Færsluflokkur: Dægurmál
24.4.2007 | 15:22
Andy Warhol á Íslandi
Næsta listmunauppboð Gallerís Foldar fer fram næst komandi sunnudag kl. 19. á Hótel Sögu.
Boðin verða upp rúmlega 130 verk af ýmsum toga, þar á meðal fjöldi verka gömlu meistaranna. Meðal annars má nefna verk eftir Þórarin B. Þorláksson, Jón Stefánsson, Mugg, Nínu Tryggvadóttur, Ásgrím Jónsson, Kjarval, Kristínu Jónsdóttur, Þorvald Skúlason, Gunnlaug Scheving, Gunnlaug Blöndal, Karl Kvaran, Jóhann Briem, Svavar Guðnason.
Einnig verða boðin upp verk eftir nokkra alþjóðlega stórlistamenn, þau Dieter Roth, Cindy Sherman, Richard Serra og Andy Warhol.
Dieter Roth er Íslendingum af góðu kunnur og hefur verið að styrkja stöðu sína á evrópskum og bandarískum listaverkamarkaði. Fyrir stuttu var stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Ísalands.
Richard Serra hefur einnig komið við sögu hér á landi en verk hans Áfangar voru sett upp í Viðey ekki alls fyrir löngu. Verk sem tengjast Íslandi og unnin eftir dvöl hans hér á landi hafa verið sýnd m.a. á MOMA safninu í New York. Einnig hefur Guggenheim safnið í Bilbao á Spáni gert honum hátt undir höfði sem og MOMA sem verður með yfirlits sýningu á skúlptúrum hans í sumar.
Cindy Sherman hefur að mestu unnið með ljósmyndir af sjálfri sér þar sem hún setur sig í ýmis hlutverk. Hún er í dag einn virtasti ljósmyndari Bandaríkjanna og verk hennar hafa selst gegn mjög háu verði allt frá því MOMA safnið í NY keypt ljósmyndaseríu eftir hana á eina milljón dollara.
Andy Warhol er líklega þekkasti listamaður veraldar og verk hans meðal þeirra verðmestu á alþjóðlegum listaverkamarkaði. Verk eftir hann eða árituð af honum hafa gríðarlegt söfnunargildi og seljast fyrir himinháar fjárhæðir. Skemmst er að minnast sölu á málverki Warhol af kínverska leiðtoganum Mao sem seldist í fyrra fyrir 1,2 milljarða króna. Sýning á verkum Warhol hefur einu sinni verið sett upp á Íslandi þegar verk í eigu Richard Weisman voru sýnd í Galleríi Fold 2003. Nú í fyrsta skipti er verk eftir hann boðið upp hér á landi en það er offset þrykk áritað af Andy Warhol.
Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Warhol, Serra eða Sherman eru seld á Íslandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2007 | 14:11
Kynjamunur á listaverkamarkaði
Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag (28.3.2007) er verulegur kynjamunur á listaverkaeign breska Tate safnsins. Einungis 7% af safnaeigninni er eftir konur sem þó eru 12% af listamönnum sem safnið a verk eftir. Tate safnið hefur nú sett sér það markmið að minnka þennan mun.
Engin rannsókn hefur verið gerð hér á landi hvernig skiptingin er á milli kynjanna á listasöfnunum né heldur hvort kaupendur listaverka almennt séu frekar að leita eftir verkum kvenna eða karla.
Óformleg könnun sem skrifari gerði á listaverkamarkaðinum leiddi í ljós að nokkur munur er á kynjunum. Könnunin náði yfir sölu verka í galleríum á árinu 2006. Verk sem voru seld á uppboðum voru ekki tekin með í þessari könnun. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að um það bil 55% listamanna sem seldu listaverk á árinu 2006 voru konur og þær áttu 51% af andvirði seldra verka á tímabilinu. Þessi skipting er sem sagt nokkuð jöfn hér á landi. En ef fjöldi verka sem eru á bak við þessar tölur eru skoðaðar þá kemur í ljós mikið ójafnvægi. Konur gerðu 81% af þeim verkum sem seld voru á tímabilinu á meðan karlar gerðu einungis 19%. Meðalverð verka karlkyns listamanna var um það bil kr. 97.000,- á meðan meðalverð kvenkyns listamanna var tæplega kr. 24.000,-.
