Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.1.2007 | 11:15
Tekist á um Kjarval
Eins og fram hefur komið hafa aðstandur Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals deilt við Reykjavíkurborg um eignarétt á teikningum og persónulegum munum listamannsins.
Ingimundur Kjarval og fleiri aðstandendur halda því fram að andlegt ástand listamannsins hafi verið slíkt að ekki var mark á takandi þegar hann gaf borginni mest allar sínar eigur. Benda þau á að Jóhannes hafi gefið borginni þessa gjöf þann 7. nóvember 1968 þá á níræðisaldri.
Líklegt er að málsaðilar muni áfrýja niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur og deilan muni hvíla sem skuggi yfir Listasafni Reykjavíkur næstu misseri. Einnig er líklegt að aðstandendur Jóhannesar muni ekki una niðurstöðunni verði hún sú sama í Hæstarétti eignaréttur borgarinnar verði staðfestur.
Óumdeilanlegt er að gjöf Kjarvals var höfðingleg en slíkar gjafir listamanna til safna og borgaryfirvalda eru vel þekkt leið til þess að skipa sér sess meðal höfuðlistamanna þjóðarinnar. Nærtækasta dæmið um slíkt í seinni tíð er gjöf Errós á þúsundum verka til Listasafns Reykjavíkur með þeirri kvöð að um safn hans yrði byggt sérstakt húsnæði. Í dag eru listaverk Errós helsta aðdráttarafl Hafnarhússins.
Ekki er víst að Jóhannes S. Kjarval hafi viljað skipa sér slíkan sess heldur hafi það verið metnaður ýmissa embættismanna ríkis og borgar sem þar hafi ráðið för. Slíkt má lesa úr þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2. mars 1945 þar sem lagt er til að byggð verði sýningaraðstaða og listamannaíbúð í tilefni 60 ára afmælis Kjarvals. Árið 1959 fer Kjarval þess á leit við yfirvöld að hætt verði við byggingu slíkrar aðstöðu og komið verði frekar upp almennri sýningaraðstöðu. Það var svo ekki fyrr en 1965 sem ákveðið var að undirlagi borgarinnar að hefja byggingu á sýningaraðstöðu fyrir myndlistarmenn sem átti að koma í stað Listamannaskálans og einnig til sýninga á verkum Kjarvals. Reisa átti þessa byggingu á Klambratúni og skyldi hún bera nafn Kjarvals.
Margir listamenn, þ.a.m. Hörður Ágústsson, voru ekki sáttir við að skipta út Listamannaskálanum og nýjum sýningarsal sem bera ætti nafn Kjarvals. Fannst þeim sem þeir þyrftu að vinna að list sinni í skugga Kjarvals. Raunin síðar varð sú að verð listaverka hafa tekið mikið mið af verði Kjarvalsverka.
Það er von skrifara að deiluaðilar nái sátt í þessu máli og sýni minningu meistara Kjarvals þá virðingu sem hann á skilið. Einnig á Listasafn Reykjavíkur að sjá sóma sinn í því að opna Kjarvalsstaði fyrir almennt sýningarhald þar sem listamenn geta sótt um sýningaraðstöðu.
Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.12.2006 | 00:45
Geymslusafn Íslands - Listasafn Íslands
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að ómetanleg listaverk þjóðarinnar séu geymd í vondum geymslum eða í besta falli ófullnægjandi. Listaverk eru geymd í kompum og skotum víðs vegar um safnið og á fjórum mismunandi stöðum. Það er með öllu ólíðandi að þjóðargersemar séu geymd við þessi skilyrði því eins og nýleg dæmi hafa sannað er aldrei að vita hvenær pípur gefa sig eins og haft er eftir safnstjóranum Dr. Ólafi Kvaran.
En húsnæðisvandræði safnsins eru ekki aðeins bundin við geymslu listaverka. Sýningarsvæði safnsins er einnig af skornum skammti. Þessi skortur á sýningarsölum leiðir til þess að safnið getur ekki haft safnaeign sína til sýnis og sett upp sérsýningar á sama tíma. Þar af leiðir eru listaverk allra helstu frumherjar íslenskrar myndlistarsögu sett í geymslu.
