Færsluflokkur: Bloggar

Síðasta vikan hafin

Nú er full stutt í heimkomu. Þó svo það sé alltaf gaman að koma heim til Íslands eftir dvalir erlendis þá held ég að öll fjölskyldan kveðji Shanghai með söknuði. Dvölin hér hefur verið einkar skemmtileg og allt gengið eins og í sögu, meira að segja að læra kínversku. Öll erum við búin að læra heilmikið um menningu og siði kínverja, kynnast nýju fólki frá öllum heimsálfum og fræðast heilmikið um land og þjóð. Við höfum skoðað söfn, gallerí, musteri og ýmsa ferðamannastaði í Shanghai. Við höfum ferðast til þorpa í grennd við borgina og við fórum til Peking og Xian.

Það eina sem er eftir fyrir okkur að gera hér er að pakka. Við ætlum ekki að taka búslóðina, eldhúsáhöld, sængur og fleira sem þarf til heimilisins með okkur heldur gefa það Rauða krossinum. Annað tökum við með okkur en því miður er leyfð þyngd á farangri allt of lítil og því verðum við að pakka einhverju í kassa og senda með TNT.

Heimkoma er áætluð 31. maí rétt fyrir miðnætti.


Þriggja mínútu þögn

Í gær kl. 14.28 hófst þriggja daga þjóðarsorg í Kína. Hér í Shanghai eins og alls staðar í Kína stóð fólk út á götu eða kom út í glugga og vottaði hinum látnu virðingu sína. Í þrjár mínútur stöðvaðist umferðin, bílstjórar þeyttu flautur sínar og almannavarnarflautur gjullu yfir húsum. Hér í borginni sem alltaf iðar af lífi, búðir og götur yfirfullar af fólki varð á svipstundu kyrr. Fólk stóð beint í baki, grafkyrrt með lokuð augu og yfirþyrmandi samstaða manna var augljós.


Strákadagur

Veðrið lék við okkur strákana í dag. Hitinn fór í 32 stig, sól og blíða í Shanghai borg. Byrjuðum daginn á því að sækja hausinn á Hansa út á pósthús. Já, þú last rétt. Sækja hausinn hans Hans. Strákurinn búinn að láta gera brjóstmynd af sér, aðeins minni en hausinn á Davíð í ráðhúsinu. Bara gaman að því.

Eftir hádegismat fórum við út í Century Park. Garðurinn er risastór og þar er hægt að leigja sér báta, margra manna reiðhjól og fleira til að stytta sér stundir. Við leigðum okkur hjólabíl og hjóluðum um garðinn í klukkutíma. Skelltum okkur svo í smá tívolí. Rússibanar og klessubílar voru vinsælastir.

Gengum síðan að Shanghai Science and Technology Museum og fengum okkur kaffi á torginu þar fyrir framan. Þar undir er stór og mikill markaður. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér nýtt gólfsett. Fékk fullt Callaway sett, 3 Big Bertha tré, púttur, tösku fyrir skó, tvenna hanska, tvennar húfur, tösku undir settið og ferðatöskur undir þetta allt saman fyrir 15000 kall.

Eftir að hafa skoðað markaðinn aðeins meir tókum við lestina heim, Komum við í Cloud Nine verslurnarmiðstöðinni og fengum okkur kvöldmat og ís á Cold Stone í eftirrétt. Þeir gera besta ís í heimi og Choclate Deviation er guðdómlegur.

Enduðum svo kvöldið á því að pakka inn afmælisgjöf til Bjarna afa og horfðum síðan á Spiderman 3. Voðaleg innri barátta hjá þeim unga manni.