Þessi óformlega könnun á listaverkamarkaðinum bendir til þess að mikill munur er á stöðu kvenna og karla og að launamunur kynjanna gæti verið verulegur. Þessar niðurstöður gætu líka bent til þess að karlar vinni frekar að fáum og stórum listaverkum á meðan konur leiti frekar í að vinna smærri en fleiri verk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2007 | 00:39
Metverð fékkst fyrir Ásgrím Jónsson
Verk eftir Ásgrím Jónsson seldist á rúmlega 10 milljónir króna á uppboði hjá Galleríi Fold í kvöld. Verkið sem er málað 1911 og sýnir Rangárvelli og Þríhyrning er vatnslitamynd, 37x59 cm að stærð og var í afar góðu ásigkomulagi. Skemmst er að minnast þess að verk eftir Ásgrím seldist fyrir rúmar 6 milljónir á uppboði Gallerís Foldar fyrir rætt tæpu ári síðan og því ljóst núna að ekki var um einstakt tilfelli að ræða. Það er skemmtileg tilviljun að í dag, 4. mars, er fæðingardagur Ásgríms Jónssonar en hann fæddist 1876.
Fleiri verk seldust á háu verði á uppboðinu og má þar á meðal nefna verk eftir Þorvald Skúlason sem var slegið á 6,5 milljónir króna, tvö verk eftir Gunnlaug Blöndal voru annars vegar slegin á 3,5 milljónir og hins vegar á 4,5 milljónir. Að lokum má nefna að verk eftir Einar Jónsson frá Fossi var slegið á 900.000 en svo hátt verð hefur aldrei áður fengist fyrir verk Einars.
Uppboðið var haldið í Súlnasal Hótel Sögu þar sem vel á fjórða hundrað gesta sátu við öll borð og alla ganga en líklega er þetta best sótta uppboð sem haldið hefur verið um áratuga skeið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.3.2007 | 18:00
ET tók það - alveg satt
Málverkinu "Russian Schoolroom" eftir Norman Rockwell var stolið 1973 í St. Louis í Bandaríkjunum. Verkið er fígúratívt málverk af drengjum í rússneskri skólastofu og er nokkuð áhrifamikið og sérstakt fyrir listamanninn.
Verkinu var stolið úr Circle Art galleríinu að nóttu til og brutu þjófarnir glugga til að komast að því, þeir tóku ekkert annað. Verkið kom síðan aftur fram 1988 þar sem það átti að fara á uppboð. Það var síðan árið 1989 sem verkið var selt í New York til Steven Spielberg (ekki 1999 eins og mbl.is segir frá) og salan var á þeim tíma tilkynnt til FBI Art Crime Team. Meðal þeirra sem tilkynntu að verkið væri til sölu var Mary Ellen Shortland sem var galleríisti í Circle Art galleríinu.
Af einhverjum ástæðum fann FBI aldrei upphaflegu lögregluskýrslunar og engin gögn um að verkinu hefði nokkurn tíman verið stolið. Það var síðan árið 2004 sem FBI endurvakti rannsóknina á þjófnaðinum og komst að því að Spielberg hafi að öllum líkindum keypt verkið fyrir 200.000 dollara. Óvíst er hvort leikstjórinn hafi á þeim tíma haft vitneskjum um að verkið væri þýfi og mun geyma það hjá sér þar til samið hefur verið um málslok.
Ætli afsökun Spielbergs verði ekki að ET hafi tekið verkið í gáleysi.