Helsta listasafn þjóðarinnar á að hafa stöðugt til sýnis verk eftir okkar helstu listmálara og frumherja. Við eigum að halda á lofti menningararfi okkar og sýna hann gestum og gangandi. Stefna safnins síðust ár virðist samt leggja meiri áherslu á að setja upp sérsýningar, erlendar sem innlendar, á þeim tíma sem flestir ferðamenn eru hér á landi. Þannig hefur það gerst oftar en einu sinni að ferðamaður sem langar til að kynnast íslenskri listasögu hefur enga möguleika á því enda öll verk í geymslu. Geymslum sem eru ekki einu sinni öruggar.
Ég hvet ráðamenn þessarar þjóðar til að breyta stefnu safnsins. Það geta þeir gert með því að ráðstafa meiri fjármunum til safnsins. Þeir geta einnig haft áhrif á stefnu safnsins með því að ráða til þess safnstjóra sem kæmi úr viðskiptalífinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2006 | 23:51
Barist um Listasafn Íslands
Ólafur Kvaran safnstjóri Listasafns Íslands lætur nú senn af störfum því safnstjóri má einungis starfa í tvö fimm ára tímabil samkvæmt lögum um safnið. Það er menntamálaráðherra sem skipar safnstjóra eftir að starfið er auglýst og skal viðkomandi hafa sérfræðilega menntun og staðgóða þekkingu á myndlist og rekstri listasafna.
Ég tel að nú ætti að breyta um stefnu í safninu og ráða til starfans einstakling sem hefur góða þekkingu á rekstri, einstakling úr viðskiptalífinu. Það er nauðsynlegt að koma á enn frekari tengingu safnsins við viðskiptalífð og láta rekstur þess í hendur sérfræðinga á því sviði. Einstaklingur með menntun og reynslu á sviði viðskipta eða lögfræði væri tilvalinn í þetta starf. Það er hægt að finna einstaklinga með slíkan bakgrunn sem hafa staðgóða þekkingu á myndlist. Nú koma efalaust upp raddir sem segja að nauðsynlegt sé að ráða einstakling með einhvers konar menntun á sviði lista eða listasögu. Það tel ég ekki vera nauðsyn því nýr safnstjóri gæti ráðið slíka sérfræðing til safnsins.
Listsögufræðingar hafa sótt í störf safnstjóra og slíkt verður væntanlega raunin núna. Þeir umsækjendur sem orðaðir hafa verið við starfið eru Dr. Halldór B. Runólfsson listsögufræðingur og Guðbjörg Kristjánsdóttir safnsstjóri Gerðasafns í Kópavogi. Þau eru örugglega bæði ágætlega hæf til starfans en ég tel að betur færi ef ráðinn yrði aðili sem staðið hefur utan við myndlistarheiminn og kæmi óháður og óbundinn til starfans. Viðkomandi gæti rekið safnið án þess að þurfa að berjast við tryggðarbönd og myndað nýja innkaupastefnu sem ekki tekur mið af vinagreiðum eins og því miður hefur tíðkast um of í þessum geira.
13.12.2006 | 15:51
Saumaklúbburinn á Húsavík dó úr fínheitum
Sjálfstæðisflokkurinn er eins og höfuðlaus her þegar kemur að menningarmálum. Þessi mikilvægi málaflokkur er alltaf svolítið út á kantinum og svo virðist sem borgarstjórnarfulltrúar flokksins hafi aldrei tekið ákvörðun eða eru haldnir alvarlegum valkvíða þegar um hann er fjallað. Gæti kannski verið að þeir væru ekki starfi sínu vaxnir eða eru þeir bara með of mikið á sinni könnu.
Fyrir þremur árum í "borgarstjórartíð" Stefáns Jóns Hafsteins var sett á fót merkilegt fyrirbæri sem heitir Artótek. Það er staðsett í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu og hefur það hlutverk að lána almenningi listaverk eftir samtímalistafólk. Slíkt er ágætt fyrirkomulag nema að ólíkt því að leigja sér bók þá gengur leigan upp í sem greiðsla vilji viðkomandi eiga verkið. Þetta er er að sjálfsögðu í andstöðu við samkeppnislög þar sem Reykjavíkurborg er þarna í beinni samkeppni við galleríin í borginni. Hugmyndin að þessu fyrirbæri fæddist þegar nokkrir mætir áhugamenn um myndlist reifuðu hugmynd að aðkomu Borgarinnar að lánum almenningi til handa til kaupa á samtímalist. Þarna átti að slá tvær flugur í einu höggi, lífga við myndlistarmarkaðinn og styrkja listamenn landsins.