Ákall til þjóðarinnar um hjálp

Kínversk yfirvöld hafa sent út ákall til allra kínverja um að hjálpa fórnarlömbum skjálftans mikla sem reið yfir Sichuan hérað á mánudaginn. Skjálftinn sem nú er sagður hafa verið 7,9 Richter stig lagði allt að 80% húsa í rúst og fjöldi þeirra sem er saknað er meira en 60000. Kínverjar eru beðnir um að hjálpa eins og þeir geta með fjárgjöfum en aðallega að gefa blóð.
Borgaryfirvöld í Shanghai hafa lagt sitt að mörkum og sent 150 tonn af hjálpargögnum á hamfarasvæðið og 30 nýjir sjúkrabílar bíða þess að vera sendir. Borgin ætlar að gera allt sem hún getur til að aðstoða íbúa Sichuan héraðs. Settar hafa verið upp stöðvar til að safna saman hjálpargögnum frá almenningi sem eru opnar allan sólarhringinn. Áfallahjálp er boðin þeim nemendum og farandsverkamönnum sem koma frá Sichuan og nærliggjandi héruðum. Einnig hefur verið opnaður bankareikningur í nafni The Shanghai Charity Foundation þar sem almenningur er hvattur til að leggja inn peninga.
Yfirvöld hafa gefið það út að vegna þess hve samgöngumannvirki fóru illa út úr skjálftanum þá gangi hægt að senda inn herinn og björgunarsveitarfólk til hjálpar en brugðið verður á það ráð að senda birgðir og allt að 30000 fallhlífar hermenn til viðbótar þeim rúmlega 47000 hermönnum sem nú þegar eru á svæðinu. Yfirvöld halda einnig þessari ástæðu á lofti þegar þeir afþakka góð boð um erlenda aðstoð en benda á að hægt sé að aðstoða fórnarlömbin í staðinn með fjárgjöfum. Fjárgjafir duga skammt þeim þúsundum manna eru grafnir undir húsarústum og bíða þess að hjálp berist.
Spurningar hafa vaknað hvers vegna svo margar skólabyggingar hafa hrunið en fáar byggingar sem hýsa stjórnsýsluna. Fólk veltir fyrir sér hvort eftirlit með þeim sem byggja skólana sé ábótavant og hverjum sé um að kenna. Stjórnmálamenn svara því til að stjórnsýslubyggingar hafi einnig hrunið og þar hafi fólk einnig látist. Það sé bara fréttaflutningurinn sem er svo einhliða og það selji fleiri blöð að fjalla um nemendur fasta í rústun heldur en bæjarstarfsmenn.
Fréttir berast enn af björgun fólks sem grafið hefur verið undir húsunum í tvo sólarhringa. Almennir borgarar grafa í rústunum með berum höndum og vona eftir aðstoð hersins sem kannski berst of seint því þrátt fyrir miklar rigningar þá er lítið um drykkjarvatn og aðrar nauðsynjar. Allir spítalar sem enn standa eru yfirfullir og læknar gera að sárum fólks á götum úti. Í Yingxiu, litlu 10000 manna þorpi rétt við upptök skjálftans, lifðu aðeins 2300 manns. Eitt þúsund af þeim voru alvarlega slasaðir. Þriðjungur allra húsa í þorpinu hrundi og 90% þeirra sem stóðu skjálftann af sér skemmdist.
Sögur af fólki sem hefur bjargast eru einnig farnar að berast. Þannig var greint frá björgun þriggja ára stúlku í bænum Beichuan. Stúlkan, sem heitir Song Xinyi, lá undir líkum foreldra sinna djúpt í rústum hússins sem þau bjuggu í. Björgunarmenn fundu stúlkuna á þriðjudagsmorgun en ekki tókst að ná til hennar fyrr en seint um kvöldið. Þá var hafði hún legið undir rústunum í 40 klukkustundir. Það voru ekki allir eins heppnir og þessi litla stúlka því meira en 1000 nemendur í skólum Beichuan eru enn grafnir undir rústunum.


mbl.is Vaxandi hörmungar í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri stíflur hafa brostið í Kína en annars staðar

