Færsluflokkur: Menning og listir
14.2.2007 | 13:24
Kjarvalsstaðir og geirfuglinn
Fyrir all mörgum árum var ákveðið að bjóða upp síðasta geirfuglinn. Íslendingar tóku sig þá til af miklum skörungskap og hófu söfnun til að fá geirfuglinn heim. Allt fór á besta veg, Íslendingarnir söfnuðu ákveðinni upphæð sem sagt var frá opinberlega og uppboðshaldarinn hló innra með sér. Nú vissi hann nákvæmlega hvað hann gæti fengið fyrir fuglinn.
Það sama er að gerast núna í kring um söluna á verkinu Hvítasunnudag eftir Jóhannes S. Kjarval sem bjóða á upp hjá Bruun Rasmussen seinna í þessum mánuði. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur hefur lýst því yfir að safnið vilji mjög gjarnan eignast verkið og nú bíðum við bara eftir því að hann lýsi því yfir að þeir hafi fimm milljónir króna til umráða. Kannski fær safnið þá verkið á 4,9 milljónir og allir eru sáttir, sérstaklega uppboðshaldarinn.
Forstöðumaður Kjarvalssafnins sagði reyndar í útvarpsviðtali að Kjarval hefði útskrifast 1917 eða um það leiti sem þetta verk er málað en hið rétta er að hann útskrifaðist ekki fyrr en ári seinna, en það er nú önnur saga.
![]() |
Listasafn Reykjavíkur hefur áhuga á að kaupa Hvítasunnudag eftir Kjarval |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2007 | 16:09
Kjarval heim?
Eins og komið hefur fram hefur málverk sem vitað var að Jóhannes S. Kjarval málaði komið í leitirnar í Danmörku. Verkið á að bjóða upp hjá uppboðshúsinu Bruun-Rasmussen í Bredgade í Kaupmannahöfn 28. febrúr n.k.
Búast má við að þetta verk verði selt fyrir einhverjar milljónir króna og ef ég ætti að spá fyrir því þá myndi ég veðja á 3,5 til 4 milljónir.
Ljóst er að margir myndu vilja fá þetta verk heim til Íslands og helst inn á íslenskt safn. Það er einnig ljóst að ekkert íslenskt safn hefur ráð á því að kaupa þetta verk nema fórna meirihluta innkaupafé sínu. Fari svo að verkið seljist á 4 milljónir má áætla að það sé fjórðungur af innkaupagetu Listasafns Íslands.
Sé raunverulegur vilji íslenskra stjórnvalda að styðja við íslenska list og menningu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í fararbroddi þá verður að koma til aukafjárveitingar til Listasafns Íslands til þess að kaupa verkið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að tekið sé af venjubundnum fjárveitingum safnsins og þar með getu þess til að styðja við fjölmarga samtímalistamenn með kaupum á verkum þeirra.
Íslendingar hafa löngum barist fyrir því að fá menningarverðmæti heim og nú er tækifæri til að berjast fyrir því að fá Kjarval heim. Einnig væri mögulegt að leita til einkaaðila til að fjármagna kaupin og færa Listasafni Ísland það að gjöf.
![]() |
Kúbískt verk eftir Kjarval komið fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2007 | 14:01
Samkeppnishömlur Myndstefs
Myndstef (samtök íslenskra myndhöfunda á sviði höfundaréttar) innheimtir höfundarréttargjald af þeim sem selja myndlist hvort sem er á uppboðum eða í beinni sölu. Vandamálið er að Myndstef fer ekki að lögum sem þó voru samin í samvinnu við samtökin.
Samtökunum ber að innheimta þetta gjald af öllum sem bjóða upp myndlistarverk hvort sem um er að ræða félagasamtök á borð við Lions eða Kiwanis eða einkaaðila. Þessari skyldu sinni gegna þeir ekki heldur innheimta gjaldið einungis af þeim sem þeir kjósa en sleppa öðrum við gjaldið. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að þeir aðilar sem gjaldið er innheimt af búa við skerta samkeppnisstöðu á myndlistarmarkaði.
Myndstef heyrir undir Menntamálaráðuneytið og því er þessi mismunun með öllu óásættanleg og hvet ég Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra til þess að setja reglurgerð sem allra fyrst sem tekur af allan vafa um hverjir eigi að greiða höfundarréttargjaldið.