Reykjavíkurborg sá sér leik á borði og stofnaði Artótek en þegar galleríin í borginni fóru með málið fyrir samkeppniseftirlitið var hlaupið til og komið á samstarfi á milli Borgarinnar, KB banka, listamanna og galleríanna um vaxtalaus listaverkalán. Þetta samkomulag var kallað tilraun sem átti að vara í þrjú ár eða þar til peningarnir sem Borgin lagði til verksins kláruðust. Peningarnir kláruðust snemma á þessu ári, rétt fyrir kosningar. Fráfarandi meirihluti þorði ekki á þeim tíma að framlengja samninginn og setja aukið fé í verkefnið þrátt fyrir að það skili líklega meira til Borgarinnar í útsvari en þeir lögðu til þess.
Nýr meirihluti tók við málinu eftir kosningar og tók sér nokkra mánuði til umhugsunar. Þessi langa umhugsun varð til þess að KB banki sá sér ekki fært að halda samstarfinu áfram enda farinn að kynna nýjar leiðir í sparnaði. Þetta gerðist í haust og síðan þá hefur málið velkst um hjá Borginni og enginn er tilbúinn til þess að taka ákvörðun og klára málið. Koma verkefninu aftur á laggirnar. Nú hvet ég nýjan meirihluta til þess að hysja upp um sig, reka á eftir því embættisfólki sem á að sjá um málið og keyra þetta í gegn. Laun listamanna eru í gíslingu því þetta verkefni hefur hækkað laun þeirra svo um munar.
Þegar ákveðið er að gera tilraun eins og að bjóða upp á vaxtalaus listaverkalán almenningi til hagsbóta þá býst maður við að tilraunin verði að varanlegu verkefni takist hún vel. En það er eins með þessa fínu tilraun sem tókst með eindæmum vel og saumaklúbbinn á Húsavík.
Þetta dó úr fínheitum.
27.10.2006 | 12:17
Höfundarréttargjald - hæstu gjöldin eru á Íslandi
Íslenska ríkisstjórnin leggur enn og aftur hæstu mögulegu skatta á þegna sína. Í þetta sinn eru álögurnar lagðar á kaupendur og seljendur listaverka í formi höfundarréttargjalds.
Lögin sem tóku gildi 1. júlí eru samevrópsk og eru til þess ætluð að vernda höfundarrétt listmálara kveða á um að allir sem kaupa listaverk skulu greiða höfundi gjald sem leggst ofan á kaupverðið. Þar sem lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn ræður ríkjum lendir þetta gjald samt ekki bara á kaupandanum heldur líka á seljandanum og má því færa rök fyrir því að um hreina eignaupptöku sé að ræða.
Ríkisstjórnin hafði góðan tíma til þess að undirbúa þessi lög og fékk nokkurt svigrúm til þess að aðlaga þau að íslenskum aðstæðum. Gjaldið er reiknað í þrepum þannig að hæsta gjaldið í prósentum er greitt af verkum sem kosta minna en 3000 evrur og síðan fer það stiglækkandi eftir því sem verðið hækkar. Svigrúmið sem ríkisstjórnin (réttara sagt menntamálaráðuneytið) hafði fyrir þau verk sem kosta minna en 3000 evrur var frá 4% til 10% og að sjálfögðu kaus Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra að hafa þetta 10% á Íslandi. Alls staðar annars staðar er þetta gjald einungis 4 til 5 prósent, t.d. er það 5% í Danmörku og Svíþjóð, 4% í Frakklandi og Bretlandi og einungis 3% í Noregi.
Það sem gerir þetta sérstaklega slæmt á íslenskum myndlistarmarkaði er tvennt. Annars vegar eru flest verk sem seld eru á Íslandi ódýrari en 3000 evrur og falla því í hæsta flokkinn, 10%. Hins vegar eru standa margir seljendur listaverkanna frammi fyrir þeirri staðreynd að eiga ekki mikinn lífeyrissjóð og horfa því til þess að geta selt eitt og eitt verk til þess að drýgja tekjur sínar. Þessi hópur fólks fær minna fyrir verkin sín núna en það hefi ella gert.
Gjaldið á að miklum hluta að renna til höfunda eða erfinga þeirra. Í greinagerð sem lögð var fram við undirbúning laganna kemur fram að einungis 15% innheimts gjald renni til listamanna en 85% til erfingja þeirra og ástæðan sú að lítið kemur í endursölu eftir núlifandi listamenn. Því er með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin þurfi að vernda þessa einstaklinga svo ríkulega sem hún gerir með þessum nýju lögum.
Nánar er hægt að lesa um útfærslu höfundarréttargjalds hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)