Stolið málverk finnst hjá Steven Spielberg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 22:43
Hér er Breiðavík
Það er hrikalegt að heyra af þeim atburðum sem átt hafa sér stað í Breiðavík og nauðsynlegt að leiða þau mál til lykta. Ágætt að líta á hvernig yfirvöld í Noregi hafa leyst sambærileg mál og ákvarðað bætur til fórnarlambanna.
Ekki ætla ég að tjá mig frekar um þau mál heldur benda á beygingu orðsins Breiðavík. Edda Andrésdóttir hóf fréttirnar í kvöld á því að tala um hvernig ætti að beygja orðið Breiðavík og fór að mínu mati ekki með rétt mál.
Breiðavík þessi tekur ekki beygingu þar sem hún er nefnd eftir landnámsmanninum Breiða. Þannig er nú það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2007 | 11:33
Upp eða niður?
Það hafa orðið miklar breytingar á listaverkamarkaðinum á stuttum tíma. Verð verka hefur hækkað umtalsvert, bæði hjá samtímalistamönnum sem og á uppboðum. Nýjustu dæmin af uppboðum eru verk eftir Ásgrím Jónsson sem seldust fyrir meira en sex milljónir króna síðasta vor og leirverk Guðmundar Einarssonar frá Miðdal sem hafa allt að því fjórfaldast í verði á stuttum tíma.
Útrás og uppgangur í íslensku viðskiptalífi hefur fædd af sér nýjan hóp listaverkasafnara. Þessi nýji hópur er stór og hefur fjárhagslega burði til þess að fjárfesta í listaverkum. En þessi þróun er ekki eingöngu bundin við Ísland. Efnahagslífið beggja vegna Atlantshafsins og í Kína hefur verið með besta móti og þar hafa verð listaverka náð nýjum hæðum.
Fyrir nokkrum árum hefði verið óhugsandi að verk eftir kínverskan samtímalistamann næði einnar milljón dollara markinu. Nú er það orðið algengt að sjá verð verka á uppboðum stærstu uppboðshúsana nálægt og jafnvel fara yfir eitt hundrað milljón dollara. Verðin á alþjóðlegum uppboðsmarkaði hafa farið beint upp á við síðustu ár.
Eins og á húsnæðismarkaðnum spyrja menn sig nú hvort hámarkinu hafi verið náð. Það er stóra spurningin og í hvert sinn sem einhver lýsir því yfir að endalokunum sé náð, fer allt af stað aftur og hækkar enn frekar.
Ætli það sé ekki best að segja bara: "Annað hvort hækkar þetta meira eða það gerir það ekki".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 12:17
Topp 10 listinn
Í einu af morgunblöðunum sá ég auglýsingu um kvikmynd sem tekin verður til sýningar í Regnboganum þann 9. febrúar. Lítur út fyrir að vera spennandi ævintýramynd fyrir unglinga og fullorðna, margverðlaunuð mynd samkvæmt auglýsingunni og tilnefnd til 6 óskarsverðlauna.
Það sem vakti athygli mína að í þessari auglýsingu er tekið sérstaklega fram að myndin sitji á fleirum en 130 topp 10 listum. Fer ekki að vera spurning um að gera topp 10 lista yfir þær myndir sem sitja á flestum topp 10 listum. Soldið farið að snúast um sjálft sig, er það ekki?
Vinsældarlsitar eru ágætir. Þeir hjálpa þeim óákveðnu til að mynda sér skoðanir á hinum ýmsu hlutum. Hverjir eru bestu rithöfundarnir, bestu kvikmyndagerðarmennirnir og bestu myndlistarmennirnir.