Það hefur verið stefna stjórnvalda hér í Kína að byggja sem flestar stíflur til að vinna gegn þeirri gríðarlegri mengun sem einkennt hefur landið um árabil. Stíflunar eiga ekki aðeins að útvega hreinna rafmagn heldur eru þær einnig notaðar til að verjast flóðum sem orðið hafa hundruð þúsundum að bana á síðast liðnum áratugum. Byggðar hafa verið fjölmargar stíflur á undaförnum árum og byggingarhraðinn verið gríðarlegur. Það er því ekki að undra að fleiri stíflur hafa brostið í Kína en annars staðar í heiminum. Um Það bil 0,6% af stíflum í heiminum hafa brostið en 3,7% stíflna í Kína hafa brostið.
Zipingpu stíflan sem um er rætt í frétt Mbl var tekin í notkun 2006 þrátt fyrir hörð mótmæli og viðvaranir um að hún væri byggð á jarðskjálftasvæði. Rétt fyrir neðan hana er ein elsta stífla í heimi byggð 250 árum fyrir Krist. En þessi stífla er ekki sú eina sem hefur skemmst í jarðskjálftanum á mánudag því talið er að um 300 minni stíflur hafi einnig orðið fyrir skemmdum. Nú er verið að tæma lónið fyrir ofan Zipingpu stífluna til að létta á henni og ef það er gert of hratt getur það bæði skemmt gömlu stífluna og fornminjar þar í kring en einnig áveitukerfi bænda á svæðinu.
Aðeins nokkur hundruð kílómetrum neðar er síðan stærsta stífla heims. Einnig byggð á jarðskjálftasvæði. Fyrirtækin sem reka þessar stíflur hafa gefið út að þrátt fyrir fyrri fréttir um skemmdir sé engin hætta á ferðum og mannvirkin hafi staðist jarðskjálftann.
mbl.is Sprungur í stíflu í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samband komið á við Wenchuan sýslu

Hermenn og björgunarsveitarmenn hafa náð til Wenchuan sýslu en eiga enn eftir að ná til Yinxiu, Xuankou og Wolong sýslu. Alla vega 30000 manns eru í neyðarskýlum og geta ekki snúið til síns heima vegna þess að meiri hluti húsa í sýslunni eru hrunin. Fólk er einnig hrætt vegna hinna fjölmörgu eftirskjálfta.

Þrátt fyrir að björgunarfólk sé komið á staðinn hefur ekki enn náðst að koma björgunargögn þangað en bráðnauðsynlegt er að koma tjöldum, mat og lyfjum á staðinn. Einnig þarf að koma heilbrigðisstarfsfólki þanngað og koma á símasambandi. 


Óttast um 112000 manns þar sem hjálp hefur ekki borist

Yfirvöld í Kína búast við að tala látinna eigi eftir að hækka þegar fréttir frá afskekktum héruðum fara að berast. Í Wenchuan sýslu þar sem skjálftinn átti upptök sín búa 112000 manns. Hjálparstarfsmenn og kínverskir hermenn hafa verið sendir af stað en fara hægt yfir vegna þess að vegurinn frá Dujiangyan borg sem er um 100 km frá Wenchuan er lokaður. Vegurinn hefur rifnað í sundur og aurskriður og grjót hamla einnig för. Þar að auki er úrhellis rigning á svæðinu og símasambandslaust. Hernum hefur verið skipað að opna veginn og koma á sambandi við sýsluna eigi síðar en á miðnætti í kvöld þótt það þýði að hermennirnir þurfi að ganga þangað.

Jarðskjálftinn hefur haft margvísleg áhrif á líf fólks í Kína.

Öllu flugi til Chengdu, höfuðborgar Sichuan, var beint til Xi'an og Chongqing og flugvellinum lokað. Flugið frá Peking til hamfarasvæðisins var einnig seinkað.

Risapöndur urðu einnig fyrir barðinu á skjálftanum og óttast er um þær og starfsfólk Wolong verndarsvæðisins. Ekkert samband hefur náðst við svæðið þar sem 130 risapöndur búa. Til viðbótar búa alla vega 150 villtar risapöndur í nágrenninu.

Lokað var fyrir viðskipti í verðbréfahöllinni hér í Shanghai um leið og fréttir bárust af jarðskjálftanum. Það eru 45 fyrirtæki skráð í verðbréfahöllina og þar á meðal Chongqing Three Gorges Water Conservancy and Electric Power Company sem rekur Þriggja gljúfra stífluna. Alla vega tvö önnur fyrirtæki eru frá Sichuan héraðinu. Viðskipti hófust svo aftur í morgun.

Fyrst eftir jarðskjálftann bárust fréttir um að stærsta stífla heims, Þriggja gljúfra stíflan, hefði skemmst. Þessi stífla sem er yfir tveggja kílómetra breið stíflar Yangtze ána en rúmlega 350 milljón manna búa við ána í fjölmörgum borgum, þar á meðal Shanghai. Mikið hefur verið deilt á staðsetningu þessarar stíflu og meðal annars verið bent á að hún standi á jarðskjálftasvæði. Nýjustu fréttir herma aftur á móti að stíflan hafi staðist jarðskjálftann og engar skemmdir hafi orðið á henni.

Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans og talið að fleiri en 300 eftirskjálftar hafi riðið yfir hamfarasvæðið, sumir stærri en 5 á Richter. Því til viðbótar varð annar skjálfti þessum óháður rétt fyrir utan Peking um klukkan hálf þrjú í gær. Þessi skjálfti mældist 3,9 stig og hristi háhýsin í Peking þannig að fólk þusti út á götu.


mbl.is Versti jarðskjálfti í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10000 látnir og hjálp hefur ekki borist öllum

Brú í byggingu í Chongqing

Jarðskjálftiupp á 7,8 reið yfir þéttbýlasta svæði Kína, Sichuan, í gær. Miðja skjálftans varð hátt upp í fjöllum en allt héraðið er fjallendi og því er mjög erfitt að koma aðstoð til þeirra sem verst urðu úti í skjálftanum. Fjölmargar brýr hafa hrunið og aurskriður loka vegum. Þessu til viðbótar hamlar veður því að þyrlur hersins geti komið nauðsynlegum hjálpargögnum til fólksins. Tilkynnt hefur verið um dauðsföll í borgum hundruðum kílómetra frá upptökum skjálftans. Að minnsta kosti 50 manns létust í Chongqing sem er við bakka Yangtzu árinnar. Tala látinna á eftir að hækka á næstu dögum þegar símasamband kemst á og hjálp berst til milljóna manna sem búa í þorpum og litlum borgum sem dreifðar eru um Sichuan.

Til að setja fjöldann á svæðinu í samhengi þá búa um 10 milljón manns í Chengdu höfuðborg Sichuan en 8 milljónir í New York. Það búa fleiri en 87 milljónir í Sichuan héraðinu öllu.

Nokkuð austar við borgirnar Chengdu og Chongqing er stærsta stífla heims, Þriggja gljúfra stíflan (Three Gorges Dam) og nýjustu fréttir herma að ekki hafi orðið skemmdir á henni. Bent hefur verið á að stíflan sé byggð á jarðskjálftasvæði og bresti hún má búast við að svæðið allt niður til Shanghai verði í hættu. 

Kínverjar eru ágætlega tækjum búnir til að takast á við hamfarir sem þessar og búa þar að auki yfir 3 milljón manna her og 197 milljón manna varaliði sem hægt er að kalla út til hjálpar. Strax eftir skjálftann var herinn sendur á staðinn en hann hefur ekki en komist til allra þorpa vegna slæmra skilyrða. Alþjóðlegar hjálparstofnanir kalla því frekar eftir fjárhagsaðstoð til þeirra sem urðu fyrir skjálftanum.

 

Tvær ástæður eru fyrir því að þetta er svo fjölmennt hérað. Sú fyrsta að það er mikil gróðursæld og auðvelt að rækta landið. Þar sem því er viðkomið eru akrar en hærra í fjöllunum eru ræktaðar appelsínur og aðrir ávextir. Sú seinni er að á tíma Maó var mikill iðnaður fluttur í héraðið frá borgum eins og Shanghai.

 

Íbúar Shanghai fundu fyrir skjálftanum í gær en ólíklegt að eftirskjálftar eigi eftir að finnast í borginni. Þeir sem staddir voru í háhýsum fundu fyrir skjálftanum en þeir sem voru á jörðu niðri í bifreiðum eða lágreistum húsum fundu ekki fyrir honum. Byggingar sem eru byggðar eftir 1992 eiga að þola skjálfta upp á 5,5 Richter stig en stór hluti borgarinnar er byggður eftir 1990 þar á meðal hið nýja Pudong hverfi. Talið er ólíklegt að jarðskjálfti verði í Shanghai en þó hafa orðið skjálftar hér í borginni og í nágrenni hennar. Skjálfti upp á 4,2 stig varð 1624 á Ming tímabilinu og annar um 170 km frá borginni upp á 6,2 stig 1996.

(Ljósmyndin er af brú í byggingu í Chongqing. Ljósmynd: Jóhann Ágúst Hansen) 


Nýjar ljósmyndir komnar inn

Nýjar ljósmyndir komnar inn frá síðustu ferð okkar. 

http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen


Yangtze fljótið

Fjölskyldan tékkaði sig inn á skemmtiferðaskipið sem á að sigla með okkur niður Yangtze fljótið. Þetta er ekki mjög stórt skip, einungis 5 þilför og rúmlega 60 herbergi. Aðbúnaður er samt með ágætum, sjónvarp og sérbaðherbergi fyrir alla.