![]() |
Ábendingar um samkeppnisbrot frá almenningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2007 | 14:22
Menningarútrás
Gott framtak hjá þeim stöllum, Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að efla íslenska útrás listamanna. Mikið hefur verið rætt um útrás bankanna, útrás fyrirtækja með íslenskt hugvit í forgrunni og því tími til kominn að efla útrás íslenskrar lista. Nú verðum við að vona að sjónum verði í auknu mæli beint að myndlistinni því bæði íslensk tónlist og íslensk leiklist hefur hingað til verið í forgrunni.
Ég er sannfærður um að styrkir sem þessir til íslenskrar menningar skili sér margfalt til baka til þjóðfélagsins, ekki aðeins í bættri vellíðan heldur einnig fjárhagslega.
![]() |
Efla á áhuga í öðrum löndum á íslenskri list og menningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2007 | 12:29
Hægri vinstri snú
Hlynur Hallsson myndlistarmaður og varaþingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi skrifaði hér bloggið grein um að það væri þversögn að vera hægri grænn og það besta í stöðunni væri að kjósa Vinstri græn.
Það getur nú ekki verið að vinstri sinnað fólk eigi einkarétt á umhverfisvernd og það getur alls ekki verið að þeir sem eru til hægri eða bara á miðjunni geti ekki einnig verið umhugað um landið okkar.
Er það kannski þannig farið að ekki sé fylgi við stjórnmálaskoðanir Vinstri grænna heldur einungis umhverfisstefnu þeirra? Það gæti farið svo að bæði Vinstri grænir og hinn nýji vængur Framtíðarlandsins, Hægri grænir, muni eingungis deila fylginu til hagsbóta fyrir stjórnarflokkana. Kannski er það sem Hlynur á við þegar hann segir Vinstri græna vera besta kostinn í stöðunni.
8.2.2007 | 13:41
Ólafur vs. Kjarval
Útrás Íslendinga heldur áfram og nú er það Jóhannes S. Kjarval sem hittir fyrir einn þekkasta núlifandi listamann okkar (eða Dana ef út í það er farið) Ólaf Elíasson.
Þetta er frábær hugmynd að skella saman landslagsmyndum Kjarvals og landslagsljósmyndum Ólafs. Þegar þær eru skoðaðar í þessu samhengi verður manni ljóst að það er alls ekki eins langt á milli þessarra tveggja listamanna og ætla mætti í fyrstu. Það er bara tíðarandinn og tæknin sem hefur breyst en landslagið er það sama.
Ég held að það sé óhætt að hvetja alla sem leið eiga um Kaupmannahöfn á næstunni til þess að líta við á Gammel Strand og fá smá þef af Íslandi.
![]() |
Forseti Íslands flytur ávarp við opnum í listasafninu Gammel Strand |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2007 | 22:43
Hér er Breiðavík
Það er hrikalegt að heyra af þeim atburðum sem átt hafa sér stað í Breiðavík og nauðsynlegt að leiða þau mál til lykta. Ágætt að líta á hvernig yfirvöld í Noregi hafa leyst sambærileg mál og ákvarðað bætur til fórnarlambanna.
Ekki ætla ég að tjá mig frekar um þau mál heldur benda á beygingu orðsins Breiðavík. Edda Andrésdóttir hóf fréttirnar í kvöld á því að tala um hvernig ætti að beygja orðið Breiðavík og fór að mínu mati ekki með rétt mál.
Breiðavík þessi tekur ekki beygingu þar sem hún er nefnd eftir landnámsmanninum Breiða. Þannig er nú það.
7.2.2007 | 11:33
Upp eða niður?
Það hafa orðið miklar breytingar á listaverkamarkaðinum á stuttum tíma. Verð verka hefur hækkað umtalsvert, bæði hjá samtímalistamönnum sem og á uppboðum. Nýjustu dæmin af uppboðum eru verk eftir Ásgrím Jónsson sem seldust fyrir meira en sex milljónir króna síðasta vor og leirverk Guðmundar Einarssonar frá Miðdal sem hafa allt að því fjórfaldast í verði á stuttum tíma.
Útrás og uppgangur í íslensku viðskiptalífi hefur fædd af sér nýjan hóp listaverkasafnara. Þessi nýji hópur er stór og hefur fjárhagslega burði til þess að fjárfesta í listaverkum. En þessi þróun er ekki eingöngu bundin við Ísland. Efnahagslífið beggja vegna Atlantshafsins og í Kína hefur verið með besta móti og þar hafa verð listaverka náð nýjum hæðum.
Fyrir nokkrum árum hefði verið óhugsandi að verk eftir kínverskan samtímalistamann næði einnar milljón dollara markinu. Nú er það orðið algengt að sjá verð verka á uppboðum stærstu uppboðshúsana nálægt og jafnvel fara yfir eitt hundrað milljón dollara. Verðin á alþjóðlegum uppboðsmarkaði hafa farið beint upp á við síðustu ár.
Eins og á húsnæðismarkaðnum spyrja menn sig nú hvort hámarkinu hafi verið náð. Það er stóra spurningin og í hvert sinn sem einhver lýsir því yfir að endalokunum sé náð, fer allt af stað aftur og hækkar enn frekar.
Ætli það sé ekki best að segja bara: "Annað hvort hækkar þetta meira eða það gerir það ekki".
6.2.2007 | 12:17
Topp 10 listinn
Í einu af morgunblöðunum sá ég auglýsingu um kvikmynd sem tekin verður til sýningar í Regnboganum þann 9. febrúar. Lítur út fyrir að vera spennandi ævintýramynd fyrir unglinga og fullorðna, margverðlaunuð mynd samkvæmt auglýsingunni og tilnefnd til 6 óskarsverðlauna.
Það sem vakti athygli mína að í þessari auglýsingu er tekið sérstaklega fram að myndin sitji á fleirum en 130 topp 10 listum. Fer ekki að vera spurning um að gera topp 10 lista yfir þær myndir sem sitja á flestum topp 10 listum. Soldið farið að snúast um sjálft sig, er það ekki?
Vinsældarlsitar eru ágætir. Þeir hjálpa þeim óákveðnu til að mynda sér skoðanir á hinum ýmsu hlutum. Hverjir eru bestu rithöfundarnir, bestu kvikmyndagerðarmennirnir og bestu myndlistarmennirnir.
Vandamálið við þessa lista er að oft á tíðum eru þeir samsettir af misgáfulegum forsendum. Í besta falli geta þeir flokkast undir að vera skoðanir einstaklinganna sem settu þá saman. Síðan eru auðvitað listarnir sem fara eingöngu eftir sölu en þeir eru heldur ekki gallalausir.
5.2.2007 | 11:50
Listasjóður Dungal - gott framtak
Listasjóður Dungal sem áður hét Listasjóður Pennans og var stofnaður af Gunnari Dungal til minningar um foreldra hans, Margréti og Baldvin P. Dungal, veitti rúma milljón í styrki til þriggja listamanna á dögunum. Sjóðnum er ætlað að styrkja unga myndlistamenn og eignast verk eftir þá.
Í ár voru það listamennirnir Hye Joung Park, Kristín Helga káradóttir og Darri Lorenzen sem hlutu styrkinn. Þær Kristín Helga Káradóttir og Hye Joung Park hlutu 300.000,- kr. styrk en Darri Lorenzen 500.000,- kr.
Kristín Helga útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2004 en hún hefur einnig lagt stund á leiklist. Kristín Helga vinnur vídeóverk þar sem hún skrásetur eigin gjörninga. Verkin byggja á orðlausri leikrænni tjáningu hennar sjálfrar, oft í sviðsettu rými. Verk hennar eru á heimspekilegum nótum þar sem fjallað er um tilvistina og sálarlífið á einn eða annan hátt. Kristín Helga stefnir á framhaldsnám erlendis.
Hye er fædd í Suður Kóreu. og lauk B.S.-námi í dýralækningum frá háskólanum í Seoul árið 2001 en árið 2002 stundaði hún nám við Myndlistarskólann í Reykjavík. Hye útskrifaðist með B.A.-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2005. Hún býr og starfar í London og Reykjavík. Hye notar mjög gjarnan ljósmyndir og skúlptúra í verkum sínum og myndgerir með því móti augnablik líðandi stundar.
Styrk að upphæð 500.000 krónum hlaut myndlistarmaðurinn Darri Lorenzen. Hann lauk námi frá Listaháskóla Íslands og síðar stundaði hann nám í raftónlist og sótti sér frekari myndlistarmenntun til Haag. Hann stundar nú framhaldsnám í Berlín.
Gunnar Dungal á hrós skilið fyrir starf sitt og uppbyggningu þessa listasjóðs. Það væri gaman að sjá fleiri fyrirtæki feta í fótspor hans og efla íslenska list og unga sem aldna listamenn.