Vandamálið við þessa lista er að oft á tíðum eru þeir samsettir af misgáfulegum forsendum. Í besta falli geta þeir flokkast undir að vera skoðanir einstaklinganna sem settu þá saman. Síðan eru auðvitað listarnir sem fara eingöngu eftir sölu en þeir eru heldur ekki gallalausir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 15:17
Mikil áhrif hagsmunasamtaka
STEF hefur verið mjög duglegt við að verja hagsmuni höfundarréttarhafa tónlistar. Svo duglegir að löggjafinn hefur hlaupið til og samþykkt ýmis skrítin lög fyrir STEF. Skemmst er að minnast að allir borga STEFgjöld þegar þeir kaupa sér tóman geisladisk þó svo að diskurinn muni aldrei vera notaður undir tónlist eða verk í höfundarrétti. Þannig þarf þorri tölvunotenda að greiða fyrir notkun sem þeir nýta sér aldrei. Annað svipað dæmi var gjaldtaka á iPod spilarann sem leiddi til hæsta verðs þeirra tækja í Evrópu.
STEF eru samt ekki einu hagsmunasamtökin sem óeðlilega mikið mark er tekið á þegar löggjafinn semur ný lög. Samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundarréttar eða MYNDSTEF hafa einnig komist inn undir hjá löggjafarvaldinu. Á síðasta ári töku tvenn ný lög gildi á þeirra sviði samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu. Annars vegar um innheimtu höfundargjalda á myndlistaruppboðum og hins vegar um innheimtu slíkra gjalda á verkum sem eru seld manna á milli, t.d. í listmunahúsum.
Það er fernt sem MYNDSTEFi tókst að koma inn í þessi nýju lög (fyrir utan að þau eru að mestu skrifuð fyrir samtökin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi). Í fyrsta lagi er gjaldtakan sú hæsta í heimi. Ég gerði athugun á þessum lögum í helstu nágrannalöndum okkar og þá kom í ljós að gjöldin eru hvergi hærri en 5% en í flestum tilfellum 4% og fara svo stiglækkandi eftir sölufjárhæð listaverkanna. Í öðru lagi þá getur MYNDSTEF áætlað þessi gjöld á þá aðila sem hafa stundað listmunasölu og þessi áætlun er aðfararhæf. Slíkt vald hafa ekki einu sinni lífeyrissjóðir landsins gagnvart fyrirtækjum. Í þriðja lagi er ákvæði í lögum um uppboð að innheimta skuli gjaldið af öllum verkum, líka þeim sem eru fallin úr höfundarrétti. Slíkt stangast klárlega á við lög Evrópusambandsins og gerir það að verkum að höfundarréttur rennur aldrei út á Íslandi. Í fjórða lagi ber að skila skýrslum um innheimt höfundarréttargjöld til MYNDSTEF árituðum af endurskoðenda. Það er í hæsta máta óeðlilegt að leggja slíkar álögur á fyrirtæki og vil ég benda á að það þarf ekki einu sinni að skila virðisaukaskattsskýrslum með slíkri áritun. Nóg er að ársreikningar fyrirtækjanna séu áritaðir af endurskoðendum.
Margt fleira óeðlilegt er að finna í þessum nýju lögum og það væri ráð fyrir ráðuneytin sem vinna að lagasetningu að taka meira tillit til annarra aðila en háværra hagsmunasamtaka.
Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 17:49
Algjörlega óvísindaleg könnun á vinsældum
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna íþróttir (sem ég stunda mikið, sérstaklega körfubolta) eru svona fyrirferðamiklar í prentmiðlum á meðan menning og listir eiga erfitt uppdráttar. Reyndar aukast skrifin mikið á aðventunni þegar bókaútgefendur keppast við að koma nýjustu bókunum fyrir framan neytendur.
Ég viðurkenni að það er mun meira spennandi að lesa um Ísland gera næstum jafntefli í handboltaleik en lesa gagnrýni um nýjustu sýninguna eða nýjustu bókina sem var að koma út. Líklega er það ein af skýringunum, lesendur og kaupendur auglýsinga vilja spennu. Ég sakna samt meiri umfjöllunar um listir, sérstaklega umfjöllunar um myndlist í blöðum og tímaritum.