Siglt var af staðí morgunsárið og stefnt að draugaborginni Fengdu. Fólk sem býr við fljótið trúir því að sálir hinna dauðu fari til borgarinnar. Fengdu er ein fjölmargra borga og þorpa sem farið hafa undir vatn vegna hinnar nýju þriggja gljúfra stíflu. Um 70000 bjuggu í gömlu borginni en í hinni nýju sem staðsett er hinu megin við árbakkann búa 100000. Sú borg var byggð á fimm árum!

Yangtze fljótið er þriðja lengsta fljót í heimi, 6300 km næst á eftir Amazon og Níl sem er lengst og nokkuð lengra en Missisippi sem er í fjórða sæti. Sautjándi hver jarðarbúi eða svo býr við þetta mikilfenglega fljót. Það eru fleiri en búa í Bandaríkjunum og Kanada til samans.

Næsti áfangastaður á eftir draugaborginni var þveráin Shannong. Til að komast að henni sigldum við í gegn um fyrstu tvö gljúfrin. Þetta er gríðarlega mikilfengleg kljúfur sem virðast teygja sig til himna þegar silgt er um þau. Vatnsyfirborð Yangtze fljótsins er um það bil 155m yfir sjávarmáli núna en á eftir að hækka um 20m til viðbótar fram til ársins 2009 vegna hinnar nýju stíflu. Það er ótrúlegt til þess að hugsa hversu mikið vatnsyfirborðið hefur hækkað síðan 2003 þegar byrjað var að fylla lónið.

Shannnog þveráin er líklega einn af fallegustu stöðum Kína. Há fjöll rísa beggja vegna árinnar þéttvaxin trjágróðri frá ánni og upp á fjallstopp. Apar leika sér í trjánum og innfæddir sem tilheyra einum af 55 minnihlutahópum kínverska alþýðulýðveldisins sigla um á mjóum árabátum. Við fengum ekki sérlega gott veður, mikil rigning og þrumuveður hamlaði því að við gætum silgt eins langt og stefnt var að. Mistrið og rigningin gerði það aftur á móti að verkum að landslagið varð stórfenglegra,meiri dýpt í litunum og skemmtilegar skýjamyndanir í fjallstoppunum. 

Eftir kvöldverð með skipstjóranum komum við skipaskurðinum við þriggja gljúfra stífluna. Þetta er ótrúlegt mannvirki með fimm hólfum. Skipin sigla inn og risastórar hurðirlokast á eftir þeim. Síðan er vatninu hleypt úr og skipin síðan færð yfir í næsta hólf og svo koll af kolli þar til að búið er að færa skipin alla leið niður. Ferlið tekur um 3 tíma en um það bil 6 skip komast fyrir í hverju hólfi og var lækkunin úr 165m í um 75m yfir sjávarmáli.

Síðasti dagurinn rann upp allt of snemma. Við vorum vakin kl. 6.20 til þess að borða morgunmat og fara í skoðunarferð um stífluna og skipaskurðinn sem við fórum í gegnum í gærkveldi. Stíflan er mikið mannvirki og ég hef ekki tölu á því hversu oft okkur var sagt að þetta væri stærst stíflan með mesta aflið og flestar túrbínur í heiminum. Allt mjög áhugavert samt og gaman að skoða. Veðrið lék við okkur núna, sól og blíða.

Eftirskoðunarferðina silgdum við í gegn um síðasta og þriðja gljúfrið og fórum loks frá borði. Tekið var á móti okkur með rútu sem flutti okkur á ágætan veitingastað þar sem við borðuðum hádegismat. Leiðsögumaðurinn (frekar óþolandi og uppáþrengjandi kona) fór síðan með okkur í silkibúð því nægur tíma var þar til flugið okkar átti að fara seinni partinn. Okkur langaði ekkert sérstaklega í þessa búð en létum til leiðast. Ætli hún fái ekki prósentur ef við myndum kaupa eitthvað. Við keyptum samt ekkert. Allt of dýrt í þessum túristabúðum.

Flugið  heim gékk síðan vel og við vorum komin í indælu íbúðina okkar um kvöldmatarleiti.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband