, við Pudong flugvöll en hún var tekin í notkun fyrir skömmu. Flugvöllurinn, afar nútímalegur, reyndist góður griðastaður frá skarkala borgarinnar. Þarna var nánast enginn. Við skráðum okkur í flugið og fórum í gegn um öryggishliðið á ca. 10 mínútum og gengum síðan um nánast tóma ganga þessarar gríðarstóru byggingar. Nokkuð ljóst að þessi völlur er gerður til að mæta gríðarlegum straumi fólks sem búist er við þegar heimssýningin verður haldin hér í Shanghai 2010. Flugið til Chongqing tók tvo og hálfan tíma og gékk þægilega fyrir sig. Flugvöllurinn þar var einnig glænýr og uppbyggingin á þessu þéttbýlasta svæði Kína er jafnmikil og í Shanghai. Ferðin frá flugvellinum að Yangtze fljótinu þar sem lítið skemmtiferðaskip beið okkar tók rúman hálftíma. Alla leiðina voru skýjakljúfar í byggingu, 10000 manna bokkarsvæði. Hvert með sinn skóla og framhaldsskóla og aðra þjónustu innan svæðisins. Þessari uppbyggingu má líkja við að það yrðu byggðar 30 hæða blokkir á leiðinni frá Reykjavík til Hveragerðis. Það er varla hægtað ímynda sér hveru mikið er verið að byggja í Chongqing nema sjá það með eigin augum. Hér búa 32 milljónir manna og þar af rúmlega 6 milljónir í borginni sjálfri. Meira en 500 þúsund manns flytja til borgarinnar á hverju ári og það þarf íbúðir, verslanir og veitingastaði sem og aðra þjónustu enda eru fleiri en100 þúsund HotPot veitingastaðir í borginni. Landslagið á þessu svæði einkennist af fjöllum og miklum gróðri. Jarðvegurinn er svo frjósamur að bændur ná fimm uppskerum á ári. Uppbyggingin kallar auðvitað á að svæði séu rýmd til að hægt sé að byggja blokkir. Kínverjar hugsa alltaf stórt og þeir eru ekkert sérstaklega að velta umhverfissjónarmiðum fyrir sér. Leiðsögumaðurinn okkar benti t.d. út um gluggann og sagði; hér á hægri hönd sjáum við ekki lengur fjallið því það var flutt til þess að byggja íbúðarblokkir.Það tók aðeins tvö ár að flytja eitt stykki fjall og byggja blokkir fyrir 10000 manns. Spurning hvort við gætum flutt fjöll heima. Væri kannski betra að hafa Keili aðeins nær Reykajvík eða bara á suðurlandi? Næst á dagskrá er að sigla niður Yangtze fljótið. Meira af því síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 04:22
Fyrsta kínverskuprófið af þrem búið
Dagarnir hér í Shanghai líða of hratt. Líklega vegna þess að það er sérstaklega mikið að gera í skólanum núna. Próflestur og ritgerðarsmíði. Fjögur af sex fögum sem ég er í eru að klárast. Ég er búinn að taka próf í Chinese Business Culture og skila lokaritgerð í Chinese Culture and History. Á eftir að skila einni ritgerð fyrir mánaðarmót í Chinese Commercial Law en það gengur full hægt að berja hana saman.
Síðan er það kínverskan. Get stoltur sagt að ég get skrifað nokkrar setningar á kínversku og beðið um basic hluti þegar farið er út að borða. Held að það sé nóg í bili. Kínverskuprófið er í þrem hlutum á jafn mörgum dögum. Byrjaði í dag á hlustun. Það gékk betur en ég þorði að vona og tókst mér að svara öllu nema einu atriði. Annað mál hvort það sé allt rétt, það kemur bara í ljós. Á morgun er síðan skriftarpróf og að lokum munnlegt próf; samtal við kennarann.
Að prófum loknum þá verð ég aðeins í tveimur fögum í maí; Chinese Economics og E-commerce. Það er mun minna en ég bjóst við og ég verð búinn í þessum fögum 16. maí.
Þetta skipulag hjá SHU er allt annað en lagt var af stað með í upphafi. Þegar ég fékk námsskrána í janúar átti ég að vera í 5 fögum sem áttu öll að ljúka um miðjan maí. Síðan átti að vera ein vika í upplestrarfrí og ein vika í próf. Þess vegna bókaði ég far heim 31. maí.
Þegar ég kem hingað eru engin af þessum fögum í boði. Finnski hópurinn sem ég átti að vera með var látinn koma mánuði fyrr en ég kom. Því er ég ekki heldur með honum í öllum fögum. Ég var settur í kínversku 5 daga vikunnar 4 tíma á dag á meðan þeir eru 3 daga í viku 2 tíma í einu. Smá munur þar á.
Mér var hugsað til Bifrastar og skipulagið þar sem hefur næstum breyst á hverri önn sem við höfum verið í námi.
Ég verð bara að nýta tímann í maí til þess að ferðast og njóta þess að vera hér í staðinn. Varla hægt að kvarta yfir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2008 | 03:27
Illa skrifað
Af hverju er ekki hægt að segja almennilega frá svona atburðum. Hvað eru þessi ungmenni að gera þarna? Hverju eru þau að mótmæla?
Sá sem skrifar svona frétt verður að gera betur. Hafa hin fimm H í huga:
1.) Hver?
2.) Hvað?
3.) Hvenær?
4.) Hvar?
5.) Hvers vegna?
Ungmenni tefja umferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 13:09
Umferðarslys og hjólaferð
Nú er dvöl okkar hér í Shanghai hálfnuð og því ekki seinna vænna en að taka upp hætti innfæddra og ferðast um borgina á reiðhjóli. Eitt setti skugga á hjólaferð mína í dag. Ég var vitni af slysi. Ég kom að gatnamótum þar sem bíll hafði líklega keyrt á staur. Alla vega var hann beyglaður að framan og margt fólk í kring um hann sem baðaði út höndunum og var greinilega að útlista því sem gerst hafði. Bíllinn stóð hálfur út á götu og hálfur inn á reiðhjólastíginn sem ég var að hjóla eftir. Í sömu andrá og það kom grænt hjá mér reyndi annar ökumaður að troða sér á milli bílsins og fólksins sem þarna var og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum jók hann ferðina í stað þess að nema staðar og keyrði á þrjú létt mótorhjól sem einnig voru að reyna að koma sér þarna fram hjá og endaði á ljósastaur. Einn maður hendist af bílnum upp á gangstétt og annar festist undir bílnum og mótorhjólinu. Fólkið allt um kring hljóp í allar áttir frá bílnum. Fólkið hóf þegar í stað að reyna að ná manninum undan bílnum og tókst það að lokum eftir að menn röðuð sér á bílinn og lyfti honum upp með handafli. Eftir nokkrar mínútur kom lögregla og sjúkralið á vettvang og ljóst að maðurinn sem lenti undir bílnum var með meðvitund og gat staðið í alla vega annan fótinn.
En ferð mín í skólann gékk annars ágætlega fyrir utan að ég hjólaði aðeins of langt. Fann ekki götuna sem ég ætlað að fara og endaði á að taka hálf tíma aukakrók. Annars er ég um það bil 70 mínútur að hjóla þessa leið ef ég tek ekki aukakróka en það er ekki mikið meira en tíminn sem tekur að fara með lestinni. Ég er 45 til 60 mínútur ef ég tek lestina. Hefði betur haft götukortið með mér en það kom sér mjög vel að hafa áttavita í bjöllunni á hjólinu. Hefði aldrei rambað í rétta átt ef ég hefði hann ekki.
Borgin lítur allt öðru vísi út þegar hjólað er um hana. Hús og mannlíf líður ekki hjá eins og gerist þegar lest eða leigubíll er tekinn og ýmsir áhugaverðir einstaklingar verða á vegi manns. Tala nú ekki um öll hin fjölbreyttu farartæki. Shanghaibúar nota reiðhjól undir allt. Ekki aðeins til þess að flytja sjálfan sig frá A til B heldur einnig til að flytja allar vörur sem flytja þarf. Stundum eru staflanir sem hlaðið er á hjólin miklu stærri en hjólin sjálf. Leiðin heim gékk betur þó svo að ég hafi átt í smá erfiðleikum með að koma mér réttu megin við lestarteina við Shanghai Railway Station. Það hófst að lokum og ég brunaði heim á leið og fékk fína æfingu út úr þessu. Búinn að hjóla í næstum 3 tíma í dag. Sem betur fer eru ekki brekkur hér í borg.
Svona í lokin.
Ég rakst á þetta skemmtilega skilti.
Þá vitið þið það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2008 | 04:17
Ég á afmæli í dag.
Ni hao (halló)
Um leið og ég fór að tala um hversu gott veðrið væri og sumarið væri komið skall á með rigningu og roki.Ekki eins og það væri nóg heldur voru heljar miklar eldingar hérna með meðfylgjandi þrumum. Þessar voru nokkuð tilkomumiklar. Við Íslendingar erum nú ekkert sérlega vön eldingum þó slíkt fyrirbæri sjáist af og til á Klakanum og áttum okkur því kannski ekki á hættunni sem fylgir þeim. Daginn eftir las ég í blaðinu Shanghai Daily að elding hafi slegið niður í ung hjón í norður Shanghai. Konan lést en maðurinn fékk minniháttar brunasár. Einnig kveiknaði í gistiheimili þar sem um eitthundrað gestir voru og þurfti að bjarga sumum út með stigabíl. Eldurinn teygði sig síðan í nærliggjandi rými þannig að níu verslanir urðu einnig eldinum að bráð en engan sakaði.
Í þessu sama blaði var forsíðufréttin um hina slæmu vesturlandabúa sem eru að ráðast á ólympíukyndilinn. Þessir aumingjans mótmælendur eru víst svo lítilsverðir að þeir ráðast á lamaða íþróttakonu sem ýtt var áfram í hjólastól af blindum íþróttamanni. Ekki mikið talað um hverju þessir vesturlandabúar voru að mótmæla heldur öllu púðri eytt í að segja frá hversu vel hlaupið með kyndilinn gengur. Það er soldið gaman að því að lesa ritskoðaðar fréttir og sjá hvernig litið er á hlutina með augum Kínverja.
Annars er ég á þeirri skoðun að ekkert land eigi að beita íþróttamönnum fyrir sér til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Þetta eiga að vera ópólitískir leikar og það á ekki að láta það bitna á fólki sem hefur eytt mörgum árum í æfingar til að komast á leikanna. Stjórnmálamenn sem gera slíkar kröfur ættu að líta í eigin barm og gefa sinn draum upp á bátinn. Flest ríki eiga í viðskiptum og stjórnmálalegu sambandi við Kína og ef það á að banna íþróttamönnum að keppa þá gætu stjórnmálamenn alveg eins sagt af sér til að mótmæla því að land þeirra eigi í viðskiptum og samskiptum við Kína.
Einnig er ég á þeirri skoðun að það eigi svo sannarlega að halda leikana hérna því það kemur sér vel fyrir alla, jafnvel þó stjórnvöld hér séu í feluleik með aðgerðir sínar á einstökum svæðum. Eftir að hafa séð hvernig allt er á fullu, ekki bara í Beijing heldur einnig í Shanghai og víðar. Þá skilur maður hversu mikill óbein áhrif leikarnir hafa á líf margra. Kaupmaðurinn á horninu sér fram á gríðarlega aukningu og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að bæta við sig endalausu starfsfólki til að anna eftirspurninni. Þessi áhrif eru þegar komin fram og eiga eftir að vara löngu eftir að leikarnir eru búnir.
En nóg um pólitík og veður. Við skulum snúa okkur að mikilvægari málum.
Ég á afmæli í dag.
Fékk þessar fínu afmælisgjafir. Þær bera reyndar smá keim af smekk gefendanna en eru engu að síður skemmtilegar. Hans gaf mér fjarstýrða þyrlu og Elmar gaf mér reiðhjól. Alveg viss um að við getum notið þessar hluta saman. Já, og Magga gaf mér Ólympíubol (nei, hún gaf mér ekki iPhone) og Elínbjörg og Bjarni sendu okkur fullan kassa af íslensku nammi sem barst til okkar í gærkveldi. Ótrúlega vel tímasett hjá þeim. Enda starfar hún hjá póstinum.
Alla vega. Fyrir þá sem vilja syngja afmælissönginn fyrir mig á kínversku:
"Zhú ní Shangri kuai le"
Zaijian (bless)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.4.2008 | 11:18
Sporðdrekar - góðgæti á hvers manns vörum
Langaði til að deila með ykkur þessu myndbandi af fjölskyldunni að borða sporðdreka á markaði í Beijing.
Ekkert jafnast á við próteinríkt síðdegissnakk.
Hér er einnig beina slóðin ef myndbandið fyrir neðan opnast ekki: http://www.youtube.com/v/0qxI&rel=1
Bloggar | Breytt 9.4.2008 kl. 03:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 03:34
Kínamúrinn - The Great Wall
Fórum í gær í ferð á Kínamúrinn. Það voru þrjár ferðir sem hótelið okkar bauð upp á. Sú fyrsta, eins og stúlkan í móttökunni orðaði það, er fyrir gamalt fólk. Síðan hálfs dags ferð um það bil 80 km út fyrir Beijing og að lokum ferð fyrir alvöru göngugarpa 140 km út fyrir borgina.
Við erum auðvitað alvöru göngugarpar og völdum því lengstu ferðina. Fannst nú ekki mikið að fara í 140 km út fyrir Beijing, ganga síðan í 4 klukkutíma og keyra að lokum til baka.
Við gerðum aftur á móti ekki ráð fyrir því að það tekur einn og hálfan tíma að komast út úr borginni og síðan tvo tíma að keyra þessa 140 km. Litli mínibussinn sem sótti okkur á hótelið var af gerðinni JinBei. Frábær eftirlíking af Toyota HiAce nema það vantar í hann fjöðrun, öryggisbelti. Þar að auki var sætið sem ég var í gert fyrir kínverja þannig að stólbakið náði tæplega upp á mitt bak á mér og var meira eins og rukkustóll því ekki var það alveg fast við gólfið.
En þessi óþægindi gleymdust aftur á móti fljótt þegar við komumst á áfangastað. Fjöllin tignarleg og falleg, álíka há og Esjan, risu upp úr landslaginu eins langt og auga eygði.
Í boði var að ganga upp að turni númer 1 eða taka kláf sem fór með mann upp í turn 4 af 30. Við ákváðum að ganga upp enda gott veður, sól og léttskýjað, og göngustígur alla leið. Um leið og við lögðum af stað þá slóst í för með okkur þessi yndislega sölukona sem við reyndum að leiða hjá okkur þó svo hún talaði nánast stanslaust. "You wanna buy photo book, very cheap." Eftir um það bil klukkutíma þá keypti Magga af henni bókina fyrir 80 yuan (ca. 800 kr.) sem eru um það bil 8% af mánaðarlaunum verkamanns.
Þegar upp var komið hófst gangan eftir múrnum sem stundum var létt en stundum ansi brött. Múrinn þarna er bæði gamall og nýr því það er búið að endurgera hann og lagfæra á köflum. Annars staðar var hann að hruni kominn. Á einum stað voru múrsteinar sem voru annars vegar 400 ára gamlir og hins vegar 25 ára gamlir en allt var þetta mikilfenglegt. Öðru megin við múrinn var Mongólía og hinum megin var Kína og það var nokkur munur á veggnum. Það var ógerlegt annað en að hugsa um hvernig þessum hermönnum sem þarna börðust hafi liðið. Kannski stóðu þeir í þessu horni og reyktu og kannski sátu þeir í þessum turni með teið sitt.
Eftir um það bil fjóra tíma komum við að áfangastað þar sem Múrinn fer yfir mikið gljúfur og á sem þar rennur. Múrinn er ekki heill þar yfir en búið að setja upp þessa fínu hengibrú. Að sjálfsögðu kostar 5 yuan að fara yfir hana.
Þegar yfir var komið var hægt að velja um tvær leiðir niður í þorpið þar sem hádegismaturinn og kínverski mínibussinn beið okkar. Það var hægt að ganga niður hellulagðan göngustíg eða renna sér á vír yfir uppistöðulónið og niður á stífuvegginn um það bil kílómeter neðar. Ég og Elmar skelltum okkur í það enda áhættufíklar miklir en tedrykkjufólkið (lesist: Magga og Hans) ákvað að ganga bara niður.
Að hádegisverði loknum tók síðan við hin langa og ekki svo þægilega ferð til Beijing en minningin um Múrinn þurrkar þau óþægindi fljótlega út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2008 | 09:30
Shanghai - Beijing
Nú erum við komin í túristagírinn. Eftir að hafa náð að koma upp rútínu (Vakna - skóli - sofa) í Shanghai erum við nú komin í vikufrí. Það er svokallað vorfrí (Spring Break) í hinum ameríska skóla strákanna þannig að ég óskaði eftir fríi í skólanum hjá mér. Ólíkt því sem við eigum að venjast þá er mætingarskylda í háskólana hér í Kína og því nauðsynlegt að frá skrifleg leyfi frá skóla.Við stefndum á að taka tvær borgir á einni viku.
Ætluðum fyrst til Beijing og síðan til Xi'an að skoða leirhermennina. Eftir að hafa tekið næturlestina frá Shanghai til Beijing reyndum við að fá miða frá Beijing til Xi'an en því miður var allt uppselt. Líklega vegna þess að það er að koma stór fríhelgi hjá Kínverjum. Svo kölluð QingMing hátíð.
QingMing þýðir hið hreina og bjarta og er hátíð þar sem Kínverjar minnast hinna látnu. Þeir fara með mat og drykki að leiði ættngja og biðja fyrir þeim og í lok dags er haldin matarveisla.
Við ákváðum því að framlengja dvöl okkar hér og ætlum að reyna að skoða sem mest af Beijing á viku. Erum nú þegar búin að fara í NAMOC (National Art Museum of China), forboðnu borgina, himneska hofið, grafhýsi Mao og sögusafn Beijing.Á morgun förum við síðan í langa ferð um Kínamúrinn. Leggjum af stað fyrir kl. 7 og ökum í 140 km út fyrir borgina. Göngum síðan í fjóra tíma og borðum síðan hádegismat. Við ætluðum að fara í þennan túr í dag en stúlkan í móttökunni hér á hótelinu bendi okkur á að það væri spáð rigningu og spurðu hvort við vildum ekki færa ferðina yfir á miðvikudag því þá væri spáð sól. Þetta fannst mér góð þjónusta því við vorum búin að panta hina ferðina og borga fyrir hana.
Ég mæli eindregið með þessu fína hóteli sem er vel staðsett í næstum 300 ára gömlu húsi, svo kölluðu "Courtyard". Þessi hús eru byggð í kring um garð og stundum bjó ein fjölskylda þarna en stundum nokkrar. Mao formaður ólst meðal annars upp í einu svona húsi. Þetta er eins kínverskt eins og það getur orðið. Kannski soldið líkt því og það yrði sett upp hótel í gömlum torfbæ eins og Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal. (Hér er komin viðskiptahugmynd!!!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2008 | 13:13
Hádegisferð
Ég og Margrét fórum í smá hádegis göngutúr um hverfið suður af miðbæ Shanghai fyrr í vikunni.Þarna eru engar vestrænar glansbúðir heldur einungis litlar (mjög litlar) kínverskar verslanir sem sérhæfa sig í ákveðinni vöru. Sumar búðir eru ekki mikið meira en pappakassar út á götu með ávöxtum í eða lifandi fiskum. Rakst á eina sem seldi lifandi fasana og snáka. Mjög gaman að skoða þessar búðir.Að lokum komum við að þessum fína almenningsgarði. Fallegur gróður, körfuboltavellir og önnur svæði til útvistar. Þarna var glæsilegt gyllt skildi sem á stóð: "Garden Rules", bæði á ensku og kínversku. Ein setning í þessum fínu reglum hljómaði svona.
"Honored guests are not expected to urinate or shit in the garden".Þá vitum við það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)