Hin óvísindalega könnun mín á vinsældum menningar fór fram hér á síðum Moggabloggsins. Ég var að vafra um bloggflokkana og sá að fyrir aftan hvern flokk er fjöldi færsla í sviga. Það kom mér á óvart að færslur um íþróttir eru ekki nema rúmlega 1400 og það er með enska boltanum sem þó er með sérstaka sjónvarpsstöð til að koma sér á framfæri hér á landi. Menning og listir eru aftur á móti með rúmlega 2000 færslur og ef við tökum tónlistina með, rúmlega 3200 færslur, eða næstum tvöfalt meira en íþróttirnar.
Kannski eru lesendur íþróttafrétta bara svona uppteknir við áhorfið og lesturinn að þeir hafi ekki tíma til þess að skrifa um áhugamál sín, en kannski, já kannski hefur hinn almenni bloggari einfaldlega meiri áhuga á menningum og listum ýmis konar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 11:15
Tekist á um Kjarval
Eins og fram hefur komið hafa aðstandur Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals deilt við Reykjavíkurborg um eignarétt á teikningum og persónulegum munum listamannsins.
Ingimundur Kjarval og fleiri aðstandendur halda því fram að andlegt ástand listamannsins hafi verið slíkt að ekki var mark á takandi þegar hann gaf borginni mest allar sínar eigur. Benda þau á að Jóhannes hafi gefið borginni þessa gjöf þann 7. nóvember 1968 þá á níræðisaldri.
Líklegt er að málsaðilar muni áfrýja niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur og deilan muni hvíla sem skuggi yfir Listasafni Reykjavíkur næstu misseri. Einnig er líklegt að aðstandendur Jóhannesar muni ekki una niðurstöðunni verði hún sú sama í Hæstarétti eignaréttur borgarinnar verði staðfestur.
Óumdeilanlegt er að gjöf Kjarvals var höfðingleg en slíkar gjafir listamanna til safna og borgaryfirvalda eru vel þekkt leið til þess að skipa sér sess meðal höfuðlistamanna þjóðarinnar. Nærtækasta dæmið um slíkt í seinni tíð er gjöf Errós á þúsundum verka til Listasafns Reykjavíkur með þeirri kvöð að um safn hans yrði byggt sérstakt húsnæði. Í dag eru listaverk Errós helsta aðdráttarafl Hafnarhússins.
Ekki er víst að Jóhannes S. Kjarval hafi viljað skipa sér slíkan sess heldur hafi það verið metnaður ýmissa embættismanna ríkis og borgar sem þar hafi ráðið för. Slíkt má lesa úr þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2. mars 1945 þar sem lagt er til að byggð verði sýningaraðstaða og listamannaíbúð í tilefni 60 ára afmælis Kjarvals. Árið 1959 fer Kjarval þess á leit við yfirvöld að hætt verði við byggingu slíkrar aðstöðu og komið verði frekar upp almennri sýningaraðstöðu. Það var svo ekki fyrr en 1965 sem ákveðið var að undirlagi borgarinnar að hefja byggingu á sýningaraðstöðu fyrir myndlistarmenn sem átti að koma í stað Listamannaskálans og einnig til sýninga á verkum Kjarvals. Reisa átti þessa byggingu á Klambratúni og skyldi hún bera nafn Kjarvals.
Margir listamenn, þ.a.m. Hörður Ágústsson, voru ekki sáttir við að skipta út Listamannaskálanum og nýjum sýningarsal sem bera ætti nafn Kjarvals. Fannst þeim sem þeir þyrftu að vinna að list sinni í skugga Kjarvals. Raunin síðar varð sú að verð listaverka hafa tekið mikið mið af verði Kjarvalsverka.
Það er von skrifara að deiluaðilar nái sátt í þessu máli og sýni minningu meistara Kjarvals þá virðingu sem hann á skilið. Einnig á Listasafn Reykjavíkur að sjá sóma sinn í því að opna Kjarvalsstaði fyrir almennt sýningarhald þar sem listamenn geta sótt um sýningaraðstöðu.
Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)